Ég veit um fátt meira heillandi en fallega glerskápa á heimilum til að geyma í okkar uppáhaldshluti. Það er eithvað svo einstaklega elegant við þá og má segja að nánast hvaða hlutur sem er líti vel út sem stillt er upp í glerskáp. Það er þó ekki auðvelt að komast yfir fallegan glerskáp og margir sem hreinlega hafa erft sína eða fundið á flóamörkuðum, og þegar við finnum loksins þann eina rétta þá kostar hann líklega hálfan handlegg. Einn sá allra fallegasti er sá sem ég rakst á í innliti sem ég fór í fyrir Glamour hjá Norr11 hjónunum, en það er þessi á myndinni hér að neðan. Rosalega veglegur og flottur og var hann frá Norr11 er ég nokkuð viss…
Sjá innlitið í heild sinni hér – eitt af mínum allra uppáhalds heimilum sem ég hef heimsótt.
Ég var skyndilega komin með heilt albúm á Pinterest sem tileinkað var eingöngu glerskápum og valdi ég nokkrar myndir til að deila með ykkur. Alla þessa glerskápa gæti ég vel hugsað mér að eiga en það fylgir víst ekki sögunni hvaðan þeir allir eru.
Hversu ótrúlega fallegir eru þeir?
En yfir í annað þar sem að ég er að tala um skápa, þá sáu eflaust nokkur ykkar skenkinn sem ég birti á Snapchat í gær sem bíður eftir því að fá smá yfirhalningu. Hér að neðan má sjá mynd af þessari elsku,
Myndina tók vinkona mín af honum þegar hún fékk hann í láni. Ég vafraði aðeins á Pinterest í gærkvöldi í leit að hugmyndum hvort ég ætti að mála hann eða pússa og olíubera og ég snýst alveg í hringi. Ég hef í rauninni ekki mikið pláss fyrir þennan skenk, en þetta er fyrsta húsgagnið sem við Andrés eignuðumst þegar við byrjuðum að búa og einhverja hluta vegna á ég erfitt með að losa mig við hann, mig langar að minnsta kosti að gefa honum smá séns. Flestir sem sendu mér skilaboð í gærkvöldi á Snapchat sögðu öll að ég ætti að mála hann bleikan – haha sumir sem þekkja mig orðið of vel! Ég hallast einnig að því að mála hann svartan, laga skráargatið ( viljið þið segja mér hvað rétta orðið er til að finna á netinu – skrautskáargat og helst á ensku? ) og svo sé ég fyrir mér stóra dúska hanga úr lyklunum, það væri fullkomið.
Það allra besta væri auðvitað að skenkurinn væri úr tekki en þá myndi ég að sjálfsögðu aldrei mála hann, gamlir tekk skápar eru nefnilega eitt það fallegasta sem ég veit um ♡
Látið mig endilega vita ykkar skoðun á þessu, bæði varðandi glerskápana fallegu en einnig með skenkinn minn sem þarfnast smá ástar. Það verður stundum hálf einmannalegt hér inná þegar ég sé allar þessar heimsóknir við hverja færslu en kommentunum hefur fækkað. Ég elska nefnilega að fá að heyra örlítið í ykkur:)
x Svana
Skrifa Innlegg