Þá er komið að því að kynna til sögunnar gestabloggara Svart á hvítu yfir HönnunarMars. Sigga Elefsen er bæði afskaplega mikil smekkdama, á hrikalega flott og litríkt heimili (ef þið eruð heppin þá birtir hún kannski mynd þaðan), hún er einnig vinkona mín en við kynntumst eftir að hafa eignast barn um svipað leyti. Bloggið gæti ekki verið í betri höndum og ég vona að þið takið vel á móti henni.
Hver er Sigga Elefsen? Ég er 25 ára hönnunarnemi (í pásu) – Ég er frá Siglufirði en bý í Hafnarfirði með „litlu“ fjölskyldunni minni sem samanstendur af mér og Arnari, 6 mánaða gamalli dóttur okkar henni Birtu og hundunum Tobba og Hnetu. Ég er mikill fagurkeri, mikið náttúrubarn og hef mikla þörf fyrir að skapa. Eins og staðan er í dag vinn ég á yndislegum vinnustað með frábæru fólki, ég er svo heppin að fá að vera partur af teyminu hennar Andreu sem rekur AndreA Boutique á Strandgötunni í Hafnarfirði.
Hefur þú mikinn áhuga á hönnun? Já, ég hef rosalega mikinn áhuga á hönnun og öllu því sem gerir lífið fallegra. Mestan áhuga hef ég þó á vöruhönnun almennt (með sérstaka áráttu fyrir fallegum stólum, formföstum hlutum og skálum).
Húsgagnasmíði er samt fyrsta ástin og fyrsti draumurinn, það er eitthvað við handsmíðuð húsgögn sem heillar mig uppúr skónum. Þau eru svo persónuleg og hafa öll sína eigin litlu sál.
Fylgist þú vel með HönnunarMars hátíðinni? Ég hef verið dugleg að reyna að fara á eins margar sýningar á Hönnunarmars eins og ég kemst yfir frá því að ég flutti til Reykjavíkur fyrir 4 árum síðan. Það er svo gaman að fylgjast með því hvað við eigum marga flotta hönnuði á litla Íslandinu okkar.
Hvernig leggst HönnunarMars í þig þetta árið? Ekkert smá vel ! það er ótrúlega mikið af flottum sýningum í boði og greinilegt að það verður ströng dagskrá að hlaupa á milli staða til að sjá sem flest. Ég vona nú samt að veðrið verði almennilegt, svona til tilbreytingar ;)
Hvaða sýningum ert þú spenntust fyrir í ár? Jahá, þú spyrð ekki um lítið ! Ég bara hreinlega veit ekki hvar ég á að byrja. Grafísk hönnun er að heilla eitthvað extra mikið þetta árið og þar er ég spenntust fyrir Andstæðar TÝPUR, Paper Collective, Merkisdagar, FÍT keppnin 2015 og svo hlakkar mig til að sjá nýju plakata línuna frá Scintilla.
Í Vöruhönnun er ég spennt að sjá hvað hefur bæst við ævintýraheim Tulipop, verður gaman að kíkja í Jökla á Laugarvegi. Inngangur að efni er líka rosalega spennandi sýning og efnið sem hönnuðurnir hafa verið að vinna með er ótrúlega spennandi, hlakka mikið til að kynna mér það. Að sjálfsögðu er ég sjúklega spennt fyrir allri húsgagnasmíði sem verður til sýnis í EPAL og er fagur hópur af hönnuðum sem sýna þar. Samsýning hönnuða í Syrusson hönnunarhúsi er eitthvað sem ég ætla heldur ekki að missa af.
Plakat úr nýrri línu Scintilla.
Skiptir HönnunarMars miklu máli fyrir íslenska hönnuði að þínu mati? Hönnunarmars skiptir gríðalega miklu máli fyrir íslenska hönnuði sem eru að reyna að koma sér á framfæri. Ég hugsa að þú fáir ekki betra tækifæri á Íslandi til þess að sýna vöruna þína, fá umfjöllun og athygli. Svo er það auðvitað frábær factor hversu mikið af fólki kemur til með að skoða vöruna þína yfir þessa helgi sem myndi kannski venjulega ekki koma inná vinnustofuna þína eða rekast á vöruna þína á netinu.
Áttu þér uppáhalds íslenskan hönnuð? Já, ég á mér uppáhalds Íslenskan hönnuð. Hún tekur reyndar ekki þátt í HönnunarMars en hún er algjör ofur kona þrátt fyrir það. Uppáhalds hönnuðurinn minn er Andrea Magnúsdóttir. Andrea er flott kona, brjálæðslega mikill töffari og flott fyrirmynd fyrir manneksju eins og mig sem dreymir um að hanna undir sínu eigin nafni. Alltaf glöð og jákvæð og veit nákvæmlega hvað hún vill og lætur ekkert stoppa sig í því að láta drauma sína rætast.
Mynd frá AndreA
Hvað fékk þig til að ákveða að gerast gestabloggari yfir HönnunarMars? Þetta var voða spontant hugmynd til að setja sjálfa mig útfyrir þægindarammann og að prufa nýja hluti. Það hefur verið leynidraumur í langan tíma að vera hönnunarbloggari svo að ég ákvað að henda mér í djúpulaugina, vera hugrökk og prufa !
Takk fyrir að leyfa mér að vera með, gleðilegan HönnunarMars og munum að brosa útí lífið :)
Skrifa Innlegg