Einn af kostunum við Hönnunarmars er Hönnunarmarsipanið sem er risastór lakkrískonfektkubbur sem er aðeins gefinn út einu sinni á ári í kringum hátíðina en hann hefur hlotið titilinn hið opinbera sælgæti Hönnunarmars. Ég hitti einmitt í gær aðeins á annan hönnuða marsipansins, hana Örnu Rut Þorleifsdóttur og lumaði hún að mér tveimur molum. Sem var síðan þvílík himnasending eftir að þessi pest helltist svo yfir mig, ég ligg því alsæl upp í rúmi japplandi á Hönnunarmarsipani yfir bíómynd:) Mér tókst s.s. ekki að geyma þetta fram að Hönnunarmarsinum sem hefst ekki fyrr en eftir um þrjár vikur!
Molarnir eru allir handskornir af hönnuðunum, þeim Örnu Rut og Rán Flygenring en ég rakst á þessar myndir hér að neðan af ferlinu á bloggsíðu Hönnunarmiðstöðvar og fékk þær í láni. Myndirnar tók Julia Schygulla.
Molinn sem fyrst var kynntur á Hönnunarmars árið 2011 breytir um lit á hverju ári, núna varð gulur og blár fyrir valinu, en þess má geta að 10% af hverjum seldum mola rennur til styrktar Krabbameinsfélagsins.
Fyrir áhugasama þá mun HönnunarMarsipanið verða fáanlegt á kaupstadur.is, Spark design space við Klapparstíg, í Hrím og Vínberinu á Laugavegi auk Kraums í Aðalstræti, Epal í Hörpunni og Mýrinni í Kringlunni.
Já þetta er sko eitthvað sem lakkrísunnendur þurfa að næla sér í;)
Skrifa Innlegg