Ég hef aldrei áður bakað Sörur, en ég hef líka aldrei verið sykurlaus yfir jólin svo nú var kominn tími til að prófa mig áfram í smákökubakstri. Ég fann nýlega virkilega góðar sykurlausar Sörur tilbúnar í verslun en þar sem þær voru alltaf uppseldar þegar jólin nálguðust þá ákvað ég að dusta rykið af baksturshæfileikum mínum og prófa sjálf. Ég googlaði og tók fyrstu uppskriftina sem kom upp “Sörur hinna lötu/uppteknu” og þarna var svarið. Ég komst þó að því að mér þótti útkoman afskaplega ljót svona bakað allt í einu formi og skorið í bita svo ég gerði líka nokkrar hefðbundnar og bakaði örlítið styttra en uppskriftin sagði til um. Og vá þær eru betri en þær sem ég hafði verið að kaupa!
Ég nota eins og svo oft áður Valor sykurlausa súkkulaðið, ég er búin að smakka að ég held allar tegundir sem í boði eru á landinu og enda alltaf með þetta. Valor Dark súkkulaðið finnst mér komast mjög nálægt klassíska suðusúkkulaðinu en það er einnig til í öðrum útgáfum ♡
Svo er konfektið eitthvað sem er möst að eiga um jólin – og oftar… Ég er algjör nartari og finnst gott að geta gripið einn og einn mola. Og það er eitthvað jólalegt við það að bera fram konfekt. Ég hef undanfarna mánuði verið alveg sykurlaus en það þýðir svo sannarlega ekki að það megi ekki leyfa sér það sem okkur þykir gott.
Jólin eru tími hefða á mörgum bæjum, og smákökur og konfekt eru líklega ofarlega á lista hjá mörgum. Ég hvet ykkur til að prófa!
Uppskriftin er upprunalega frá Dísukökur blogginu en ég fann hana hjá Vísir.
Sörur hinna lötu/uppteknu
- Botn:
- 3 eggjahvítur (við stofuhita)
- 50 g Sukrin melis
- 70 g möndlumjöl
Eggjahvítur og Sukrin melis þeytt saman þar til stíft. Bætið möndlumjölinu varlega við með sleif. Setjið í eldfast mót (um það bil 30×25 sentímetra) með bökunarpappír. Bakið botninn á 150 gráðum án blásturs í um það bil 40 mínútur.
- Krem:
- 100 g smjör
- 50 g Sukrin melis
- 3 eggjarauður
- 2 tsk. kakó
- 2 tsk. instant kaffi
- 150 g Valor sykurlaust súkkulaði, brætt
Öllu blandað vel saman. Smyrjið kreminu á botninn þegar hann er orðinn kaldur. Dreifið jafnt og frystið. Bræðið súkkulaðið. Kælið aðeins og hellið yfir kælt kremið. Dreifið vel úr því og látið harðna. Skerið í litla bita, setjið í box og geymið í frysti.
Mmmmm svo gott!
Njótið vel ♡
Skrifa Innlegg