Ég ákvað taka saman nokkrar uppáhaldsverslanirnar mínar og veitingarstaði í Boston, fyrir ykkur að njóta ef þið eigið leið þangað einn daginn. Ég fór þangað með systur minni en hún hafði gefið mér í jólagjöf flug+gistingu til Ameríku. Ég hafði gefið henni annað og stærra í gjöf áður og þetta var hennar leið til að þakka fyrir sig. Við ákváðum saman að Boston yrði fyrir valinu, ég hafði aldrei farið áður og þar þykir líka ódýrt að versla barnaföt+dót en hún er einmitt ólétt. Við þræddum því allar barnaverslanir sem finna mátti í borginni, og svo dró ég hana með mér inní nokkrar verslanir sem ég var spennt fyrir.
Hér eru mínar uppáhalds:
Mín allra uppáhaldsverslun er Anthropologie sem ég heimsótti einnig í New York síðasta vetur. Hér byrgði ég mig upp af t.d. Voluspa kertum sem kosta klink þarna, ásamt fallegum bókum og skálum fyrir heimilið. Stíllinn þarna inni er svo einstaklega fallegur að hægt er að gleyma sér í heilann dag að fikta í hlutunum, prófa krem, spreyja á sig framandi ilmvötnum og glugga í bækur. Ef þú hefur ekki nú þegar heimsótt þessa verslun þá ættir þú að punkta hana niður fyrir næstu Ameríku-ferð. 203 Newbury street.
Marimekko má finna á skemmtilegu verslunargötunni Newbury street í hjarta Boston. Hér á Íslandi er hægt að versla og panta flestar Marimekko vörur en það er sjaldan að maður fái tækifæri til að virða fyrir sér í einni og sömu verslun svona mikið úrval frá þessu finnska og flotta merki. Alltof margir tengja Marimekko bara við blómamynstrið fræga, en þeir framleiða m.a. gullfalleg rúmföt, textíl, gler og keramik. 140 Newbury street.
Það er gaman að kíkja við í Jonathan Adler þrátt fyrir að ætla ekkert að kaupa, lítil og krúttleg verslun sem selur púða, húsgögn og aðra skrautmuni f. heimilið (ekki ódýr). Nokkuð amerískur stíll en hægt að finna frábæra hluti inn á milli. 129 Newbury street.
Hvernig er hægt að fara til Ameríku án þess að gera sér leið í Barnes & Noble. Frábær bókaverslun með gífurlegt úrval af öllum þeim bókum sem að þig vantar án þess að þú vitir það. Ég sem var að leita af fallegum bókum um heimili og hönnun datt í lukkupottinn og kom heim með 5 bækur sem ég keypti á mjög góðu verði og sem ég glugga í núna á hverjum degi. Prudential centre
Papersource löbbuðum við óvart framhjá í leið okkar í partýbúð, þarna keypti ég mjög fallega skipulagslímmiða, en verslunin er með úrval af allskyns skemmtilegum vörum úr pappír.. bækur, kort, plaköt og annar óþarfi. 338 Boylston Street.
Partýbúðin… þarna færðu allt til að skreyta fyrir partýð þitt.. m.a. þessa fínu pappírsdúska. (Við hliðina á Papersource)
Urban Outfitters heillar mig alltaf jafn mikið, flott föt, skart, bækur og hlutir til að poppa upp á heimilið. (Hauskúpubaukurinn minn er t.d. þaðan). 361 Newbury street.
Crate & Barrel er falleg verslun, frekar amerísk svo ef þið fílið þannig þá er þetta ykkar verslun, þar er einnig Marimekko deild. 777 Boylston street.
Marshalls er ein af þessum ódýru verslunum sem virðist selja allt, þarna rakst ég t.d. á fullt af fínum skiltum. 500 Boylston street.
Við gerðum okkur einnig ferð í Target sem var nauðsynlegt, ég viðurkenni að ég missti mig smá þarna inni og keypti meira en eðlilegt þykir af allskyns snyrtivörum, íþróttafötum og ýmsum óþarfa hlutum. Það er varla annað hægt þegar að hlutirnir kosta svo lítið að byrgja sig upp fyrir komandi ár:) Á þessu svæði er einnig risa barnaverslunin Babies’R’us og risavaxna föndurverslunin Micheals. Gateway centre, takið lest til Wellington.
Svo að sjálfsögðu er þetta týpíska ameríska, Bath & Body works fyrir dásamlega ilmandi sápur fyrir baðherbergið, Cheesecake Factory fyrir Avacado eggrolls og ostaköku, Amerísk apótek eru líka æðisleg að heimsækja fyrir “óþarfa” hluti. Allar helstu tískuverslanir eru svo að sjálfsögðu staðsettar í borginni, en ég tek þær ekkert fyrir:)
Veitingarstaðir sem stóðu uppúr.
PF Chang er einn besti kínverski staður sem ég hef borðað á. Prudential centre.
Kashmir er ótrúlega góður indverskur veitingarstaður í Back Bay hverfinu. 279 Newbury street.
Þetta er s.s. mín Boston, endilega kommentið ef ykkur finnst ég hafa gleymt einhverju
Skrifa Innlegg