Það eru tvær bækur sem sitja á óskalistanum mínum um þessar mundir og þær eru ekki interior tengdar þótt ótrúlegt sé. Tvær af flottustu konum sem ég hef kynnst gáfu nefnilega út á dögunum sitthvora bókina og það er þó ólíklegt að þær hafi getað farið framhjá ykkur svo mikið eru þær lofsamaðar. Þetta eru bækurnar Andlit sem er förðunarbók eftir Hörpu Káradóttur og Kökugleði Evu eftir Evu Laufeyju Kjaran.
Bækur eru klassísk jólagjöf og ég vona svo sannarlega að a.m.k. önnur þeirra rati undir mitt jólatré … eða þitt jólatré í ár.
Andlit er glæsileg íslensk förðunarbók sem fjallar um allt sem viðkemur förðun og er uppfull af gagnlegum fróðleik og ráðleggingum. Í henni er að finna fjölda uppskrifta að förðun fyrir hin ýmsu tilefni sem eru líflega myndskreyttar og útskýrðar í skrefum. Bókin er ætluð öllum konum, jafnt byrjendum í förðun sem lengra komnum. Andlit er jafnframt vegleg ljósmyndabók en á þriðja tug kvenna á öllum aldri sitja fyrir á stórglæsilegum myndum eftir Snorra Björnsson.
Harpa Káradóttir hefur á undanförnum áratug öðlast víðfeðma reynslu af förðun og hefur starfað fyrir sjónvarp, við auglýsingagerð og tískuljósmyndun, svo fátt eitt sé nefnt. Harpa lauk förðunarprófi frá Make-Up Designory í Los Angeles og gegnir nú stöðu skólastjóra Mood Make-Up School.
Kökugleði Evu hefur að geyma uppskriftir að rúmlega 80 ljúffengum kökum af öllum stærðum og gerðum. Í þessari girnilegu bók má finna kökur fyrir öll tilefni, allt frá smábitakökum að brúðartertum. Öruggt er að veisluborðin munu hreinlega svigna hjá eigendum bókarinnar! Eva Laufey er annálaður sælkeri og mikil kökukerling, eins og hún orðar það sjálf. Uppskriftirnar í bókinni eru fjölbreyttar, afar aðgengilegar og það er á allra færi að töfra fram dýrðlegu kræsingarnar í henni. Bókina prýða glæsilegar ljósmyndir eftir Karl Petersson. Bollakökur – Súkkulaðikökur – Osta- og skyrkökur – Uppáhaldskökurnar mínar – Tilefniskökur – A Piece of Pie – Súkkulaðibitakökur og gómsætir bitar.
Hrikalega flottar og spennandi bækur, til hamingju stelpur með útgáfuna.
Skrifa Innlegg