Hönnunarmars í öllu sínu veldi er hafinn og ég er alveg ótrúlega spennt fyrir nokkrum sýningum í ár. Dóttir mín var aðeins nokkra daga gömul þegar hátíðin var haldin í júní í fyrra og ætla ég því vonandi að njóta núna tvöfalt. Hér má sjá nokkrar sýningar sem mig langar ekki til að missa af en dagskráin í ár er ótrúlega fjölbreytt og þar geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Styðjum við okkar íslensku hönnuði og kíkjum á sýningarnar þeirra – ég lofa að það mun engum leiðast.
Gleðilegan Hönnunarmars – í maí!
Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd //
Epal tekur alltaf þátt með glæsilegri samsýningu sem ég hef alltaf jafn gaman af, í ár er hún mjög fjölbreytt og má þar finna vöruhönnun, textíl, keramík, húsgögn, ljósmyndir og dásamlegan ilm. Minn Hönnunarmars hefst alltaf hér.
Epal Skeifan.
Fólk er eitt af mínu uppáhalds hönnunarmerkjum og ég er svo sannarlega með í þeirra klappliði. Hér má finna samansafn af nokkrum helstu vöruhönnuðum landsins og útkoman er glæsilegar nýjar vörur sem unnar voru útfrá hugmynd um að endurnýta og endurvinna hráefni sem falla til hérlendis.
Hafnartorg, Kolagata.
Hildur Yeoman, einn af okkar fremstu fatahönnuðum kynnir nýju línu, SPLASH, það er allt fallegt sem Hildur gerir. Ég ætla að nýta tækifærið og skoða nýja verslun hennar í leiðinni sem er víst hin glæsilegasta.
Laugavegur 7.
Norræna húsið býður upp á nokkrar áhugaverðar sýningar í ár meðal annars sýnir Arkitýpa tilraunastofu í hringrásarhönnun. Í Norræna húsinu sýnir einnig vinkona mín Hanna Dís Whitehead án efa eitthvað frumlegt og fallegt eins og henni er einni lagið, sýningin kallast Umskipti og veitir innsýn í ferðalag mynstra á milli efniviðar og þeirra umskipta sem eiga sér stað.
Norræna húsið.
Sýning á verkum einum helsta brautryðjanda landsins á sviði grafískar hönnunar. Hversdagsleg og falleg listaverk myndlistarkonunnar Kristínar Þorkelsdóttur verður gert hátt undir höfði á Hönnunarsafni Íslands, sem svíkur engann með sýningum sínum.
Hönnunarsafn Íslands, Garðabær.
Ég missi ekki af sýningu á vegum Félags vöru-og iðnhönnuða sem valdi fjórtán hönnuði og hönnunarteymi sem sýna afrakstur af þriggja vikna hönnunarferli. Án efa margt frumlegt og skemmtilegt sem má sjá þar.
Ásmundarsalur.
Útskriftarsýning LHÍ – Af ásettu ráði
Sem fyrrum nemandi við Listaháskólann er ég alltaf spennt að sjá útskriftarsýninguna. Býst sterklega við að sjá eitthvað mjög framúrstefnulegt og mikinn og fallegan innblástur.
Listasafn Reykjavíkur.
Grapíka – nafnið eitt og sér náði minni athygli, en hér má sjá samsýningu félagskvenna í Grapíku. Hvað eru konur í grafískri hönnun að gera og hvað veitir þeim innblástur? Þú færð svarið líklega hér.
Hafnartorg, Bryggjugata.
Ágústa Arnardóttir vöruhönnuður og vinkona mín frumsýnir hér fyrstu vörulínu Studio Vikur en hún hefur síðastliðin ár unnið að því að skapa og þrófa vörulínu þar sem Heklu vikur er megin efniðviðurinn. Útkoman er falleg og verður kynnt í dásamlegu versluninni Mikado. Mæli með heimsókn.
Mikado, Hverfisgata 50.
Hundrað hlutir sem við heyrðum
Hundrað hlutir sem við heyrðum er sýning á bollum sem skreyttir eru setningum sem teknar eru úr samtölum ókunnugra á kaffihúsi. Skemmtileg nálgun á vöruhönnun og gæti ég vel hugsað mér að velja minn bolla.
Reykjavík Roasters, Kárastíg.
66 norður og Fischersund kynna upplifunarhönnun í ár en það er ilmvatnið Úti, þverfaglegt hönnunarverkefni og hægt verður að kynna sér heilan upplifunarheim í kringum ilminn. Óvenjulegt og spennandi!
66 norður Laugavegi.
Þessi listi er svo sannarlega ekki tæmandi og margt fleira sem ég mun án efa skoða og mæli ég með að áhugasamir skelli sér í betri fötin og skoði skemmtilega hönnun, tísku og fyllist af innblæstri á næstu dögum.
Ég kem til að með að sýna frá þeim sýningum sem ég skoða á Instagram @svana.svarahvitu
Sjáumst á Hönnunarmars?
Skrifa Innlegg