fbpx

GLEÐILEGA PÁSKA

Persónulegt

Ég hef ekki farið mikið út í nokkra daga núna vegna veikinda, en hef þó í staðinn náð að dúlla mér ansi mikið hér heima. Í gær voru nokkur páskaegg skreytt sem fá nú að skreyta páskagreinarnar sem einmitt sprungu út í nótt og verða eflaust enn fallegri þegar líður á daginn. Hér eru nokkrar myndir sem sýna hvað er að frétta…

IMG_20150405_114842

Hér eiga eftir að bætast nokkur egg við…

IMG_20150405_114701

Kötturinn hefur gert margar tilraunir til að skemma páskaskrautið og þegar eitt egg brotið, mest er ég þó hrædd um að hann steypi vasanum niður á gólf.

Screen Shot 2015-04-05 at 12.19.43

Páskaeggið í ár var frá Lakrids by Johan Bulow og herregud hversu gott, það var líka klárað fyrir páska:) Þó fékk ég óvænt nýtt páskaegg í morgun, því sumir vildu friða samviskuna sína því þeir eyða helginni í vinnunni. Það egg er líka búið.

Screen Shot 2015-04-05 at 12.19.56

Þetta kom inn um lúguna í vikunni og ég er búin að skrá mig í áskrift! Ætli það sé ekki í fyrsta sinn sem ég skrái mig í áskrift af nokkru blaði sem segir allt sem segja þarf.

Screen Shot 2015-04-05 at 12.20.37

Bjartur lærði að skríða fyrir viku síðan og því er minna slakað á en áður (!) og greyið kötturinn fær aldrei frið frá honum.

2015-04-05 12.00.22

Það er nóg af heimalærdóm um páskana því það er bara vika eftir af Dale Carnegie námskeiðinu og ég er ekki alveg búin með allt lesefnið. Það er án nokkurs efa eitt það allra besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig að hafa skráð mig á þetta námskeið. Vá hvað ég er að finna mikinn mun á mér, orðin mikið jákvæðari, kem hlutunum í verk, hrósa meira fólkinu í kringum mig og búin að efla sjálfstraustið um mörg stig, hef líka hlotið tvær viðurkenningar fyrir árangur á námskeiðinu sem var mér mikil hvatning. Það er ekki annað hægt en að benda fleirum á þetta námskeið:) Svo leyfi ég ykkur kannski að heyra aðeins meira þegar ég klára það.

2015-04-05 14.00.21

Bækur bækur bækur, mér finnst ofsalega gaman að eignast nýjar og áhugaverðar bækur, en þó er ég ekki spennt fyrir skáldsögum. Þessar keypti ég á Amazon og lét senda til Cardiff þegar ég fór þangað í heimsókn um daginn, þær eru allar mjög ólíkar en virkilega skemmtilegar. Tvær þeirra tengjast uppstoppun, svo er ein gefin út af Dezeen.com með viðtölum við áhugaverða hönnuði, svo er þessi stóra “A frame for life” um hönnuðinn Ilse Crawford sem ég held dálítið upp á. Ég fékk reyndar smá sjokk þegar ég skoðaði kápuna á bókinni betur eftir að bókin hafði skreytt stofuborðið mitt í marga daga. Þá tek ég eftir manninum hennar sem liggur uppí rúmi með Ilse, og þetta glott. Ég kannaðist við það. Nei nei haldið þið ekki að þetta sé bara einn af örfáum aðilum í öllum heiminum sem ég þoli hreinlega ekki og prýðir hann núna stofuborðið mitt. Ég hef nefnilega alltaf staðið mig nokkuð vel í námi og aldrei fallið í neinu, nema hvað að þessi maður, Oscar Pena felldi mig einu sinni í áfanga í skólanum í Eindhoven og vá hvað ég þoldi hann ekki eftir það. Verkefnið hafði nefnilega gengið vel og ég átti góð samtöl allan tíman við kennarann minn, en svo kemur þessi maður ‘höfuð deildarinnar’ sem ég var í, á lokaskiladegi og felldi 2/3 af árgangnum og mig meðal annars. Ekki hefði mig grunað að nokkrum árum síðar ætti mynd af honum eftir að prýða stofuborðið mitt.

Nóg að blaðri í bili, njótið páskanna og borðið nóg af súkkulaði, til þess eru jú páskarnir;)

x Svana

ÞAÐ FALLEGASTA Á INTERNETINU Í DAG...

Skrifa Innlegg

3 Skilaboð

  1. Sigrún

    5. April 2015

    Kósí :) Ein spurning, hvar fékkstu plaggatið með stólunum?

    • Svart á Hvítu

      6. April 2015

      Ég fékk mitt í gjöf, það er gefið út af Vitra og er mjög líklega til á netinu:)

  2. Katrín

    6. April 2015

    Þetta er fyndið með Oscar Pena og segir okkur enn og aftur að “Enginn veit sína ævi fyrr en öll er”.