fbpx

Ilmandi jólagjafahugmyndir

Jól 2015JólagjafahugmyndirLífið Mitt

Þá er komið að fleiri jólagjafahugmyndum. Þegar maður er nýbúin að ritstýra stóru ilmvatnsblaði er fátt sem kemst að í hausnum á manni en dásamlegir ilmir og hér eru nokkrir af mínum allra uppáhalds og þeim sem ég er mest að nota í augnablikunu. Þeir eru allir fullkomnir í jólapakka þeirrar sem þið viljið gleðja, þið getið ekki klikkað með einhverjum af þessum…jólailmir

1. STELLA Eau de Toilette
Minn allra uppáhalds ilmur og margra annarra. Ég mæli sérstaklega með þessum því það eru svo margar sem heillast samstundis af honum. Áberandi ilmurinn er búlgarska rósin sem ég persónulega dýrka.

2. Daisy Dream Forever frá Marc Jacobs
Það nýjasta frá Marc Jacobs, ég fýlaði þann eldri sem var ljósblár en þessi er tilvalinn svona vetrarilmur. Djúpur og svo silkimjúkur og fallegur. Þessi er alveg að klárast og kemur ekki aftur í búðir fyr en á nýju ári. Það er aldrei hægt að gera mistök með að gefa Marc Jacobs – er það nokkuð…

3. My Burberry Festive frá Burberry
Dásamlega ilmandi blanda blóma mynda þennan fallega ilm frá mínu uppáhalds tískuhúsi. Ilmur af London eftir mikla rigningu – er eitthvað jafn heillandi. Glasið sjálft er jafn klassískt og Burberry kápan sjálf en hér er smá twist því þetta er hátíðarútgáfan svo það eru gylltar glimmer agnir í ilminum sjálfum! Festive útgáfan er í takmörkuðu upplagi nú fyrir hátíðirnar.

4. Ari frá Ariana Grande
Ég hef á stuttum tíma heillast uppúr skónnum af þessum skemmtilega ilm. Það er eitthvað við blöndu hindberja, vanillu og sykurpúða sem mér finnst alveg ávanabindandi og svo er glasið svo fallegt. Einn flottasti stjörnuilmurinn í dag og ég hlakka til að sjá hvað kemur næst. Þó ég sé ekki með öll verð á hreinu þá þykir mér líklegt að þessi sé á ódýrasta verðinu en stjörnuilmirnir eru yfirleitt í ódýrari kantinum þó þeir séu ekki síðri.

5. I Am Juicy Couture frá Juicy Couture
Þessi ilmur kom mér skemmtilega á óvart, ég hef aldrei verið mikið fyrir ilmina frá Juicy Couture, kannski bara hentuðu þeir mér ekki. En þessi heillaði mig við fyrsta þef. Glasið finnst mér líka alveg ofboðslega skemmtilegt! Ilmurinn er dáldið ávaxtakenndur og frískandi með ljúfum blómum í hjartanu og fallegum grunni. Mæli endilega með að þið skoðið þennan.

6. Black Opium Eau de Toilette frá YSL
Ég er farin að kunna alveg svakalega vel við þennan og eiginlega betur en Parfum týpuna en mögulega er það því þessi er nýrri stundum á ég til að gleyma þessum eldri… ;) En einn allra vinsælasti ilmurinn í dag með ávanabindani ilm af frískandi toppnótum og girnilegu kaffi – þessi leynir á sér.

7. Essence The One frá Dolce & Gabbana
Ohh þessi er alveg ótrúlega dramatískur og heillandi! Hér er sérstök útgáfa af upprunalega The One ilminum en ilmurinn er þá bara enn þéttari og meiri. Hann er tilvalinn fyrir konuna sem vill fá þéttan og mikinn ilm sem vekur eftirtekt en hann er samt svo virkilega góður að hann er langt í frá að vera yfirþyrmandi. Glasið finnst mér fallegt gyllt áferð og svart – tímalaust og klassískt eins og ilmurinn sjálfur.

Hátíðin verður svo sannarlega vel ilmandi með einum af þessum í jólapakkanum…

Munið að þegar þið kaupið ilmvatn til að gefa í gjöf að reyna alltaf að fá prufu af ilmvatninu til að lauma með í pakkann svo sá sem þið eruð að gefa geti þefað af ilmvatninu áður en pakkningarnar eru opnaðar :)

Erna Hrund

Grímumaskar sem fá húðina til að ljóma!

Ég Mæli MeðHúðNetverslanir

Maskana sem ég skrifa hér um keypti ég alla sjálf nema einn þeirra, hann er sérstaklega merktur þannig í færslunni. Ég skrifa alltaf hreinskilningslega um allar vörur sem ég prófa því ég vil að þið getið treyst mér og mínum orðum.

Ég er gjörsamlega maska sjúk ég elska að prófa maska og ég nota óhóflegt magn af möskum og ég á óhóflegt magn af möskum. Ég er í alvörunni þessi týpa sem er í stuði fyrir ákveðna maska þennan daginn og svo ekki þann næsta og þá er nú algjört lykilatriði að eiga nóg af þeim til skiptanna. Ég sé mikinn mun á húðinni minni í takt við þann maska sem ég nota og það besta sem ég veit þegar húðin mín þar smá yfirhalningu er að nota maska sem hæfir því sem húðin þarf.

Eftir löng og leiðinleg veikindi finnst mér ég aldrei verða frísk fyr en eftir að ég hef notað djúphreinsimaska og svo rakamaska. Húðin verður svo þrútin og leiðileg eftir veikindi, grár undirtónn, yfirborðsþurrkur og stíflaðar svitaholur – voða girnilegt… Í kvöld á ég einmitt stefnumót við einn af nýju möskunum frá Karuna, nýju grímu möskunum hjá nola.is en ég fór hamförum um daginn þegar merkið kom til hennar Karinar og ég keypti mér fjölmarga til að prófa!

karuna

Hér sjáið þið maskana sem ég keypti mér sjálf, Anti Oxidant Face Mask, Clarifying Face Mask, Age Defying Face Mask og Brightening Face Mask allir maskarnir fást HÉR.

Reyndar er Age Defying maskinn partur af jólagjöf fyrir eina sem ég ætla þó ekki að segja hver er því hún les síðuna mína og hún dýrkar svona dekur svo ég veit hún á eftir að falla fyrir þessum maska. Svo er ég sjálf að velja á milli anoxunarmaskans og hreinsimaskans vonandi næ ég að velja fyrir kvöldið. Birghtening maskann er ég spenntust fyrir að prófa en ég tými ekki að prófa hann finnst hann svo fallegur ;)

Svo er einmitt tilvalið að kaupa sett af þremur möskum og lauma svo einum í jólapakkann hjá einhverjum sem á skilið smá dekur…

En maskann sem ég er búin að prófa hann sjáið þið hér fyrir neðan…

karuna2

Hydrating Face Mask er reyndar uppseldur í augnablikinu en væntanlegur aftur seinna.

Maskinn er stútfullur af næringarríkum efnum, það sem á oft við þessa gríu maska er að þeir þorna mjög hratt. Þið sem fylgdust með því þegar ég prófaði maskann á snappinu hjá mér (ernahrundrfj) sáuð að hann var alveg löðrandi allan tímann þó svo ég hefði verið með hann á mér í yfir 20 mínútur. Ég slakaði svo vel á með maskann á mér og fann hvernig hann fyllti húðina mína af raka, hann róaði hana og kældi svo ég náði í alvörunni bara að slappa af. En þegar maður er með svona dekurmaska þá er best að reyna að hafa rólegt í kringum sig og njóta þess að dekra við húðina, þannig nær maskinn að næra húðina vel.

Á umbúðunum stendur að rakastig húðarinnar verður alltað 40% betra eftir eina notkun og ég ætla að taka undir það því húðin mín fylltist af dásamlegum raka. Morguninn eftir var húðin mín svo ljómandi falleg og ég sá mikinn mun sjálf með mínum eigin augum. Ég vaknaði bara fersk og alsæl eftir dekur kvöldið áður.

Screen Shot 2015-12-17 at 12.33.13 AM

Annar kostur sem ég vil nefna við þennan maska sem á ekki við um marga svona grímumaska er að það er hægt að aðlaga grímuna að þínu andlitsfalli. Venjulega er bara svona staðlað form á grímunni og hún passar einhvern vegin ekki á mann, munnurinn er allt annars staðar og augun bara á kolröngum stað. En hér er búið að klippa svona inní grímuna svo það er hægt að færa hana til svo hún smellpassar á andlitið.

Eftir að ég notaði maskann strauk ég grímunni svo yfir allan líkamann, hendur og fætur til að ná að nýta öll dásamlegu efnin í grímunni… Vá þetta var dásamlegt!

Hvernig væri að ná jólastressinu úr húðinni með einu dásamlegu dekurkvöldi með nærandi andlitsmaska – ég mæli með Karuna möskunum í verkið og þeir eru á mjög góðu verði, eiginlega hættulegu þess vegna keypti ég fjóra í viðbót.

Erna Hrund

Gæs í einn dag!

BrúðkaupLífið Mitt

Síðasti laugardagur var einn sá allra skemmtilegasti sem ég hef upplifað í langan tíma – ég fékk að vera gæs í einn dag og eyða honum með mörgum af mínum allra bestu vinkonum!

Þar sem ég er svona manneskja sem er með allt á hreinu þá var að sjálfsögðu mjög erfitt að reyna að koma mér eitthvað á óvart og ég var nú búin að átta mig á dagsetningunni þó svo að minni bestu hafi tekist að afvegaleiða mig bara á föstudagskvöldinu – ég get staðfest að hún hefur náð að læra heilan helling í þessu leiklistarnámi sínu því hún ruglaði mig alveg í rýminu! Svo mikið að um morguninn hringdi ég mig inn veika í vinnuna en þær dömurnar höfðu ætlað að koma mér á óvart í vinnunni svo planið fór smá út um þúfur eða svona til að byrja með. Þegar þær voru svo komnar var ekkert annað í boði en að taka verkjalyf og harka af sér og sofa bara seinna.

Dagurinn byrjaði á fjórhjólum eitthvað það skemmtilegasta sem ég hef gert í langan tíma og ég mæli eindregið með í hópefli vá hvað þetta var æðislegt og við fengum líka svo fallegt veður sem fullkomnaði alveg upplifunina. Næst lá leiðin í brunch með öllum dömunum þar sem þær tóku allar á móti mér með fallegu Aðalstein grímunum sínum – það var ekkert krípi, ekkert! Þar áttum við góða stund saman þar sem ég reyndi nú aðeins að kynna þær hver fyrir annarri og við fórum í smá leiki. Svo var það dekurstund í Blue Lagoon Spa inní Hreyfingu, vá hvað það var æðislegt, ég hef aldrei komið þangað en ég mæli eindregið með þessu. Ég fékk svo smá nudd sem var kærkomið eftir veikindin dagana á undan og hjálpaði mér í gegnum dagana á eftir líka. Svo eftir smá tiltek og uppá hressingu á útliti lá leið okkar inní stúdíó þar sem ég var látin syngja eitt af lögunum úr Grease en það verður smá Grease þema í brúðkaupinu sem er dáldið tengt því hvernig við Aðalsteinn kynntumst. Eftir það fórum við svo heim til minnar bestu og veislustjórans þar sem við gæddum okkur á dýrindis veitingum, hlógum alveg óstjórnlega mikið og kvöldið endaði svo með trylltum dansi á Vegamótum – vá hvað það var gaman.

Ég fékk að stelast í nokkrar myndir frá stelpunum til að deila með ykkur, bara til að gefa ykkur smá tilfinningu fyrir því sem átti sér stað en ég hlakka til að sjá meira sjálf í brúðkaupinu 2. janúar.

gæs2

Fyrsta og eina myndin sem ég tók sjálf á símann minn – hann var svo tekinn af mér og ég fékk hann afhentann í lok dagsins… :)

gæs

Komin á toppinn á fellinu sem við fórum uppá á fjórhjólunum, útsýnið var eiginlega ólýsanlegt! Vá hvað þetta var æðislegt :)

gæs3

Ég og bestan mín, veislustjórinn Íris Tanja***

gæs4

Þessar grímur voru svona nett krípí kannski vegna alvarlega svipsins á verðandi eiginmanninum mínum…

 

Takk fyrir mig elsku bestu mínar! Mikið er ég þakklát fyrir að eiga ykkur allar að og ég hlakka til næsta fjörs hjá okkur***

Erna Hrund

Gjafaleikur með Rimmel Iceland

Ég Mæli MeðLúkkMakeup ArtistNýtt í snyrtibuddunni minniRimmel

Gjafaleikurinn er unninn í samstarf við Rimmel á Íslandi sem gefur vörunar :)

Ég er nú búin að draga útúr leiknum og hér sjáið þið nöfnin á sigurvegurunum…

Screen Shot 2015-12-21 at 7.04.30 PM Screen Shot 2015-12-21 at 7.04.19 PM

Endilega sendið mér línu á ernahrund(hjá)trendnet.is til að fá upplýsingar um hvert þið getið nálgast vinninginn!

Í tilefni hátíðarinnar langar mig í samstarfi við eitt nýjasta merkið á Íslandi Rimmel að efna til skemmtilegs gjafaleiks! Ég setti saman tvö lúkk með vörum frá merkinu þar sem okkur langaði að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni þess að það voru að koma nýjir varalitir frá merkinu The Only 1 Lipstick. Það sem er svo sérstakt við þessa varaliti er endingin en pigmentin eru alveg svakalega flott og ég tek heilshugar undir það sjálf, en um leið er mikil næring í varalitunum.

Þið getið hér átt kost á að vinna 4 vörur frá merkinu. Við settum saman tvö sett af fjórum vörum sem gegna lykilhlutverki í lúkkunum hér fyrir neðan. Þið getið auðveldlega náð lúkkunum með þessum vörum. Mér fannst þetta dáldið skemmtilegur og öðruvísi leikur að gera með ykkur og ég vona að þið takið vel í hann!

Í gær var fyrsti dagurinn minn síðan ég skreið uppúr veikindunum mínum svo ég hef svo sannarlega litið betur út og skjálfhenta ég gerði mitt allra besta til að skapa skemmtileg lúkk handa ykkur og ég vona að ég nái nú að koma þessu vel frá mér í gegnum þessar myndir…

Lúkk 1:

Hér langaði mig að gera svona ekta rauðar varir með eyeliner. Hér er ég mega spennt fyrir þessum maskara, hann er með gúmmíbursta og ég er að fýla hann mjög vel hann er svona eins og ég vil hafa þá, það kemur ekkert alltof mikið í einu á augnhárin svo ég næ að gera þau alveg eins og ég vil. Ég elska þennan fallega rauða lit á vörunum hann er mjög flottur og á eftir að fara mörgum. Svo er ég auðvitað mikill Good to Glow fan eins og þið vitið nú þegar…

rimmelleikur7

Good to Glow í litnum Piccadilly Glow – Wonder’Full Mascara – The Only 1 Lipstick í litnum Best of The Best nr. 510 & Scandal Eyes Precision Micro Eyelner.

rimmelleikur14

 gvuð hvað ég er þrútin í kringum augun, þið verðið að afsaka sjúklinginn… ég er alveg með tremma yfir þessum myndum…

Lúkk 2: 

Hér langaði mig að gera smá svona allt annað meira mjúkt í kringum augun meiri svona smokey fíling. Ef ég á að segja hvað mér finnst þá er ég meira fyrir svona en þið kannski vitið það. Ég elska þennan fallega varalit og ég var bara með þessa förðun allan daginn í gær. Ég fann virkilega hvað varaliturinn gaf vörunum mínum góða næringu og liturinn sjálfur er mjög klassískur og fallegur.

En hér sjáið þið svo vörurnar sem ég notaði til að ná lúkkinu, þessar vörur gætu orðið ykkar ef þið veljið þetta lúkk…

rimmelleikur8

The Only 1 Lipstick í litnum It’s A Keeper nr. 200 – Super Curler 24H Mascara – Brow This Way Brow Styling Gel & Magnif’Eyes Mono Eyeshadow í litnum Millionaire nr. 002.

rimmelleikur10

Þá eruð þið búnar að sjá lúkkin tvö nú er spurning hvort þið fýlið betur og hvort settið af vörunum ykkur langar í! Til að eiga kost á því að eignast vörurnar megið þið…

1. Setja Like við þessa færslu og deila henni þannig á Facebook
2. Fara inná Rimmel Iceland og smella á Like svo þið getið nú fylgst vel með!
3. Setja athugasemd við þessa færslu með nafninu ykkar og hvort settið af vörunum ykkur langar í!

Hlakka til að sjá hvað ykkur finnst :)

Ég dreg út vinningshafa á fimmtudaginn!

Erna Hrund
þessi sem nennir ekki að vera veik lengur…

Viðtal: Fanney & Ylur

FallegtMömmubloggTinni & Tumi

Þegar Tumalingurinn minn fæddist fékk ég alveg dásamlega fallega peysu að gjöf. Peysan er frá íslensku merki sem nefninist Ylur og býður uppá glæsilegar prjónavörur einhverjar þær fallegustu sem ég hef augum litið. Sjálf get ég ekki prjónað til að bjarga lífi mínu en ég elska fallegar prjónavörur svo mér finnst mikil snilld að geta bara keypt fallega prjónavörur af öðrum mun hæfileikaríkari fyrir börnin mín ;) En ég heillaðist svo og er búin að ofnota þessa æðislegu peysu svo ég varð að fá að kynna merkið betur fyrir ykkur en það er margt skemmtilegt framundan hjá Yl og eiganda þess og hönnuð Fanneyju Svansdóttur!

Screen Shot 2015-12-14 at 10.04.03 PM

Hér sjáið þið litla Tumaling hér er hann alveg pínupons í peysunni sinni. Ég gat ekki beðið með að nota hana svo við brettum bara uppá hana til að byrja með en í dag smellpassar hún. Eitt af því sem ég kann svo vel að meta við prjónaflíkur er hvernig þær eiginlega vaxa með börununum.

En ég plataði hana Fanney til að svara nokkrum spurningum um sig sjálfa, merkið Ylur og það sem er framundan. En í gær opnaði hún heimasíðuna og vefverslunina Ylur.is svo endilega kíkið í heimsókn!

12118655_748982258545018_3278076089135343401_n

Ljósmyndari: Aldís Pálsdóttir

Geturðu aðeins sagt frá þér sjálfri, 
Ég er 25 ára og bý á Selfossi með sambýlismanninum og börnunum okkar tveimur, Aroni Elí 5 ara og Rán 2 ára. Ég lauk við ba gráðu í félagsráðgjöf í vor en stefni á nám í textílhönnun á næstunni.

Hvernig kom það til að Ylur varð til?
Það hefur alltaf verið ríkt í mér að skapa. Ég hugsa hratt og gleymi mér oft í hugsunum mínum og hugmyndum. Þegar ég ákvað að láta undan og leyfa mér að eyða tíma í að rækta þessa hæfileika fór margt að gerast. Ég byrjaði að prjóna um það leyti sem dóttir mín fæddist, fyrir ca tveimur árum. Ég lærði að prjóna á youtube og pinterest. Ég kunni grunnatriðin en bæði mamma mín og amma eru snillingar i höndunum. Ég eyði enn í dag talsverðum tíma á youtube og finnst gaman að bæta við mig þekkingu og tækni.

11986323_737517339691510_1019960145256867481_n

Hvaðan sækirðu þér innblástur fyrir hönnun þína?
Ég sæki fyrst og fremst innblástur í börnin mín. Mér finnst gaman að fylgjast með þeirra vali á fatnaði, hvaða flíkur þau taka ástfóstri við. Úr hvaða efni eru flikurnar? Hvernig er sniðið? o.s.frv. Ég leita einnig innblásturs i gömlum myndaalbúmum hjá ömmu og afa og árstíðunum en ég get endalaust velt fyrir mér fallegum litum nátturunnar.

Með hvaða efni vinnurðu helst?
Ég hef fyrst og fremst áhuga á fallegum og vönduðum hlutum úr góðu hráefni. Ég eyði miklum tíma í lita og efnisval. Ég vinn mest með alpaca ull sem ég kaupi frá Peru. Alpaca ullin býr yfir mörgum eiginleikum sem henta vel í barnafatnað. Hún er mjúk, hlý, slitsterkt og nánast ofnæmísfrí.

11062731_724078391035405_2316861368953631396_n

 

Ómæ! Þessi refapeysa ég bilast úr krúttlegheitum – á óskalista hjá okkur mæðginum til þeirra sem vantar jólagjafahugmyndir… ;)

Er einhver flík frá Ylur í meira uppáhaldi hjá þér en önnur?
Flíkurnar frá Yl eru langflestar fyrir bæði kyn. Ég legg mikið uppúr notagildi og forðast að flokka föt sem annaðhvort stráka- eða stelpufot. Einn af dásamlegu eiginleikum prjónaðar flíka er hversu lengi þær endast. Ein stærð hja mer spannar 4 hefðbundnar stærðir. Ég á erfitt með að velja eina uppáhalds flík en hvíta hneppta peysan með gatamynstrinu er upprunalega peysan frá mér og mer þykir sérstaklega vænt um hana.

Er eitthvað spennandi framundan hjá merkinu?
Það er margt spennandi að fara i gang hjá okkur. Ég hef gaman af smækkuðum útgáfum af fullorðins fötum og er að vinna í nokkrum flíkum fyrir aðeins eldri hóp en ég hef verið að einblína á hingað til. Það er á stefnuskránni að gera svo litla dömulínu. Ég er líka að vinna að einu spennandi verkefni með Bergrúnu Írisi – ég persónulega er mjög spennt fyrir þvi svo það er um að gera að fylgjast með.

11836876_723635331079711_7425073746315781471_n

Hvaða jólahefð er ómissandi hjá þér?
Það verður gott að komast í smá jólafrí en nóvember og desember hafa verið sérstaklega annasamir. Ég er mikið jólabarn, sérstaklega eftir að eg atti bornin mín. Jólin snúast um samveru með fólkinu sínu, hrein rúmföt og góða bók.

11949351_731659726943938_1921041751384545877_n

Finnst ykkur þetta ekki fallegt! Ég er sjálf alveg heilluð og hvet ykkur til að skoða vörurnar hennar Fanneyjar betur, þær eru svo yfirmáta fallegar og svo gæðamiklar að ég er viss um að hver mamma verði algjörlega dolfallin yfir fegurð þeirra. Peysan hans Tuma fer alveg svakalega vel og ég er nokkrum sinnum búin að þvo hana í höndunum bara eins og gengur og gerist til að skola úr henni gubb og annað og hún heldur sér alltaf eins.

Fylgist með Ylur á eftirfarandi síðum…

Heimasíða: Ylur.is
Facebook: Ylur
Instagram: @ylur.is

Ég þakka Fanney innilega fyrir spjallið og við mæðginin hlökkum mikið til að fylgjast með ég er sérstaklega spennt að heyra hvað hún og Bergrún Íris ætla að fara að gera saman – hæfileikaríkur prjónari og yndislegur barnabókahöfundur – þetta er eitthvað sem getur bara ekki klikkað!

Erna Hrund

Tinni Snær í Bókinni Okkar

FallegtLífið MittMeðgangaMömmubloggTinni & Tumi

Fyrir næstum þremur árum síðan fengum við þá tveggja manna fjölskylda að vera partur af yndislegu verkefni sem heitir Bókin Okkar. Við Aðalsteinn fengum að hafa ljósmyndarann og kæra vinkonu okkar viðstadda þegar Tinni Snær fæddist, þegar við urðum þriggja manna fjölskylda og við fengum dýrmætar myndir sem fönguðu þessi mögnuðu augnablik þar sem við urðum foreldrar í fyrsta sinn. Bókin Okkar verður dýrmæt bók sem fer yfir allt, getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu og við fjölskyldan fengum að vera partur af þessari fallegu bók sem fer vonandi nú að berast okkur. En Bókin Okkar þarf smá hjálp, á þessum þremur árum hefur ýmislegt gerst sem hefur komið í veg fyrir útgáfu bókarinnar og því stendur nú yfir söfnun á Karolina Fund þar sem þær Andrea, Aldís og Hafdís biðja okkur um hjálp við að koma þessu meistaraverki þeirra í heiminn.

Mig langar að deila með ykkur einni af ómetanlegu myndunum mínum sem voru teknar fyrir bókina, þarna er Tinni Snær bara nokkurra sekúndna gamall…

Ljósmyndari

„Ég hef sagt frá því að ég var með ljósmyndara viðstaddan fæðignuna mína. Hún Aldís Pálsdóttir myndaði alla fæðinguna fyrir íslenska meðgöngubók og ég fékk leyfi hjá henni til að birta nokkrar myndir fyrir ykkur til að sjá. Aldísi verð ég ævinlega þakklát fyrir þessar dásamlegu myndir sem eru okkur Aðalsteini ómetanlegar og eru fallegasta minningin um fæðinguna. Svo eru þær líka mín sönnunargöng fyrir því að hafa getað gert þetta. Aldís veitti mér líka ómetanlegan stuðning í fæðingunni sem ég mun aldrei geta þakkað henni fyllilega fyrir, hún leiðbeinti mér í gegnum allt, hélt í höndina á mér, strauk mér þegar tárin renndu niður kinnarnar og hvatti mig áfram þegar ég var við það að gefast upp. Við Aldís erum svo sannarlega tengdar órjúfanlegum böndum og mér finnst eiginlega eins og hún hafi verið mín „fairy godmother“ í fæðingunni. Takk Aldís fyrir allt saman.“

– úr færslu sem birtist 30.12.13 HÉR

Ef þið hafið tök á því að leggja þessum duglegu konum lið og styðja þær í útgáfu sinni á Karolina Fund þá veit ég að þeim þætti vænt um það sem og mér þar sem ég er búin að bíða spennt eftir bókinni í næstum 3 ár núna og get varla beðið eftir að fá hana í hendurnar.

BÓKIN OKKAR Á KAROLINA FUND

Áfram Andrea, Aldís og Hafdís! Mikið vona ég að allt gangi upp hjá ykkur***

Erna Hrund

Ari ♡

Ég Mæli MeðFallegtFræga FólkiðIlmirJól 2015Jólagjafahugmyndir

Ilmvatnið sem ég skrifa hér um fékk ég að gjöf. Ég skrifa alltaf um allar vörur af einlægni og vil að lesendur geti treyst mínum orðum. 

Það er ekki svo langt síðan ég sagði ykkur frá nýjustu stórstjörnunni til að prófa sig áfram í stórskemmtilega heimi ilmvatna. En söngkonan Ariana Grande hefur nú fært okkur á Íslandi nýjasta ilmvatnið sitt sem heitir einfaldlega bara Ari sem er gælunafn söngkonunnar.

Ariana Grande er ein allra skærasta stjarnan í tónlistarheiminum núna og hefur þrátt fyrir ungan aldur hlotið svakalega mikið af flottum verðlaunum og tilnefningum. Hún hefur átt ófá lög á topplistum í tónlistarheiminum og virðist vera langt frá því að ætla að fara að slaka eitthvað á. Hún lék smá hlutverk í mínum guilty pleasure þáttum Scream Queens.

Mig langaði aðeins að kynna fyrir ykkur ilmvatnið en það er nú þegar orðið mjög vinsælt vestan hafs og margar ungar íslenskar dömur sem bíða spenntar eftir því. Þó svo að ég hafi kannski til að byrja með aðeins þurft að googla hana Ariönu þá eru þessar ungu sem ég hef verið að fræða aðeins um húðumhirðu í skólum hér á höfuðborgarsvæðinu alveg með það á hreinu hver daman er! Já ég er gömul…

Hér aðeins neðar þá getið þið líka séð hvernig ilmvatnið fallega og ljúfa gæti orðið þitt og vinkonu þinnar.

ari5

Með ilmvatninu er það ósk Ariönu að aðdáendur sínir geti átt hlutdeild í henni sjálfri með nýjum hætti. Ilmurinn endurspeglar söngkonuna og hennar smekk. Pakkningarnar utan um glasið eru í fallegum lavander pastel lit sem er uppáhalds litur söngkonunnar, eiginhandaráritun söngkonunnar er að fylgja á öllum pakkningum og það má bara segja að hvert eitt og einasta smáatriði sé í anda hennar og tískustíls hennar.

Ilmurinn:

Topptónar: fersk pera, bleikt greipaldin og safarík hindber.

Hjartað: mild dalalilja, rósaknúppar og vanillu orkedía.

Grunnurinn: Sykurpúðar, kremkenndur moskus og ljósir viðir.

Þessi ilmur eins og þið sjáið er mjög skemmtilegur, hann er sætur en með mjög mjúkum og þægilegum kremkenndum keim. Ég finn helst fyrir hindberjunum, vanillunni, sykurpúðunum og kremkenndu eiginleikunum. Ég get alveg lofað því að þessi er ekkert bara fyrir unga aðdáendur söngkonunnar hann mun höfða til mjög margra því hann er bara virkilega vel heppnaður hjá henni og ilmurinn mun sannarlega ná að eignast stóran aðdáendahóp.

ari3

Hönnunin á glasinu finnst mér alveg sérstaklega falleg! Ég elska þegar glasið er skorið á svona hátt, þetta er sérstakur demantskurður sem gerir það að verkum að ljós endurkastaðst alveg sérstaklega fallega af því. Í þokkabót er ilmurinn sjálfur svo með fallegum bleikum blæ svo glasið er enn fallegra. Skemmtilegur dúskur setur sinn svip á glasið, það er nú hægt að taka hann af en mér finnst hann svo sætur og gefur mér svona smá vintage tilfinningu.

Ilmvatnið er bæði til í 30ml og 50ml glösum en hér sýni ég 30ml glas:)

ari

En í tilefni komu þessa fallega ilmvatns til landsins langar mig að setja í gang smá vinkonuleik! Ef ykkur langar í þetta eða vitið um einhvern sem langar í Ari, kíkið þá inná Facebook síðu bloggsins og takið þátt. Gjafaleikurinn fer fram þar sem ég deili linknum á þessa færslu á vegg Facebook síðu bloggsins…

FACEBOOKSÍÐA REYKJAVÍK FASHION JOURNAL

Ég veit að það eru margar ungar dömur sem bíða spenntar eftir þessu fallega ilmvatni svo það er tilvalin jólajgöf fyrir ungu dömuna í fjölskyldunni og verðið skemmir ekki fyrir.

Endilega takið þátt í leiknum hlakka til að sjá viðtökunar!

Erna Hrund

Jólagjafahugmyndir fyrir barnið

Jól 2015JólagjafahugmyndirMömmubloggTinni & Tumi

Mér datt í hug að setja saman smá óskalista fyrir barnið og til þess að setja hann saman fékk ég smá hjálp frá syni mínum hinum 3 ára Tinna Snæ. Hann hefur nú í fyrsta sinn mjög sterkar skoðanir á því hvað honum langar í jólagjöf. Hann hefur líka bara yfir höfuð mjög sterkar skoðinir á því hvað honum langar í og hvað hann hefur bara engan áhuga á að fá. Svo ég segi ykkur það bara en barnið les nú ekki bloggið hennar mömmu sinnar enn. Við Aðalsteinn vorum búin að kaupa fullt af playmo fyrir Tinna Snæ til að gefa honum í jólagjöf og svo í afmælisgjöf, við keyptum svona hús og húsgögn til að innrétta húsið. Svo fengum við svona Playmo bækling heim og ég ákvað að tékka svona smá hvort við hefðum nú ekki valið rétt – NEI! Tinni Snær hafði sko engan áhuga á því að eignast þetta hús og var/er hugfanginn af Playmo sveitabæ svo jú mamman og pabbinn fóru með allt Playmo-ið til baka og skiptu því í bóndabæinn… Það sem maður gerir ekki fyrir börnin sín en mig skiptir það nú mestu máli að hann verði ánægður. Hann er nýfarinn að leika sér með Playmo sem mér finnst æði því það var í svo miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var lítil.

Ég gæti sko alveg sett saman lista yfir það sem mig langar í fyrir strákana en ég hef nú komist það því að ég er bar ekki alveg með það á hreinu og því best að fá hjálp frá þriggja ára stubbinum.

Svo hér hafið þið jólagjafalistann okkar Tinna Snæs…

barnalisti

Mamma Klikk eftir Gunna frænda
Maður getur nú held ég ekki gert gjafalista fyrir barn án þess að lauma þessari perlu með! Það sem ég er hreykin af því að eiga þennan stórskemmtilega og klára barnabókahöfund fyrir frænda og mér finnst alveg sérstaklega gaman að hann hafi fengið tilnefningu til íslensku Bókmenntaverðlaunanna fyrir Mömmu Klikk. Hér blandar hann Gunni saman raunverulegum sögum af dáldið sérstökum mæðrum í alveg stórskemmtilega bók. Gunni frændi eins og hann er kallaður hér og talað um stanslaust er uppáahalds frændi hans Tinna Snæs og skemmtir sér konunglega yfir þessari bók og uppá vegg hangir plakat með mynd af bókinni og að sjálfsögðu áritun frá Gunna frænda. Bók sem er mjög skemmtilegt fyrir krakka á öllum aldri og getur skapað skemmtilegar samverustundir milli foreldra og barna. Tilvalin jólagjöf! Það þarf kannski ekki að nefna það en bókin er viðbót Tinna Snæs á listann þó hann eigi hann reyndar…

Húfa frá Feldur Klæðskeri
Er þessi fallega húfa ekki bara skyldueign. Hér sjáið þið Tinna minn þegar hann var bara pínkupons með sína húfu. Hana fékk ég í Rauða Kross verslun en hún var orðin heldur slöpp svo Tumalingur fær nýja í jólagjöf frá mömmu sinni og pabba. Falleg og klassísk húfa sem heldur líka hita á litlum kollum. Mamman elskar þessar fallegu húfur og setti þessa því á listann – Tinni var sammála en ég held það hafi nú bara verið því þetta er mynd af honum.

Teppi frá Ígló & Indí
Ó þetta teppi það sem mig langar í það! Ekki það að það sé einhver skortur á teppum á þessu heimili en ég er bara svo hrifin af Organic línunni frá Ígló & Indí að ég vil mikið taka þetta uppúr jólapakka en kannski þá frekar til mín en strákanna. Tinni var ekkert sérstaklega spenntur nema honum fannst smá gaman að hann ætti nú pandabol og húfu í stíl við teppið :)

Heilgalli frá As We Grow
Þennan setti mamman óhikuð inná listann enda erum við pabbinn svo ánægð með gallann hans Tuma. Ég mæli heilshugar með þessum vörum, þær kosta smá en ég lofa því að gæðin eru svakalega góð. Heilgallann getið þið séð betur HÉR.

Viltu vera vinur minn? eftir Bergrúnu Írisi
Þessa bók settum við Tinni Snær saman inná listann. Bergrún Íris gerir held ég án efa fallegustu barnabækur sem fyrirfinnast. Mamman fékk tár í augun þegar hún las þessa dásamlega fallegu bók fyrir son sinn. Bókin er með svo fallegan boðskap og hvert og eitt barn hefur gott af því að lesa hana eða láta lesa hana fyrir sig. Bergrún setur svo fallegan boðskap í bækurnar sínar og þær eru sannar perlur sem ættu að vera inná hverju heimili. Mér finnst að börn ættu alla vega að fá eina bók í jólagjöf ef ekki fleiri. Hér er alltaf pláss fyrir fleiri fallegar bækur og þá sérstaklega frá Bergrúnu Írisi svo ég vona að hún sé nú langt frá því að vera hætt skrifum! Við Tinni Snær erum sammála að þessi eigi að vera jólagjafahugmynd fyrir aðra krakka.

Sængurver frá Fabelab
Aftur hér er mamman á ferð! Ég er bara svo skotin í þessu skemmtilega merki sem ég var að kynnast og mig langar smá í svona falleg sængurver fyrir strákana. Mér þykir svo gaman að vera með fallegt á rúmunum þeirra og ég held þeir sofi bara betur með gæðamikil og falleg sængurver. Vefverslunin mena.is selur m.a. þessi sængurver frá merkinu og ég er einmitt alltaf á leiðinni í heimsókn í búðina þeirra sem er í Mörkinni ég verð að fara að gera mér ferð!

Barnavísur eftir Hafdísi Huld og Alistair Wright
Yndislega tónlistin hennar Hafdísar Huldar er eitthvað sem ekkert barn má ekki missa af að upplifa. Þessi er á okkar óskalista en fyrri diskurinn hennar Vögguvísur er mikið spilaður í bílnum. Við fengum hann í sængurgjöf þegar við áttum Tinna Snæ og okkur fannst yndislegt hve róandi áhrif lögin höfðu á soninn sem slakaði alltaf vel á í bílnum þegar Vögguvísur var í gangi og yfirleitt steinsofnaði hann strax. Lögin eru svo falleg og mörg þeirra eru í uppáhaldi hjá mér. Ég held við yrðum mjög ánægð með þennan disk og kannski gaman að skipta stöku sinnum hinum út. Íslensk tónlist og fallegar íslenskar barnabækur er það ekki tilvalin jólagjöf :)

Hvolpasveitin!
Jú Hvolpasveitin er aðalmálið á mínu heimili og er efst á öllum óskalistum sonarins. Hann vill ekkert nema Hvolpasveitardót og hann sefur stundum með hvolpana sem hann á nú þegar í svona mini formi. Hann er búinn að læra hvað þeir heita allir og iðar af spenningi þegar hann fær að horfa á Hvolpasveitina í sjónvarpinu. Mamma og pabbi eru nýkomin með hund og Tinni er viss um að hann sé í Hvolpasveitinni og alltaf að bjarga fólki. Virkilega krúttlegt og miðað við það sem ég sé og heyri er Tinni Snær sko ekki eina barnið sem óskar sér þess heitt að eignast Hvolpasveitina. En mömmunni langar smá að gefa honum Hvolpasveitabangsa… veit einhver hvar ég fæ mögulega slíka?

Virkilega skemmtilegt að setja svona jólagjafahugmyndir saman með þriggja ára syninum. Hann er með svo sterkar skoðanir á hlutunum og yfirleitt ekki séns að fá ofan af sínum hugmyndum og pælingum sem leiðir oft til atvika eins og ég og Aðalsteinn upplifðum í Hagkaup um daginn þegar við mættum og skiptum öllum Playmo kössunum ;)

Erna Hrund & Tinni Snær

Bjútítips: Makeup blettabani!

Lífið MittMakeup ArtistMakeup Tips

Vöruna sem ég skrifa um hér kaupi ég sjálf og er ómissandi inná heimili förðunarfræðingsins…

Mig langar svo að lauma að ykkur smá leyndó sem var hvíslað að mér fyrir ábyggilega tveimur árum síðan og hefur verið algjör bjargvættur fyrir fötin mín alla tíð síðan þá. Ég er voðalega klaufsk og þegar ég mála þá fer stundum allt útum allt. Áður fyr eyðilagði ég föt því ég smitaði farða eða varalit í þau og ekki séns að ná neinu úr þrátt fyrir hreinsun. En eftir að ég kynntist þessum blettabana er þetta allt annað og nú get klaufska ég bara verið eins og ég vil þegar ég mála og ég þarf ekki að vera í neinum hlífðarfatnaði – það lá sko við ég færi að pakka mér inn í svartan ruslapoka!

Svo ef þið kannist við sama vandamál þá er hér lausnin – blettabaninn sem er sérstaklega hannaður til að hreinsa snyrtivörur…

blettabani

 Blettabanann kaupi ég sjálf í Hagkaup – þar eru líka til fleiri tegundir.

Ég set bara smá beint á blettinn, set flíkina á venjulegan þvott í þvottavél – eða þá það prógramm sem á við og bletturinn hverfur. Mér finnst þetta mjög mildur og fínn hreinsir sem hefur svo sannarlega aldrei valdið mér vonbrigðum og eins og ég segi náð úr blettum sem fatahreinsanir hafa ekki einu sinni náð úr.

Mæli með þessum hann er sannur blettabani!

Erna Hrund

Tumadress

JólagjafahugmyndirMömmubloggTinni & Tumi

Ég á svo falleg börn – vissuð þið það? ;) En þau verða einhvern veginn ennþá sætari í fallegum flíkum og ég verð bara að fá að sýna ykkur fallega gallann hans Tumalings sem ég hef fengið mikið af spurningum um síðustu daga. Sonurinn fer ekki úr þessum en hann er alveg fullkominn fyrir veðrið útí núna og þennan mikla kulda. Hann er alltaf heitur þegar hann kemur inn en aldrei kófsveittur.

Screen Shot 2015-12-05 at 3.55.47 PM

(eruð þið búnar að taka þátt í fabelab leiknum þar sem þetta fallega teppi er í boði – ég dreg út í dag;))

Gallinn er úr Alpaca ull sem er ull sem heldur hlýju en hún andar, hún er ofboðslega mjúk svo honum klæjar ekkert og já nú þegar tanntakan er hafin virðist honum finnast alveg sérstaklega gaman að naga hann en þá fær mamman smá tremmakast því flíkin er nú alltof falleg til að naga!

Ég get sko sagt ykkur það að það er gott að eiga góðar vinkonur, þær María, Gréta og Guðrún konurnar á bakvið As We Grow hafa verið í uppáhaldi hjá okkur mæðginunum síðan við hittumst fyrst. Maríu kynntist ég í uppsetningunni á Grease árið 2009 og hefur hún verið mér svo góð alla tíð síðan þá og Grétu og Guðrúnu kynntist ég síðar þegar þær kynntu mig fyrst fyrir vörunum þeirra fyrir rúmum tveimur árum síðan. Síðan þá hafa þær reynst okkur svo vel og glatt okkur með fallegum vörum af og til og gáfu okkur Tuma þennan dásamlega galla fyrir stuttu.

Ég held það séu varla til nógu mörg jákvæð lýsingarorð til að lýsa þessu fallegu vörum, gæðum þeirra og notagildi. Enda er ég liggur við stoppuð útá götu ef það sést glitta í gallann svo fólk geti nú fengið að vita hvaðan hann er. Hrósin eru yfirleitt tengd því hvað barnið er fallegt og hvað það er sérstaklega fallegt í þessum fallega galla :)

tumadress2

Mér finnst svo gott að vera með þann litla í svona heilgöllum svo ég er auðvitað mjög ánægð með þennan prjónaða heilgalla. Hann er fyrir 6 mánaða og eldri miðað við stærðina og það er nú bara flott að byrja að nota svona sem fyrst og bretta bara uppá svo maður geti notað allar þessar fallegu flíkur.

tumadress5

p.s. engar áhyggjur þó molinn sé vettlingalaus því úti var hann í hámark 2 mínútur á meðan smellt var af mynd fyrir jólakort fjölskyldunnar. Alpaca ullin í þessari gersemi hélt honum hlýjum – alveg dásamleg ull!

Sem mamma get ég gefið As We Grow vörunum mín allra bestu meðmæli og þetta eru einhver vönduðustu föt sem til eru fyrir þessi litlu kríli og tilvalin í jólapakkann. Gallann og peysuna nota mínir menn óspart og ég hleypi Tinna Snæ meirað segja í leikskólann í peysum sem hann á frá merkinu enda finnst mér mikilvægt að börn noti fötin sín sérstaklega þegar notagildið er mikið og þegar þau vaxa svo hratt uppúr fötunum sínum þá verður maður að nota þau eins mikið og hægt er.

Erna Hrund