fbpx

Jólagjafahugmyndir fyrir barnið

Jól 2015JólagjafahugmyndirMömmubloggTinni & Tumi

Mér datt í hug að setja saman smá óskalista fyrir barnið og til þess að setja hann saman fékk ég smá hjálp frá syni mínum hinum 3 ára Tinna Snæ. Hann hefur nú í fyrsta sinn mjög sterkar skoðanir á því hvað honum langar í jólagjöf. Hann hefur líka bara yfir höfuð mjög sterkar skoðinir á því hvað honum langar í og hvað hann hefur bara engan áhuga á að fá. Svo ég segi ykkur það bara en barnið les nú ekki bloggið hennar mömmu sinnar enn. Við Aðalsteinn vorum búin að kaupa fullt af playmo fyrir Tinna Snæ til að gefa honum í jólagjöf og svo í afmælisgjöf, við keyptum svona hús og húsgögn til að innrétta húsið. Svo fengum við svona Playmo bækling heim og ég ákvað að tékka svona smá hvort við hefðum nú ekki valið rétt – NEI! Tinni Snær hafði sko engan áhuga á því að eignast þetta hús og var/er hugfanginn af Playmo sveitabæ svo jú mamman og pabbinn fóru með allt Playmo-ið til baka og skiptu því í bóndabæinn… Það sem maður gerir ekki fyrir börnin sín en mig skiptir það nú mestu máli að hann verði ánægður. Hann er nýfarinn að leika sér með Playmo sem mér finnst æði því það var í svo miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var lítil.

Ég gæti sko alveg sett saman lista yfir það sem mig langar í fyrir strákana en ég hef nú komist það því að ég er bar ekki alveg með það á hreinu og því best að fá hjálp frá þriggja ára stubbinum.

Svo hér hafið þið jólagjafalistann okkar Tinna Snæs…

barnalisti

Mamma Klikk eftir Gunna frænda
Maður getur nú held ég ekki gert gjafalista fyrir barn án þess að lauma þessari perlu með! Það sem ég er hreykin af því að eiga þennan stórskemmtilega og klára barnabókahöfund fyrir frænda og mér finnst alveg sérstaklega gaman að hann hafi fengið tilnefningu til íslensku Bókmenntaverðlaunanna fyrir Mömmu Klikk. Hér blandar hann Gunni saman raunverulegum sögum af dáldið sérstökum mæðrum í alveg stórskemmtilega bók. Gunni frændi eins og hann er kallaður hér og talað um stanslaust er uppáahalds frændi hans Tinna Snæs og skemmtir sér konunglega yfir þessari bók og uppá vegg hangir plakat með mynd af bókinni og að sjálfsögðu áritun frá Gunna frænda. Bók sem er mjög skemmtilegt fyrir krakka á öllum aldri og getur skapað skemmtilegar samverustundir milli foreldra og barna. Tilvalin jólagjöf! Það þarf kannski ekki að nefna það en bókin er viðbót Tinna Snæs á listann þó hann eigi hann reyndar…

Húfa frá Feldur Klæðskeri
Er þessi fallega húfa ekki bara skyldueign. Hér sjáið þið Tinna minn þegar hann var bara pínkupons með sína húfu. Hana fékk ég í Rauða Kross verslun en hún var orðin heldur slöpp svo Tumalingur fær nýja í jólagjöf frá mömmu sinni og pabba. Falleg og klassísk húfa sem heldur líka hita á litlum kollum. Mamman elskar þessar fallegu húfur og setti þessa því á listann – Tinni var sammála en ég held það hafi nú bara verið því þetta er mynd af honum.

Teppi frá Ígló & Indí
Ó þetta teppi það sem mig langar í það! Ekki það að það sé einhver skortur á teppum á þessu heimili en ég er bara svo hrifin af Organic línunni frá Ígló & Indí að ég vil mikið taka þetta uppúr jólapakka en kannski þá frekar til mín en strákanna. Tinni var ekkert sérstaklega spenntur nema honum fannst smá gaman að hann ætti nú pandabol og húfu í stíl við teppið :)

Heilgalli frá As We Grow
Þennan setti mamman óhikuð inná listann enda erum við pabbinn svo ánægð með gallann hans Tuma. Ég mæli heilshugar með þessum vörum, þær kosta smá en ég lofa því að gæðin eru svakalega góð. Heilgallann getið þið séð betur HÉR.

Viltu vera vinur minn? eftir Bergrúnu Írisi
Þessa bók settum við Tinni Snær saman inná listann. Bergrún Íris gerir held ég án efa fallegustu barnabækur sem fyrirfinnast. Mamman fékk tár í augun þegar hún las þessa dásamlega fallegu bók fyrir son sinn. Bókin er með svo fallegan boðskap og hvert og eitt barn hefur gott af því að lesa hana eða láta lesa hana fyrir sig. Bergrún setur svo fallegan boðskap í bækurnar sínar og þær eru sannar perlur sem ættu að vera inná hverju heimili. Mér finnst að börn ættu alla vega að fá eina bók í jólagjöf ef ekki fleiri. Hér er alltaf pláss fyrir fleiri fallegar bækur og þá sérstaklega frá Bergrúnu Írisi svo ég vona að hún sé nú langt frá því að vera hætt skrifum! Við Tinni Snær erum sammála að þessi eigi að vera jólagjafahugmynd fyrir aðra krakka.

Sængurver frá Fabelab
Aftur hér er mamman á ferð! Ég er bara svo skotin í þessu skemmtilega merki sem ég var að kynnast og mig langar smá í svona falleg sængurver fyrir strákana. Mér þykir svo gaman að vera með fallegt á rúmunum þeirra og ég held þeir sofi bara betur með gæðamikil og falleg sængurver. Vefverslunin mena.is selur m.a. þessi sængurver frá merkinu og ég er einmitt alltaf á leiðinni í heimsókn í búðina þeirra sem er í Mörkinni ég verð að fara að gera mér ferð!

Barnavísur eftir Hafdísi Huld og Alistair Wright
Yndislega tónlistin hennar Hafdísar Huldar er eitthvað sem ekkert barn má ekki missa af að upplifa. Þessi er á okkar óskalista en fyrri diskurinn hennar Vögguvísur er mikið spilaður í bílnum. Við fengum hann í sængurgjöf þegar við áttum Tinna Snæ og okkur fannst yndislegt hve róandi áhrif lögin höfðu á soninn sem slakaði alltaf vel á í bílnum þegar Vögguvísur var í gangi og yfirleitt steinsofnaði hann strax. Lögin eru svo falleg og mörg þeirra eru í uppáhaldi hjá mér. Ég held við yrðum mjög ánægð með þennan disk og kannski gaman að skipta stöku sinnum hinum út. Íslensk tónlist og fallegar íslenskar barnabækur er það ekki tilvalin jólagjöf :)

Hvolpasveitin!
Jú Hvolpasveitin er aðalmálið á mínu heimili og er efst á öllum óskalistum sonarins. Hann vill ekkert nema Hvolpasveitardót og hann sefur stundum með hvolpana sem hann á nú þegar í svona mini formi. Hann er búinn að læra hvað þeir heita allir og iðar af spenningi þegar hann fær að horfa á Hvolpasveitina í sjónvarpinu. Mamma og pabbi eru nýkomin með hund og Tinni er viss um að hann sé í Hvolpasveitinni og alltaf að bjarga fólki. Virkilega krúttlegt og miðað við það sem ég sé og heyri er Tinni Snær sko ekki eina barnið sem óskar sér þess heitt að eignast Hvolpasveitina. En mömmunni langar smá að gefa honum Hvolpasveitabangsa… veit einhver hvar ég fæ mögulega slíka?

Virkilega skemmtilegt að setja svona jólagjafahugmyndir saman með þriggja ára syninum. Hann er með svo sterkar skoðanir á hlutunum og yfirleitt ekki séns að fá ofan af sínum hugmyndum og pælingum sem leiðir oft til atvika eins og ég og Aðalsteinn upplifðum í Hagkaup um daginn þegar við mættum og skiptum öllum Playmo kössunum ;)

Erna Hrund & Tinni Snær

Bjútítips: Makeup blettabani!

Skrifa Innlegg

6 Skilaboð

 1. Lilja

  10. December 2015

  Hvolpasveitin er algjör hittari á mínu heimili. Það er hægt að fá svona bangsa í Hagkaup.

  • Reykjavík Fashion Journal

   10. December 2015

   haha! En ég hef bara séð lögguhundinn… Langaði svo að gefa honum slökkviliðshundinn sem hann segir að sé hundurinn sem amma hans og afi eiga :)

   • Arna

    10. December 2015

    Keypti Bessa í bangsaformi í Toysrus fyrir um tveimur vikum síðan. Ég þurfti þó að grafa aðeins á Smáratorgi – gæti verið meira úrval á Korputorgi.

 2. Sirra Guðnadóttir

  10. December 2015

  Flottur listi! Keypti einmitt diskinn hennar Hafdísar um daginn og hann er æði! Spilum hann alltaf í bílnum :) Var að skoða teppið frá Igló&Indi og daginn og vááá hvað það er fallegt!

 3. Anna

  11. December 2015

  Vá æðislega falleg rúmföt!