fbpx

30 tímum seinna…

Lífið MittMeðgangaTinni & Tumi

Það er magnað hvað lífið manns getur breyst mikið þegar ein lítil baun kemur í heiminn. Það er kannski frekar lítið að segja að baunin hafi bara breytt mér, auðvitað hafði hún áhrif á alla aðra í kringum okkur Aðalstein. Ég held að við getum öll verið sammála um það að líf okkar hafi þó allra breyst til hins betra.

Tinni Snær Aðalsteinsson kom í heiminn 30.12.12 klukkan 09:57 – á nákvæmlega sama tíma og þessi færsla birtist. Það er hálfótrúlegt að hugsa til þess hvað tíminn er fljótur að líða. Ég man að allir í kringum mig hvöttu mig til þess að njóta tímans sem væri framundan eftir að ég fæddi soninn því hann væri svo fljótur að líða. Ég skildi eiginlega ekki hvað fólk var að meina fyr en núna. Ég held þó að ég hafi náð að njóta hans í botn.

Tinni Snær er besti sonur sem móðir gæti óskað sér. Hann er fullkominn í alla staði. Hann er ekki bara fallegasta barn sem hefur nokkurn tíman fæðst (afsakið allar aðrar mæður, en finnst okkur þetta ekki öllum um börnin okkar;)) heldur er hann líka skemmtilegasti karakter sem ég hef fengið að kynnast. Að fá að ala þennan son upp eru forréttindi. Það er alltaf stutt í hláturinn og brosið sem bræðir mig alveg í klessu. Það er mjög auðvelt að gera Tinna mínum til geðs og það fæst alltaf með mat. Hann er mikið matargat og finnst ekkert betra en að fá kjötbollur með kartöflum og brúnni sósu eða gott lambakjöt. Reglulega lauma svo allar ömmur hans að honum ís og súkkulaðiköku (í hófi auðvitað en ég hef enga stjórn á þeim;)) og það er kannski ekkert skrítið hvað hann heldur mikið uppá þær allar. Tinni á þrjár ömmur og þrjár langömmur sem sjá ekki sólina fyrir honum, hann á föðursystur sem gera allt fyrir hann og móður/föðurbræður sem myndu held ég gera hvað sem er til að passa uppá litla gemsann sinn. Svo eru það systkinabörnin sem eru fyrirmyndirnar hans Tinna í lífinu, í hvert sinn sem hann sér eitthvert þeirra ljómar litli kallinn minn upp. Afarnir dekra líka við elsku yndislega strákinn sinn og keppast um að dást að fallega stráknum sínum. Svo eru það dásamlegu dagmömmurnar hans sem ég veit ekki hvar ég væri án, ég er líka svo þakklát að fá að ala son minn upp með yndislegu Ingu og Elfu (auðvitað Aðalsteini líka).

Fyrir ykkur sem vitið það ekki þá er ég í sambúð með besta dansara í heimi. Sonur minn lítur ekki bara alveg eins út og pabbi sinn heldur erfði hann taktinn frá honum. Þeir dilla reglulega bossunum í takt og uppáhalds augnablikin mín í lífinu eru þegar ég er með þeim. Þeir tveir eru mín fjölskylda og ég veit satt að segja ekki hvar ég væri án þessara gullmola sem ég ætla að njóta þess að eyða ævinni með. Tinni Snær lítur mikið upp til föður síns og hann er frábær fyrirmynd og besti pabbi í heimi.

Fyrsta árið í lífi barns er ofboðslega viðburðarríkt og þegar maður pælir aðeins í því þá er þetta ár ábyggilega það mikilvægasta í lífi hvers einstaklings. Þetta er árið þar sem þau uppgötva hvað er að elska, ég er sannfærð um það að sonur minn elskar fólkið sem ég tel hér upp að ofan útaf lífinu og svo miklu fleiri. Þau uppgötva kraftinn sem þau búa yfir, kraftinn sem þau þurfa til að velta sér á bak eða maga, toga sig upp, standa sjálf, taka fyrstu skrefin og að sjálfsögðu kraftinn sem þau búa yfir þegar kemur að því að fá alla í kringum sig til að gera það sem þau vilja. Þau uppgötva að þau eru sjálfstæðir einstaklingar með skoðanir sem eru mögulega ekki alveg þær sömu og mamma og pabbi hafa. Þau uppgötva heiminn og umhverfið í kringum sig, það hefur verið magnað að fylgjast með Tinna fatta allt í kringum sig, hvort sem það eru hendurnar, fæturnir, umhverfið já eða þegar hann fattaði að strákurinn sem brosti svo fallega til hans í speglinum væri mögulega hann sjálfur. Þau uppgötva hvort annað, Tinni Snær á fullt af vinum, ekki bara hjá dagmömmunni heldur líka í mömmuhópnum mínum yndislega. Það er dásamlegt að fylgjast með þessum börnum byrja að leika saman og tjá sig hvort við annað. Þau uppgötva það hvernig þau geta tjáð sig, hvort sem það er með ópum, gráti, hlátri, handabendningum eða orðum. Tinni Snær er nú ekki mikið fyrir að tjá sig. Eins og er eru það orðin mamma, api (pabbi) og gobbedígobb sem öll dýr hvort sem þau eru hestar eða ekki segja, eða alla vega samkvæmt Tinna mínum.

Ég hef svo sannarlega notið þess að vera með Tinna fyrsta árið í lífi hans og er svo spennt að hefja nýtt ár með yndislega syni mínum sem ég elska meira en allt annað í lífinu.

Fyrir ári síðan var ég búin að vera uppá spítala með hríðir 27 tíma. 5 tímum áður missti ég vatnið svo biðin eftir barninu var ansi löng og stundum þegar ég hugsa til baka finnst mér magnað hvað þetta tók stuttan tíma svona eftir á en mér fannst ég beinlínis vera í marga mánuði uppá spítala. Fæðingin var ótrúlega erfið eða það segja mér alla vega allir sem hafa heyrt fæðingarsöguna og læknarnir og ljósurnar á spítalanum. Fæðingin tók já rúma 30 tíma, innihélt mænudreifingu, drip, sýklyf í æð, hita í fæðingu, sogklukku, mikinn blóðmissi, vesen með þvagblöðru sem endaði með 3 lítra blóðgjöf og svo miklu miklu meira. En vitiði hvað þetta var bara eiginlega ekkert mál og ég myndi hiklaust gera þetta aftur. Þetta er það magnaðasta sem ég hef nokkurn tíman gert á ævinni og ég upplifði mig sem ódauðlega manneskju sem gæti gert allt – fyrst hún gat komið 17 merku barni útum klofið á sér. Ég mæli hiklaust með þessu og ég hlakka til að gera þetta aftur.

Ég hef sagt frá því að ég var með ljósmyndara viðstaddan fæðignuna mína. Hún Aldís Pálsdóttir myndaði alla fæðinguna fyrir íslenska meðgöngubók og ég fékk leyfi hjá henni til að birta nokkrar myndir fyrir ykkur til að sjá. Aldísi verð ég ævinlega þakklát fyrir þessar dásamlegu myndir sem eru okkur Aðalsteini ómetanlegar og eru fallegasta minningin um fæðinguna. Svo eru þær líka mín sönnunargöng fyrir því að hafa getað gert þetta. Aldís veitti mér líka ómetanlegan stuðning í fæðingunni sem ég mun aldrei geta þakkað henni fyllilega fyrir, hún leiðbeinti mér í gegnum allt, hélt í höndina á mér, strauk mér þegar tárin renndu niður kinnarnar og hvatti mig áfram þegar ég var við það að gefast upp. Við Aldís erum svo sannarlega tengdar órjúfanlegum böndum og mér finnst eiginlega eins og hún hafi verið mín „fairy godmother“ í fæðingunni. Takk Aldís fyrir allt saman.

Hér fáið þið að deila með mér ómetanlegum augnablikum úr lífi mínu.

Ljósmyndari

Hér er ég nýkomin á spítalann, með bara rúma 2 cm í útvíkkun. En þar sem ég hafði misst vatnið þá vildu ljósmæðurnar halda mér inná á spítalanum.

Ljósmyndari

Hér er ég komin með mænudeyfingu og drip mörgum klukkutímum eftir að fyrri myndin er tekin. Yndislegi unnustinn minn var stoð mín og stytta í gegnum alla fæðinguna, án hans hefði ég aldrei getað fætt þetta barn.

Ljósmyndari

Eftir rúma 30 tíma hríðir var ég orðin örmagna. Ég vissi ekki hvar ég átti að fá kraft til að fæða barnið mitt. Það lá við að ég fagnaði þegar læknarnir komu inn með sogklukkuna. Loksins sá ég fyrir endann á þessari fæðingu. Þarna er klukkan 09:13, tæpum klukkutíma seinna lá ég með soninn í fanginu.

Ljósmyndari

Lítið andlit á fullkomnum prinsi lætur loksins sjá sig eftir alltof langa bið. Að fá að fæða barn á eðlilegan hátt verð ég ævinlega þakklát fyrir. Ég fann fyrir kraftinum sem ég bjó yfir þegar ég fann hann fara í gegnum leggöngin. Þetta var versti sársuki sem ég hef fundið en vá hvað þetta var magnað. Ég fattaði hvað það var sem gerir það svo einstakt að vera kona, það er að fá að gera þetta.

Ljósmyndari

Hér sjáið þið svipinn á okkur þegar við heyrðum soninn gráta í fyrsta sinn. Fallegustu hljóð sem nokkurn tíman hafa heyrst.

Ljósmyndari

Yndislegi prinsinn okkar loksins kominn til okkar.

Ljósmyndari

Fallegastur í heimi geimi.

Mig langar að taka fram að þessar myndir má á engan hátt nota eða birta nokkurs staðar nema með leyfi mín og Aldísar Pálsdóttur ljósmyndara.

Að lokum langar mig að óska fullkomna prinsinum mínum innilega til hamingju með 1 árs afmælið. Takk fyrir að vera besti sonur sem nokkur móðir gæti óskað sér. Svo langar mig að sjálfsögðu að þakka yndislega unnustanum mínum fyrir besta ár lífs míns, fyrir fallega son okkar, fyrir að vilja eignast fjölskyldu með mér og eyða lífinu með mér alltaf.

EH

Leyndarmál Makeup Artistans: Sjálfbrúnka

Skrifa Innlegg

34 Skilaboð

 1. loa

  30. December 2013

  Þvílík dásemd <3
  Til hamingju elsku litla sæta fjölskylda <3

 2. Þóra Magnea

  30. December 2013

  Man eftir þessum degi eins og hann hafi gerst í gær! Mikið var það stórkostleg tilfinning að sjá barnið sitt verða foreldri. Ég skil þig svo vel að vera til í að gera þetta allt saman aftur því verðlaunin eru svo stórkostleg. Sjálf var ég 44 tíma að koma þér í heiminn og sjáðu verðlaunin mín!

  Tinni Snær er stórkostlegur og ég elska hann út í það óendalega. Til hamingju öll sömul með þennan fallega dreng á yndislegum afmælisdegi.

 3. Guðrún

  30. December 2013

  VÁ og aftur VÁ! FALLEGAR myndir, ég táraðist!! ég á dóttur fædda 13.12.12 og tengi svo sannarlega við allt sem þú segir. yndislegur pistill og enn og aftur, MYNDIRNAR vá sko! börnin eru allt <3
  takk fyrir þessa færslu og til hamingju með fallega Tinna Snæ :)

 4. Sigríður Tinna

  30. December 2013

  Til hamingju með sæta Tinna Snæ, þetta eru frábærar myndir!

 5. Brynja vilhjálms

  30. December 2013

  Einhver sú fallegasta bloggfærsla sem ég hef lesið fyrr og síðar. Myndirnar ykkar eru dásamlegar svo einlægar og fallegar. Mín dós er fædd 4. 12.12 og mikið sem ég gæfi fyrir svona myndir frá hennar fæðingu, þvílíkur fjársjóður sem þið eigið :)
  Til hamingju með fyrsta afmælið hans Tinna Snæs! :)

 6. Alma Rún Pálmadóttir

  30. December 2013

  Vá falleg færsla elsku Erna!! Og til hamingju með gullmolann :* hann er svo æðislegur :) og fallegar myndir <3

 7. eyrún

  30. December 2013

  vá, þessar myndir eru æðislegar! til hamingju með soninn.

 8. Hildur

  30. December 2013

  Til hamingju með daginn! Les bloggið þitt reglulega og hef mjög gaman af, þessar myndir eru dásamlega fallegar :-)

 9. Ösp Jónsdóttir

  30. December 2013

  yndislegar myndir, til hamingju með hann :)

 10. Sigríður Dóra Karlsdóttir

  30. December 2013

  Vá hvað þetta var mögnuð færsla hjá þér,sit hérna með tárin í augunum :)Takk fyrir að deila með okkur þessum mögnuðu myndum úr fæðingunni ,ég fæ alveg gæsahúð og fer í huganum að rifja upp mínar eigin fæðingar,á fjóra stráka og á aldrei eftir að fá að upplifa að fæða barn aftur,eins og þetta er hrikalega sársaukafullt þá er þetta svo mögnuð upplfiun og ég er svo þakklát fyrir að mínar fæðingar hafi gengið svona vel.
  Innilegar hamingjuóskir með soninn og takk fyrir alveg magnað blogg :)

 11. Aldís

  30. December 2013

  Innilega til hamingju með daginn ykkar !!!! Er hálf orðlaus <3 Er svo þakklát fyrir að hafað fengið að vera með ykkur á þessari merkilegustu stundu lífs ykkar !! Og að þessar myndir séu til, er bara já – ó svo merkilegt ! Fullt af ást til ykkar ** man þennan magnþrunga sólarhring, eins og hann hefði verið í gær !! . .. þarf að skrifa hann niður fyrir ykkur <3

  kærleikskveðja ** Aldís

 12. Bylgja Dögg

  30. December 2013

  Æðisleg færsla, ég rifja upp mínar þrjár fæðingar og fæ tár í augun, þetta er svo stórkostleg upplifun. Ótrúlega fallegar myndir :) Til hamingju með afmælisprinsinn þinn :)

 13. Halla Björg

  30. December 2013

  Vá, það er það fyrsta sem kemur upp í hugann. Ég þekki þig ekki en les bloggin þin reglulega. Ég sit hinsvegar með tárin í augunum yfir þessari færslu. Myndirnar eru ótrúlegar, alveg virkilega fallegar.
  Til hamingju með soninn.

 14. Helena Guðlaugsdóttir

  30. December 2013

  Vá æðislegt. Tengi svo við allt sem þú skrifaðir. Á sjálf 3 börn og það að fæða barn er alveg magnað og yndislegt. Til hamingju með fallegu strákana þína :)

 15. Katrín

  30. December 2013

  Vá hvað þetta er ótrúlega falleg færsla. Ég þekki þig ekki neitt en les bloggið þitt og aldrei áður hef ég kommentað á færslur hjá fólki sem ég þekki ekki, en ég gat ekki sleppt því í þetta skiptið!

  Þessi færsla er sú allra fallegasta og hjartnæmasta sem ég hef lesið, ég sit eftir með tárin í augunum. Ég tengi svo mikið við það að finnast maður vera ódauðleg og geta allt eftir að hafa fætt barn, ég upplifði þetta nákvæmlega sama :)

 16. Agnes

  30. December 2013

  Innilega til hamingju með mola <3

 17. Dagný

  30. December 2013

  Falleg færsla um son þinn, innilega til hamingju með hann :) er ófrísk sjàlf og þessi skrif og myndirnar eru mèr hvatning og èg nànast tàraðist :) mikið hlakka ég til að upplifa allt þetta…til lukku aftur :)

 18. Þóra

  30. December 2013

  Innilega til hamingju með fallega drenginn þinn. Ég á eina skottu sem verður 2 ára 26.janúar og mitt fyrsta og eina barn. Þetta er það allra magnaðasta sem ég hef gert um ævina – að ganga með hana og fæða hana. Takk fyrir að deila þessum myndum með okkur og sögunni. Yndislega fallegar myndir og falleg skrif um gersemina þína.

 19. Birna

  30. December 2013

  Va tessar myndir eru magnadar, sit med tar I augum herna ad lesa tessa faerslu. Min einkadottir er faedd 30.04.12 og eg a einmitt fullt af myndum og myndband af sjalfri faedingunni sem er mer ometanlegt. Takk fyrir ad deila tessu med okkur og til hamingju med drenginn!

 20. Sandra

  31. December 2013

  Frábær færsla :) Magnað að lesa þetta..
  Til hamingju með Tinna Snæ :)

 21. Tinna

  1. January 2014

  Váá! Til lukku með þennan fallega dreng!
  Ef ég á að vera hreinskilin verð ég að seigja að ég er hálfpartinn svona stolt af þér fyrir að hafa sett þessar myndir hérna inná! ég þekki þig ekki neitt en les bloggið þitt næstum daglega, þessar myndir sýna mér svo mikla hlýju og þýða svo mikið, Mér finnst alveg magnað að þú hafir sett þessar myndri inn því að það eru alls ekki margar konur sem að myndu gera það, en þetta er samt svo eðlilegur og fallegur atburður!
  Ert svo frábær manneskja og haltu áfram að vera það!

 22. Baldvin Mar Smarason

  2. January 2014

  Við eigum von á okkar fyrsta barni á hverri stundu (erum sett 19 jan).

  Ég reyndi mitt besta að þýða þessa grein fyrir konuna, sem er bandarísk og vildi hrósa þér. Þetta var nákvæmlega það sem við þurftum að heyra. Einlæg og jarðbundin grein sem ég held að allar tilvonandi foreldrar hafi gott af að lesa.

  Þú ættir að gefa þér tíma til að þýða greinina yfir á ensku, þar sem það er mikil vöntum á svona greinum (jafnvel Huffington Post parents).

  • Reykjavík Fashion Journal

   2. January 2014

   Takk kærlega fyrir falleg orð elsku Baldvin! Hver veit nema ég geri það:) Gangi ykkur ótrúlega vel það eru svo spennandi tímar framundan hjá ykkur :D

 23. Svanhildur

  3. January 2014

  Dásamlegar myndir… heppin að eiga svona ;) Til hamingu með afmælið hans Tinna :) knús og kram

 24. Carmen Maja

  3. January 2014

  Ó jeminn hvað þetta eru fallegar myndir ! :)

 25. Guðrún Birna le Sage de Fontenay

  20. February 2014

  Jiii ég sit bara hér og grenja fyrir framan tölvuna í vinnunni, var að rekast á þessa færslu fyrst núna, falleg færsla og yndislegar myndir, þú ert ekkert smá flott mamma og fyrirmynd, ég þekki aðeins Aðalstein og get rétt ímyndað mér að hann sé líka æðislegur pabbi ;)

  Til hamingju með ykkur xxx

 26. Þorbjörg

  5. November 2014

  Vá hvað þetta eru æðislegar myndir :) Þú ert alveg einstök Erna Hrund ,Fullkomin fyrirmynd :)
  Maður fellir bara tár við svona lestur ;)