fbpx

Nýtt ár: Hvað er í boði?

ÆfingarDansHeilsaRVKfitWorld Class

Hvort sem fólk strengir áramótaheit, setur sér ný markmið eða er bara að halda áfram í rútínu frá fyrra ári þá eru áramótin einhvernveginn alltaf ákveðin tímamót.

Ég æfi allan ársins hring og er það fastur liður í minni rútínu og ekki einhver kvöð eða neitt sem mér finnst ég “þurfa” að gera heldur er það eðlilegur partur af mínu daglega lífi. Einsog ég hef margoft sagt hér inná þá er það að æfa fyrir mér alveg jafn mikið fyrir andlegu vellíðanina eins og líkamlegan ávinning. Þegar maður ræktar líkama og sál hefur það áhrif á alla aðra þætti lífsins enda góð heilsa undirstaða þess. Þegar kemur að áramótum og nýju ári er ég ekki endilega að breyta miklu hjá mér en þetta verður samt alltaf tími þar sem ég sest niður og skipulegg komandi tíma og eru æfingar hluti af því.

Það eru margir ýmist að byrja á núllpúnkti, koma sér aftur af stað eða að halda áfram en sama á hvaða stað þú ert þá er fjöldinn allur af mismunandi formi æfinga í boði og ættu allir að geta fundið eitthvað sem hentar. Það þarf líka oft að prófa marga ólíka hluti áður en maður dettur inná það sem hentar manni sjálfum og því um að gera að vera opinn fyrir að prófa nýja hluti og ögra sjálfum sér svolítið. Persónulega er ég mjög dugleg að breyta til þegar kemur að æfingum – þetta er bæði vegna þess að mér finnst gaman að prófa ólíka hluti og er spennt fyrir mörgu en þetta er líka það sem heldur mér við efnið þegar kemur að æfingum og heilbrigðum lífsstíl. Að festast ekki í einhverju einu heldur koma líkamanum á óvart og bæta þannig árangurinn. Núna í vikunni er ég til dæmis að byrja í þjálfun hjá Indíönu Nönnu sem ég hef verið mjög spennt fyrir og hlakka til að prófa eitthvað nýtt.

Þar sem ég hef verið dugleg að prófa mig áfram í æfingum síðustu ár er ég komin með góða reynslu af ýmsum kostum þegar kemur að æfingum og þjálfun. Mig langaði að fara yfir nokkra kosti sem eru í boði og vona að það geti nýst einhverjum sem eru óvissir hvað skuli gera í ræktinni á nýju ári!


MGT – MGT, eða Metcon Group Training, er nafnið á hópþjálfun hjá Birki Vagni í Laugum. Fyrir utan að vera enn hjá honum í MGT alla föstudagsmorgna með “Föstudagshópnum” mínum þá tók ég nóvember og desember all in hjá honum. Hver einasta æfing er hörkuæfing og maður kemst ekki upp með að slaka mikið á hjá Birki. Þrátt fyrir að vera auðvitað fyrir alla myndi ég mæla með MGT fyrir þá sem eru frekar vanir að æfa.

Mark Johnson – Mark er einkaþjálfari í World Class Kringlunni. Mark er fyrrum stangastökkvari og frjálsíþróttamaður frá Bandaríkjunum og skín reynslan og fagmennskan í gegn í æfingunum hjá honum. Ég hef aldrei náð eins miklum árangri og hjá honum hvað styrk og tækni varðar. Ég byrjaði hjá honum ein fyrir rúmu ári og með tímanum fóru vinkonur mínar að mæta með. Við stelpurnar í RVKfit vorum síðan allar saman í þjálfun hjá honum í sumar sem var ótrúlega gaman. Vegna vinnu og skóla datt ég aðeins útúr þjálfun hjá honum í haust en er að byrja aftur núna í vikunni. Ég verð hjá Mark 1x í viku samhliða þjálfuninni hjá Indí en hjá honum er ég mest að einblína á tæknilegar æfingar.

Hilmar Björn – Hilmar Björn, eða Bjössi, er einkaþjálfari í World Class Laugum sem ég var í þjálfun hjá í um tvö ár ásamt RVKfit stelpunum – en í þeirri þjálfun varð RVKfit snappið einmitt til þar sem við vinkonurnar vorum alltaf að æfa saman! Bjössi er með ótrúlega mikið af skemmtilegum jafnvægis- og bodyweigth æfingum og vinnur mikið með BOSU bolta, æfingabolta, teygjur, TRX-bönd og fleira í bland við tækin og get ég ekki annað en mælt með honum!

Indíana Nanna – Indíana hefur verið vinsæll Tabata kennari hjá World Class og er núna að byrja á fullu með hópþjálfun í World Class Kringlunni og í Laugum. Ég hef fengið að mæta nokkrum sinnum til hennar í þjálfun og er núna í vikunni að byrja hjá henni 3x í viku með vinkonum mínum og er ekkert smá spennt! Indí er mjög fagleg í því sem hún gerir og byggir æfingarnar sínar skipulega upp og pælir í tækninni. Hópþjálfunin hjá henni er 3x í viku og svo gefur hún okkur einnig eina aukaæfingu til að gera um helgi. Þjálfunin byrjar núna á þriðjudaginn og ég HELD að það séu nokkur pláss enn laus en hægt er að hafa samband við hana í gegnum instagram @indianajohanns.

Hlaupaprógram – Indí býður einnig uppá mánaðarhlaupaplan þar sem hvert hlaup er skipulega sett upp og planinu fylgja ýmsar leiðbeiningar og “tips” fyrir hlaup. Planið er tilvalið til að koma sér af stað í hlaupum eða til að taka samhliða almennum æfingum. Ég hef sjálf ekki gert planið en það sem ég hef heyrt og séð af á instagram lofar virkilega góðu! Ég er vön hlaupum en hef ekki verið að hlaupa steady í vetur. Núna ætla ég að fylgja prógraminu hennar samhliða þjálfuninni og hlakka til að deila með ykkur á mínum samfélagsmiðlum hvernig gengur. Það er hægt að senda henni skilaboð á instagram til að kaupa planið.

WorldFit – WorldFit er mánaðarnámskeið þar sem kennt er 3x í viku. WorldFit er kennt í stóra “free training” salnum í Kringlunni, Svarta Boxinu, en þar finnst mér skemmtilegast að æfa. Í WorldFit eru æfingarnar mjög tæknilegar en erfiðleikastigið aðlagað að hverjum og einum – meira hér: https://www.worldclass.is/namskeid/styrkur/worldfit/

Opnir tímar – Framboðið af opnum tímum er ótrúlegt. Persónulega finnst mér opnir tímar ótrúlega góð lausn þegar kemur að æfingum og er ekkert smá hvetjandi að nota skráningarkerfið á heimasíðu World Class til að skipuleggja æfingavikuna. Þegar maður er búinn að skrá sig er muuun líklegra að maður sé að fara að mæta! Það eru ekki allir sem hafa tíma til að vera í einkaþjálfun eða hentar þeim ekki að vera í ákveðinni þjálfun aukalega en inni í æfingakortinu fylgir aðgangur að öllum opnum tímum á stundaskrá og því tilvalið að nýta sér það sem í boði er. Þarna kynnist maður ólíkum æfingakerfum og þjálfurum og því um að gera að prófa sig áfram með tíma – það er líka mjög gaman að æfa í hóp. Þeir tímar sem ég fýla og mæti mest í eru; tabata, hot yoga, body toning (í heitum sal), buttlift og svo fer ég einstaka sinnum í spinning.
Telma Rut vinkona var að byrja að kenna buttlift í Laugum og Ingibjörg Thelma vinkona kennir Coach by Color (spinning) í Smáralindinni en þær eru báðar á mán- og miðvikudögum. Ég mæli að sjálfsögðu með því að kíkja til þeirra!

Úrval opinna tíma í World Class má sjá hér: https://www.worldclass.is/timatafla/

SWEAT with Kayla – SWEAT with Kayla er æfingaprógram í formi símaapps sem ég fylgdi fyrir um þremur árum þegar ég var ekki í ákveðinni þjálfun. Æfingarnar eru stuttar og hnitmiðaðar og fýlaði ég þær vel. Appið kostar, ég er ekki alveg klár á hversu mikið núna, en fyrir þá sem eru að leita af æfingaprógrami til að fylgja sjálfir í ræktinni er SWEAT fínn kostur.

Dansstúdíó World Class – Þar sem ég elska að dansa og hef æft dans síðan ég var þriggja ára get ég ekki annað en skotið dansnámi hér inní. Fyrir mér er það að fara á dansæfingu ekki einsog að fara í “ræktina” heldur eintóm skemmtun þar sem það að svitna og taka vel á því er bara bónus! Það sem ég elska líka við dansæfingar er hversu fjölbreytt hreyfingin er en ég finn einna helst fyrir því þar sem ég fæ harðsperrur á skrítnustu stöðum eftir dansæfingar. Fyrir þá sem eru kannski ekki all in í dansi en langar að dansa, svitna og skemmta sér eru 20+ tímarnir í Laugum mjög góður kostur en þeir eru dans- og tæknilega séð ekki eins erfiðir og venjulega dansnámið heldur hugsaðir fyrir þær sem t.d. æfðu dans sem krakkar og langar að dansa aftur. Æfingakort í World Class er innifalið í dansnáminu hjá DWC og því tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi.

Ég er alltaf að dansa inn á milli og tek enn þátt í ýmsum verkefnum tengd dansinum þrátt fyrir að vera ekki ennþá eins all in og ég var á menntaskólaárunum – þar sem ég dansaði í Nemóleikritunum og nánast öllu sem ég gat dansað í í Verzló! Eitt af markmiðunum mínum þetta ár er að vera duglegri að mæta á dansæfingar og taka fleiri dansverkefni að mér þar sem mér finnst það alltaf jafn gaman. 


Það er fjöldinn allur af öðrum þjálfunum, tímum o.s.frv. í boði en mig langaði að segja ykkur frá því sem ég sjálf hef reynslu af og get mælt með xx

Mottó 2018? Just do it!

 

xx

Birgitta Líf
instagram & snapchat: birgittalif

Síðustu dagar 2017

Skrifa Innlegg