fbpx

Kína: Part I

66° NORTHLífið

Ni hao frá Kína

xx

Þetta blogg kemur líklega inn um miðja nótt á Íslandi vegna þess að ég er stödd nánast hinumeginum á hnettinum, eða í Jinan, borg í Shandong héraði í Kína. Líkt og fyrir akkúrat ári síðan fékk ég aftur tækifæri til að heimsækja Kína, þetta magnaða land, á vegum Ungfrú Ísland þar sem ég er framkvæmdarstjóri og fylgi stúlku frá Íslandi hingað út til að taka þátt í Miss Globalcity.

Ég bloggaði um ferðalagið á síðasta ári hér en í ár er það Telma Rut, ein af mínum bestu vinkonum, sem tekur þátt í Miss Globalcity fyrir hönd Íslands en hún var í Ungfrú Ísland 2016. Það er virkilega dýrmætt fyrir okkur að upplifa þetta ævintýri saman og gott að hafa hvor aðra þar sem hlutirnir (og þá sérstaklega maturinn!!) og menningin hér er virkilega ólík öllu heima. Þrátt fyrir að finnast maturinn ekki mjög geðslegur og margt skrítið hérna þá er ekkert smá gaman að fá að ferðast um heiminn, sjá öðruvísi hluti og kynnast fólki frá öllum heimshornum. Ég þurfti að minnsta kosti ekki að hugsa mig tvisvar um þegar ég fékk aftur boðið um að koma út í ár. Í fyrra vorum við í Shanghai en núna erum við í Jinan. Jinan er ekki jafn mikil stórborg og Shanghai og mér finnst ég vera að upplifa ennþá meiri local hluti hérna – ég “þekki” líka betur hvernig allt virkar hérna núna og er óhræddari við að fara bara sjálf út og skoða mig um.

Ferðalagið var um 25 klukkutímar en við Telma steinsváfum báðar í lengsta fluginu, um 11 tíma, svo að ferðalagið var frekar þægilegt. Það endaði þó á því að taskan mín kom ekki og það var hægara sagt en gert að reyna að hafa samskipti við fólkið á flugvellinum sem talaði enga ensku. Þegar tveir dagar voru liðnir og ekkert bólaði á töskunni minni endaði ég á því að hringja heim á Keflavíkurflugvöll og dömurnar hjá IGS voru svo yndislegar og fundu út að taskan mín var stödd í HongKong og átti að koma til Jinan daginn eftir – þær gerðu alveg daginn minn enda átti ég afmæli daginn eftir, þann 19 október! Besta afmælisgjöfin var klárlega að fá dótið mitt og NESTIÐ: Nocco, Froosh og bollasúpur sem halda mér á lífi hérna haha…

Afmælisdagurinn var yndislegur. Við skoðuðum nokkra fallega staði hér í borginni og um kvöldið héldu stjórnendur Miss Globalcity smá afmælisboð fyrir mig og Telmu, en hún átti svo afmæli þann 20. október. Það að vera svona langt í burtu frá Íslandi, fjölskyldu og vinum á afmælinu fær mann virkilega til að hugsa um allt sem maður hefur og ég fer þakklát og glöð inn í tuttugasta og sjötta aldursárið!

Ég sit núna og fylgist með æfingu fyrir lokakvöld Miss Globalcity en þar sit ég aftur í dómarasæti og fer keppnin fram eftir tvo daga. Þetta er allt saman dýrmæt upplifun en ég hlakka samt mjög til að koma heim xx

Þangað til næst, xiéxié.

xx

Birgitta Líf
social media: @birgittalif

Heimsókn til Sigurðar Sævars

Skrifa Innlegg