fbpx

Heilsuspjallið: Jórunn Ósk

ÆfingarHeilsaRVKfit

Næsti viðmælandi í Heilsuspjallinu er mín besta vinkona og æfingafélagi, Jórunn Ósk. Það er vel við hæfi að spjalla við hana um heilsu og hreyfingu enda kynntumst við bókstaflega í ræktinni fyrir nokkrum árum þegar við byrjuðum að hlaupa saman fyrir hálfmaraþon og er hún í dag ein af mínum bestu vinkonum. Jórunn er ótrúlega dugleg á æfingum og hvetur mig alltaf áfram – maður kemst ekkert upp með að sleppa því að mæta á æfingu með henni!

Hver er Jórunn?

Jórunn Ósk heiti ég og er 25 ára gömul. Ég er með BSc próf í Viðskiptafræði úr Háskóla Íslands og starfa sem samfélagsmiðlastjóri hjá heilsu- og íþróttadeild Icepharma ásamt því að vera ritstjóri H Magasín.

@jorunnosk á Instagram, RVKfit á Snapchat og nýlega byrjuð að blogga inná rvkfit.is

 

Hversu oft æfir þú í viku og hvernig?

Ég reyni að æfa 6x í viku, einungis vegna þess hve skemmtilegt mér finnst það. Mér finnst samt nauðsynlegt að taka allavega einn hvíldardag í viku og hlusta alltaf vel á líkamann. Eins og er tek ég hlaupaæfingu/sprettæfingu 3x í viku og styrktaræfingu 2x í viku með Mark þjálfaranum okkar, á laugardögum tek ég svo alltaf einhverja skemmtilega æfingu sem getur verið allavega. Við stelpurnar höfum verið duglegar að fara upp í Kringlu og taka einhversskonar Tabata æfingu og leikum okkur svo eitthvað eftirá. Ég veit ekkert skemmtilegra en að æfa í góðum félagsskap. Stundum stelst ég svo til þess að mæta til Birkis í MGT tíma eða hópþjálfun hjá Indíönu en mér finnst mjög gaman að mæta í allskyns hópatíma.

 

Hvað gerir þú til að koma þér í gírinn fyrir æfingu?

Tónlist kemur mér yfirleitt alltaf í gírinn. Lengi vel var ég vön að gíra mig upp fyrir æfingar með einhverjum koffín drykkjum en í byrjun þessa árs ákvað ég að minnka aðeins koffín neysluna og það bitnar alls ekki á æfingunum hjá mér. Þetta er bara eitthvað sem ég var búin að venja mig á og var alls ekki nauðsynlegt fyrir mig, núna hef ég miklu meira úthald á æfingum því það er engin hætta á að ég “crashi”. Það er þó alltaf mjög peppandi að vera með eitthvað í brúsanum fyrir æfingar, þá hef ég verið að velja Amino Power pre-workoutið frá NOW en það inniheldur ekki mikið magn af koffíni og er gott fyrir úthald og endurheimt.

 

Hver er uppáhalds æfingin þín?

Hnébeygja hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi, það er hægt að leika sér með allskonar útfærslur og svo er hægt að gera hana með eða án þyngdar. Annars hef ég verið ansi handstöðu sjúk uppá síðkastið og finnst mjög gaman að vippa mér á hvolf og reyna að halda handstöðunni eins lengi og ég get. Næsta markmið er að geta labbað á höndum.

 

Hversu lengi hefur þú haft áhuga á heilbrigðum lífsstíl og stundað líkamsrækt?

Ég hef engan íþróttabakgrunn og labbaði inn í líkamsræktarsal í fyrsta sinn þegar ég var 17 ára. Þá fannst mér það bara frekar leiðinlegt en eftir einhvern tíma þá var þetta bara orðin hluti af lífsstílnum og í dag gæti ég ekki ýmindað mér líf mitt án þess. Áhuginn jókst svo bara með árunum, mjög líklega vegna þess að maður varð fróðari um hvað heilsan skiptir mann miklu máli en líka vegna þess að manni líður svo miklu betur andlega og líkamlega þegar að maður hugar vel að heilsunni og hreyfir sig.

 

Viltu deila með okkur einhverju góðu ráði? 

Það sem kom mér almennilega af stað í ræktinni var félagsskapurinn. Mér finnst ómetanlegt að eiga góða æfingu með vinkonum og veit varla neitt skemmtilegra. Ég hef því alltaf sótt í að æfa í einhversskonar hóp, hef mjög gaman af öllum hóptímum og hópþjálfun.

Eina ráðið sem ég gæti gefið væri að setja sér raunhæf markmið sem auðvelt er að fylgja eftir og setja sér niður eitthvað prógram. Í dag hefur maður svo góðan aðgang að allskyns prógrömmum í gegnum netið sem auðvelt er að fara eftir og halda manni vel við efnið. Ég hef notað mikið NTC – Nike Training appið sem og NTR – Nike Running appið.

 

Hvaðan færð þú inspo og motivation?

Ég held það sé bara fólkið í kringum mig sem að hvetur mig mest áfram.

 

Eru einhverjir á samfélagsmiðlum sem þú mælir með að fylgjast með til að fá hugmyndir að æfingum og hvatningu?

Ég hef lengi fylgst með @kirstygodso en hún er Nike master trainer og er því alger Nike-ari og setur oft inn skemmtilegar æfingar.

 

Fylgir þú einhverju sérstöku matarræði?

Nei það hefur aldrei hentað mér að setja mér einhver boð eða bönn hvað varðar mataræði. Ég reyni alltaf að velja hollari kostinn og reyni að borða það sem mér líður vel af. Annars er ég alger sælkeri og nýt þess mjög að borða góðan mat og auðvitað leyfi ég mér það :)

 

Notar þú einhver fæðubótarefni? 

Ég tek alltaf inn vítamín, núna er ég að taka EVE fjölvítamínið fyrir konur frá NOW, D-vítamín, hvítlaukstöflur sem eru bólgueyðandi og hafa hreinsandi áhrif og Rhodiola sem á að draga úr stressi og hafa góð áhrif á hugræna getu. Ásamt þessu tek ég oft inn góðgerla sem hafa góð áhrif á meltinguna og hörfræolíu sem hefur marga kosti en hún smyr líkamann að innan sem utan og er því góð fyrir liðina, húð, hár og neglur til dæmis.

Eins og ég kom svo inná hér fyrir ofan þá drekk ég stundum pre-workout fyrir æfingar en þá vel ég Amino Power frá NOW sem hentar vel fyrir mig.

 

Hvert er þitt guilty pleasure?

Örugglega ekkert ‘guilty’ pleasure, heldur bara pleasure. Ég elska ekkert meira en pizzur. Held að allir sem þekki mig viti hversu mikill pizzu aðdáandi ég er.

 

Lumar þú á góðri uppskrift sem þú vilt deila með lesendum?

Ég er mjög einföld þegar það kemur að mat og því luma ég ekki á mörgum uppskriftum. Mig langar því frekar að deila með ykkur skemmtilegri sprettæfingu sem ég tek oft þegar ég veit ekki hvað ég á að gera í ræktinni:

1x 800m

2x 400m

1x 600m

2x 300m

1x 400m

2x 200m

1x 200m

2x 100m

1 mín hvíld á milli spretta

 

Lokaorð?

Takk kærlega fyrir mig og hlakka til að fylgjast með næstu viðmælendum!

 

 

Ég get tekið undir það með Jórunni að sprettæfingin sem hún deildi er mjög skemmtileg og tekur vel á en við höfum tekið hana nokkrum sinnum saman, mæli með!

xx

Birgitta Líf
social media: @birgittalif

Einkaþjálfunarréttindi

Skrifa Innlegg