fbpx

Dumlefylltar cupcakes með Tyrkisk Peber súkkulaðikremi

HeimiliðUppskriftir

Já þið lásuð rétt og já þær eru jafn góðar og þær hljóma!

Ég fékk á dögunum skemmtilegt verkefni í samstarfi við Fazer sem gekk útá það að nota Dumle og Tyrkisk Peber í bakstur. Eins og þið vitið eflaust þá elska ég að baka og þurfti því ekki að hugsa mig tvisvar um að taka þátt í þessu verkefni. Það kom líka á afar hentugum tíma þar sem ég átti eftir að vígja fallegu hrærivélina mína í nýju íbúðinni!

Ég rak augun í þessa koparlituðu Kitchen Aid vél í Byggt og búið í Kringlunni um daginn en ég hafði einungis séð svona koparútgáfu erlendis og vissi ekki að þær fengjust hér heima. Það er kannski ekki í forgangi hjá öllum að eignast Kitchen Aid þegar maður flytur að heiman en fyrir manneskju einsog mig sem notar hrærivél mjög mikið og baka oft þá varð ég að eignast eitt stykki. Þessi koparlitaða kallaði á mig í búðinni og var mamma síðan svo yndisleg að gefa mér hana í innflutningsgjöf xx

Ég deildi uppskrift hér inná af Lakkrísbombunni minni í haust og var það mest lesna færslan mín á síðasta ári – ég ætla því að sjálfsöguðu að deila þessari með ykkur líka. Í þeirri færslu talaði ég um leynihráefnið í botnunum mínum og hvernig ég nota tilbúið kökumix í botninn en geri kremin frá grunni. Baksturinn heppnaðist mjög vel en eftir smá brainstorm um hvernig ég ætti að nota hráefnin ákvað ég að gera bollakökur með Dumlefyllingu og nota Tyrkisk Peper útí kremið og ofaná sem skraut. Mæli með!

Botninn

1 pk Betty Crocker súkkulaðikökumix
1 pk súkkulaðibúðingur 
3 egg
Olía skv. leiðbeiningum á BC
Vatn skv. leiðbeiningum á BC
Dumle karamellur

Kökumixið og búðingurinn sett í skál og eggjum, olíu og vatni hrært við skv. leiðbeiningum á Betty Crocker pakkanum. Ég byrjaði á að setja smá deig í öll formin, setti svo Dumle karamellur í miðjuna og hellti svo deigi aftur yfir. Bakað á 180 gráðum í u.þ.b. 20 mín.

Kremið

250 g mjúkt smjör
2 egg
4 tsk vanilludropar
4 msk þykkt sýróp
4 msk bökunarkakó
700-900 g flórsykur
1 poki (eða eftir smekk) mulinn Tyrkisk Peber

Smjör, egg, vanilludropar og sýróp hrært létt saman. Hér er lykilatriði að smjörið sé vel mjúkt – það er oft gott að byrja á að hræra það sér til að mýkja upp. Bökunarkakó bætt útí og flórsykrinum er svo blandað smátt og smátt rólega saman við þangað til kremið fær þá áferð og þykkt sem þið viljið. Ég muldi brjóstsykrana niður í fínt duft (t.d. hægt að nota Nutribullet eða matvinnsluvél). Tyrkisk Peber duftinu er að lokum bætt útí eftir smekk.

Þegar kemur að kreminu skiptir að mínu mati mestu máli að vera þolinmóður og “dúlla” sér við að blanda það. Blanda fyrstu blönduna vel en rólega saman og setja flórsykurinn í litlum pörtum útí. Ég var örugglega í næstum hálftíma að blanda kremið þar til það náði þeirri áferð sem ég vildi en ég stillti hrærivélina aldrei á meiri hraða en 4-6. Ég nota “hrærarann” á KitchenAid vélina þegar ég blanda kremið. Ég muldi síðan Tyrkisk Peber gróft og setti ofaná.

xx

Ég vona að njótið vel og ykkur er alltaf velkomið að senda mér skilaboð á instagram ef þið hafið spurningar. Það væri gaman að fá að fylgjast með ef þið prófið!

xx

Birgitta Líf
instagram & snapchat: birgittalif

Skálað í miðri viku

Skrifa Innlegg

2 Skilaboð

 1. Helgi Omars

  27. March 2018

  ÉG GET EKKI BEEEEEEÐIÐ EFTIR TRENDNET KÖKUBOÐI!! Ég skal hjálpa þér!

  • Birgitta Líf

   27. March 2018

   Jei já VERÐUM!! Það verður eitthvað gómsætt mmm…