RVKfit

ÆfingarHeilsaLífiðRVKfit

Mig langaði aðeins að segja ykkur frá RVKfit enda er það líklega ein helsta ástæða þess að ég er komin hingað á Trendnet að blogga. RVKfit er hópur sem samanstendur af sjö stelpum sem hafa mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl og deila því á Snapchat undir nafninu RVKfit.

Þessar sjö stelpur eru ég og vinkonur mínar en í grunninn erum við bara vinkonuhópur sem elskum að hreyfa okkur, borða góðan mat og hafa gaman. Við höfum flestar þekkst í nokkur ár og tengjumst á mismunandi hátt innbyrðis en í rauninni kynntumst við sem hópur í World Class þar sem við vorum allar að vinna og æfa. Þetta þróaðist út í það að við vorum allar í þjálfun saman og vorum að spamma okkar eigin snöpp með æfingamyndböndum og út frá því kviknaði sú hugmynd að prófa að opna snapchat-aðgang þar sem við myndum skipta dögunum á milli okkar og sýna frá æfingum, mataræði, daglegu lífi og öðru skemmtilegu. RVKfit snappið var lítil hugmynd sem vatt uppá sig og í dag er þetta stór partur af lífi okkar allra og höfum við fengið fullt af skemmtilegum tækifærum út frá þessu – bæði sem hópur og einstaklingar.

Fylgjendahópurinn okkar stækkar með hverjum deginum og það er ekkert smá skemmtilegt að fá hrós og skilaboð sem hvetur okkur áfram að halda áfram með snappið og gera fleiri hluti út frá því. Það að heyra að við höfum hvetjandi áhrif á aðra er enn meiri hvatning fyrir okkur sjálfar á æfingum! Þrátt fyrir að hafa allar verið vanar að æfa flesta daga og huga að heilsunni held ég að ég tali fyrir hönd hópsins að áhuginn hefur bara aukist eftir að við byrjuðum með snappið og erum við duglegar að prófa okkur áfram og læra nýja hluti í ræktinni. Þrátt fyrir að rauði þráðurinn á snappinu sé heilbrigður lífstíll þá eru dagarnir okkar ólíkir enda erum við fjölbreyttur hópur af sjö stelpum með mismunandi líf og áhugamál. Ég held að fólk tengi við okkur allar á mismunandi hátt og það er akkúrat það sem gerir þetta fjölbreytt og skemmtilegt.

,,Heilbrigður lífsstíll er í okkar huga góð blanda af hollu matarræði ásamt reglulegum æfingum en við í RVKfit einblínum á jafnvægi bæði hvað varðar mat og æfingar. Það sem einkennir RVKfit er að hópurinn er fjölbreytt blanda af ósköp venjulegum stelpum sem lifa hvorki við öfgar í æfingum né mataræði. Hjá okkur skiptir jafnvægið höfuðmáli en heilbrigður lífsstíll er eitthvað sem þarf að geta viðhaldist ævilangt.”

Auk snappsins erum við með Facebooksíðu þar sem við reynum að vera duglegar að setja inn uppskriftir, æfingar og annað af snappinu þar sem það er aðgengilegt lengur en í 24 tíma.

Mig langar að kynna ykkur betur fyrir stelpunum og gera það að vikulegum lið í sumar hér á blogginu – en þangað til getið þið “kynnst” þeim og fylgst betur með okkur á snappinu. Það að eiga vinkonur sem hafa sama áhugamál er virkilega dýrmætt og einn skemmtilegasti tími dagsins er að mæta á æfingu þar sem félagsskapurinn eru bestu vinkonurnar!

xx

Birgitta Líf
instagram: @birgittalif
snapchat: birgittalif

Workout - MYNDIR

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Helga

    31. May 2017

    Ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með ykkur vinkonunum a snappinu, virkilega flottar stelpur :)