Í tilefni þess að ég varð 25 ára þann 19. október s.l. bauð ég nánustu vinkonunum í smá brunch um helgina (en ég ætla svo að halda betur uppá það þegar tími gefst). Þegar kemur að bakstri og kökum get ég alveg gleymt mér í gleðinni en ég elska að baka og er alltaf að prófa mig áfram í eldhúsinu! Þar er ég líka ekkert að spá í hollustunni heldur er ég á því að ef maður er að baka eða leyfa sér á annað borð þá verður maður að njóta þess – svo lengi sem maður gætir almennt hófs á móti.
Fyrir ári síðan bauð ég í svipaðan afmælisbrunch og prófaði þá að gera piparlakkrískrem á venjulega súkkulaðiköku sem vægast sagt sló í gegn. Eftir það hef ég gert kökuna nokkrum sinnum og alltaf breytt örlítið til og prófað mig áfram og um helgina held ég að kakan hafi verið fullkomnuð. Ég sýndi örlítið frá bakstrinum á snapchat og instagram og fékk fjölmargar beiðnir um uppskrift sem ég ætla að sjálfsögðu að deila með ykkur hér – þessa verða allir lakkrísunnendur að prófa :)
Ég bý öll mín krem alltaf til frá grunni en skammast mín ekkert fyrir það að segja að ég nota langoftast Betty Crocker kökumix í botninn nema með smá “leynihráefni” útí, en fyrir utan það að með því að nota tilbúið mix einfaldar maður og flýtir mikið fyrir sér í bakstrinum þá finnst mér kökurnar líka betri. Ég fæ allavega alltaf að heyra hvað botnarnir mínir séu mjúkir og góðir. Leynihráefnið er búðingur (t.d. Royal) en þetta er trix sem ég lærði af Berglindi á Gotterí & gersemar fyrir mörgum árum og ég hef notað síðan. Þá bætir maður einfaldlega búðing (bara duftinu, býrð ekki til “búðing”) útí kökumixið áður en blautefnunum er blandað við. Þetta gefur kökunni meiri “moisture” og “fluffy” áferð.
Nói Síríus var að koma með piparlakkrískurl í baksturinn sem ég notaði um helgina og það var ekkert smá gott. Það er að sjálfsögðu hægt að nota venjulegt lakkrískurl líka en þetta gefur smá “extra”. Ég mæli þó alltaf með að nota Nóa lakkrís í bakstur þar sem hann harðnar ekki í ofninum! Ég hef síðan keypt Dracula piparduft sem ég rakst á í Hagkaup sem er mjög bragðgott útí en það er örugglega hægt að nota hvaða piparduft sem er.
xx
Lakkrísbomba Birgittu Líf
Botninn
1 pk Betty Crocker súkkulaðikökumix
1 pk súkkulaðibúðingur
1 pk Nóa piparlakkrískurl
1 dolla piparduft
3 egg
Olía skv. leiðbeiningum á BC
Vatn skv. leiðbeiningum á BC
Kökumixið og búðingurinn sett í skál og eggjum, olíu og vatni hrært við skv. leiðbeiningum á Betty Crocker pakkanum. Þegar deigið er tilbúið er pipardufti og piparlakkrískurli blandað varlega saman við. Hellt í tvö smurð form og bakað í u.þ.b. 20 mín.
Kremið
250 g mjúkt smjör
2 egg
4 tsk vanilludropar
4 msk þykkt sýróp
700-900 g flórsykur
1-1,5 dolla piparduft
Smjör, egg, vanilludropar og sýróp hrært létt saman. Hér er lykilatriði að smjörið sé vel mjúkt – það er oft gott að byrja á að hræra það sér til að mýkja upp. Flórsykrinum er svo blandað smátt og smátt rólega saman við þangað til kremið fær þá áferð og þykkt sem þið viljið. Piparduftinu er að lokum bætt útí eftir smekk.
Lakkrískaramellan
1 poki Nóa lakkrís rjómaperlur
4 msk rjómi
Lakkrísperlurnar eru bræddar saman í potti á lágum hita ásamt rjóma. Blöndunni er hellt í litla skál og látin kólna áður en hún fer yfir kremið. Kreminu er smurt á milli botnanna og yfir alla kökuna. Piparlakkrískurli er dreift yfir kremið og lakkrískaramellunni svo slett yfir.
Þegar kemur að kreminu skiptir að mínu mati mestu máli að vera þolinmóður og “dúlla” sér við að blanda það. Blanda fyrstu blönduna vel en rólega saman og setja flórsykurinn í litlum pörtum útí. Ég var örugglega í næstum hálftíma að blanda kremið þar til það náði þeirri áferð sem ég vildi en ég stillti hrærivélina aldrei á meiri hraða en 4-6. Ég nota “hrærarann” á KitchenAid vélina þegar ég blanda kremið.
xx
Ég vona að njótið vel og ykkur er alltaf velkomið að senda mér skilaboð á instagram ef þið hafið spurningar. Það væri gaman að fá að fylgjast með ef þið prófið!
xx
Birgitta Líf
instagram & snapchat: birgittalif
Skrifa Innlegg