fbpx

Lúxusvarir ♡

Bobbi BrownNýjungar í SnyrtivöruheiminumVarir

Varalitinn fékk ég sem gjöf. Allt sem ég skrifa kemur frá mér sjálfri, ég skrifa allt af hreinskilni og einlægni.

Mig langaði að segja ykkur frá varalit, alveg ofboðslega fallegum varalit sem kemur í alveg glæsilegum umbúðum. Varaliturinn er frá hinu dásamlega fallega merki Bobbi Brown. Fyrir ykkur sem vitið það ekki þá koma uppáhalds varalitirnir mínir frá Bobbi Brown – ég sé ekki sólina fyrir Creamy Matte varalitunum frá Bobbi, þeir eru þeir allra bestu að mínu mati og ég elska að fá mér nýjan og nýjan lit. Hér sjáið þið þó ekki þá þó svo það hljómi þannig en hér eru nýjustu varalitirnir Luxe Lip Color. Virkilega fallegir varalitir með sterkum og flottum lit, kremaðri áferð sem endist svakalega vel.

Mér finnst Bobbi Brown vera merki þar sem formúlurnar eru alltaf toppurinn. Mikil vinna er lögð í að varan standi fyrir sínu og geri það sem Bobbi sjálf vill að þær geri. Umbúðirnar eru alltaf klassískar og yfirleitt eru þær nú svartar en þessar eru alveg lúxus!

Luxe Lip Color varalitirnir eru til í þónokkrum litum en hér sjáið þið þann sem ég fékk.

BBluxus5

Luxe Lip Color í litnum Posh Pink nr. 10

Liturinn er virkilega fallegur, hann er með glæsilegum bleikum lit sem er með dáldið köldum undirtón sem ég kann vel að meta. Liturinn er mjög þéttur og áberandi fallegur og fer mínu litarhafti vel. Ég er búin að taka hann nokkrum sinnum fram síðan í desember þegar ég fékk hann. Ég kann vel við formúluna sérstaklega hve litsterk hún er þó hún sé alveg svakalega létt. Ég hlakka til að prófa fleiri liti af þessum varalit – verður gaman að sjá hvort það komi fleiri litir eitthvað á næstunni.

Ég fékk sent viðtal sem Bobbi Brown sjálf fór í í tengslum við launchið á þessum flottu varalitum. Ég er smá sein með þessa færslu sem átti upphaflega að koma fyrir jól en týndist smá svona í öllu sem var að gerast hjá mér þá – stundum er það nú bara þannig. En varalitir eiga alltaf við og sérstaklega í dag þegar varalitir eru nánast ómissandi í snyrtibuddur kvenna.

bobbi-brown-interview-c

What makes this new lip color formula so special?
Luxe Lip is our most luxurious lipstick yet. It glides on effortlessly and gives lips rich, vibrant color with an ultra- luxurious finish. The nourishing formula is packed with moisturizers and peptides that work behind the scenes to make lips look softer and smoother—even after it’s taken off.

– Bobbi Brown

Any tips to finding the perfect everyday lip color?
To find the most flattering nude lipstick, use the natural coloring of lips as a guide. The best shade will either match or be one or two shades brighter or darker than lips.

– Bobbi Brown

BBluxus6
What is a beauty must when wearing bolder lip colors?
Make sure lips are smooth and conditioned before applying lipstick; bright color can accentuate uneven lip texture. And for the most precise look, use a Lip Brush to apply lipstick; keep color within the natural lines of lips. Also, make sure to keep the makeup balanced—bright and bold lips look most modern with simple eye makeup.
– Bobbi Brown

Ég birti nú reyndar bara brot af viðtalinu sem ég fékk þar sem Bobbi svarar spurningum um varalitina, ég ákvað að birta það sem mér fannst henta vel við þessa færslu. Mér finnst alltaf áhugavert að lesa viðtöl við svona snyrtivöru frumkvöðla eins og þessa glæsilegu dömu – hún er ein þeirra sem skapar trendin í heiminum og ein af þeim sem allir bera mikla virðingu fyrir og leita til. Ég er aðeins búin að fá að sjá það sem er framundan og hjálpi mér Bobbi árið 2016 verður glæsilegt ár og ég hlakka til að sjá nýjungarnar í eigin persónu.

Ef þið eruð Bobbi konur eins og ég þá hvet ég ykkur til að fylgjast vel með síðunni því á næstu dögum ætla ég að gefa æðislegar húðvörur frá þessu fallega merki sem gefa húðinni mikinn raka og fallega ljómandi áferð – jebb ég ætla m.a. að gefa ÞETTA KREM.

Erna Hrund

Ráð við hárlosi á brjóstagjöf

Mömmublogg

Vörurnar sem ég skrifa hér um fékk ég gefins, engin greiðsla er þegin fyrir færsluna. Ég skrifa þó um þær af hreinskilni og einlægni af því þær hjálpuðu mér og virka alveg ofboðslega vel!

Það eina sem ég var alveg voðalega stressuð með þegar brjóstagjöfin hófst var í hvernig ástandi hárið mitt myndi verða á brúðkaupsdaginn. Ég missti alveg svakalega mikið hár þegar ég var með Tinna Snæ á brjósti ég á stundum bágt með að horfa á myndir af mér því mér finnst ég bara ekki líta neitt alltof vel út um hárið en kollvikin hækkuðu mjög mikið og það tók langan tíma fyrir hárið mitt að jafna sig. Ég ákvað því að slá til og prófa vörur frá merki sem heitir Nioxin, ég man að Theodóra fyrrum Trendnet pía skrifaði um þessar vörur fyrir einhverju síðan svo ég sóttist því eftir að fá að prófa þær og fékk.

Ég er nú búin með einn skammt ég byrjaði um leið og ég fann að hárlosið var að byrja og þvílík himnasending. Ég vonaði nú að þetta myndi virka sem skyldi en ég átti kannski ekki von á því að vörurnar myndu virka svona vel!

Mig langaði að segja ykkur frá þessu, ykkur sem eruð mögulega í sömu aðstæðum og ég eða bara eruð að finna fyrir hárlosi útaf einhverju öðru. Þar sem ég er nú enginn hársérfræðingur en reyni að sjálfsögðu mitt besta þá fékk ég að senda nokkrar spurningar á sérfræðing hér á landi og mig langar að deila með ykkur upplýsingum frá henni. Hér neðar skrifa ég svo um mína upplifun – mikið vona ég að þið hafið gagn af þar sem hárlosið hafði mjög slæm andleg áhrif á mig síðast og það má segja að Nioxinið hafi á tímabili bjargað geðheilsu minni…!

harlos3

Hér sjáið þið startpakkann sem ég fékk, ég er með nr. 6 sem var valin fyrir mig
af sérfræðing og hann hentar mínu hári. 

Hvernig virkar Nioxin?

Nioxin er hann fyrir hársvörðinn sem hárið nýtur síðan góðs af. Kenningin á bakvið Nioxin er sú að hreinsa hársvörðinn líkt og andlit er hreinsað, þar sem sjampó er hreinsirinn, næringing balancer og treatmentið er rakakremið. Nioxin hreinsar hársekkina vel sem gefur hárinu greiðari leið til að vaxa úr hársekknum, þar sem fita og önnur óhreinindi geta hindrað leiðina.

Fyrir hverja hentar Nioxin?

Nioxin hentar fyrir þá sem finna fyrir miklu eða litlu hárlosi, eftir að einhverskonar álag, veikindi eða barnsburð og brjóstagjöf. Nioxin hentar einnig fyrir fólk sem er þegar með fíngert hár og vantar líf og lyftingu í hárið.

Hvað þarf maður að nota það lengi til að finna árangur?

Til að sjá marktækan árangur þarf að nota Nioxin í 30 daga, á hverjum degi. Við seljum svokallað startkit sem dugar í þessa 30 daga. Ef fólk sér eða finnur ekki árangur þá endurgreiðum við 30 daga pakkann.

harlos2

Má nota aðrar hárvörur með Nioxin?

Já, það er ekkert því til fyrirstöðu. Hins vegar mælum við með því að á meðan 30 daga prufutímabilinu stendur sé eingöngu notast við sjampóið og næringuna frá Nioxin, en aðrar mótunar- og blástursvörur eru í góðu lagi.

Hvernig veit maður hvaða vörur frá Nioxin maður ætti að nota?

Það geriru í sameiningu við þinn fagmann. Hann greinir hárið þitt, hvort það sé efnameðhöndlað eða ekki, hversu gróft eða fínt hárið er og svo hversu mikið hárlos hefur átt sér stað. Eftir þessa samræður finnur hann það númer í Nioxin sem hentar þér.

Hvenær ætti maður að hætta að nota vörurnar?

Nioxin er ekki kúr sem þarf eða þarf ekki að nota í ákveðinn tíma. Fólk finnur sitt jafnvægi, en flestir halda áfram að nota vörurnar eftir að tilsettum árangri er náð því þær eru svo frábærar. Margir nota þær með öðrum og aðrir eingöngu.

Hvar fæst Nioxin?

Á viðurkenndum hársnyrtstofum.

SONY DSC

Þetta eru myndir sem eru teknar þegar Tinni er sirka 7 mánaða. Ég fæ smá illt í magann þegar ég horfi á þær og finnst ég heldur skollótt svona fremst við ennið. Ég man ég fékk mikið sjokk þegar ég skoðaði myndirnar betur eftir að ég birti þær upphaflega á síðunni minni – ég tók ekkert eftir þessu fyrst og ekki einu sinni þegar ég horfði í spegil en á myndum sá ég þetta mest.

Með þessar myndir í huga, hárlos sem var að byrja jafn öflugt og síðast fór ég að telja svona í hausnum hvað Tumi yrði gamall á brúðkaupsdaginn þá bara ákvað ég að sækjast eftir því að fá að prófa eitthvað. Ég fékk prufusett af Nioxin í desember og hef samviskusamlega notað vörurnar síðan þá. Ég reyndar þvoði hárið ekki á hverjum degi – klúðraði því smá vegna tímaleysis en ég fann alveg svakalega mikinn mun bara eftir fyrstu skiptin. Ég fann hvernig hársvörðurinn örvaðist þegar ég notaði hárvörurnar mér fannst ég í alvörunni vera að finna hárið styrkjast.

Ég er búin með startpakkann og ég er svo hrifin af vörunum að ég ætla að kaupa mér hreinsivörurnar til að eiga til að nota meðfram öðrum hárvörum. Mér finnst einmitt mjög gott að vita að ég get notað vörurnar með öðrum hreinsivörum svona þegar ég þarf smá búst.

Ég er ekki að segja að hárlosið hafi bara hviss bamm búmm horfið – ég missi alveg hár hér og þar sem er bara eðlilegt fyrir minn hársvörð. En Nioxin vörurnar gerðu það að verkum að ég hætti að hreinsa burstann minn af lúku fulla af hárum eftir að ég greiddi í gegnum það, ég hætti að skilja eftir mig slóð af hárum útum allt, ég hætti að finna hár í bleyjunni hans Tuma, ég hætti að toga burt lúku af hári af höfðinu á mér í sturtu þegar ég var að þvo það. Þetta er sko allt annað og ég hvet ykkur til að prófa ég hef alla vega ekkert nema gott að segja um þessar vörur – væri gaman að heyra frá einhverjum hér í athugasemdum sem hefur líka reynslu af vörunum :)

Erna Hrund

Úr á hendi

FallegtFashionFylgihlutirLífið Mitt

Ég hef verið skotin af úrunum frá Daniel Wellington síðan ég las fyrst um þau hér á trendnet að sjálfsögðu fyrir rúmlega einu og hálfu ári síðan hjá henni Ásu okkar – HÉR. Svo þegar upp kom samstarf á milli mín og merkisins þá hikaði ég ekki lengi við og bíð nú alveg sérstaklega spennt eftir mínu úri sem ég hlakka líka til að sýna ykkur. Ég á reyndar alveg ofboðslega fallegt úr sem Aðalsteinn gaf mér í afmælisgjöf fyrir nokkrum árum síðan en það er reyndar batteríslaust og af einhverjum ástæðum man ég aldrei eftir að grípa það með mér þegar ég á leið hjá búðinni þar sem það var keypt. En ég reyndar gekk lengi með það bara af vana þó það virkaði ekki :)

Ég fékk að velja mér úr frá Daniel Wellington og valdi gyllt úr með svartri leðuról – held það muni verða mjög klassískt og það passar við allt og þar á meðal giftingarhringinn sem er úr gulli. Ég á von á því núna í vikunni og ákvað að kíkja svona aðeins inná Pinterest og skoða smá innblástur og ég get sko sagt ykkur það að innblásturinn fyrri þennan fallega fylgihlut frá Daniel Wellington vantar sko ekki :)

Ég varð einhvern vegin ennþá spenntari fyrir komu úrsins þegar ég fór að skoða þessar fallegu og fínu myndir.

En partur af samstarfinu er að ég fæ afsláttarkóða sem þið getið nýtt inná vefverslun Daniel Wellington – danielwellington.com – en þið fáið 15% afslátt af úrunum með eftirfarandi kóða sem þið getið notað til 29. febrúar. Kóðinn er —> reykjavik-fashion <—  kynnið ykkur þetta endilega. Það eru nokkrar dömur nú þegar hér á Íslandi sem hafa verið í samstarfi með merkinu og ég er bara kát með að fá að bjóða mínum lesendum núna uppá þennan frábæra afslátt.

Nú er bara að bíða eftir úrinu og þá verður myndavélin tekin fram en ekki hvað :)

Erna Hrund

A fyrir augnkrem

AuguHúðSnyrtivörur

Vörurnar sem þið sjáið í þessari færslu eru ýmist keyptar af mér sjálfri eða ég hef fengið sendar sem sýnishorn. Allt sem ég skrifa er frá sjálfri mér komið og eins og alltaf er ég hreinskilin og einlæg í mínum skrifum.

Ég fékk fallega beiðni í gegnum snappið mitt —> ernahrundrfj <— sem var að skrifa um augnkrem. Augnkrem eru svo sem þessi vara sem ég hef alveg mjög mikið fengið spurningar um. Það virðist vera að þetta sé vara sem vefjist fyrir mjög mörgum. Eflaust hugsa einhverjir að þessi krem séu óþarfi því hvað í ósköpunum geta þau gert sem hin kremin geta ekki. Svarið liggur í formúlunni – hún er sérstök að því leitinu til að hún er hönnuð fyrir húðina í kringum augun. Húðin í kringum augun er allt önnur en önnur húð. Svitaholurnar, vökvasöfnunin, línurnar, litirnir ekkert er þetta í líkingu við það sem gerist annars staðar. Augnkrem eru öll sett saman með þessa viðkvæmu húð í huga, efnin eru öðruvísi því húðin er öðruvísi. Auðvitað ætla ég ekkert að vera sú sem segir að allir verði að nota augnkrem – það er fyrir hverja og eina að velja en mig langar bara svona aðeins að fræða eins og ég get og veit :)

Hvenær?

Það vefst fyrir mörgum – hvenær á að byrja að nota augnkrem. Ef ykkur langar að nota augnkrem þá notið þið augnkrem. Ég myndi samt segja að það væri óþarfi fyr en fyrstu einkenni öldrunar eru farin að láta sjá sig. Annars eru svo sem til mörg augnkrem sem eru laus við alla virkni og eru meira að kæla og vekja húðina svo ef þið eruð forvitnar en ekki farnar að finna fyrir einkennum öldrunar þá getið þið skoðað þau. Persónulega finnst mér það að nota augnkrem ómissandi og sérstaklega þegar ég er að farða, augnkremið er að mínu mati eins konar primer fyrir augnsvæðið og gerir allt svo miklu áferðafallegra.

Ef þið leitið að svarinu hvenær í rútínunni ætti augnkremið að koma þá set ég það á eftir rakakreminu eða næturkreminu. Ég leyfi þá því svæði helst að vera bert eða þá ég set ekki kremið alveg yfir allt augnsvæðið og nýti frekar augnkremið sjálft.

Hvar?

Augnkrem eru borin á svæðið undir augunum – og alveg útað gagnauga. Sum krem má bera ofan á augnbeinið en það ætti þó ekki að gera við krem sem eru með virkum efnum í því þau geta runnið inní augun og virku efnin fara ekki vel í slímhúðina því lofa ég. Húðin í kringum augun er sú þynnsta sem við höfum og því er hún viðkvæmust, það sést allt fyrst í kringum augun, þar fáum við t.d. yfirleitt fyrstu línurnar og því ætti ekki að fara illa með hana og vera að nudda mikið eða toga til. Það er oft talað um að við látum minnsta þrýsting í gegnum baugfingur og því ætti að nota hann til að nudda augnkreminu við húðina. Ég viðurkenni það nú alveg að ég geri það ekkert alltaf sutndum gleymir maður sér… En ég kann alveg óskaplega vel við augnkrem sem koma með einhverju á til að bera augnkremið á eins og sérstökum stút eða stáli.

Hvaða?

Þegar augnkrem er valið þá er það að sjálfsögðu mikið eftir hvað þið viljið, hvernig húðin er og hvaða vandamál þið viljið laga ef svo má segja. Það eru til alls konar augnkrem og ég á auðvitað auðveldast með að mæla með augnkremum sem hafa hentað mér, minni húð og mínum vandamálum.

Hér fyrir neðan sjáið þið 8 krem sem ég hef sjálf notað við mjög góðan árangur. Kremin eiga það sameiginlegt að vera ekki neitt sérstaklega virk. Þau eru helst að fókusera á að koma jafnvægi á rakamyndun húðarinnar, draga úr þrota og þreytu og litabreytingu. Þegar ég nefni rakabreytingu á það líka við að þegar það kemur meiri fylling í húðina í kringum augun minnkar sýnileiki fínna lína – þessara fyrstu sem fara yfirleitt að sýna sig fyrst í kringum 25 ára aldur. Kremin hérna fyrir neðan geta þó allar konur notað en ef þið viljið meiri virkni þá eru auðvitað til fjölmörg önnur augnkrem.

augkrem 1. Forever Light Creator Dark Circle Corrector frá YSL:
Þetta krem er með svo svakalega fallegri perlukenndri áferð svo svæðið í kringum augun ljómar samstundis. Það er alveg ofboðslega fallegt og virkar mjög vel sérstaklega gegn óvelkomnum litum. Kremið er borið á með stútnum.
YSL fáið þið t.d. í snyrtivörudeildum Hagkaupa og Lyf og Heilsu Kringlunni

2. Cellularose Hydradiance Eye Contour frá By Terry:
Þetta krem er borið á með köldu læknastáli og hjálpi mér hvað það er gott. Þetta er kremið sem ég er búin að vera að nota mest núna undanfarið og ég held ég muni gráta þegar það klárast. Ég kreysti bara smá úr túbunni þannig það fari á stálið og nudda því svo varlega yfir húðina sem vaknar samstundis og fær góðan raka.
By Terry vörurnar fást í Madison Ilmhúsi

3. Hydrating Eye Cream frá Bobbi Brown:
Endilega kíkið á fleiri síður sem tala um þetta krem og kynnið ykkur það vel því það er í glaðning sem ég ætla að gefa hér á síðunni í þessari viku. Kremið er svo svakalega rjómakennt og dásamlegt, þykkt og næringarríkt og algjör rakabomba – lagar þannig áferð húðarinnar og dregur úr þrota og þreytu.
Bobbi Brown fáið þið t.d. í Hagkaup Smáraling og Lyf og Heilsu Kringlunni

4. Ibuki Eye Correcting Cream frá Shiseido:
Einfalt og rakamikið augnkrem sem er borið á með fingrunum. Kremið er hugsað fyrir þær sem eru að finna fyrir þessum fyrstu einkennum öldrunar og gefur sérstaklega fallega áferð og mikinn raka.
Shiseido fáið þið t.d. í snyrtivörudeildum Hagkaupa

5. It’s Potent Eye Benefit Cream frá Benefit:
Ég fékk einhver tíman lúxusprufu af þessu kremi erlendis og ég varð samstundis mjög hrifin. Þetta er létt gelkrem sem snöggkælir húðina svo hún frískast upp. Það fer mjög hratt inní húðina og skilur eftir sig fallega og frískandi áferð. Kremið er borið á með fingrunum.
Benefit er ekki fáanlegt á Íslandi.

6. Eye Contour Cream frá Sensai:
Dásamlegt augnkrem sem er líka hægt að fá í formi augngels fyrir þær sem vilja frekar þá áferð – sjálf kýs ég augnkremið. Kremið er ríkt af silki meðal annars og húðin fær alveg dásamlega fallega áferð, það er létt í sér en samt svo drjúgt af næringu – húðin verður dásamleg. Kremið er borið á með fingrunum.
Sensai fáið þið t.d. í snyrtivörudeildum Hagkaupa og Lyf og Heilsu Kringlunni

7. Skin Perfection Eye Cream frá L’Oreal:
Alveg klassískt, þétt og rakamikið augnkrem. Kremið er borið á með fingrunum, að mínu mati gerir það sérstaklega mikið fyrir áferð húðarinnar sem verður þéttari og áferðafallegri. Það dregur úr langvarandi þreytueinkennum yfir húðinni og að mínu mati er það einstaklega góður primer undir hyljara og annað sem ég set undir augun – áferðin verður svo falleg.
L’Oreal fáið þið t.d. í snyrtivörudeildum Hagkaupa, Lyfju og Lyf og Heilsu. 

8. Hydra Cool Firming Eye Gels frá Skyn Iceland:
Ég hef sagt það áður og ég segi það hiklaust aftur þessir eru betri en sterkur kaffibolli á morgnanna. Töfravara sem er sú sem tryggði það að ég kolféll fyrir þessum dásamlegu vörum. Ef þið hafið ekki prófað þessa þá eruð þið að missa af miklu.
Púðarnir fást á nola.is

Vonandi eruð þið einhverju nær um augnkrem. Það er svo sem ógrynni af alls konar augnkremum sem er til á markaðnum. Ef þið eigið ykkur eitthvað uppáhalds merki hér á landi er um að gera að skoða þau sem eru hjá því annars getið þið líka auðvitað nýtt ykkur listann minn hér að ofan. Næst kemur svo kannski B fyrir BB krem, blush eða bronzer – það kemur í ljós…

Mikið vona ég að vikan framundan eigi eftir að vera frábær hjá ykkur!

Erna Hrund

Nýjar línur mæta í MAC á morgun!

Ég Mæli MeðMACMakeup ArtistNýtt í snyrtibuddunni minni

Vörurnar sem ég skrifa um hér hef ég bæði keypt sjálf eða fengið sendar sem sýnishorn. Þegar ég skrifa um vörur sem eru ýmist sendar eða keyptar af mér í sömu færslu mun ég merkja þær sem ég fæ sendar með stjörnu (*) svo það fari ekki framhjá neinum. Eins og alltaf skrifa ég af einlægni og er hreinskilin.

Þið vitið hvernig þetta virkar, þegar von er á nýjum línum í MAC þá er um að gera að hafa hraðar hendur því vörurnar seljast mjög hratt upp og oftast klárast þær allra vinsælustu á fyrstu mínútunum…

Ég fékk nokkur sýnishorn úr þessum línum en þær sem eru að koma eru Faerie Whisper, Huggable og Retro Matte. Mig langar að sýna ykkur förðun sem ég gerði með vörum úr fyrstu tveimur línum sem ég nefni….

Lúkkið er sérstaklega einfalt og ég vildi að þessar þrjár vörur væru í fókus en ég notaði þó nokkrar vörur með til að styrkja förðunina og leyfa vörunum að njóta sínn enn betur. En ég útskýri þetta allt betur hér fyrir neðan.

macfaeriehuggable6

Hér eru Foiled Eyeshadow úr Faerie Whisper línunni litirnir heita Fairy Land* (þessi ljósari) og Faerie Fayre*. Foiled augnskuggarnir eru mjög glimmermiklir miðað við marga aðra augnskugga frá MAC. Ég elska að nota Fix+ með þeim til að gera þá enn sterkari en þá fá augunum svona fullkomna metallic áferð um augun. Ég byrja reyndar alltaf að grunna allt með þeim þurrum og set þá svo blauta yfir.

Faerie Whisper línan er mjög áferðafalleg, metallic áferðin er áberandi og fallegir jarðtóna litir með metallic áferðinni einkenna línuna. Auk augnskugganna eru gloss, varalitir, kinnalitir og sjúklega falleg andlitspúður þar á meðal er eitt með ljómandi áferð sem er fallegt sem highlighter.

Svo er það Huggable glossinn fíni. Huggable línan er til að kynna nýja Huggable varaliti sem eru með fallegri ljómandi áferð, sterkum lit en jafnframt mjög léttir í sér. Með varalitunum koma varagloss sem koma í takmörkuðu upplagi. Ég var svo heppin að fá einn svona gloss og minn heitir Embraceable Me* virkilega fallegur nude gloss með bleikum blæ. Hér nota ég hann yfir uppáhalds nude litinn minn frá MAC en hann heitir Hue.

macfaeriehuggable4

Til að styrkja augnförðunina eins og ég tala hér um fyrir ofan þá notaði ég fallega matta brúna liti úr Amber Time 9 pallettunni minni frá MAC sem þið sjáið hér fyrir neðan. Ég grunna í raun bara skygginguna í enda augnloksins og set svo Foiled augnskuggana yfir augun – sá dekkri fer á ytri helminginn og sá ljósari fer á innri helminginn – svo er bara að blanda vel og doppa þeim yfir blautum með hjálp Fix+ – blanda aðeins aftur og þá eruð þið góðar.

macfaeriehuggable5

Hér fyrir ofan sjáið þið líka Hue litinn minn fallega sem hefur verið í uppáhaldi í ábyggilega 10 ár. Ég á alltaf einn svona varalit og á tímabili átti ég 3 – þá var ég í menntaskóla og plantaði honum útum allt. Liturinn er nefninlega svo klassískur. Hann er ekkert svakalega þéttur í sér en gefur samt áferðafallegan lit sem er nude með bleikum blæ. Varaliturinn passar við allt – því lofa ég!

macfaeriehuggable3

Þessar línur þykja mér einstaklega fallegar og ég hlakka mikið til að skoða þær báðar betur inní Kringlu já eða Smáralind á morgun!

Fyrstu vörurnar munu klárast snemma svo mætið snemma ef þið viljið tryggja ykkur þær því það kemur því miður aldrei mikið af hverri vöru.

Erna Hrund

Litla kanínan

MömmubloggTinni & Tumi

Fyrst langar mig að byrja á því að þakka fyrir fallegar móttökur og falleg orð sem ég hef fengið frá svo mörgum ykkar í kjölfar síðustu færslunnar sem birtist hér á síðunni. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem ég opna mig með fæðingarþunglyndið. En ég sé það í dag með svo allt öðrum augum þegar ég hef verið svo heppin að fá að upplifa það að vera ekki með fæðingarþunglyndi og mig langaði að fá að segja meira frá því hver munurinn er – eða eins og ég upplifði það. Takk aftur kærlega fyrir, hjartað mitt er uppfullt af þakklæti til ykkar allra.

En talandi um hvað allt er ólíkt þá á ég alveg svakalega ólíka syni. Tinni Snær var um 1 árs þegar fyrsta tönnin mætti í hús en Tumalingur – hann var nú bara 3 mánaða! Þær eru í dag orðnar tvær og komnar vel upp svo nú þarf að hefjast handa við að bursta þessar ofurkrúttlegu litlu tennur sem láta hann líta út fyrir að vera lítil og krúttleg kanína… :D

tennur tennur3

Hvað segið þið… Ég er enn ekki tilbúin að gefa það uppá bátinn að augun verði brún en Aðalsteinn er viss um að þau verði blá – þau eru enn mjög óráðin og við bíðum voðalega spennt!

Litli sæti kúturinn sem verður 6 mánaða núna í lok janúar. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt! Þessa dagana snýst lífið um að koma rútínu á svefn og daginn sjálfan sem er stundum aðeins erfitt fyrir mömmuna sem er stundum þreytt á morgnanna og sefur aðeins lengur með litla manninum þegar ég ætti nú endilega að reyna að nýta tímann í vinnu.

Svo er maturinn byrjaður við erum að æfa okkur í að kyngja mat. Tumi var nefninlega farinn að hægja vel á sér í þyngdinni eftir síðustu skoðun og kominn aðeins of mikið undir kúrvuna. Hann samsvarar sér þó mjög vel en það var þó mælt með því að við myndum byrja að prófa smám saman að gefa honum. Það er búið að vera voða gaman hjá okkur og já enn meiri þvottur því það er að reynast smá erfitt hjá lilla að kyngja :)

Þetta er svo skemmtilegur tími og mikið fjör hjá okkur foreldrunum því það er ekki bara lilli sem er að taka stór stökk heldur líka sá stóri sem er í koppa og klósettþjálfun – svo já þvotturinn hefur stóraukist!

Erna Hrund

Mín upplifun, með & án fæðingarþunglyndi

MeðgangaMömmublogg

Mig langar að segja ykkur sögu, sögu af mér, litlu mér sem dreymdi ekkert heitar en að verða mamma þegar ég var lítil stelpa. Hlutverkið heillaði mig uppúr skónnum – að eiga afkvæmi sem ég myndi elska heitar en allt annað í heiminum og það myndi elska mig líka. Ég upplifði drauminn minn rætast þegar ég varð ólétt í byrjun ársins 2012 – sá draumur rættist ekki þegar úr varð að fósturvísirinn hvarf að mér fannst jafn hratt og hann varð til. Sár grátur vegna brotinna drauma einkenndi næstu daga, líkamlegur og andlegur sársauki var meiri en ég hefði nokkur tíman geta ímyndað mér. En vitiði hvað draumurinn minn rættist aftur, 4 vikum eftir að ég missti fóstur var komið nýtt og þann 30. desember fæddi ég yndislega Tinna Snæ sem er það fallegasta sem ég hef á ævinni gert.

Vegna fósturlátsins var meðgangan erfið, ég setti upp þykka brynju og bar mig vel útá við en inní mér var mikill ótti, ótti við að missa aftur. Ég sagði sjálfri mér að ég gæti fundið hjartsláttinn hans í gegnum magann ef ég legði hendurnar nógu þétt uppvið magann. Það róaði mig niður, ég fann einhvern slátt, ég get ekki útskýrt það en ætli þetta hafi ekki verið mín leið til að komast í gegnum meðgönguna. Þegar hreyfingar byrjuðu þá hélt ég stundum niðrí mér andanum á milli þess sem ég fann þær og ekki. Ég var svo hrædd, en ég sagði það engum. Ég var enn að syrgja hinn drauminn og hafði ekki gefið sjálfri mér nægan tíma til að gera það því ég var bara svo hrædd. Hræðslan breyttist í mikinn kvíða, mikil kvíðaköst sem ég átti bara sjálf inní mér einni. Stundum langaði mig bara til að vera ein, loka mig einhvers staðar inni og halda utan um kúluna mína og bara bíða þar til drengurinn væri kominn í hendurnar á mér, þá myndi ég sko njóta og vera glöð.

Ég varð ofboðslega glöð þegar Tinni Snær fæddist, ég varð svo hamingjusöm og svo ástfangin af þessum fallega dreng sem gerði líf okkar svo miklu betra en áður. En kvíðin var enn til staðar, ég var svo hrædd um að missa hann. Ég svaf ekki af ótta við að einhver myndi koma og taka hann af mér, að það yrði brotist inn og hann væri tekinn. Ég fór að upplifa þessar aðstæður mjög raunverulega og alltaf gekk hausinn minn lengra og lengra þar til allt í einu ég varð gerandinn og ég sá mig sjálfa skaða barnið mitt eða sjálfa mig. Ég hágrét og sagði engum. Ég þorði ekki að segja neinum því mér fannst eitthvað vera að mér. Ég lokaði mig af og vildi engan hitta og engan sjá, ég sökkti mér í vinnu, verkefni og bloggfærslur því allt skyldi jú fullkomið vera á yfirborðinu því það var þannig hjá öllum öðrum.

Ég varð stundum alveg ofboðslega pirruð og fannst ég vera svo föst, mér fannst ég ekkert getað gert, ekkert getað farið og heimsins minnstu vandamál voru á stærð við fullvaxta fíl og gjörsamlega óyfirstíganleg. Einn mesti sársauki sem ég upplifði var daginn fyrir nafnaveisluna hans Tinna ég hágrét því ég gat ekki bakað snúða ég fékk deigið aldrei til að hefast og ég upplifði mig sem gagnslausa móður. Ég gerði miklar kröfur á sjálfa mig og ef mér tókst ekki eitthvað dæmdi ég mig strax misheppna og óhæfa móður.

Ég man ekki eftir fyrstu vikunum í lífi hans Tinna, allt rennur saman, ég get jú séð svona smá í hausnum á mér ef ég sé myndir frá þessum tíma en ekki nema með aðstoð þeirra.

Ég grét og reifst og skammaðist við minn nánasta og gekk svo langt að ég ætlaði á tímabili bara að labba út. Mér leið svo illa og ég gat ekki útskýrt afhverju – ég vissi eiginlega ekki sjálf hvað var að gerast fyrir mig af því ég sá það ekki sjálf, fyrir mér var þetta raunveruleikinn. En ég man hvernig ég passaði alveg ofboðslega vel uppá að engan myndi gruna að neitt væri að. Ég held það hafi líka verið af því ég hélt að svona ætti þetta bara að vera og svona myndi þetta bara alltaf verða og enginn mátti fá að sjá sársaukann sem var innra með mér.

Ég þáði að lokum hjálp, seint og síðar meir, stundum hugsa ég tilbaka og skamma sjálfa mig fyrir að hafa séð þetta alltof seint en þá stoppa ég og man hvað ég er bara heppin að hafa fengið hjálp og vera búin að fá hana.

Ég hef verið í meðferð hjá yndislegum þerapista og yndislegum geðlækni sem hafa hjálpað mér við að átta mig á því almennilega hvað gekk á og hjálpa mér að rekja óttann og kvíðan til upprunans. Þær eru enn að hjálpa mér og þó ég taki smá pásur af og til þá er ég ekki enn tilbúin til að sleppa takinu.

Þegar ég varð ólétt af Tuma þá tók ég mjög stóra ákvörðun, ég skyldi ekki vera eins og áður. Tæpu ári áður en ég varð ólétt af Tuma missti ég aftur fóstur, við vissum hvorugt af því að það væri og grunaði ekki einu sinni. En þá gat ég andað inn og andað út, ég gat sagt sjálfri mér rólega hvað hafði gerst og ég leyfði sjálfri mér að syrgja, mér þótti það gott þó ég hafi ekki vitað af því þá var þetta að sjálfsögðu smá áfall, að fá eitthvað og missa það bara á sama augnabliki.

Meðgangan með Tuma gekk langt í frá áfallalaust fyrir sig eins og kannski margir vita. Um leið og ég fann að ég var að detta í sama far og áður þá kallaði ég á hjálp og ég fékk hana. Ég var opin fyrir hjálpinni því ég ætlaði svo sannarlega ekki að upplifa þennan sársauka aftur. Meðgangan var mjög erfið, þá helst líkamlega sem hafði auðvitað áhrif á andlegu hliðina en ég komst í gegnum hana einhvern vegin og ég held að með hjálp frá góðu fólki, ljósmæðrum, þerapista og fjölmörgum læknum að ógleymdum klettinum mínum, eiginmanninum þá hafi þetta farið á góða veginn.

Í dag er hjartað mitt svo uppfullt af ást að það liggur við að það springi af hamingju. Ég og Tumi erum svo góð saman og við spjöllum saman, leikum okkur, horfum stundum á teiknimyndir það má alveg, förum í labbitúra, hittum fólk og að sjálfsögðu eyðum við miklum tíma með hinum strákunum okkar. Við erum að ná að tengjast svo vel af því ég fékk skilning, ég fékk fræðslu og ég fékk hjálp. Eitt af því sem ég fékk aðstoð við var að læra að tengjast börnunum mínum, ég lærði það að það er ekkert sjálfgefið en það kom hjá mér og ég nýt þess svo mikið að vera mamma nú meira en nokkru sinni áður.

Screen Shot 2016-01-12 at 10.21.37 PM

Að vera með nýfætt barn og fæðingarþunglyndi var ofboðslega undarleg upplifun, ég var svo dofin og ekki í sambandi einhvern vegin en ég náði að fela það alveg ofboðslega vel. Að vera með nýfætt barn og ekki fæðingarþunglyndi er það besta í heimi, ég svíf um á bleiku skýi.

Elsku foreldrar, mæður og feður, viljið þið gera mér og ykkur þann greiða að leita ykkur aðstoðar ef þið finnið að það sé eitthvað sem er ekki rétt. Það er svo lítið mál að biðja um hjálp, það er minna mál en mig óraði nokkur tíman fyrir. Að verða foreldri er það besta sem hefur komið fyrir mig, að fá að upplifa þennan ómetanlega tíma sem fyrstu vikur í lífi barns eru án þess að vakna full af kvíða, sofa ekki útaf áhyggjum og að upplifa það að maður sé að tengjast þessum pínulitla einstaklingi órjúfanlegum böndum er magnað.

Ég þáði ekki hjálpina fyr en ég var tilbúin fyrir hana sjálf, fyr en ég var opin fyrir því að ég vildi fá hjálp. Ef ég tala fyrir sjálfa mig þá fannst mér erfitt þegar mér leið eins og það væri verið að þröngva uppá mig hjálp sérstaklega af því mér fannst ég ekki þurfa á henni að halda – munið að það er erfitt að hjálpa einhverjum sem vill ekki hjálp. En tíminn kom hjá mér, sem betur fer sá ég það sjálf.

Í dag sit ég þó og hugsa um stóra stubbinn minn, ég missti af þessu og ég vildi óska þess, í alvörunni ef ég fengi eina ósk uppfyllta þá væri sú ósk að fá að upplifa svona tíma eins og ég á með Tuma með Tinna Snæ. Ég veit ég má ekki hugsa svona heldur á ég að njóta tímans og stundanna sem við eigum saman nú. En þetta er mitt næsta verkefni að komast í sátt við þunglyndið mitt og að fyrirgefa sjálfri mér fyrir að hafa brugðist.

Screen Shot 2016-01-12 at 10.20.58 PM

Mögulega getur mín frásögn og mín upplifun hjálpað ykkur, hvatt einhvern þarna úti sem er í vafa til að biðja um hjálp. Þó það sé ekki nema ein manneskja þá verð ég sátt.

Ást,

Erna Hrund

Nude varir áberandi á Golden Globes

Fræga FólkiðmakeupTrend

Þá er verðlaunahátíðatímabilið formlega hafið! Golden Globes hátiðin var haldin í gær og eins og alltaf býð ég spennt eftir að myndir af stjörnunum mæti inná netið svo maður geti nú séð trendin og spáð og spekúlerað í því sem koma skal.

Ekki spurja mig útí sigurvegarana ég hef ekki hugmynd um hvernig hátíðin fór en farðanirnar – ég er með þær á hreinu ;)

Eitt mest áberandi trendið í förðununum voru litlausar varir. Margar voru alveg með það á hreinu en nei ekki allar því miður. En það sem mér þótti þó helst gaman að sjá var hve margar voru náttúrulegar og ljómandi fallegar. Ég var líka ofboðslega glöð þegar ég sá fallega liti á vörum eða um augu – það var ekki eins mikið um það og síðustu ár. Gervi augnhárin voru líka kannski aðeins meira áberandi en oft áður… ;)

Svo eru það augabrúnirnar – takið sérstaklega eftir þeim, það voru fáar stjörnurnar sem voru ekki með fullkomnar augabrúnir. Mér fannst líka mjög gaman að sjá hvernig þær voru ólíkar. Alltaf gaman að sjá þegar augabrúnir eru mótaðar til að fullkomna andlit hverrar konu en það eru ekki allar bara alveg eins.

Eigum við ekki að byrja þetta – afsakið þessi færsla er löng!

BrieLarson

Bree Larson

Virkilega falleg og ljómandi förðun, gyllt smáatriði en öll förðunin er gerð með vörum frá Chanel. Mjög falleg og náttúruleg en samt svo ljómandi fín.

Amber-Heard

Amber Heard

Ein af þeim sem geislaði með ljómandi húð og áberandi flottar og mattar varir sem tónaði við fallega litinn á kjólnum hennar. Mjög náttúruleg um augun – ég persónulega fýla svona farðanir, náttúruleg augu og fallegar áberandi varir.

Olivia-Palermo Olivia Palermo

Ómæ þessi geislandi augu verða enn stærri með glansandi fallegum augnskugga og eyelinerinn er gerður þannig að augun virðast svo opin og stór. Virkilega fallegt og augabrúnirnar eru alveg pörfekt! Hún var auk þess ein af fáum sem hætti sér á rauða dregilinn með bleikar varir.

Takið eftir fallega hárinu hennar á myndinni fyrir neðan.

Olivia-Palermo (1)

Virkilega falleg greiðsla – finnst ykkur ekkki?

Lily-James

Lily James

Ein af stjörnunum sem skartaði fullkomnum augabrúnum, nude vörum, ljómandi fallegri húð og léttri skyggingu um augun. Þessi förðun súmmerar upp trendin sem voru mest áberandi.

Jada-Pinkett-Smith

Jada Pinkett-Smith

Love á litinn um augun! Sjáið hvað augun hennar verða fallega brún. Augun eru með fallegum ljósum grænum lit sem er með hlýjum gylltum undirtóni sem tónar mjög fallega við litinn á húðinni hennar. Hún Jada er og hefur alltaf verið trendsetter og fer sínar eigin leiðir.

Sophia-Bush

Sophia Bush

Ég elska þessa dömu – hennar stíl, persónuleika og já karakter og hef gert það alla daga síðan hún var Brooke í OTH – það voru góðir tímar. Hún og ég erum með mjög svipaðan förðunarstíl – náttúrulegt með smá twisti. Ein af þeim fallegustu frá kvöldinu.

Kate-Bosworth

Kate Bosworth

Önnur stjarna sem er ómissandi partur af svona færslum frá mér. Ég elska þessi fallegu augu sem hún hefur, náttúruleg förðun en mikið í kinnum – I like!

Rachel-McAdams

Rachel McAdams

Rachel eins og Sophia eru alltaf í uppáhaldi hjá mér aftur sami förðunarstíll. Rachel er alltaf svo elegant og kvenleg og sýnir mjög oft farðanir sem eru innblásnar frá gömlu góðu dögunum. Ég elska þennan fallega lit á vörunum – vá hvað ég væri til í þennan en mjög líklega leynist einn svipaður inní skúffu hjá mér.

Taylor-Schilling

Taylor Schilling

Mér finnst þessi dama algjör töffari! Hún er all in í náttúrulega trendinu og húðin hennar ljómar í stíl við fallegu augun hennar.

Julianne-Moore

Julianne Moore

Þessi kona eldist svo fallega, hér er hún að sjálfsögðu með L’Oreal förðun en ekki hvað enda eitt af andlitum merkisins og hefur verið það í mörg ár. Hún er með True Match farðann á húðinni – enda ljómar húðin á fallegan máta. Augnumgörðin finnst mér ofboðslega falleg og hún er ekki hrædd við að vera með ljóma á húðinni þrátt fyrir að hún sé farin að eldast.

Maria-Menounos

Maria Menounos

Nude förðun allt í gegn. Hér er stjarna sem neglir nude varirnar alla leið og gerir þær ljómandi fallegar með glærum gloss. Augnhárin eru nokkuð náttúruleg þrátt fyrir að þau séu mjög sýnileg sem mér finnst gott – ég fýla ekki ef það sé of áberandi að auka augnhárin séu of auðgreinanleg. Virkilega falleg dama.

Melissa-McCarthy

Melissa McCarthy

Vá hvað hún lítur vel út – ljómar alveg þessi gullfallega kona.Varirnar eru svo fallegar á litinn – léttur nude litur með fölbleikum undirtónum.

Kate-Winslet

Kate Winslet

Dæmi um aðra konu sem eldist svo svakalega vel. Hún er svo náttúruleg og falleg og tónar svo vel við heildarútlitið. Elska áferðin á húðinni hennar hún er svo hvít og falleg – eitthvað svo ofboðslega kvenlegt og elegant við þessa rjómahvítu húð – kannski finnst mér það bara því mín er líka svona. Kæmi mér á óvart ef daman væri með eitthvað annað en Lancome á húðinni enda andlit merkisins.

Jenna-Dewan-Tatum

Jenna Dewan-Tatum

Förðunin og húðin þá sérstaklega greip mig samstundis þegar ég sá myndina. Augun eru fallega mótuð og skerpt á þeim á réttum stöðum sem fullkomnar mótun þeirra. Aftur líka fullkomnar nude varir!

Kirsten-Dunst

Kirsten Dunst

Þessi er líka ein af mínum uppáhalds og hún verður það eflaust alltaf. Það eru kannski ekki allir sem kunna að meta grunge stílinn hennar Kirsten en ég geri það því hún er alltaf samkvæm sjálfri sér og sínum stíl. Elska líka augun hennar þau eru svo stingandi grá og falleg með þessari förðun.

Cate-Blanchett

Cate Blanchett

Kjóllinn – þið verðið að sjá kjólinn hann er GORGE! Förðunin er alveg í takt við hann og falleg skerping á augunum mikilvæg þar sem kjóllinn er þannig á litinn á meðan varirnar tóna við kjólinn. Virkilega flott heildarlúkk.

Olivia-Wilde

Olivia Wilde

Verðlaunin fyrr flottustu förðun kvöldsins fer eins og svo oft áður til þessarar fallegu leikkonu! Þessi dama er með svo fallegan stíl og ég dýrka hana í tætlur. Liturinn um augun er svo fullkominn og fer hennar augum svo vel – eruð þið að sjá þetta!

Rosie-Huntington-Whiteley

Rosie Huntington-Whiteley

Næst á eftir Oliviu fylgir Rose fast á hæla hennar. Ljómandi húð, fullkomin augnförðun og fallegar varir – virkilega flott náttúruleg förðun sem er ýkt á réttum stöðum.

Kate-Hudson

Kate Hudson

Ég er búin að sjá einhvers staðar illa talað um hennar dress en þessi er með skotheldan stíl sem hún fylgir alltaf og fyrir það á hún hrós skilið – plús það að ég fýla þetta 90’s dress sem hún fullkomnar með fallegum vörum og ljómandi húð.

Gina-Rodriguez

Gina Rodriguez

Ein af mínum uppáhalds leikkonum og ég kann alltaf svo vel að meta farðanirnar hennar þær eru náttúrulegar og alltaf í takt við mótun andlits hennar og augna.

Jennifer-Lopez

Jennifer Lopez

Þessi dama fer sínar eigin leiðir alltaf og hún gerir það í vali á kjól og förðun. Eins og þið sjáið vel í förðuninni sem er ekki eins og nein önnur þetta kvöld. Virkilega falleg ljómandi augu og dýrðlegar varir!

Eva-Longoria

Eva Longoria

Okei, augnhárin eru mögulega aðeins of mikið sérstaklega úfrá fyrri ummælum mínum. En halló hún er nú meiri bjútíbomban þessi dama! Hún er ein af kúnnum Anastasiu sjálfrar – ABH Anastasiu það er svo augabrúnirnar eru alveg fullkomnar. Mér finnst mjög fallegur þessi örfíni græni blær sem kemur þarna undir augunum. Virkilega fallegt og augun geisla.

Jennifer-Lawrence

 Jennifer Lawrence

Dior draumadísin sjálf! Ég held að ég og Jennifer gætum orðið mjög góðar vinkonur – ábyggilea fleiri sem eru sömu skoðunar. Jennifer hættir sér sjaldan inná trendin í verðalaunaförðununum og er yfirleitt mjög náttúruleg og í takt við sinn stíl. Rauður er hennar litur og hún veit það vel og varirnar gera augun hennar tryllingslega blá!

Mínar farðanir frá kvöldinu..

1. Olivia Wilde
2. Rosie Huntington-Whiteley
3. Sophia Bush og Rachel McAdams

Hvernig líst ykkur á?

Erna Hrund 

Myndirnar af stjörnunum eru frá PopSugar.

Uppskrift: grænkálssnakk

Lífið Mitt

Nýjasta æðið hér á heimilinu okkar er að útbúa dásamlegt grænkálssnakk! Þetta er alveg ótrúlega einfalt og ofboðslega gómsætt. Aðalsteinn á heiðurinn af því að útbúa það hér en hann er mjög duglegur í alls kyns tilraunastarfsemi í eldhúsinu. Ég deildi snakkinu inná snapchat rásinni um daginn og fékk í kjölfarið beiðnir um uppskrift svo ég bauð eiginmanninn velkominn sem gestasnappara hjá mér í morgun þar sem hann sýndi listir sínar í grænkálssnakk gerð en mig langar endilega að deila með ykkur líka hér!

graenkal

Ef ykkur langar að sjá uppskriftina í beinni lýsingu inná snappinu þá addið þið bara —> ernahrundrfj <— og sjáið Aðalstein fara á kostum!

graenkal3

Hér sjáið þið innihaldið og hér á eftir kemur svona smá útskýring á hvernig er farið að.

  • Byrjið á því að hreinsa stilkana frá grænkálinu – munið að skola kálið fyrst auðvitað.
  • Setjið kálið í skál og hellið ólífuolíu – notið helst venjulega olíu ef þið eigið hana. Þið getið svo notað alls konar olíur bara eftir því hvernig bragð þið viljið.
  • Setjið nóg af salti yfir kálið.
  • Takið svo slatta af sesamfræjum og setjið yfir líka (ég gleymdi því á myndinni hér fyrir ofan)!
  • Myljið niður smá þurrkað chilli og setjið yfir.
  • Blandið svo öllu vel saman í skálinni og leggið kálið yfir ofnplötu

graenkal4

Aðalsteinn setti snakkið núna á ofnplötu en venjulega setur hann það í eldfast mót og svo inní ofn. Snakkið fer inní ofn í 10-15 mínútur á 170-180° og með blástri. Svo er það bara að meta hvernig snakkið lítur út hvenær ykkur finnst það tilbúið. Aðalsteinn talar um að það sé svona þegar snakkið er orðið smá brúnt og dökkt án þess að það verði þó brennt.

graenkal2

Þetta er sko alveg vandræðalega gott og er þetta ekki bara nokkuð hollt – alla vega hollara en margt annað! Svo má auðvitað leika sér hvað hvað er sett yfir grænkálið og prófa sig áfram. Persónulega vil ég ekki chilli á mitt mér finnst það aðeins of sterkt fyrir minn smekk… ;)

Njótið,
Erna Hrund (& Aðalsteinn)

Ný augabrúnarútína

Makeup ArtistMakeup TipsNýtt í snyrtibuddunni minniSmashbox

Vörurnar sem ég skrifa um hér fékk ég annað hvort sendar sem sýnishorn eða sem jólagjöf. Ég skrifa um allt af hreinskilni og vil að þið getið treyst mínum skrifum.

Nýtt ár – nýjar augabrúnavörur! Árið 2015 var svo sannarlega ár augabrúnanna, ekki bara hjá sjálfri mér heldur hjá svo fjölmörgum öðrum. Allt í ein urðu augabrúnir að ómissandi fylgihlut sem margar gátu ekki farið úr húsi án þess að móta og skerpa á. Augabrúnanýjungar hafa held ég bara aldrei verið jafn margar og persónulega sankaði ég að mér alls konar vörum því að sjálfsögðu þá er engin eins ;)

Ég tók fyrir augabrúnapælingar, uppáhalds augabrúnavörurnar mínar frá síðasta ári ásamt sýnikennslu á nýjustu augabrúnavörurnar í snyrtibuddunni inná snapchat rásinni minni —> ernahrundrfj <— endilega fylgist með!

smashboxbrunir2

Vörurnar sem ég sýndi eru frá Smashbox, þetta er skrúfblýantur, púður og highlighter fyrir augabrúnirnar. Mér þykja vörurnar frá Smashbox alltaf mjög skemmtilegar, þær eru nýstárlegar og koma alltaf vel út. Vörurnar eru hannaðar í stúdíóum Smashbox og eru hannaðar með það umhverfi í huga – að þær skapi fallega ásýnd andlits fyrir myndatökur – hver vill ekki vera alltaf photo reddí í þessum blessaða heimi sem við lifum í ;)

Mig langaði að setja hér smá texta þar sem ég fer yfir augabrúnirnar mínar hér fyrir ofan og hvernig ég fór að því að ná þeim. Augabrúnirnar mínar eru fyrir mjög dökkar og frekar svona miklar, ég hvorki plokka né lita þó ég lagi nú stundum aðeins til svona á milli þeirra. En það sem ég þarf helst að gera er að ef ég vil móta þær og ekki hafa þær of  miklar þá ramma ég þær inn og svo þarf ég smá fyllingu. Hárin eru mjög dökk en húðin er mjög ljós svo þær eru stundum tómlegar og þá þykir mér alltaf gott að nota vöru eins og púðrið hér að neðan.

smashboxbrunir4

Brow Tech Shaping Powder frá Smashbox í litnum Dark Brown.

Ég byrjaði á því að móta útlínur augabrúnanna með skrúfblýantinum frá Smashbox sem þið sjáið hér neðar. Myndirnar eru kannski smá í vitlausri röð. En þegar ég hef rammað inn útlínur augabrúnanna og fyllt svona smá inní hér og þar þá greip ég í púðrið. Þetta er svona örmjór svampoddur sem er notaður til að bera þetta alveg matta og nánast hreina púður umhverfis augabrúnirnar. Það sem þessi svampur hefur fram yfir aðra svona sem ég hef notað er að han er oddmjór svo ég á auðveldara með að líka ramma inn augabrúnirnar með þessum. Ég gerði það líka hér bara til að skerpa enn frekar mótunina og ná að þykkja augabrúnirnar og þétta alveg frá rót háranna. Ég set lítinn sem engann lit alveg fremst í augabrúnirnar til að halda þeim náttúrulegum þar því ef ég geri of skarpt eða of dökkt þar þá verð ég mjög grimm og hvöss í framan – endilega hafið það í huga líka.

Þegar ég notað púðrið fyrst þá kom dáldið mikið uppúr en ef maður strýkur aðeins úr svampinum við fyrstu notkun þá kemur það í veg fyrir að það fari of mikið af formúlu á augabrúnirnar. Svo er líka alltaf betra að setja minna en meira því það er auðvelt að bæta við en aðeins mera vesen að draga úr.

smashboxbrunir3

Brow Tech Matte Pencil í litnum Taupe & Brow Tech Highlight í litnum Gold Shimmer frá Smashbox.

Hér fyrir ofan sjáið þið skrúfblýantinn – hann er þessi fyrir neðan sem er ekki í fókus ;). En hann er alveg mattur og það kemur alveg passlega mikið magn af lit. Munið að því fastar sem þið þrýstið blýantinum niður því meiri litur kemur og þvi lausar sem þið þrýstið því minni litur kemur. Alltaf gott að byrja að þrýsta laust þegar þið prófið fyrst til að átta ykkur betur á vörunni. Ég ramma inn útlínur augabrúnanna með þessum lit, ég byrja á að nota greiðuna til að greiða hárin upp, móta þannig undir augabrúninni, svo greiði ég hárin niður og móta aðeins fyrir ofan augabrúnina – ég móta aldrei alveg alla fyrir ofan bara ytri helminginn, frá boga og útí enda. Svo fylli ég smá inní með blýantinum og teikna nokkur hár þar sem ég þarf.

Næst setti ég svo púðrið á…

Svo er það highlighterinn virkilega skemmtileg vara! Ég setti hann undir bogann í augabrúnunum til að lyfta þeim upp og gefa húðinni ljóma. En þennan má líka nota inní augabrúnirnar til að setja smá strípur í hárin og lífga þannig aðeins uppá þær – ég þarf að prófa það næst. Svo fannst mér líka bara mjög fallegt að nota þennan í kringum augun, kemur mjög falleg gyllt áferð frá honum. Elska vörur sem má nota á fleiri en eina vegu!

smashboxbrunir5

Gleðilegt nýtt augabrúnaár!

Hvað ætli verði aðal trendið á nýju ári, ég ætla alla vega að giska á að highlighterinn muni endanlega sigra snyrtibuddur íslenskra kvenna – passið bara að setja ekki of mikið ;)

Erna Hrund