fbpx

A fyrir augnkrem

AuguHúðSnyrtivörur

Vörurnar sem þið sjáið í þessari færslu eru ýmist keyptar af mér sjálfri eða ég hef fengið sendar sem sýnishorn. Allt sem ég skrifa er frá sjálfri mér komið og eins og alltaf er ég hreinskilin og einlæg í mínum skrifum.

Ég fékk fallega beiðni í gegnum snappið mitt —> ernahrundrfj <— sem var að skrifa um augnkrem. Augnkrem eru svo sem þessi vara sem ég hef alveg mjög mikið fengið spurningar um. Það virðist vera að þetta sé vara sem vefjist fyrir mjög mörgum. Eflaust hugsa einhverjir að þessi krem séu óþarfi því hvað í ósköpunum geta þau gert sem hin kremin geta ekki. Svarið liggur í formúlunni – hún er sérstök að því leitinu til að hún er hönnuð fyrir húðina í kringum augun. Húðin í kringum augun er allt önnur en önnur húð. Svitaholurnar, vökvasöfnunin, línurnar, litirnir ekkert er þetta í líkingu við það sem gerist annars staðar. Augnkrem eru öll sett saman með þessa viðkvæmu húð í huga, efnin eru öðruvísi því húðin er öðruvísi. Auðvitað ætla ég ekkert að vera sú sem segir að allir verði að nota augnkrem – það er fyrir hverja og eina að velja en mig langar bara svona aðeins að fræða eins og ég get og veit :)

Hvenær?

Það vefst fyrir mörgum – hvenær á að byrja að nota augnkrem. Ef ykkur langar að nota augnkrem þá notið þið augnkrem. Ég myndi samt segja að það væri óþarfi fyr en fyrstu einkenni öldrunar eru farin að láta sjá sig. Annars eru svo sem til mörg augnkrem sem eru laus við alla virkni og eru meira að kæla og vekja húðina svo ef þið eruð forvitnar en ekki farnar að finna fyrir einkennum öldrunar þá getið þið skoðað þau. Persónulega finnst mér það að nota augnkrem ómissandi og sérstaklega þegar ég er að farða, augnkremið er að mínu mati eins konar primer fyrir augnsvæðið og gerir allt svo miklu áferðafallegra.

Ef þið leitið að svarinu hvenær í rútínunni ætti augnkremið að koma þá set ég það á eftir rakakreminu eða næturkreminu. Ég leyfi þá því svæði helst að vera bert eða þá ég set ekki kremið alveg yfir allt augnsvæðið og nýti frekar augnkremið sjálft.

Hvar?

Augnkrem eru borin á svæðið undir augunum – og alveg útað gagnauga. Sum krem má bera ofan á augnbeinið en það ætti þó ekki að gera við krem sem eru með virkum efnum í því þau geta runnið inní augun og virku efnin fara ekki vel í slímhúðina því lofa ég. Húðin í kringum augun er sú þynnsta sem við höfum og því er hún viðkvæmust, það sést allt fyrst í kringum augun, þar fáum við t.d. yfirleitt fyrstu línurnar og því ætti ekki að fara illa með hana og vera að nudda mikið eða toga til. Það er oft talað um að við látum minnsta þrýsting í gegnum baugfingur og því ætti að nota hann til að nudda augnkreminu við húðina. Ég viðurkenni það nú alveg að ég geri það ekkert alltaf sutndum gleymir maður sér… En ég kann alveg óskaplega vel við augnkrem sem koma með einhverju á til að bera augnkremið á eins og sérstökum stút eða stáli.

Hvaða?

Þegar augnkrem er valið þá er það að sjálfsögðu mikið eftir hvað þið viljið, hvernig húðin er og hvaða vandamál þið viljið laga ef svo má segja. Það eru til alls konar augnkrem og ég á auðvitað auðveldast með að mæla með augnkremum sem hafa hentað mér, minni húð og mínum vandamálum.

Hér fyrir neðan sjáið þið 8 krem sem ég hef sjálf notað við mjög góðan árangur. Kremin eiga það sameiginlegt að vera ekki neitt sérstaklega virk. Þau eru helst að fókusera á að koma jafnvægi á rakamyndun húðarinnar, draga úr þrota og þreytu og litabreytingu. Þegar ég nefni rakabreytingu á það líka við að þegar það kemur meiri fylling í húðina í kringum augun minnkar sýnileiki fínna lína – þessara fyrstu sem fara yfirleitt að sýna sig fyrst í kringum 25 ára aldur. Kremin hérna fyrir neðan geta þó allar konur notað en ef þið viljið meiri virkni þá eru auðvitað til fjölmörg önnur augnkrem.

augkrem 1. Forever Light Creator Dark Circle Corrector frá YSL:
Þetta krem er með svo svakalega fallegri perlukenndri áferð svo svæðið í kringum augun ljómar samstundis. Það er alveg ofboðslega fallegt og virkar mjög vel sérstaklega gegn óvelkomnum litum. Kremið er borið á með stútnum.
YSL fáið þið t.d. í snyrtivörudeildum Hagkaupa og Lyf og Heilsu Kringlunni

2. Cellularose Hydradiance Eye Contour frá By Terry:
Þetta krem er borið á með köldu læknastáli og hjálpi mér hvað það er gott. Þetta er kremið sem ég er búin að vera að nota mest núna undanfarið og ég held ég muni gráta þegar það klárast. Ég kreysti bara smá úr túbunni þannig það fari á stálið og nudda því svo varlega yfir húðina sem vaknar samstundis og fær góðan raka.
By Terry vörurnar fást í Madison Ilmhúsi

3. Hydrating Eye Cream frá Bobbi Brown:
Endilega kíkið á fleiri síður sem tala um þetta krem og kynnið ykkur það vel því það er í glaðning sem ég ætla að gefa hér á síðunni í þessari viku. Kremið er svo svakalega rjómakennt og dásamlegt, þykkt og næringarríkt og algjör rakabomba – lagar þannig áferð húðarinnar og dregur úr þrota og þreytu.
Bobbi Brown fáið þið t.d. í Hagkaup Smáraling og Lyf og Heilsu Kringlunni

4. Ibuki Eye Correcting Cream frá Shiseido:
Einfalt og rakamikið augnkrem sem er borið á með fingrunum. Kremið er hugsað fyrir þær sem eru að finna fyrir þessum fyrstu einkennum öldrunar og gefur sérstaklega fallega áferð og mikinn raka.
Shiseido fáið þið t.d. í snyrtivörudeildum Hagkaupa

5. It’s Potent Eye Benefit Cream frá Benefit:
Ég fékk einhver tíman lúxusprufu af þessu kremi erlendis og ég varð samstundis mjög hrifin. Þetta er létt gelkrem sem snöggkælir húðina svo hún frískast upp. Það fer mjög hratt inní húðina og skilur eftir sig fallega og frískandi áferð. Kremið er borið á með fingrunum.
Benefit er ekki fáanlegt á Íslandi.

6. Eye Contour Cream frá Sensai:
Dásamlegt augnkrem sem er líka hægt að fá í formi augngels fyrir þær sem vilja frekar þá áferð – sjálf kýs ég augnkremið. Kremið er ríkt af silki meðal annars og húðin fær alveg dásamlega fallega áferð, það er létt í sér en samt svo drjúgt af næringu – húðin verður dásamleg. Kremið er borið á með fingrunum.
Sensai fáið þið t.d. í snyrtivörudeildum Hagkaupa og Lyf og Heilsu Kringlunni

7. Skin Perfection Eye Cream frá L’Oreal:
Alveg klassískt, þétt og rakamikið augnkrem. Kremið er borið á með fingrunum, að mínu mati gerir það sérstaklega mikið fyrir áferð húðarinnar sem verður þéttari og áferðafallegri. Það dregur úr langvarandi þreytueinkennum yfir húðinni og að mínu mati er það einstaklega góður primer undir hyljara og annað sem ég set undir augun – áferðin verður svo falleg.
L’Oreal fáið þið t.d. í snyrtivörudeildum Hagkaupa, Lyfju og Lyf og Heilsu. 

8. Hydra Cool Firming Eye Gels frá Skyn Iceland:
Ég hef sagt það áður og ég segi það hiklaust aftur þessir eru betri en sterkur kaffibolli á morgnanna. Töfravara sem er sú sem tryggði það að ég kolféll fyrir þessum dásamlegu vörum. Ef þið hafið ekki prófað þessa þá eruð þið að missa af miklu.
Púðarnir fást á nola.is

Vonandi eruð þið einhverju nær um augnkrem. Það er svo sem ógrynni af alls konar augnkremum sem er til á markaðnum. Ef þið eigið ykkur eitthvað uppáhalds merki hér á landi er um að gera að skoða þau sem eru hjá því annars getið þið líka auðvitað nýtt ykkur listann minn hér að ofan. Næst kemur svo kannski B fyrir BB krem, blush eða bronzer – það kemur í ljós…

Mikið vona ég að vikan framundan eigi eftir að vera frábær hjá ykkur!

Erna Hrund

Nýjar línur mæta í MAC á morgun!

Skrifa Innlegg