Ég var rétt í þessu að deila frétt á Ungfrú Ísland um fyrirkomulagið á Ungfrú Ísland í ár og langar að deila því hér með ykkur að auki!
xx
Ungfrú Ísland 2018 verður með öðru sniði en síðustu ár. Frá því nýir eigendur tóku við Ungfrú Ísland árið 2013 hefur rík áhersla verið lögð á að þátttakendur nýti krafta sína og stöðu til að láta gott af sér leiða. Í gegnum Ungfrú Ísland ferlin síðustu ár hafa verið haldnir ýmsir viðburðir og annað slíkt til að safna fyrir góðu málefni. Á síðasta ári, 2017, safnaði hópurinn fyrir góðgerðarsamtökunum Big B sem eru rekin af sjálfboðaliðasamtökunum Norður-Suður í Suður Afríku.
Aðstandendum Ungfrú Ísland langar að leggja meiri áherslu á góðgerðarmál og að fylgja eftir þeim söfnunum og starfi sem hefur verið unnið af þátttakendum síðustu ár og mun því ekki vera eiginlegt lokakvöld Ungfrú Ísland eða ferli einsog venjan er heldur mun starf Ungfrú Ísland 2018 snúast alfarið um góðgerðarmál. Hugmyndin vaknaði út frá starfi Miss World, en margir vita kannski ekki að Miss World eru stærstu góðgerðarsamtök í heiminum. Stjórn og þátttakendur Ungfrú Ísland síðustu ára ætla að sameina krafta sína og nota sumarið í að halda ýmsa viðburði og safnanir og mun síðan hópur á vegum Ungfrú Ísland halda út til Suður Afríku í haust í hjálparstarf. Allt sem safnast í sumar mun renna óskipt til sjálfboðaliðasamtakanna.
Norður-Suður (www.nordursudur.org) sjálfboðaliðasamtökin eru rekin af Lilju Marteinsdóttur og eiginmanni hennar, en þau eru búsett eru ásamt þremur börnum sínum rétt fyrir utan Höfðaborg. Sjálfboðaliðarnir búa á heimili þeirra á meðan þeir sinna ýmis konar sjálfboðaliðastarfi í fátækrahverfum borgarinnar. Nú er unnið er að því að stofna miðstöð á vegum Ungfrú Ísland í einu hverfinu þar sem hópurinn mun m.a. koma til með að vinna í sjálfsstyrkingu ungra stúlkna í hverfunum.
www.nordursudur.org
|
Af þessu leiðir að ekki var opnað fyrir umsóknir í Ungfrú Ísland í ár en við þökkum öllum þeim sem hafa sent inn umsókn og sýnt áhuga og hlökkum til að taka á móti þeim að ári. Við erum ótrúlega spennt fyrir hjálparstarfinu og komum til með að deila ferlinu með þjóðinni á miðlum Ungfrú Ísland (Miss World Iceland). Nánari upplýsingar um söfnunina og verkefnin á vegum Ungfrú Ísland í Suður Afríku koma í ljós á næstu vikum. Þeir sem vilja vita meira um starfið eða leggja okkur lið er bent á að hafa samband við ungfruisland@ungfruisland.is
xx
Fyrir hönd Ungfrú Ísland,
Birgitta Líf Björnsdóttir, framkvæmdarstjóri.
Skrifa Innlegg