fbpx

Húfa á höfði; Vík Prjónsdóttir

Miðað við veðurfréttir þá held ég að það þýði ekkert annað næstu vikurnar en að setja fallega húfu á höfuð og skella sér í kuldaskóna.

Sem betur fer er ágætt úrval fallegra húfa í boði í dag, en nýju húfurnar frá Vík Prjónsdóttur vöktu þó sérstaka athygli mína, og það er ekki einungis vegna ullarinnar sem er svo hlý og góð, heldur sögunnar og hönnunarinnar á bak við húfurnar sem bera heitið Sólhattar eða Sun hats. 

Til að útskýra þetta betur þá hefur Vík Prjónsdóttir hannað Sólhatt fyrir hvern mánuð ársins. Hún byrjar á að kynna fyrstu fjóra; maí, júní, júlí og ágúst og er innblásturinn sóttur í miðnætursólina og þá mögnuðu liti sem birtast okkur þegar dagur og nótt renna saman.

vikprjons1

Ég vildi að sjálfsögðu vita meira og spurði Brynhildi Pálsdóttir vöruhönnuð og eina af þremur eigendum Vík Prjónsdóttur nánar út í nýju húfurnar:

Húfurnar eru prjónaðar úr 100% enskri lambs ull í þýskri prjónaverksmiðju sem er búin að vera í eigu sömu fjölskyldu frá stofnun hennar sem var árið 1871. Ég er búin að heimsækja verksmiðjuna nokkrum sinnum og það eru tveir frændur sem að stýra henni og er frábær stemmning að koma þangað og hitta þá. Þeir nota nýjust prjónavélarnar og eru aðallega að framleiða fyrir minni hönnuði með litla framleiðslu og eru mjög opnir fyrir allskonar tilraunum og pælingum sem er mjög skemmtilegt.

Þetta er í fyrsta skipti sem Vík Prjónsdóttir framleiðir erlendis, en okkur langaði að kanna nýjar slóðir og prufa að vinna með nýjustu tækni í prjóni og mýkri ull. Við fréttum af þessari verksmiðju í gegnum vin í Þýskalandi og þannig fór þetta af stað.

Húfan er prjónuð í sniði og kemur því næstum því tilbúin út úr vélinni, en allur frágangur er síðan gerður í höndunum.

Verksmiðjan hefur verið að framleiða í áratugi sjóarapeysur og húfur, og fannst okkur gaman að vinna með þeirra hefð og þekkingu en að taka hana í aðrar áttir og búa til sólhatta fyrir norðurslóðir. 

Það er líka áhugavert að vinna með þá staðreynd að við notum húfur allan ársins hring, svona næstum því, þar kviknaði hugmyndin um sólhattana, því að hér á norðurslóðum er góð ullarhúfa alveg jafn mikilvæg um sumarið og stráhatturinn er á suðlægari slóðum…

Svo er gott að minna okkur á sólina núna þegar dimmasti tíminn er að ganga í garð og setja upp sólhattana og hugsa um birtuna og hlýjuna og þá staðreynd að sólin kemur aftur eftir smá…

Jústa&Sigmar ♥

Skrifa Innlegg