Eins og ég hef aðeins of oft greint hér frá áður, hefði ég átt að útskrifast núna í vor hefði ég ekki ftekið mér ársfrí í fæðingarorlofi. En ég hef reynt að fylgjast aðeins með krökkunum í gegnum ferlið að lokaverkefninu þeirra sem hefur verið einstaklega gaman. Langar mig þess vegna að deila með ykkur hér útskriftarverkefnum þeirra og pælingunum á bak við þau. Ég set verkefnin í tvö blogg, og birti seinna bloggið á morgun.
Vil ég minna á að sýningin er opin öllum og stendur til 5.maí. Hún er í Listasafni Reykjavíkur og það besta er, að það er frítt inn. Endilega gerið ykkur ferð!
…………………….
Uppbrot, Guðný Pálsdóttir
Tölvuleikjaheimurinn hefur ávallt heillað mig og þykir mér jafnspennandi að dvelja í honum sem og raunheimi. Tölvuleikir bjóða upp á umhverfi án allra þeirra takmarkana sem einkenna raunveruleikann. Eins og er búum við í tveimur veruleikum, annars vegar innan veggja tölvunnar og hinsvegar utan hennar í manngerðu umhverfi.
Uppbrot er óður til þessara tveggja veruleika. Grunnformið úr heimi sýndarveruleikans, þríhyrningurinn, er settur inn í heim raunveruleikans í þrívíðri mynd til að brjóta upp þetta ferhyrningslaga umhverfi sem við búum við og til að setja þríhyrninginn á sama stall og hin grunnformin. gudnypalsd@gmail.com
…………………
Staldur, Ólöf Rut Stefánsdóttir
Hugmyndin að Staldri kom út frá vangaveltum um riddara nútímans, en þótti mér kómískt að flokka reiðhjólafólk sem slíka riddara. Þjótandi á milli staða á tvíhjóla fákum stuðlar reiðhjólafólk að eigin hreysti, vistvænum ferðamáta og hefur hvetjandi áhrif á samfélagið.
Hjólreiðamenning á Íslandi fer ört vaxandi, en athyglisvert er að hönnun fyrir hjólreiðar hefur að mestu leyti einskorðast við hjólreiðamanninn og hjólið sjálft. Minn útgangspunktur er því að einblína á heildina og skapa félagslegan vettvang fyrir hjólreiðafólk. Lagði ég upp með að hanna hringborð fyrir riddara nútímans. Aðstöðu sem býður upp á samveru, fyrirfram ákveðinn og/eða óvæntan félagsskap.
Borðið Staldur er einnig standur fyrir hjólin þar sem riddarar geta rennt sér beint í hlað og þurfa því ekki að fara af baki til að sitja við borðið. Fætur borðsins eru auk þess búnir vatnsleiðslum svo vegfarendur geti svalað þorsta sínum.
Staldur er því áningarstaður en jafnframt liður í að stuðla að hagnýtu umhverfi fyrir hjólreiðar, gera þær sýnilegri og skapa þeim aukinn vettvang.
………………………………
110°, María Guðjónsdóttir
Nú á dögum verjum við umtalsverðum tíma við tölvur og sitjum drjúgan hluta úr degi í stólum við hverskyns athafnir í bæði leik og starfi. Niðurstöður úr nýlegum rannsóknum sýna svo ekki verður um villst að stóllinn og setustöður hafa slæmar afleiðingar fyrir stoðkerfið. Því gefur það augaleið að stóru liðamót stoðkerfisins eiga erfitt með að halda sér í 90° vinkli.
110° er borð ætlað til notkunar við ýmiskonar tölvuvinnu. Borðplatan hallar 110° niður útfrá lóðréttri standandi stöðu líkamans. Það veitir því handleggnum svigrúm til að opna 90°vinkilinn í olnboga og sömuleiðis réttir úr úlnliðnum. Með hönnun á 110° borðinu er leitast við að skapa jafnvægi í líkamanum.
Ég semsagt færi borðplötuna úr 90° niður í 110°halla. Sem hefur það þá í för með sér að handleggurinn er meira aflíðandi og engin spenna í vöðvunum. Einnig hvílir olnbogi á borðbrúninni og skapar ennbetri hvíld í handleggjum.
Er búin að starfa sem heilusnuddari um nokkurra ára skeið og er að fá til mín fólk með ýmis vinnutengd álagsmeiðsl. Ég var því forvitin að sjá vinnu aðstöðu þeirra. Ég tók myndavélina mína og fór á nokkra vinnustaði og fannst áhugavert að sjá hvað fólk sem að vinnur við tölvur var mikið að búa sér til hentuga vinnuaðstöðu úr hreinlega því sem að hendi stóð næst, gott dæmi um það voru til dæmis ruslatunnur uppá borðum til þess að hækka tölvurnar.
VIð nánari athugun á stoðkerfi líkamans og í kjölfar spjalls við góðan sjúkraþjálfara var ég komin með ákjósanlegustu stöðu herðablaðanna, þar sem má segja að líkaminn sé í jafnvægi og eiginlegri hvíld. Útfrá þessum athugunum og og nánari skoðun varð 110°borðið til.
Þetta er borð fyrir þá sem að vinna mikið við tölvur. http://doabledesign.is/
Skrifa Innlegg