fbpx

Theodóra Mjöll

UM MIG

Hæææ

Ég heiti Theodóra Mjöll Skúladóttir Jack.

Ég útskrifaðist sem hárgreiðslusveinka 2008, vann sem nemi á Toni&Guy frá 2004-2007 og fór þaðan yfir á Rauðhettu&Úlfinn þar sem ég er enn með annan fótinn að klippa og lita.

Jólin 2007 kynntist ég manninum mínum og eignuðumst við okkar fyrsta “barn” ári síðar, hann Tinna, sem er dásamlegur amerískur cocker spaniel.

Þar sem mér fannst hárgreiðslan setja mér of mikil takmörk þá leitaði ég til frekara náms aðeins 3 mánuðum eftir útskrift og fór bæði í Iðnskólann í Rkv og Iðnskólann í Hafnarfirði á hönnunarbraut. Þar tók ég nokkra frábæra áfanga með starfinu á Rauðhettu og ég fann að það var ekki aftur snúið. Ég elskaði að skapa, búa til, teikna og smíða.

Haustið 2009 kom okkar annað barn, hann Kolbeinn Kapteinn, aka Koli, tryllingsóður og orkumeiri en tifandi atómsprengja, ferfætlingur og bastarður. Blanda af labrador og border collie (að við höldum).

Vorið 2010 ákvað ég að sækja um í Listaháskólanum á vöruhönnunarbraut og setti saman möppu með myndum af öllu draslinu sem ég var búin að vera að setja saman síðustu 2 ár og fékk inngöngu mér til mikillar furðu og ánægju.

Fyrsta árið í LHÍ var æðislegt. Ótrúlega erfitt og krefjandi, en uppbyggjandi. Þar lærði ég að taka faglegri gagnrýni og að koma fram og standa með verkum mínum sem ég bý svo vel að í dag.

Sumarið 2011 giftumst við Emil og varð ég alveg óvart ólétt hálfu ári síðar.

Í janúar 2012 (um svipað leyti og ég varð ólétt) byrjaði ég á fyrstu bókinni minni “HÁRIД og hef ég oft grínast með það að bókin tók sama tíma og ein meðganga, enda átti ég Ólíver son minn aðeins nokkrum dögum áður en bókin kom úr prentun.

Ég tók mér leyfi frá skólanum og var í fæðingarorlofi haustið 2012, en vorönnina 2013 tók ég tvo áfanga í skólanum til að halda mér við efnið.

Í maí 2013 gerði ég “style guide” fyrir hárvörumerkið HH simonsen sem var gefið út núna í enda september í Norðurlöndunum. Bókin heitir “INNBLÁSTUR”.

Í júlí 2013 gafst mér það frábæra tækifæri að gera nýja bók og tók ég þá erfiðu ákvörðun í kjölfarið að taka mér annað ársleyfi frá skólanum til að geta sinnt því verkefni af heilum hug. Bókin kemur út í byrjun nóvember og ber heitið “LOKKAR”.

Síðan 2010 hef ég einnig verið að vinna sem freelance hárgreiðslupía, þar sem ég hef tekið að mér verkefni fyrir auglýsingar, tískuþætti, viðburði, sjónvarp, brúðkaup og fleira.