fbpx

Kraftaverk í Suðurveri

Ég ætla að segja ykkur sögu. Mætti segja vælusögu, en hvernig sem litið er á það þá vona ég að hún hjálpi einhverjum eða öfugt.

Þegar ég var á unglingsaldri yngri meiddist ég í mjöðm og hef átt við mjóbaksvandamál síðan þá. Það var þó aldrei neitt sérstaklega slæmt, þangað til einn daginn þegar ég var búin að vera nemi á Toni&Guy í nokkurn tíma og ganga á pinnahælum frá 9-6 alla daga, að eitthvað klikkaði. Síðan þá hef ég farið til örugglega 10 mismunandi sjúkraþjálfara, nálastungur, farið reglulega í nudd og verið hjá kírópraktor, en ekkert virðist virka.

Þegar ég varð svo ólétt fékk ég mikla grindargliðnun og gat ekki og mátti varla hreyfa mig alla meðgönguna. Ég fór í nálastungur einu sinni í viku ásamt því að fara í nudd nánast einu sinni í viku til að halda mér gangandi. Eftir að ég átti hef ég verið að ströggla við vandamálið en það var þó ekki eins slæmt og áður. Þangað til fyrir um tveimur mánuðum síðan þá byrjaði ég að fara til kírópraktors aftur. Nú hef ég farið í 13 tíma á tveimur mánuðum og ekkert virkar. Jæja, í morgun fékk ég nóg eftir að Emil maðurinn minn þurfti að hjálpa mér upp úr rúminu í morgun og mundi eftir því að Rakel vinkona mín á við svipað vandamál að stríða og fer alltaf til “vúdú”-læknisins í Suðurveri. Hún talar svo rosalega vel um hann og segir að eftir margra ára reynslu, þá er hann sá eini sem virkar!

Ég hringdi og pantaði mér tíma, fékk tíma kl 11:30 og allt í góðu með það. Þegar ég labbaði upp á aðra hæð í Suðurveri biðu mín dyr að sannleikanum, Lækningarstofan í Suðurveri, Björgvin M Óskarsson svæfingarlæknir, nálastungur, verkjameðferðir og deyfingar. Þetta hljómar allt voðalega pro og býst maður við að labba inn á steríla einkastofu með háglans og sótthreinsun. En svo var sko sannarlega ekki.

Tóku á móti mér eldri hjón, hún í móttöku og hann í læknaslopp. Viðmótið var eins og að kíkja í heimsókn til foreldra eða ömmu og afa. Hann var dálítið kántrí-legur, vel rakað donut og bros í stíl…vantaði bara “howdy” og kúrekahattinn. Hún með yndislegasta viðmót af móttökudömu sem ég hef á ævi minni kynnst. Ljúf, blíð og einlæg.

Þau tóku á móti mér með bros á vör og spurðu mig spjörunum út um verkina og hvað ég hef gert við þeim áður og annað. Ég lagðist svo á bekk þar sem þau bæði skoðuðu mig og ræddu hvað væri best að gera, og ég spehrædda pían fann ekki ögn fyrir óþægindum í garð þeirra að vera að grandskoða mig á nærbuxunum einum.

Ég var sprautuð með bólgueyðandi í þá helstu staði sem bógnir eru og fékk nálastungur á eftir.

Nú er bara að bíða og sjá……mun þetta virka? Ég hef fulla trú á því! Það hlýtur að vera….

Er einhver hér með reynslu af bólgueyðandi sprautum, og/eða með aðrar lausnir?

Herrahár

Skrifa Innlegg

11 Skilaboð

  1. Anna

    27. May 2013

    Mætti ég spyrja hvað þessi tími kostaði ? :-)

    • Theodóra Mjöll

      27. May 2013

      Hann kostaði 12.500,-kr.
      Mér finnst það frekar mikið, en ég vona innilega að það sé þess virði!

  2. Rakel

    27. May 2013

    Sko þetta snarvirkaði á mig, en það tekur smá tíma. Svo verður maður líka að finna aðrar lausnir eftirá til að bólgurnar komi ekki aftur og það sem virkði lang best á mig er yoga ;) maður á helst ekki að fá sprauturnar nema maður virkilega þurfi, eins og td þegar maður er ekki eldri en við og þurfum aðstoð við að komast upp úr rúminu!! hahaha are we getting old or what?!

    • Theodóra Mjöll

      27. May 2013

      Haha segðu! Hvað er í gangi! Ég er búin að vera að bölva þessu ástandi í sand og ösku of mikið og hugsa með sjálfri mér hvað í ósköpunum gerir það að verkum að þetta ástand skuli vera til staðar á 26 ára “gamalli” píu! Hvað er eiginlega í gangi??

      En já, ég held að jóga sé málið. Rólegar æfingar sem reyna á djúpvöðvana. Það er næst á dagskrá! :)

  3. Marta Kristín

    27. May 2013

    Hefur þú prófað krem sem heitir Sore no more? Það er til bæði hita og kæli krem en að mínu mati er hita mun betra. Mæli klárlega með því og sérstaklega á vöðvabólgu og mjóbaksverki :)

    • Theodóra Mjöll

      27. May 2013

      Nei ég hef ekki prófað það. Takk fyrir ábendinguna, ég kíki á það!

  4. Kolla

    28. May 2013

    Hlakka til að heyra framhaldið,ég fór einmitt í aðgerð á mjöðm sem krakki.Grindargliðnun á síðustu meðgöngu og tognaði í bakinu síðasta haust. Komin með brjósklos og búin að vera hjá sjúkraþjálfara síðan í janúar og fá sprautur hjá taugalækni en ekkert betri.

  5. Elísa J.

    28. May 2013

    Ég mæli eindregið með jóga. Ég er með brjósklos á milli tveggja hálsliða og hef tvisvar lent í því að festast algjörlega í hálsinum og orðið að vera frá vinnu í tvær vikur í hvort skiptið, hef þá verið hjá sjúkraþjálfara og svona. Þó ég væri „góð“ þá var ég samt alltaf með einhverja verki þangað til ég byrjaði í jóga, það heldur mér góðri og verkjalausri.
    Ég mæli allavega með jóganu:) Bara að passa að gera ekki æfingar sem reyna á mjóbakið á meðan þú ert slæm og byrja á alvöru jógastöð þar sem kennarinn getur sagt þér hvaða æfingum þú átt að passa þig á út af bakinu.

  6. Ég var mjög slæm í baki á meðgöngu. Fór í segulómun, hnykkjara og sjúkraþjálfara. Kom allt fínt útur segulómum en kostaði um 50.000 kr hnykkjari/sjúkraþjálfari og nuddari allt ótrúlega gott til að losa um spennu en rándýrt til lengdar. Mjög fyrirsjáanlegt líklega það sem kemur næst. En jóga daglega morgna og kvöld hefur bara bjargað minni andlegri og líkamlegu heilsu. Losar um spennu, streitu og þreytu úr líkamanum. Ég er meðvitaðari um hvar ég finn fyrir óþægindum og geng strax í verkið. Fór til London fyrir stuttu t.d. ég geri bara jóga í flugvélinni, lestunum hvar sem er ef að það hjálpar mér að líða vel í líkamanum undir álagi. Ég mæli með byrjendanámskeiði til að þú lærir undirstöðuatriðin og fáir faglega ráðleggingu út frá stoðkerfisvandamálum þínum. Kær kveðja Sunna Dís

  7. Ástríður

    7. June 2013

    Hæ elsku Theódóra!

    Vonandi verðuru betri, ég vil bara ráðleggja þér að passa þig á voltaren sem er bólgueyðandi. Það er í raun ótrúlegt hvað þetta er algengt lyf miðað við hvað það hefur hættulegar aukaverkanir.

    B.kv.
    Ástríður

    • Theodóra Mjöll

      7. June 2013

      Já takk fyrir það. Ég tók mikið voltaren þegar ég var yngri og vil meina að ég sé með viðkvæman maga vegna þess. Hrikalegar aukaverkanir af voltaren! Skil ekki í dag af hverju mér var ráðlagt 13 ára gamalli að taka eina voltaren á dag…..

      En síðan ég fór í sprauturnar er ég orðin miklu betri. Ég mæli þó auðvitað ekki með þessu nema fyrir þá sem eru búnir að prófa allt, og þetta er að sjálfsögðu skammtímalusn. Ég hugsa að ég taki kommentunum að ofan mér til fyrirmyndar og skelli mér í jóga! :)

      Takk fyrir allar ábendingarnar. Bakvandamál er vandamál sem allir glíma við einhverntíman á ævinni og það er gott að opna umræðuna um hvað er best að gera í stöðunni til lengri tíma litið.