Ég rakst á þennan frábæra status sem Örn Arnarson deildi á facebook fyrr í dag um mikilvægi og vinnu Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Verð ég því að deila honum með ykkur.
Að gefnu tilefni vil ég minna á að Sinfóníuhljómsveit Íslands er einungis skipuð afreksfólki. Það fær enginn að spila þarna nema afreksmenn á sitt hljóðfæri. Til þess að verða afreksmaður í klassískum hljóðfæraleik þarf töluverða hæfileika frá náttúrunnar hendi en fyrst og fremst mikla og agaða ástundun frá barnsaldri. Þetta er fólkið sem skaraði fram úr í sínum árgangi í sínu byggðalagi, stundaði svo langt, dýrt og krefjandi nám frá unglingsaldri, yfirleitt framhaldsnám erlendis og þurfti sjálft að afla sér dýrra hljóðfæra. Sum þeirra sem best stóðu sig fengu svo vinnu hjá SÍ. Þar vinnur það undir miklu álagi, andlegu og líkamlegu. Viðfangsefnin eru oftast krefjandi, það má ekkert klikka og álagmeiðsli hljóðfæraleikara eru algeng. Það er heilmikið mál fyrir háklassa hljóðfæraleikara að halda sér í topp formi en eins gott að vanrækja það ekki í þessari hljómsveit því þá missa þeir einfaldlega vinnuna. Það skrýtna er að þetta fólk er til í að vinna þarna á undarlega lágum launum. SÍ er kjölfesta. Hennar vegna er hér hópur topp hljómsveitaspilara í topp formi sem tekur að sér ótal verkefni utan Sinfóníunnar og heldur þannig uppi ótrúlega góðum standard í klassískum tónlistarfluttningi þessarar fámennu þjóðar. Stöndum vörð um íslenska menningu! Stöndum vörð um Sinfóníuhljómsveit Íslands!
Skrifa Innlegg