Ég ætla að segja ykkur sögu. Mætti segja vælusögu, en hvernig sem litið er á það þá vona ég að hún hjálpi einhverjum eða öfugt.
Þegar ég var á unglingsaldri yngri meiddist ég í mjöðm og hef átt við mjóbaksvandamál síðan þá. Það var þó aldrei neitt sérstaklega slæmt, þangað til einn daginn þegar ég var búin að vera nemi á Toni&Guy í nokkurn tíma og ganga á pinnahælum frá 9-6 alla daga, að eitthvað klikkaði. Síðan þá hef ég farið til örugglega 10 mismunandi sjúkraþjálfara, nálastungur, farið reglulega í nudd og verið hjá kírópraktor, en ekkert virðist virka.
Þegar ég varð svo ólétt fékk ég mikla grindargliðnun og gat ekki og mátti varla hreyfa mig alla meðgönguna. Ég fór í nálastungur einu sinni í viku ásamt því að fara í nudd nánast einu sinni í viku til að halda mér gangandi. Eftir að ég átti hef ég verið að ströggla við vandamálið en það var þó ekki eins slæmt og áður. Þangað til fyrir um tveimur mánuðum síðan þá byrjaði ég að fara til kírópraktors aftur. Nú hef ég farið í 13 tíma á tveimur mánuðum og ekkert virkar. Jæja, í morgun fékk ég nóg eftir að Emil maðurinn minn þurfti að hjálpa mér upp úr rúminu í morgun og mundi eftir því að Rakel vinkona mín á við svipað vandamál að stríða og fer alltaf til “vúdú”-læknisins í Suðurveri. Hún talar svo rosalega vel um hann og segir að eftir margra ára reynslu, þá er hann sá eini sem virkar!
Ég hringdi og pantaði mér tíma, fékk tíma kl 11:30 og allt í góðu með það. Þegar ég labbaði upp á aðra hæð í Suðurveri biðu mín dyr að sannleikanum, Lækningarstofan í Suðurveri, Björgvin M Óskarsson svæfingarlæknir, nálastungur, verkjameðferðir og deyfingar. Þetta hljómar allt voðalega pro og býst maður við að labba inn á steríla einkastofu með háglans og sótthreinsun. En svo var sko sannarlega ekki.
Tóku á móti mér eldri hjón, hún í móttöku og hann í læknaslopp. Viðmótið var eins og að kíkja í heimsókn til foreldra eða ömmu og afa. Hann var dálítið kántrí-legur, vel rakað donut og bros í stíl…vantaði bara “howdy” og kúrekahattinn. Hún með yndislegasta viðmót af móttökudömu sem ég hef á ævi minni kynnst. Ljúf, blíð og einlæg.
Þau tóku á móti mér með bros á vör og spurðu mig spjörunum út um verkina og hvað ég hef gert við þeim áður og annað. Ég lagðist svo á bekk þar sem þau bæði skoðuðu mig og ræddu hvað væri best að gera, og ég spehrædda pían fann ekki ögn fyrir óþægindum í garð þeirra að vera að grandskoða mig á nærbuxunum einum.
Ég var sprautuð með bólgueyðandi í þá helstu staði sem bógnir eru og fékk nálastungur á eftir.
Nú er bara að bíða og sjá……mun þetta virka? Ég hef fulla trú á því! Það hlýtur að vera….
Er einhver hér með reynslu af bólgueyðandi sprautum, og/eða með aðrar lausnir?
Skrifa Innlegg