fbpx

Ker, Mann fram af manni, Verndarbaugur og V/S

Nú kemur að seinni hluta útskriftarverkefna vöruhönnunarinnar í ár. En ég náði ekki að setja  öll verkefnin inn, vantar upp á nokkur. Ef þið eruð forvitin og viljið sjá verkefnin með berum augum, þá er Útskriftarsýning Lhí opin öllum til 5.maí næstkomandi. Gerið ykkur ferð! Þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

………………..

 

Ker, Hjörtur Matthías Skúlason

Vegna stöðugrar fjölgunar mannkyns þéttast byggðir og híbýli minnka, sem kallar 
á færri en fjölnýtanlegri hluti. Sífellt fleiri sækjast nú eftir því að neyta lífrænnar fæðu 
umfram unnar matvörur. Verkun og eldun matarins spilar þar stóran sess og krafa 
um að matur haldi sínu upprunalega næringargildi.
KER
Fornminjar um allan heim sýna að útbreiðslu leirpottsins voru engin mörk sett.  Að verka mat og elda í leirílátum byggir á ævafornri hefð sem maðurinn hefur þróað með sér í gegnum tíðina. KER er samsett úr þremur hlutum sem henta til verkunar, eldunar og framreiðslu matar. Þá má nota saman eða staka. Matarhefðum og verkun norðlægra slóða er gert hátt undir höfði með þessum ílátum, sem gefa nútímamanninum kost á að þróa áfram matarmenningu byggða á gömlum grunni. Söltun, reyking og súrsun er þar í brennidepli.

Gamlar aðferðir við vinnslu og geymslu á mat byggðu á náttúrulegum ferlum og voru því vistvænar. Fiskur var t.d. slægður og hengdur upp á köldum og helst vindasömum stað. Hvort tveggja fiskur og kjöt var lagt í saltpækil, en segja má að sérstaða íslenskrar matarmenningar hafi helst legið í súrsun. Notast var við skyrmysu til súrsunar og afurðir sauðfjárins, innmatur jafnt sem kjöt, geymdar í skyrmysunni. Reyking var einnig aðferð sem var mjög útbreidd um norðlægar slóðir. Flestar þjóðir reyktu með koluðum harðvið en hér á Íslandi var hann í takmörkuðu magni og birki er okkar eini harðviður. Þar sem ekki var um auðugan skóg að grisja brugðu Íslendingar á það ráð að brenna sauðatað í staðinn, sem gaf mildan reyk og þar af leiðandi gott reykjarbragð.
………………………..
Mann fram af manni, Steinrún Ótta Stefánsdóttir

 Verkið er afrakstur rannsóknarvinnu í kring um gamlan skáp, ferðir hans, tilgang og eigendur. Ég vil vekja fólk til umhugsunar um það neysluóhóf  sem tíðkast í heiminum í dag, fá það til að endurmeta eigur sínar og auka verðgildið með sögum og minningum. Með skrásetningu á æviskeiði hluta má lengja líf þeirra og gildishlaða þannig að tilfinningalegt vermæti aukist. þ.e. verðmæti í minningarlegu samhengi.

Með því að halda í eigur okkar helmingi lengur en upphaflega var áætlað getum við minnkað óþarfa neyslu og framleiðslu í heiminum um helming.

Ef hlutirnir ganga mann fram af manni, kynslóðanna á milli, hefur nýtingin jákvæð áhrif á umhverfið.

Verkið er því óður til hluta með sögu og fær fólk til að vanda valið og endurhugsa verðmæti fortíðarinnar í nútímasamfélagi.

Útkoman var því bók um ævisögu skáps auk þess sem grafin voru öll nöfn eigenda og fæðingarár í hlið skápsins með tölvufræsara. Þannig er áframhaldandi líf skápsins tryggt.
………………………
Verndarbaugur, Elín Bríta

Frá blautu barnsbeini hef ég haft mikla þörf fyrir trú á litlu hlutina; steinvölu, lítinn leir hlut eða bómullarþráð sem eitt sinn var armband. Þessir litlu hlutir minna mig á ákveðinn tíma eða augnablik sem breyttu lífssýn minni á einhvern hátt.

Ég hef aldrei getað látið þessa hluti frá mér og mun án efa aldrei gera það. 

Smáhlutir úr náttúrulegum efnum með ólíka áferð og eiginleika hafa fylgt mér frá unga aldri og þjónað tilgangi verndargrips. Steinvölurnar sem ég notaði í þessum tilgangi sem barn þróuðust  í skartgripi við táningssárin. Þeir hjálpa mér með aðstoð snertiskynsins að halda ró í aðstæðum sem valda mér streitu.

Verndarbaugur er persónuleg túlkun á hugtakinu verndargripur og er rökrétt framhald af sögu minni við þá. Hann er færður í nútmímalegan búning með aðstoð hátækni og tengir þannig fortíð mína við nútímann.

Verndarbaugur er unninn úr silfri, þorskleðri, áli, steini og tré, en öll efnin eru náttúrúleg og hafa langan líftíma. Verndarbaugur er skartgripur sem gerður er til að standast tímans tönn.

Inni í Verndarbaugunum eru mismunandi samsetningar efna sem búa yfir ólíkum eiginleikum.

00

Hringformið stendur fyrir framþróun, sameiningu og eilífa hringrás.

Silfur endurkastar neikvæðni, veitir öryggi og vernd gegn hinu illa og magnar eiginleika efna í návist þess.

01

Mannshár táknar minningu og traust til þeirrar manneskju sem hárið er af. 

02

Gabbró eflir tengingu við sjálfið og gefur aukinn drifkraft.

 Ál  er táknrænt fyrir nýja tíma og framþróun og veitir yfirnáttúrulega vernd.

 03

Birki er heilagt tré á norrænum slóðum, táknar æsku, nýtt upphaf og róar tilfinningar.

 Gabbró er afar sterkbyggður steinn sem stendur fyrir vald, styrk og jafnvægi.

 04

Basalt er steinn hugrekkis og styrks, veitir stöðugleika og ró og ýtir undir sköpunarkraftinn.

Líparít býr yfir yngingarkrafti, stuðlar að andlegu heilbrigði og eykur einbeitingu.

…………………..
V/S, Eysteinn Jónasson
Þegar vetur og sumar frjósa saman
 
V/S er gosdrykkur sem sækir innblástur sinn í hið forna íslenska tímatal þegar árstíðirnar voru aðeins tvær, vetur og sumar. Það er talið boða gott sumar þegar vetur og sumar frjósa saman. Drykkurinn er gerður úr íslensku hráefni og er bragðið þróað með það í huga að parast vel íslensku brennivíni. Brennivínið er táknrænt fyrir veturinn þar sem það er jafnan drukkið ískalt á þorranum.  V/S endurspeglar hins vegar íslenskt sumar, ferskleika, frjósemi og uppskeru.

Uppbrot, 110° og Staldur

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Elísabet Gunnars

    26. April 2013

    Ég er mjög hrifin af þessum verndarbaug. Fallegt.