Nú kemur að seinni hluta útskriftarverkefna vöruhönnunarinnar í ár. En ég náði ekki að setja öll verkefnin inn, vantar upp á nokkur. Ef þið eruð forvitin og viljið sjá verkefnin með berum augum, þá er Útskriftarsýning Lhí opin öllum til 5.maí næstkomandi. Gerið ykkur ferð! Þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.
………………..
Ker, Hjörtur Matthías Skúlason
Verkið er afrakstur rannsóknarvinnu í kring um gamlan skáp, ferðir hans, tilgang og eigendur. Ég vil vekja fólk til umhugsunar um það neysluóhóf sem tíðkast í heiminum í dag, fá það til að endurmeta eigur sínar og auka verðgildið með sögum og minningum. Með skrásetningu á æviskeiði hluta má lengja líf þeirra og gildishlaða þannig að tilfinningalegt vermæti aukist. þ.e. verðmæti í minningarlegu samhengi.
Með því að halda í eigur okkar helmingi lengur en upphaflega var áætlað getum við minnkað óþarfa neyslu og framleiðslu í heiminum um helming.
Ef hlutirnir ganga mann fram af manni, kynslóðanna á milli, hefur nýtingin jákvæð áhrif á umhverfið.
Verkið er því óður til hluta með sögu og fær fólk til að vanda valið og endurhugsa verðmæti fortíðarinnar í nútímasamfélagi.
Frá blautu barnsbeini hef ég haft mikla þörf fyrir trú á litlu hlutina; steinvölu, lítinn leir hlut eða bómullarþráð sem eitt sinn var armband. Þessir litlu hlutir minna mig á ákveðinn tíma eða augnablik sem breyttu lífssýn minni á einhvern hátt.
Ég hef aldrei getað látið þessa hluti frá mér og mun án efa aldrei gera það.
Smáhlutir úr náttúrulegum efnum með ólíka áferð og eiginleika hafa fylgt mér frá unga aldri og þjónað tilgangi verndargrips. Steinvölurnar sem ég notaði í þessum tilgangi sem barn þróuðust í skartgripi við táningssárin. Þeir hjálpa mér með aðstoð snertiskynsins að halda ró í aðstæðum sem valda mér streitu.
Verndarbaugur er persónuleg túlkun á hugtakinu verndargripur og er rökrétt framhald af sögu minni við þá. Hann er færður í nútmímalegan búning með aðstoð hátækni og tengir þannig fortíð mína við nútímann.
Verndarbaugur er unninn úr silfri, þorskleðri, áli, steini og tré, en öll efnin eru náttúrúleg og hafa langan líftíma. Verndarbaugur er skartgripur sem gerður er til að standast tímans tönn.
Inni í Verndarbaugunum eru mismunandi samsetningar efna sem búa yfir ólíkum eiginleikum.
00
Hringformið stendur fyrir framþróun, sameiningu og eilífa hringrás.
Silfur endurkastar neikvæðni, veitir öryggi og vernd gegn hinu illa og magnar eiginleika efna í návist þess.
01
Mannshár táknar minningu og traust til þeirrar manneskju sem hárið er af.
02
Gabbró eflir tengingu við sjálfið og gefur aukinn drifkraft.
Ál er táknrænt fyrir nýja tíma og framþróun og veitir yfirnáttúrulega vernd.
03
Birki er heilagt tré á norrænum slóðum, táknar æsku, nýtt upphaf og róar tilfinningar.
Gabbró er afar sterkbyggður steinn sem stendur fyrir vald, styrk og jafnvægi.
04
Basalt er steinn hugrekkis og styrks, veitir stöðugleika og ró og ýtir undir sköpunarkraftinn.
Líparít býr yfir yngingarkrafti, stuðlar að andlegu heilbrigði og eykur einbeitingu.
Skrifa Innlegg