fbpx

Föt og snyrtivörur í Kolaportinu á sunnudag!

Lífið Mitt

Mig langar endilega að hvetja sem flestar til að kíkja á mig í Kolaportinu um helgina þar sem ég verð með bás nr. 8E. Ég hef losað ansi vel úr fataskápnum, bæði fatnaður og skór og einnig verð ég með nokkra húsmuni og snyrtivörur. Allt verður til sölu á góðu og sanngjörnu verði nema snyrtivörurnar sem mig langar að gera aðeins annað með…

Ég hef verið að velta því mikið fyrir mér hvernig ég get látið gott af mér leiða undanfarna daga. Nú eins og þið vitið margar fæ ég mikið af snyrtivörusýnishornum til að prófa og ef mér líst á þær segi ég ykkur frá þeim. Hjá mér safnast snyrtivörurnar upp og mér finnst svo leiðinlegt ef það nær enginn að nýta þær. Ég hef gefið mikið af vörum í Konukot sem hafa vonandi nýst konunum sem sækja aðstoð þangað. Nú langar mig að styrkja málefni sem stendur mér nærri. Því hef ég ákveðið að safna fyrir styrktarfélagið Líf.

„Líf styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans hefur þann tilgang að bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Félagið vinnur að líknar- og mannúðarmálum í þágu fjölskyldna.“

Ég valdi Líf vegna þess að ég hef notið góðs af þjónustu yndislegs starfsfólk sem vinnur á kvennadeild Landspítalans. Bæði lá ég í 3 daga á sængurkvennagangi með nýrnasteina á meðgöngunni og fæðingin hans Tinna var 30 tímar og ég eyddi þeim tíma með þremur yndislegum ljósmæðrum sem ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast. Skemmtilegast við þetta allt var að ljósmóðirin sem tók á móti mér uppá deild tók á móti Tinna Snæ á næstu vaktinni sinni :) Þær veittu mér ómetanlegan stuðning og ég hefði aldrei getað þetta án þeirra hjálpar. Ég fékk líka að upplifa bágar vinnuastæður starfsfólksins á deildinni. Á fæðingargangi eru stofurnar ekki stórar á hverju herbergi er fæðingarrúm, lazy boy stóll, hornbaðkar, tölva og lítið skrifborð, svæði fyrir barnið og stór skápur þar sem ýmislegt er geymt. Tvær stofur deila svo baðherbergi sem tekur líka pláss frá stofunni. Eftir fæðinguna mína fæ ég sprautu sem gerir það að verkum að legið dregst saman og minnkar aftur. Í mínu tilfelli gerðist það ekki og í legið safnaðist mikið blóð og mikið slím. Þegar ég missi mikið blóð þá verða æðarnar mínar mjög viðkvæmar og springa við minnstu snertingu. Á tímabili voru inní stofunni minni tvær ljósmæður við hægri hendina mína, tvær ljósmæður við vinstri hendina, svæfingalæknir sem var til staða ef það þurfti að bruna með mig inní aðgerð, deildarlæknirinn og læknaneminn sem tók á móti Tinna, Aðalsteinn, Tinni Snær og ljósmóðirin mín sem stjórnaði aðgerðum. Ég skil ekki enn hvernig allt þetta fólk komst fyrir inná stofunni og ég er þeim ævinlega þakklát þar sem ég veit að það munaði nokkrum sekúndum á því að ég hefði fjarað út og misst meðvitund. Á meðan þessu stóð man ég hvað ég var pirruð, ég var svo þreytt eftir 30 tíma og ég öskraði á fólkið að láta mig vera. Á endanum tókst loks að koma vökva í mig og þá kom í ljós að þvagblaðran mín var svo full að hún kom í veg fyrir að legið drægist saman. Ég missti marga lítra af blóði og þurfti að liggja á sængurkvennagangi og þyggja blóðgjöf í þrjá daga. Eftir að allt þetta var búið og ég hafði fengið að hvíla mig kom ljósmóðirin mín til mín og útskýrði fyrir mér hvað hefði gerst og afhverju ástandið hefði verið svona alvarlegt. Hún var bara að reyna að bjarga mér það var hennar markmið og hún bað mig afsökunar á því hvernig ég hefði upplifað þetta Aðstæðurnar sem þetta yndislega fólk vinnur við er ekki ásættanlegt og mig hefur lengi langað að þakka þeim fyrir það sem þær gerðu fyrir okkur og sérstaklega fyrir mig. Nú get ég vonandi með ykkar hjálp gert það. Á meðan ég sit hér og skrifa þessi orð renna tárin niður kinnarnar því ég get í alvörunni ekki líst því hvað ég er þakklát því sem allt þetta fólk gerði fyrir mig og mig langar loksins að hjálpa þeim og gefa þeim eitthvað tilbaka.

Í staðin fyrir framlög að andvirði 500, 1000, eða 1500kr fáið þið að velja ykkur eitthvað af snyrtivörum frá mér. Ýmist eru þetta sýnishorn sem ég hef fengið sent en þó mest snyrtivörur sem ég hef sjálf keypt og ekki náð að nota. Einnig mun ég láta hluta af því sem ég safna með fatasölunni renna í sjóðinn. Snyrtivörurnar eru allar lítið notaðar eða ónotaðar. Ég passa uppá að vera bara með hreinlegar snyrtivörur þar sem ég hef búið um þannig að það er engin hætta á að neinar sýkingar berist með.

Ég vona að þessi söfnun mín leggist vel í ykkur. Ég er því miður með lítið þol svo ég get ekki tekið þátt í styrktarhlaupum en þetta get ég gert í staðin með ykkar hjálp.

Ég hlakka til að sjá sem flestar en Kolaportið er opið frá 11-17 á sunnudaginn og ég tek fagnandi á móti ykkur. Tek aftur fram að ég verð í bási 8E. Ef þið viljið skoða eitthvað af flíkunum sem ég verð með þá sjáið þið mikið af þeim í albúminu hér fyrir neðan.

Fleiri flíkur getið þið séð HÉR.

Öll hjálp er vel þegin og ég verð öllum sem leggja sitt fram til að hjálpa mér að safna fyrir Líf óendanlega þakklát fyrir sitt framlag.

EH

Langar þig í 20.000kr gjafabréf í VILA?

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

2 Skilaboð

  1. lóa

    7. August 2014

    Yndislegust <3