fbpx

Veljið gæði fram yfir verð, varist eftirlíkingar

makeupMakeup TipsSnyrtivörur

Ég geri mér vel grein fyrir því að snyrtivöruverð á Íslandi hafa hækkað í gegnum árin. Undanfarið hefur verið mjög vinsælt að versla snyrtivörur á netinu, þá vil ég sérstaklega taka Ali Express sem dæmi. Ég hef sjálf verslað snyrtivörur á netinu (reyndar aldrei á Ali Express bara eBay). Ég fer reyndar mjög varlega í þetta og versla í dag bara merki sem ekki fást á Íslandi, þá oftast bara til að svala forvitini minni. Áður en ég kaupi eitthvað les ég mér vel til um vöruna og reyni að ganga úr skugga að um alvöru vöru sé að ræða. Að líta á verðið er besta ráðið sem ég get gefið ykkur til að vita hvað er eftirlíking og hvað ekki. Verðið kemur alltaf upp um vöruna, ef það er hlægilega ódýrt er líklegast að um eftirlíkingu sé að ræða.

Áður fyrr var ég mun kærulausari og hef keypt eftirlíkingar. Þau mistök mun ég þó aldrei gera aftur. Reyndar er ég nær alveg hætt að kaupa snyrtivörur af netinu núna af því mér finnst gott úrval af snyrtivörum hér á Íslandi. Ef ég versla snyrtivörur á netinu þá geri ég það oftast í gegnum eBay. Ég hef eina mjög stranga reglu: ég versla aldrei vörur frá Asíu.

Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst þessi að þar er ofboðslega mikið um eftirlíkingar sem er að sjálfsögðu ólöglegt að flytja  inn til landsins. Mér finnst líka mjög gróft þegar um er að ræða beinar eftirlíkingar. Eftirlíkingar af MAC snyrtivörum eru algengastar, það er ekki skrítið þar sem MAC er vinsælasta snyrtivörumerki í heiminum í dag. Með beinum eftirlíkingum á ég við þær vörur sem eru gerðar með því markmiði að blekkja neytandann og láta hann halda að hann sé að kaupa eitthvað annað en hann heldur. Oft er hægt að sjá þetta á logo-um á vörunum sjálfum en stundum er bara lítill sem enginn munur á umbúðunum – öðru getur gegnt um innihaldið. Ég hef heyrt ógeðslegar sögur um efni sem hafa leynst í eftirlíkingum af snyrtivörum sem ég vil engan veginn að komist í snertingu við húðina á mér. Ef þið verslið vörur á netinu sem reynast vera eftirlíkingar og eitthvað kemur fyrir í kjölfar notkunar á þeim er enginn sem stendur á bakvið þær sem getur gefið ykkur skýr svör um hvað hefur gerst eða afhverju. Það er mjög líklegt að sá eða sú sem seldi ykkur vöruna svari aldrei póstum frá ykkur en í staðin njóti þess að hafa náð að nappa peningunum ykkar.

mac bottlesDæmi um beina eftirlíkingu sem er gerð til þess að blekkja lesanda. Þessar vörur eru nánast eins…. eftirlíkingin er hægra megin, alvöru varan er vinstra megin. Ef þið horfið vel á vörurnar þá sjáið þið að letrið er mjórra á eftirlíkingunni.

Annað sem mig langar að nefna er að í Asíu er verið að selja helling af snyrtivörum sem má varla kalla snyrtivörur, það eina sem er gert er að annað hvort er sett logo frá fínu merki eða litagleðin höfð í hámarki. Gott dæmi um lélegar og illa gerðar litaglaðar snyrtivörur eru kínapalletturnar svokölluðu, þessar sem eru með nokkrum tugum augnskugga í öllum regnboganslitum. Ég hef heyrt sögu um að skipamálning hafi eitt sinn fundist í einum augnskugga í svoleiðis pallettu – já nei takk. Mér myndi ekki detta í hug að setja þetta á andlitið á mér eða leyfa nokkrum í kringum mig að gera það.

cvADoSosil8GRYCDæmi um kínapallettur sem er merkt með logo-i frá þekktu snyrtivörumerki og burstasett. MAC er með hvorugt í sölu. Logoið sjálft sér um að selja vörurnar til grunlausra neytenda sem halda að þeir séu að kaupa eitthvað alvöru.

Ég verð svo að fá að minna á færsluna mína um fölsuðu burstasettin sem þið finnið HÉR. Mér blöskraði um daginn þegar ég rakst á Facebook auglýsingu þar sem var verið að selja burstasett frá merkjum eins og MAC og Bobbi Brown á verðum sem sjást ekki í verslunum sem selja merkin hér á landi. Bara svo það sé á hreinu þá koma aldrei burstasett nema í kringum hátíðirnar frá MAC og þau innihalda aldrei svona mikið magn af burstum. Það sama má segja um Bobbi Brown, reyndar er hægt að fá lúxusburstasett hjá merkinu en það kostar smá pening. Mig langar að biðja ykkur um að reyna eftir fremsta megni að styðja ekki við þennan eftirlíkingar bransa hér á landi. Þetta getur komið slæmu orði á þessi snyrtivörumerki sem er verið að herma eftir og eins og ég segi hér fyrir ofan að ef vörurnar skaða ykkur á einhvern hátt, þið fáið útbrot eða einhvers slags ofnæmi fyrir þeim, þá er fátt um svör.

chaÞað er líka mikið um eftirlíkingar af ilmvötnum, getið þið spottað hvort er alvöru?

Ég hvet ykkur til að velja alltaf gæði fram yfir verð. Það er rosalega gott úrval af snyrtivörumerkjum hér á landi, þau eru á ýmsum verðum en við verðum að velja það sem hentar okkur og húðinni okkar best. Fyrir ykkur sem viljið lífrænar snyrtivörur þá er líka mjög gott úrval af þeim og það er sífellt að aukast í takt við mikla vitundarvakningu kvenna á síðustu árum – við pælum miklu meira í því hvað er í vörunum sem við setjum á húðina okkar og mér finnst það bara frábært. Mér finnst líka mjög gaman að fylgjast með því að það er ekki einungis vitundarvakning meðal neytenda heldur er hún líka meðal framleiðenda. Svo ég taki nú dæmi þá var erfitt að finna maskara fyrir áratug síðan sem ekki innihélt nikkel en í dag er sagan allt önnur og það finnst varla maskari sem inniheldur nikkel. Mikil fjölgun hefur verið á svokölluðum „no nasties“ förðunarvörumerkjum í heiminum, nokkur þeirra hafa ratað til landsins en því miður ekki nógu mörg.

credit-makeup-savvy-where-she-compares-real-and-fake-the-ones-with-dots-benefitEftirlíkingar af vörum frá Benefit eru líka algengar og munu bara aukast í takt við vinsældir merkisins.

Það er ýmislegt hægt að gera til að spara sér smá pening, margar aðrar leiðir en að versla í gegnum netið HÉR tók ég einmitt sama nokkrar leiðir. Nýtið ykkur tilboð, það eru reglulega Tax Free dagar í Hagkaupum, núna fyrir jólin komu snyrtivörumerkin með sérstaka gjafakassa í sölu. Það eru eflaust nokkrir ennþá til. Ef þið kaupið gjafakassa þá eruð þið að fá meira fyrir minna. Það er gaman að gera stundum vel við sig og ég hvet ykkur endilega til að leyfa ykkur að kaupa dýrt krem eða dýran maskara í t.d. þriðja hvert skipti ef hagur leyfir.

Ég ákvað kíkja inná Ali Express núna til að sjá hvað væri í boði þar. Á fyrstu síðunni sá ég eftirlíkingar af vörum frá Urban Decay, MAC, Maybelline, Sigma, Beautyblender og að sjálfsögðu nokkrar kínapallettur.

1Hér sjáið þið dæmi um eftirlíkingu af Urban Decay augnskuggapallettu. Nokkuð gott ekki satt?

Ég vona að þessi færsla mín veki einhverjar til umhugsunar það er mikilvægt að vera með staðreyndir málsins á hreinu.

EH

Beauty Awards - Nude Magazine

Skrifa Innlegg

12 Skilaboð

  1. Svart á Hvítu

    27. December 2013

    Mjög góð færsla!:) Er svo forvitin að vita meira um “no nasties” förðunarvörur?! Hvað er það?

    • Reykjavík Fashion Journal

      28. December 2013

      No Nasties eru snyrtivörur sem innihalda engin aukaefni svo sem paraben, ilmefni og önnur ofnæmisvaldandi efni :)

  2. Steingerður

    27. December 2013

    Ekki snyrtivörur frá Asíu? Þá væntanlega þær sem eru að þykjast vera eitthvað annað? Því asíubúar eru mjög framarlega þegar það kemur að snyrtivörumarkaðnum, þá sérstaklega hin fegurðarþyrsta Kórea. Ég t.a.m. panta mikið af húðvörum þaðan, enda óendanlega mikill munur á asískum og vestrænum bb kremum. Ég er örugglega að röfla að óþarfi og þú varst held ég aðallega að meina fake vöru:) Aldrei fundið vestrænt merki sem kemst með tærnar þar sem Missha, Skin79 og Etude eru með hælana.

  3. Helga H.

    27. December 2013

    Hæ hæ.

    Ég verð að mótmæla orðalaginu að varast þurfi snyrtivörur “frá Asíu”. Asía er að sjálfsögðu heil heimsálfa og þar finnast slæmar snyrtivörur jafnt á við mjög vandaðar og góðar snyrtivörur. Til dæmis er Kanebo eitt af mínum uppáhalds merkjum og er upprunnið frá Asíu.

    Við þurfum að vanda okkur að ala ekki á fordómum sem þrífast svo einstaklega auðveldlega á þessu skeri okkar :)

    Takk fyrir bloggið.

    • Reykjavík Fashion Journal

      28. December 2013

      hæhæ, að sjálfsögðu er ég að tala um fake vörur eins og kemur sterklega fram í textanum, ég er líka að tala um vörur sem eru aðallega seldar á síðu eins og ali express. Eftirlíkingar af snyrtivörum eru lang algengastar í Asíu og þess vegna set ég mér regluna sem er þarna fyrir ofan. Merki eins og Kanebo eru mjög vandaðar og góðar vörur, Shiseido er merki sem upprunið frá Asíu líka, það skrifa ég sjálf mikið um og nota mikið. Ég var ekki á neinn hátt að ýja á því að allar snyrtivörur sem væru frá asíu væru lélegar, eingöngu var tilgangur þessarar færslu að fá fólk til að íhuga að versla ekki eftirlíkingar og ganga úr skugga um að varan sé sú sem þær halda að þær séu að versla á netinu. Færslan snýst ekki um að ég kaupi aldrei snyrtivörur sem eru gerðar í asíu, hún snýst um að ég kaupi aldrei snyrtivörur á netinu sem eru frá asíu sem eru frá merkjum sem eru fáanleg hér á íslandi eða sem er hægt að nálgast á annan hátt þar sem er hægt að treysta að maður fái vöruna sem maður vill fá. Afsakaðu ef þetta var ekki nógu skýrt hjá mér, takk fyrir ábendinguna :)

  4. Margrét

    28. December 2013

    Góð grein hjá þér. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að kaupa snyrtivörur og allar vörur sem eru cruelty free. Tilraunir á dýrum hafa verið hrikalegar í snyrtivörugeiranum og er enn. Loreal og Lancome hafa td. ekki getað talist til fyrirtækja sem er eru non animal testing. Kíkið á þessar síður. Það er margt að varast í þessu . http://www.leapingbunny.org/indexcus.phphttp
    http://www.peta.org/living/beauty/cruelty-free-drugstore-makeup-finds/
    Hér er hægt að lesa um fyrirtæki sem eru non animal tested. Hvar stendur td. Mac í þessu ?
    Jólakveðja ,
    Margrét

    • Reykjavík Fashion Journal

      28. December 2013

      Takk fyrir það:) loreal á reyndar lancome, estée lauder á mac, hef ekki kynnt mér því miður nógu vel stefnur estée. Reyndar er fínt að taka kannski fram að prófanir á snyrtivörum eru bannaðar í esb löndum, alla vega frá og með janúar 2014 (minnir mig). Svo snyrtivöruframleiðendur mega ekki prófa vörur sem á að selja í Evrópu á dýrum. Ábótavant er hins vegar eftirlitið með framleiðslu hjá fyrirtækjum sem framleiða efnin sem snyrtivöruframleiðendur kaupa svo til að nota. Það hafa komið upp mörg dæmi þar sem merki sem eiga að vera cruelty free eru það bara alls ekki. Þess vegna finnst mér sjálfri mikilvægt að fara varlega í að trúa hinum og þessum fullyrðingum með hvort sé prófað á dýrum eða ekki. Svo þarf maður bara að treysta á að allir fari eftir nýju lögunum. En það er mjög slæmt að geta ekki treyst þessum fullyrðingum sem fyrirtæki koma fram með. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að hver okkar taki sína eigin ákvörðun í þessum málum. Reyndar eru lög í Asíu sem kveða á um það að það eigi að prófa snyrtivörur sem eru seldar á asískum markaði á dýrum. Í uppkastinu fyrir þessa færslu kom ég aðeins inná dýraprófanir en ég fann ekki nógu traustvekjandi upplýsingar og allar síður virðast segja sitt á hvað um þetta mál. En ég tel að það sé líka mikil vitundarvakning meðal framleiðenda í þessu máli eins og með aukaefnin. Ég hef lesið mér aðeins um gervihúðina sem loreal botar td til að prófa sínar vörur á sem hefur reynst svo vel að mörg önnur merki hafa verið að kaupa hana hjá þeim. En takk fyrir góða ábendingu og flott innlegg í umræðuna :)

  5. Jara

    28. December 2013

    Snyrtivörur frá Asíu, Get nú verið sammála þér þar. Þegar ég var yngri var mér meira sama hvaða merki ég var að nota en man alltaf eftir hvað hún amma mín sagði alltaf aldrei nota neitt frá Kína.
    Ég hlustaði nú oftast á hana en í eitt skipti á yngri árum notaði ég maskara sem hafði fylgt einhverju unglinablaði, rétt eftir að ég hafði sett hann á mig var ég með þvílik rauð augu og útbrot í kring sem lagaðist strax og ég tók hann af mér.
    Staðreyndin er sú að eftirliti er mjög ábótavant í mörgum Asíu-löndum (ætla þó bara að halda mig við Kína þar sem ég þekki ekki betur til annarsstaðar).
    Persónulega hef ég alltaf haldið í regluna hennar ömmu eftir þetta og aldrei verið í veseni. Reyndar núna er H&M með mikið af snyrtivörum framleiddum i Kína og gæti það verið í lagi en ég nota svoleiðis með miklum fyrirvara af eigin reynslu.

  6. Sigga

    29. December 2013

    Ég held að Kóreubúar og Japanir, sem eru framalega í framleiðslu snyrtivara, yrðu brjálaðir að lesa þetta! Það er rétt að það kemur mikið af eftirlíkingum frá Kína. Það koma líka eftirlíkingar frá Evrópulöndum en það þýðir ekki að maður kaupi ekki neitt frá Evrópu!

    • Reykjavík Fashion Journal

      29. December 2013

      Þetta er á engan hátt alhæfing um allar snyrtivörur frá Asíu heldur eingöngu ábending um að fara varlega í að kaupa vörur á síðum eins og ali express þar sem er mikið um eftirlíkingar :) afsakaðu ef það var ekki alveg á tæru:)

  7. Hildur

    30. December 2013

    Ég vil bara segja að mér fannst mjög greinilegt að þú varst alls ekki að setja út á almenna asíska snyrtivöruframleiðslu, heldur illa hannaðar eftirlíkingar. Þetta er nú stærsta og fjölmennsta heimsálfan þannig að það er ekkert skrítið að þaðan komi mjög margar eftirlíkingar. Engir fordómar að mínu mati, þú ert líklegast bara að varpa fram staðreynd :)
    Það pirrar mig einmitt hræðilega þegar ég sé þessi sjúskuðu burstasett á íslenskum Facebooksíðum, merkt Mac og Bobbi Brown. Ég sendi oftast rétthöfunum póst til að láta þá vita af þessum brotum, í eitt skiptið sá ég einmitt að burstasettin hurfu skjótt af síðunni en nokkru seinna voru þau mætt aftur, ennþá fake, ennþá ljót. Vona að sem fæstir styrki svona starfsemi. Er ekki að segja að allir verði að kaupa (rándýru) burstana, ég nota sjálf Real Techniques og Body Shop bursta, þeir eru mjög góðir og alls ekki dýrir.