fbpx

Varist Eftirlíkingar

Eftirlíkingar í förðunarheiminum eru algengari en margir halda og það fer svo mikið í taugarnar á mér þegar aðrir græða á eftirlíkingum á vörum sem merki hafa lagt mikla vinnu í að þróa og framleiða. Svo ekki sé minnst á hvað það er ömurlegt fyrir kaupendur að komast að því að vörur sem þeir héldu að væru alvöru eru það ekki.

Það er náttúrulega erfitt að segja hvað er eftirlíking og hvað er það ekki í förðunarheiminum þar sem snyrtivörumerki bjóða oftar en ekki uppá sömu vöruna bara í mismunandi útfærslum sbr. maskari, eyeliner, farði og þess háttar. Þegar vörurnar eru framleiddar þannig að þær líta út eins og varan sem verið er að líkja eftir, er í eins umbúðum og með eftirlíkingu af logo-i merkisins sem verið er að herma eftir er of langt gengið.

Þegar eitthvað vinsælt kemur í snyrtivöruheiminum þá virðast allir þurfa að gera eins. Það er svo sem allt í lagi og samkeppni er af hinu góða – það finnst mér alla vega. Þegar einhver græðir á vinnu annarra finnst mér það hinsvegar ekki í lagi. Það eru til eftirlíkingar af snyrtivörum hjá öllum merkjum en ætli það sé ekki algengast hjá MAC þar sem það er eitt mest selda snyrtivörumerki í heiminum. Ég sé líka mikið af eftirlíkingum af Bobbi Brown burstum á eBay. Miðað við vinsældir Real Techniques burstanna þá held ég að það líði ekki á löngu þar til að við þurfum að vera á varðbergi gagnvart eftirlíkingum af þeim – ég er nú þegar farin að taka eftir þeim. Hér fyrir neðan sjáið þið t.d. eina af þeim.

Tökum MAC förðunarbursta sem dæmi. Ég fylgist með MAC síðunum á Facebook og stelpurnar sem vinna þar eru mjög duglegar að minna á að það er mikið um eftirlíkingar af burstunum þeirra. Alvöru MAC burstar eru einungis fáanlegir í MAC verslunum og það er mjög sjaldgæft að það séu framleidd burstasett hjá merkinu – það kemur oftast bara í jólalínunum þeirra.

Sem ebay fíkill þá rekst ég á fjöldamargar eftirlíkingar af burstunum á þeirri síðu. Sömu eftirlíkingar hef ég svo séð seldar hér og þar á Facebook. Það er gott að kaupendur séu meðvitaðir um að þessir burstar eru ekki alvöru. Þeir eru oftar en ekki lélegir, hárin geta verið gróf og illa snyrt og burstarnir geta farið auðveldlega úr hárum þar sem límið er ekki nógu sterkt.

Til ykkar sem hafið lent í því að kaupa eftirlíkingar þá mæli ég með því að næst þegar þið hugið að burstakaupum að fara hér útí verslun og kaupa bursta sem þið getið komið við og verið öruggar um að séu góðir. Þið getið fengið bursta hjá MAC, Bobbi Brown, Dior, Make Up Store og Inglot – svo eitthvað sé nefnt. Síðan getið þið séð mína uppáhalds burstaverslun á netinu HÉR. Ég veit að oft spilar verð inní og förðunarburstar eru ekki ódýrir en ég vel að taka gæði fram yfir verð :)

Að lokum þá finnst mér ekkert af því að kaupa svona stór burstasett af síðum eins og ebay og Facebook ef þeir eru ekki með merkingum. Ég hef sjálf oft gert það en ég er þá meðvituð um að þeir eru líklega ekki eins góðir og burstar sem ég kaupi hjá förðunarmerkjum eða burstaheildsölum ;)

EH

Facebook Sigurvegari

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Sigrún

    6. August 2013

    Góður pistill!
    Mér finnst einmitt óþolandi að vera að fletta á svona síðum og svo stendur við myndina: Hágæða MAC/Bobbi Brown burstasett – 6.990 kr.
    Fólk selur þetta ef það vill en á þá ekki að vera reyna blekkja kaupendur með því að halda því fram að þetta sé ekta.