Fríða María er nafn sem allir makeup fíklar ættu að kannast við en hún er einn af ókrýndu förðunarmeisturum Íslands. Fríða María er ein af eftirsóttustu sminkum landsins og hún ásamt Guðbjörgu Huldísi mun stjórna teymi förðunarfræðinga baksviðs á RFF°5 sem fer fram í Hörpu næsta Laugardag.
Mig langaði að fá að vita aðeins meira um hana Fríðu Maríu, hennar snyrtivöruvenjur og hvernig undirbúningur fyrir RFF gengur…Þessi fallega mynd af Fríðu Maríu er eftir ljósmyndarann Sögu Sig.
Hvernig er þín daglega förðunarrútína fyrir sjálfa þig?
Ég byrja alltaf á því að þvo mér í framan með vatni. Finnist mér ég vera svolítið þreytuleg undir augunum byrja ég á að skella á mig Skyn Iceland – Icelandic Relief Eye Pen, sem er einstaklega hressandi augnkrem í einskonar penna. Svo bursta ég tennurnar á meðan augnsvæðið eru að vakna og ber því næst á mig augnkrem sem heitir Anti-Aging Eye Cream og rakakrem sem heitir Rich Nourishing Cream, bæði frá Blue Lagoon Iceland. Þá skelli ég á mig einhverju góðu lituðu dagkremi, eða BB eða CC kremi, þessa dagana er ég að nota Clinique Moisture Surge Tinted Moisturizer SPF 15 en þegar fer að vora er ég líkleg til að skipta yfir í Bobbi Brown Extra SPF 25 Tinted Moisturizing Balm, en það gefur meiri vörn og það er meiri raki og gljái í áferðinni, sem ég er hrifin af. Þá er eiginlega það mikilvægasta, baugafelarinn, en ég er búin að vera að nota lengi Corrector frá Bobbi Brown, hann virkar mjög vel, litirnir eru góðir og áferðin ekki þurr, eins og oft vill vera með baugafelara. Gott er að bera hann á með bursta, helst með nælonhárum, og þrýsta honum þá svolítið inní húðina með fingrunum. Því næst nota ég Creamy Concealer frá Bobbi Brown með sama burstanum, stundum létt yfir baugafelarann til að jafna út litinn en aðallega í kringum nefið og ef það er eitthvað sérstakt sem þarf að fela. Hafi ég aðeins meiri tíma þá skelli ég á mig kremkinnalit, Pot Rouge for Lips and Cheeks – Fresh Melon #24 frá Bobbi Brown eða Cremeblend Blush – Something Special frá MAC Cosmetics. Svo skelli ég kremaugnskugga mjúklega á augnlok og undir augun, hann heitir Pro Longwear Paint Pot – Groundwork frá MAC Cosmetics. Þetta er stórkostlegt efni sem þornar frekar fljótt og rennur ekki til, helst ótrúlega vel og lengi. Hann getur líka virkað vel sem grunnur undir aðra augnskugga. Þá enda ég á maskaranum, Extended Play Lash frá MAC Cosmetics, og augnblýanti sem ég nota á augnhvarmana, Eye Pencil – Ebony frá MAC Cosmetics. Ég spreyja dálitlu af Curl Spray frá Label.m í krullurnar og að lokum spreyja ég á mig dassi af ilminum Craft frá Andrea Maack Parfums og er tilbúin í daginn.
Hvernig gengur undirbúningur fyrir RFF?
Undirbúningurinn fyrir RFF gengur vel, þetta er alltaf gífurlega mikil vinna, fyrst er öll hugmyndavinnan, ég ligg yfir myndum af tískuvikunum til þess að finna aðeins hvað liggur í loftinu, svo hitti ég hönnuðina sem ég er að fara að vinna með, skoða fötin og heyri hvað þeir eru að hugsa, hvaða pælingar eru á bakvið hönnunina, hvernig verður umhverfið, leikmyndin, fyrirsætuvalið, tónlistin, lýsing og bara heildar stemmningin á sýningunni. Allt skiptir þetta máli fyrir förðunina því þetta er einskonar karakterssköpun sem á sér stað. Þá koma hönnuðirnir oftast með einhverjar hugmyndir og ég kem með aðrar á móti og saman finnum við einhverja góða lendingu, að okkur finnst. Þá þarf ég að grúska í efnum, gera tilraunir og skoða hvað er í boði, og þá er hægt að fara að gera förðunarprufu á fyrirsætu. Þegar förðunin er endanlega ákveðin þá skrifa ég niður efnanotkunina og teikna upp svokallað „facechart“ sem verður uppá vegg ásamt ljósmyndum úr prufunni, fyrir teymið mitt til að hafa til hliðsjónar á sjálfan sýningardaginn. Þá þarf oftast að gera smá auka prufu, því oft eru einhver smáatriði sem við viljum breyta aðeins eftir prufuna. Við Guðbjörg Huldís erum auk þess búnar að vera með „workshop“ fyrir stafsmenn MAC Cosmetics, sem munu starfa við sýningarnar, og eftir það völdum við endanlega þá sem skipa teymin okkar. Svo eru einhverjir af hönnuðunum með einhver auka project, t.d. videogerð eða ljósmyndatöku, sem við tökum að okkur, RFF er líka með sérstaka ljósmyndatöku og svo stefnum við á að gera enn eina prufuna fyrir generalprufuna daginn fyrir sýningadaginn ef lýsingin verður klár, því lýsing hefur mikil áhrif á útkomu förðunarinnar.
Ein frá RFF í fyrra hér er Fríða María að farða Eydísi Helenu fyrir sýninguna hjá Farmers Market.
Hvað þarf að hafa í huga til að svona stórt verkefni eins og að sjá um förðun á RFF gangi smurt fyrir sig?
Hönnuðirnir sem ég kem til með að sjá um förðun fyrir eru Farmersmarket, Ziska, REY og JÖR by Guðmundur Jörundsson, en auk þess kem ég til með að sjá um förðun fyrir 2. árs sýningu fatahönnunardeildar Listaháskólans, sem mun fara fram í Hörpu fimmtudagskvöldið fyrir RFF, og er að undirbúa það í leiðinni með tilheyrandi hugmyndavinnu, samskiptum og prufu. Þetta eru sum sé allt atriði sem skipta máli til þess að svona sýningar gangi vel fyrir sig, en ekki er síður mikilvægt hvernig öllu skipulagi er háttað á sjálfan sýningadaginn. Við erum t.d. búnar að fara heilmikið í fyrirsætumálin, reyna að skipuleggja þannig að það sé öruggt að tími sé til að breyta förðuninni á þeim sem eru í mörgum sýningum, þetta er jú ansi stíft prógram. Þá er aðstaðan mikilvæg, og skipulag innan teymanna, að allir meðlimir þeirra séu með það á hreinu hvert þeirra hlutverk sé, að allir séu fókuseraðir og láti aðstæður ekki stressa sig upp. Svo reynum við að passa að allir fái eitthvað gott að borða og drekka, það er nauðsynlegt fyrir svona langan og erfiðan dag.
Förðunin á sýningu JÖR á RFF í fyrra var í mestu uppáhaldi hjá mér – alveg magnað makeup sem smellpassaði línunni!
Er eitthvað eitt förðunarverkefni sem stendur uppúr frá ferlinum?
Förðunarverkefnin mín eru orðin svo mörg og mismunandi að það er alltaf erfitt að nefna eitthvað eitt sem mögulega gæti staðið uppúr. Fyrst kemur samt alltaf upp í hugann fjárans gervikötturinn sem ég var ráðin í að „farða“ fyrir tónlistarmyndband Bjarkar við lagið Triumph of a Heart sem Spike Jonze leikstýrði. Þarna átti að reyna að láta svartan gervikött líkjast lifandi kettinum sem lék í myndbandinu og var yrjóttur, með ljósan undirtón, en hvert hár var þrílitt á honum. Þetta var sem sagt eiginlega vonlaust verkefni, en ég gerði samt allt sem ég gat og eiginlega nýttist mér þarna betur myndlistamenntunin en nokkuð annað. En svo er það eiginlega mest fólkið sem skilur eitthvað eftir sig, gefur manni innblástur, sem gerir verkefnin eftirminnileg.
Fríða María, Spike Jonze og gervikötturinn á góðri stundu!
Geturðu nefnt nokkrar vörur sem eru ómissandi í kittið þitt þegar þú ert í verkefnum?
Algjörlega ómissandi vörur í kittið mitt eru eyrnapinnar, hyljararnir og baugafelararnir frá Bobbi Brown, Mineral Intensive Cream frá Blue Lagoon Iceland, Prep + Prime laust, litlaust púður, Pro Eye Makeup Remover, Face and Body Foundation, Eye Brows í Fling og Lingering, Paintpot í Groundwork og Painterly, allt er það frá MAC Cosmetics, Laguna sólarpúðrið frá NARS, Secret Brightening Powder og Secret Camouflage hyljarar frá Laura Mercier, Benetint frá Benefit, Eight Hour Cream frá Elizabeth Arden, Elnett hárlakk frá L´oreal og Soufflé, Sea Salt Spray og Dry Shampoo hárefni frá Label.m
Hvernig dekrar þú sjálf við húðina þína?
Þegar ég vil dekra sérstaklega við húðina mína þá nota ég gott líkamsskrúbb, þessa dagana er það Kiðaskinn – Lavenderskrúbb frá Háafelli. Svo finnst mér þurrburstun líka rosalega góð eftir sturtu og ber svo á mig Silica Softening Bath and Body Oil frá Blue Lagoon Iceland. Hvað andlitið varðar nota ég Mineral Face Exfoliator, Silica Mud Mask og Algae Mask, allt frá Blue Lagoon Iceland. Fyrir svefninn er ég líka dugleg að bera á mig Advanced Night Repair frá Estée Lauder undir rakakremið mitt. Gott ráð við þurrk á afmörkuðum svæðum í andliti, er að bera Eight Hour Cream frá Elizabeth Arden á það fyrir svefninn. Þetta er ótrúlega græðandi salvi sem ég nota líka á varirnar í stað varasalva.
Fríða María notar m.a. Silicia Mud Mask frá Blue Lagoon þegar hún vill dekra við húðina.
Ég var skugginn þeirra Fríðu Maríu og Guðbjargar Huldísar á RFF í fyrra og ég ætla mér að endurtaka leikinn í ár. Ég er virkilega spennt að fylgjast með þessum förðunarmeisturum en ég læri alltaf eitthvað nýtt á því að fylgjast með þeim.
Fyrir förðunaráhugafólk þá er ómissandi að fygjast með Fríðu Maríu á Instagram – hana finnið þið undir @fridamariamakeup – HÉR. Þar finnið þið meðal annars mynd af Frú Vigdísi Finnbogadóttur sem Fríða María farðaði nýlega fyrir forsíðumyndatöky fyrir tímaritið Grapevine.
Ein skemmtileg af Instagramminu hjá Fríðu Maríu en Ari Magg tók myndina og sömuleiðis forsíðumyndina af Vigdísi fyrir Grapevine.
Ég stóð mig af því að rýna vel í forsíðu tímaritsins og dást að förðun Fríðu Maríu – Vigdís er gullfalleg á myndunum og förðunin algjörlega fullkomin og undirstrikar fegurð Vigdísar, viskuna og reynsluna sem hún býr að.
Ég hef einu sinni verið svo heppin að fá förðun frá Fríðu Maríu fyrir auglýsingu fyrir N1 árið 2009 –Ég man ennþá ótrúlega vel eftir því – ég var þá búin að læra fagið og að fá að sitja í stól hjá Fríðu Maríu og fylgjast með henni vinna var sannur heiður – myndina tók Ari Magg en hún var notuð á risastóru flettiskilti ofan á mislægu gatnamótunum hjá Mjóddinni. Þetta var árið sem ég var þekkt sem N1 stelpan í skólanum en það var svo sannarlega þess virði þar sem ég fékk að fylgjast með einni af fyrirmyndum mínum að störfum!
Takk fyrir þetta Fríða María – hlakka til að eyða með þér laugardeginum!
EH
Skrifa Innlegg