fbpx

Túrkislituð vorförðun

AugnskuggarFallegtLancomemakeupMakeup ArtistNýtt í snyrtibuddunni minniSS15

Vorlúkkið frá Lancome birtist fyrst á síðum Nýs Lífs og Reykjavík Makeup Journal – það getur stundum verið einstaklega erfitt að þurfa að sitja á vörum heima hjá sér og þora ekki einu sinni að pota í þær af hræðslu við að geta ekki staðist að skrifa um þær. En þar sem vorið frá Lancome er nú komið til landsins er ekki seinna en vænna að sýna ykkur einfalda förðun sem ég gerði með vörum úr lúkkinu.

Hér sjáið þið eina af förðununum sem ég gerði á mánudaginn og sýndi ykkur á síðunni seinna um kvöldið. Dagsbirtan á mánudaginn var alveg fullkomin til að taka myndir og einkennislitur línunnar fékk svo sannarlega að njóta sín eins og þið sjáið hér…

vorlancome2

Línan er talsvert einföld, hún einkennist af léttum og fallegum brúntóna litum í bland við túrkistóna og bjarta liti. Það eru nokkur ár síðan þessi litur var aðalmálið og ég er bara ánægð með að hann sé að láta sjá sig aftur því mér finnst hann poppa uppá einfaldar augnfarðanir með skemmtilegri útkomu. Línan í ár nefnist French Innocence og er svakalega rómantísk og ekta Lancome. Ég hoppaði hæð mína þegar ég fékk það staðfest í byrjun ársins að væntanleg væri augnskuggapalletta með línunni sem innihélt 9 liti og þar af nokkra matta. Eitt af því sem mér hefur fundist vanta hjá merkinu eru einmitt mattir grunnlitir og Lancome hefur heyrt kallið frá mér og svarað með þessari gersemi – ég tek því alla vega svo ;)

vorlancome14

Hér sjáið þið pallettuna – glæsileg ekki satt. Þessi rýkur út og því ekki seinna en vænna að grípa sitt eintak. Það er eins og áður mjög gott að vinna með litina í pallettunni. Mér þykir hins vegar smá munur á þessum augnskuggum og þeim sem eru venjulega í pallettunum frá þeim – mér finnst litirnir eitthvað mýkri og ef eitthvað er þá finnst mér enn betra að vinna með þá. Alla vega gekk þetta eins og í sögu hjá mér og það var leikur einn að gera fallega förðun. Reyndar eru möguleikarnir endalausir og ég á eftir að prófa að vinna með dökku litina þrjá í endanum en það fær að bíða betri tíma en samt líka svona fallegrar dagsbirtu. Ég vann förðunina sem þið sjáið hér fyrir neðan með nude litunum en notaði þó ljósa túrkislitinn til að fullkomna áferð eyelinerins sem ég notaði – meira um það hér aðeins neðar…

vorlancome3

Þessir ljósu tónar þykja mér alveg hinir fullkomnu brúðarfarðanalitir og möttu grunnlitirnir sem eru í þessari pallettu eru litir sem eru ekki á hverju strái. En svo ég fari nú yfir eyelinerana sem komu í línunni þá eru þeir af tegundinni Hypnose Waterproof. Það eru einhverjir endingabestu kol eyelinerar sem þið getið fengið að mínu mati – ég á nokkra liti núna og þeir haggast ekki þó vel sé látið reyna á en það er svo auðvelt að fjarlægja þá með vatsnheldum augnförðunarhreinsi. Þetta eru skrúfblýantar og virkilega auðvelt að vinna með þá.

vorlancome13

 

Litirnir eru Vert Tuileries og Gris Rivoli, ég nota báða liti. Þann túrkislitaða nota ég sem eyeliner meðfram efri augnhárum – þann brún/gráa nota ég meðfram neðri augnhárunum til að gefa augunum smá dýpt. Þessi brún/grái er alveg fullkominn og þennan mun ég mikið nota. Hann er tilvalinn dagsdaglega til að gefa umgjörð augnanna góða skerpingu og ég er hæst ánægð með útkomuna sem hann gefur neðri hluta augnanna. Yfir túrkiseyelinerinn set ég svo augnskuggann úr pallettunni í sama lit til að gefa línunni mýkri áferð með fallegum möttum glans. Ég nota skásetta hluta burstans sem fylgir með í verkið og þá næ ég líka að draga línuna aðeins út og enda hana fallega. Það eina við svona vatnshelda liti er að maður þarf að hafa hraðar hendur og vinna litina ef maður ætlar að nudda þá eitthvað til.

vorlancome8

Mig langaði að sýna ykkur svo aðeins vörurnar sem ég paraði með förðuninni en ég gleymdi reyndar að taka mynd af glossinum. Hann er ekki úr línunni en það komu þó gloss í henni en ég var ekki með sýnishorn svo ég valdi þennan fína og einfalda lit sem mér fannst vel við hæfi – Gloss in Love litur nr. 202. Einnig tók ég ekki mynd af Grandiose maskaranum mínum sem er minn go to maskari síðan ég fékk hann – elska hann og mæli eindregið með honum!

Farðinn sem ég nota er glænýr frá Lancome og nú kominn í sölu. Ég er í miklu gleðikasti yfir að sleppa með að geta notað ljósasta litinn í farðanum sem mér finnst sérstaklega spennandi og flottur og hann kemur inná bloggið í vikunni með fyrir og eftir myndum – en ekki hvað! Farðinn heitir Miracle Cushion og er fyrsti fljótandi farðinn sem kemur í svona compact umbúðum. Kinnaliturinn er svo sannarlega bjartur og fallegur þessi litur er af tegundinni Blush Subtil í litnum Pépite de Corail. Sólarpúðrið er líka nýtt og mig langaði að sýna ykkur það með svona fallegri vorförðun, púðrið er ekki komið í söl hér á Íslandi en það er væntanlegt með vorinu – svo ég geri því betri skil þegar það er komið. Púðrið er af tegundinni Belle de Teint og er í litnum Belle de Noisett nr. 05. Mér finnst áferðin á því sérstaklega falleg en það er ekki alveg matt en alls ekki sanserað sem gefur húðinni virkilega fallega skyggingu og svona sólarkyssta áferð sem er svo eftirsóknarverð.

vorlancome5

Neglurnar eru svo í sama stíl og eyelinerarnir og innrömmun augnanna. Lökkin eru svakalega skemmtileg og ég er nú þegar búin að fá nokkrar fyrirspurnir um þau eftir myndbirtingu á Instagram sem og fyrirspurn frá Lancome í Bandaríkjunum um hvort þeir megi nota myndina sem ég svo sannarlega leyfði!

vorlancome

Ég er ekki sú fjölhæfasta þegar kemur að því að gera munstur á neglurnar en mögulega verð ég það einhver tíma – æfingin skapar meistarann. En mig langaði að nota báða liti svo þetta er útkoman. Litirnir bera sömu nöfn og eyelineranir í sama lit þeir eru Vert Tuileries og Gris Rivoli. Lökkin frá Lancome heita Vernis in Love, áferðin er einstaklega falleg og nú þremur dögum síðar er lakkið enn fullkomið á nöglunum en ég nota ekkert yfirlakk með.

vorlancome7

Virkilega falleg lína og að mínu mati eru eyelinerarnir must have sérstaklega sá grá/brúni fyrir t.d. förðunarfræðinga því liturinn er alveg dásamlegur. Ef þið viljið leyfa ykkur smá lúxus þá er pallettan algjört must have – það er ekki á hverju ári sem við fáum svo fallega vöru til Íslands og það er um að gera að nýta tækifærin þegar þau bjóðast og eignast svona fallega vöru. Vörulínan kemur í takmörkuðu upplagi og er að fara hratt úr hillum – ein af þeim fallegri línum sem komu núna og vörurnar komu mér allar mikið á óvart og þær eru enn fallegri á heldur en í pakkningunum.

EH

Vörurnar sem ég skrifa um hér fékk ég sendar sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit.

Græðandi olíukrem

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

5 Skilaboð

  1. Arna

    25. February 2015

    Sæl, með hvaða kinnalit mælirðu til að nota daglega.

    • Reykjavík Fashion Journal

      25. February 2015

      Hæ Arna! Ég er hrifnust af því að nota kremkinnaliti… mér finnast þeir bara koma best út svona dagsdaglega þeir gefa svo náttúrulega áferð. Ég nota sjálf mest þá frá Maybelline, Max Factor, Gosh eða nýju chubby Cheeks frá Clinique ;)

  2. Arna

    25. February 2015

    Takk takk prófa þetta

  3. Ragnheiður S.

    30. May 2015

    Veistu hvort palettan sé ennþá til hér á landi ?