Nú er ég að upplifa meðgöngu númer tvö, meðgangan hefur sannarlega ekki verið viðuburðarlaus en ég hef eftir bestu getu reynt að halda ró minni og fyrst og fremst að reyna að njóta hennar í alla staði. Það blossa þó upp þessar algjörlega óraunhæfu áhyggjur af og til… svona örlítill kvíði sem bólar innst inní manni þó maður reyni eftir fremsta megni að beita huganum á móti þeim. Það hefur alltaf reynst mér vel að koma áhyggjum mínum og þessum fáránlegu hugsunum mínum frá mér hér á síðunni og oftar en ekki hafa mínar áhyggjur opnað augu annarra í sömu sporum.
Meðganga er sannarlega stórfurðulegt dæmi eins mikið og hún er stórkostleg og eins mikið kraftaverk og þetta er þá er þetta sérstaklega þreytandi ástand oft á tíðum. Ég hef oft grínast með það að ég sé tilbúin að fæða barn á hverjum degi en ég sé ekki alveg sömu skoðunar með það að ganga með barn. Meðganga setur mig alveg útaf laginu, ég er dauðþreytt allan daginn – ég hef smá áhyggjur að fólk haldi að mér leiðist öllum stundum og að fjölskyldan mín haldi að ég sé gjörsamlega komin með ógeð af þeim, sannleikurinn er sá að ég er bara yfirleitt sofandi í hausnum á mér. Ég gleymi öllu, ég er ekki að grínast ég gleymi öllu! Það þýðir ekki að spurja mig hvaða dagur er eða hvað ég fékk mér að borða í morgunmat þó það hafi mögulega verið 30 mínútum áður. Ef ég hef mælt mér mót við einhvern verð ég að skrifa það niður – annars mæti ég bara ekki. Ég er með skrifað niður hvað ég er komin langt í hverri viku annars gæti ég ekki svarað þeirri spurningu. Ég þakka bara fyrir að muna að klæða mig í föt á morgnanna ég er bara algjör gufa þessa dagana.
Svo er það þessi kvíði, eins mikill töffari og ég gef mig út fyrir að vera þá er ég kvíðin fyrir hinum ýmsu hlutum. Ég er kvíðin fyrir hinum mest stórfurðulegu hlutum en allt öðrum hlutum heldur en ég var kvíðin fyrir á síðustu meðgöngu. Ég hef upplifað svo margt síðan ég gekk með mitt fyrsta barn og þó einmitt ég reyni að vera ansi töff þá er ég stundum að fara á taugum. En ég geri mér þó líka grein fyrir því að þetta eru algjörlega fáránlegar áhyggjur sem skipta engu máli þegar upp er staðið en sumar eru þó kannski aðeins meira raunhæfar en aðrar vegna fyrri reynslu en ég hef líka ákveðið að segja þeim stríð á hendur með aðstoð frá góðum aðilum. Ef þið nennið að lesa þá komist þið að þeim hér aðeins neðar…
Að gefa barninu brjóst í fyrsta sinn…
Fyrsti óraunhæfi kvíðinn sem hrjáir mig á köflum. Það var enginn sem varaði mig við hvað það væri virkilega vont í fyrstu skiptin að gefa barni brjóst. Ég átti alla vega ekki von á þessu svo ef þið hafið ekki heyrt þetta verið þá undirbúnar – það er líka oft betra því maður er kannski búin að undirbúa sig undir eitthvað skelfilegt og svo reynist það ekki alveg svo slæmt. En sársaukinn hverfur eftir nokkra daga – hjá mér var annað brjóstið komið eftir viku og hitt eftir svona 10 daga þá fann ég ekkert fyrir þessu. Ég er í alvörunni smá stressuð fyrir þessu en ég bít á jaxlinn bara.
Að ég nái ekki að fá mænudeyfingu…
Ég sé ekki sólina fyrir mænudeyfingu, þetta er algjörlega dásamlegt verkjastillandi tól sem hjálpaði mér svakalega í síðustu fæðingu. Ég er smá stressuð með að ég geti ekki fengið mænudeyfingu núna… að það verði eitthvað sem kemur í veg fyrir það ef fæðingin verður t.d. töluvert styttri en síðast. Þetta er eflaust gjörsamlega tilgangslaus kvíði en ég þekki bara ekkert annað svo ég er smá stressuð.
Að gera nr. 2 í fyrsta sinn eftir fæðinguna…
Afsakið ég veit ég hef gert ýmislegt hér á síðunni minni og verið mjög opin með skrif en þetta orð get ég ekki skrifað svo ég ætla að nota nr. 2. En ég man að ég fékk bara hægðartregðu eftir síðustu fæðingu af því ég þorði ekki að rembast. Mér leið bara eins og ég væri að rifna. Nú rifnaði ég lítið sem ekkert í fæðingunni bara eitthvað örlítið en þetta var alveg skelfilegt og í alvörunni þá er þetta einn af þeim hlutum sem ég kvíði fyrir.
Að verða tóm…
Eins magnað og það er að fá barnið sitt í heiminn þá eru tilfinningarnar líka blendnar. Manni líður dálítið eins og barnið sé svo öruggt inní maganum og þegar það er þar þá veit maður allaf hvar það er og getur passað svo vel uppá það. Þegar það er komið í heiminn er sagan önnur og maður þarf að treysta heiminum og umhverfinu í kringum sig fyrir barninu það er ekki auðvelt eða það fannst mér alls ekki. Svo er annað að finna það að maður sé tómur þetta er ein sú skrítnasta tilfinning sem ég hef upplifað – ég var ekki ein í 9 mánuði svo loks þegar ég fékk smá „ró“ í líkamanum þá vildi ég helst fá eitthvað aftur inní magann minn.
Að ég missi ekki vantið…
Á síðustu meðgöngu hófst fæðingin mín eins og í amerísku bíómyndunum – ég missti vatnið. Ég man ég lá uppí rúmi og fann að ég var að blotna smá í klofinu. Ég hugsaði ohh – aftur að pissa á mig, jább það gerist og er mjöööög algengt og fullkomlega eðlilegt. Svo ég stóð upp og fór á klósettið, þá kom þessi svakalega skvetta af vatni bein í klósettið og þar með var fjörið hafið. Svo gerðist voðalega lítið fyrstu tímana en sólarhring seinna varð ég að fá drip til að örva samdrættina því það var bara ekkert að gerast þá fékk ég mænudeyfingu svo ég fann aldrei þessa samdrætti. Svo nú er ég dáldið stressuð með að ég missi kannski ekki vatnið og fari hinssegin af stað og þá eigi ég bara ekki eftir að vita að þetta er byrjað því ég reikna bara með því að vantið fari aftur og það byrji þannig aftur. En í raun eru sárafáar konur sem upplifa það að fæðingin byrji með vatnsmissinum – mér finnst ég mjög sérstök ;)
Að fara að sofa á kvöldin…
Nú er eitt erfiðasta tímabilið hafið hjá mér, nú sef ég ekki á nóttunni. Bæði á ég erfitt með að koma mér fyrir – ég er reyndar með snúningslak og meðgöngukodda sem hjálpa mér gríðarlega, svo pissa ég endalaust og nú eru sinadrættirnir mættir. Svona þrisvar á nóttunni vakna ég með svakalega verki í löppunum og sprett á fætur og teygi úr löppunum. Þetta eru verstu sinadrættir sem ég hef upplifað – alveg eins og á síðustu meðgöngu. Ég er með ofnæmi fyrir bönunum og ananas sem eru ráðlagðir til að draga úr sinadráttunum og magnesíum duftið virkar ekki. Svo ég bít á jaxlinn og vona að ég fái kannski pásu eina og eina nótt. En á hverju kvöldi þegar ég leggst á koddann kemur stressið fyrir sársaukanum… ég hugsa hvað ætli ég fái að sofa lengi þessa nótt. Síðustu nótt náði ég samfellt tveimur tímum…
22 vikur + 2 dagar…
Þetta er kvíðinn minn og áhyggjurnar mínar, kannski eru fleiri þarna úti sem deila þeim með mér, kannski eru aðrar áhyggjur sem hvíla á ykkur. Af minni reynslu vil ég segja ykkur að þær eru allar fullkomlega eðlilegar þetta er það stærsta sem við gerum á lífsleiðinni að verða foreldarar. Það er ótrúlega margt að gerast inní okkur og inní huganum okkar, nýjar tilfinningar sem við kunnum ekki á og vitum ekki hvað við eigum að gera við. En það er mikilvægt að tala upphátt og segja frá áhyggjunum og kvíðanum. Ég gerði það ekki á síðustu meðgöngu og áhyggjurnar og kvíðinn gerjuðust inní mér og urðu alltaf meiri og meiri þar til ég fékk hálfgert taugaáfall og var greind með fæðingarþunglyndi.
Á þessari vegferð eru allir til staðar fyrir okkur, maki, mamma, amma, systkini, vinkonur og vinir og auðvitað þessar yndislegu og einstöku ljósmæður sem bera okkar hag fyrir brjósti. Ég var með einstaka ljósmóður á síðustu meðgöngu sem mér þykir óendanlega vænt um – hún kom mér til bjargar þegar ég þurfti á björgun að halda. Núna er ég með aðra og mér líst líka svakalega vel á hana og ég finn að á milli okkar ríkir mikið traust og ég veit hún mun passa vel uppá mig og krílið.
Gangi ykkur sem allra best á ykkar ferð***
EH
Skrifa Innlegg