fbpx

Nýtt frá Bobbi: Hot Collection

Bobbi BrownÉg Mæli MeðHúðLífið MittLúkkMakeup ArtistNýjungar í SnyrtivöruheiminumNýtt í snyrtibuddunni minniSS15

Núna fyrir helgi mætti ný lína frá Bobbi Brown til landsins og hún fæst nú í verslun Hagkaupa í Smáralind en það er svakalega flott counter sem tekur á móti ykkur að sjálfsögðu inní búðinni svo þið sem hafið farið þangað ættuð nú að kannast við staðinn.

Ég fékk sýnishorn af tveimur vörum úr línunni sem er sannarlega litrík og björt og gerir mikið fyrir mann í þessu veður millibilsástandi sem herjar á okkur í Reykjavík – ég væri rosalega til í það að veðurguðirnir myndu nú ákveða sig.

hotcollection2

Varan er sérstaklega einföld og inniheldur bara lykilvörur til að gera bjarta og fallega förðun. Við fengum hluta af línunni til landsins en eins og ég segi þá er hún litrík og einkennist af áberandi litum. Herferðin fyrir lúkkið skartar hinni tryllingslega flottu Kate Upton sem er ekkert smá flott með þessa svakalega liti í kringum sig!

hotcollection5

Hér sjáið þið vörurnar sem ég fékk að prófa. Hér er kinnalitapalletta í litnum Berry og Art Stick varalitablýantur í litnum Hot Berry.

hotcollection7

Ég er að sjálfsögðu – eins og alþjóð veit – algjörlega sjúk í kinnaliti og sanka þeim að mér eins og óð væri. Ég féll samstunis fyrir þessum flottu litum og hér á myndunum blandaði ég báðum kinnalitunum saman og setti yfir eplin og setti svo highlighterinn er sem liturinn í miðjunni yfir kinnbeinin og blandaði öllu vel saman. Húðin mín gjörsamlega lifnaði við við þessa ásetningu og í smástund leið mér eins og sumarið væri komið! Ég er að segja ykkur að þetta er sko kraftmikil vara fyrst hún lætur mann líða þannig á meðan það er snjókoma úti… ;)

hotcollection4

Pigmentin eru virkilega flott í kinnalitapallettunni og ég er sérstaklega skotin í highlighter litnum sem er þessi í miðjunni – hinir eru báðir flokkaðir sem kinnalitir. Highlighterinn er nefninlega æðislegur í meira en bara kinnarnar hann er flottur á augun til að gefa þeim flottan ljóma. Það væri sniðugt að setja smá augnskuggagrunn á augnlokin og setja svo púðrið yfir þá verður áferðin eflaust virkilega flott. Svo er bara að setja smá brúnan tón í skyggingu og þá er þetta komið!

Þar sem pigmentin eru svakalega sterk er mikilvægt að dusta vel úr burstanum svo það fari alls ekki of mikill litur. Það getur verið fín lína á milli þess að gera passlega mikið og of mikið.

hotcollection6

Varalitablýanturinn sömuleiðis er með svakalega sterkum pigmenum. Hann rennur mjúklega eftir vörunum og það er leikur einn að móta varirnar um leið og maður ber litinn á. Ég grunna bara fyrst varirnar með smá hyljara og púðri og leyfi aðeins að „þorna“ og set svo litinn yfir. Það sniðugasta er að með þessum blýanti kemur yddari. Það eru nefninlega kannski ekkert allir sem eiga svona extra stóran yddara svo það er vel gert við viðskiptavininn hjá merkinu með því að láta einn svona fylgja með. Þar sem blýanturinn er úr við er auðvelt að ydda hann – ég átti alla vega mjög auðvelt með það. Svo mæli ég reyndar með því að þið nuddið aðeins oddinum á blýntinum á handabakið ykkar áður en þið berið hann á varirnar bara til að mýkja oddinn og koma í veg fyrir að liturinn verði ójafn og það komi hvassar útlínur.

hotcollection

Sjáið þennan lit – hann er ekkert smá flottur og tónar mjög fallega saman við kinnarnar. Ég er með litinn Hot Berry svo það er sami tónn í báðum vörum þó þær kannski beri það ekki með sér. Ég er mjög hrifin af áferðinni á varalitnum hann er ekki mattur en samt er hann svakalega endingargóður og liturinn festir sig í vörunum og er með svakalega flottri endingu. Áferðin er einmitt svona kremuð en samt er eins og það sé smá ljómi í formúlunni en eins og þið sjáið á vörunum á mér að þá er smá glans í þeim – það er ljós sem nær að endurkastast af þeim dáldið skemmtilega.

Hér sjáið þið nokkrar skemmtilegar kynningarmyndir frá línunni en hingað til landsins komu þrjár kinnalitapallettur sem allar innihalda tvo liti og highlighter. Svo eru þrír litir af Art Stick varalitablýöntunum og líka þrír litir af Sheer Lip Color varalitunum. Varalitirnir eru með léttri og fallega glansandi formúlu og væru eflaust flottir yfir Art Stick blýantana til að gefa vörunum smá glans. Það eina sem kom ekki í línunni til okkar var augnskuggapallettan sem er leiðinlegt en kinnalitapalletturnar eru svo flottar að ég var fljót að fyrirgefa missinn.

Ég er svakalega ánægð með mína og um leið og ég sá línuna þá vissi ég að þessa yrði ég að eignast. En annars finnst mér þessi á neðstu myndinni í albúminu líka virkilega falleg en hún heitir Pink – kannski hún verði bara líka mín svona ef það er meant to be!

hotcollection3

Virkilega falleg og einföld lína með sterkum og áberandi litum sem vekja eftirtekt. Leiðinlegt að pallettan hafi ekki komið en vonandi fáum við bara fallega pallettu seinna í öðrum línum frá Bobbi – þær eru alltaf svo flottar hjá henni!

Hot Collection vörurnar eru eingöngu fáanlegar í Hagkaup Smáralind og vörurnar komu í takmörkuðu upplagi og það kom alls ekki mikið af hverri vöru svo það er um að gera að hafa hraðar hendur. Persónulega eru vörurnar frá Bobbi Brown alltaf í hávegum hafðar hjá mér. Ljóma kremið er alveg einstakt og Creamy Matte varalitirnir eru þeir allra bestu að mínu mati. Ég er svakalega hrifin af konunni sjálfri og hún er sannarlega eitt af mínum idolum í snyrtivöruheiminum. Hún fyrir mér sannar að það er sko hægt að láta drauma sína rætast. Ég er búin að fá svona smá sýnishorn af því sem er framundan og hlakka til að deila meiru með ykkur.

EH

Vörurnar sem ég skrifa um hér fékk ég sendar sem sýnishorn Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit.

Dekur fyrir líkama og sál

Skrifa Innlegg