fbpx

Fyrir & eftir með Diorskin Nude Air

DiorÉg Mæli MeðHúðMakeup ArtistNýjungar í SnyrtivöruheiminumNýtt í snyrtibuddunni minni

Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur en Dior er merki sem er að slá öll met við gerð farða þessa dagana en nú er mættur nýr farði í standa Dior og hann gefur mínum uppáhalds Diorskin Star lítið eftir. Mig langarði að gera almennilega færslu um þennan glæsilega nýja farða því tæknin sem hann byggir á er glæný og á sér enga hliðstæðu í förðunarvöruheiminum – hann á þessa löngu yfirferð svo sannarlega skilið og það kæmi mér lítið á óvart ef þið mynduð falla fyrir honum líka.

Fyrst langar mig aðeins að fara yfir útkomuna. Ásamt farðanum sem heitir Diorskin Nude Air Sérum de Teint koma ný púður, sólarpúður og laus púður. Ég fer yfir allar þessar vörur hér fyrir neðan í færslunni og á fyrstu myndinni sjáið þið lokaútkomu húðarinnar minnar eftir að ég notaði þessar vörur. Svo það sé tekið fram þá voru myndirnar teknar þegar ég var að prófa vörurnar í fyrst skiptið en mér finnst oft gott að gera það því ég sé áferðina svo vel á myndunum, ef það eru misfellur t.d. þá sjást þær á myndunum – hér eru engar misfellur engir gallar bara fullkomin áferð með fjórum nýjum vörum frá Dior…

nudeair4

En við byrjum á farðanum og svo fer ég yfir hinar þrjár vörurnar sem fullkomna grunnförðunina. Hér sjáið þið fyrir og eftir myndir af mér með hreina húð og svo með eina umferð af nýja Diorskin Nude Air Sérum de Teint.

Fyrir:

Húðin mín er ágætlega áferðafalleg þó ég sé farin að finna fyrir þessum allra fyrstu einkennum öldrunar sem eru aðeins farin að gera vart við sig. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að segja að ég sé komin með öldrunareinkenni er frekar pínlegt þegar maður er 25 ára en jú þetta er einmitt aldurinn sem einkennin fara að gera vart við sig fyrst. Mín einkenni er litamismunur í húðinni, þreyta og þurrkur.

nudeair10

Eftir:

Svo er það eftir myndin – ég reyn alltaf að gera mitt besta til að reyna að hafa myndirnar sem líkastar og þetta heppnaðist bara ágætlega í þetta sinn. Þið sjáið að farðinn jafnar bæði áferð og litarhaft húðarinnar minnar, hann þekur virkilega vel og gefur mjög létta og fallega áferð. Farðinn er ekki þungur og ég finn nánast ekki fyrir honum á húðinni – sem er virkilega góður eiginleiki og eiginleiki sem ég leitast iðulega eftir í mínum förðum.

nudeair9

En svo við snúum okkur aðeins að farðanum sjálfum þá sjáið þið hann hér fyrir neðan. Þetta er sumsé serum farði sem er léttur sem fjöður, gefur frábæra þekju án þess að þyngja húðina og loka henni. Tæknin sem farðinn byggir á nefnist Oxygen Activ og er merkið með einkaleyfi á henni. Í formúlu farðans eru rokgjarnar olíur sem eru blásnar út og fylltar með súrefni. Þessar útblásnu sameindir eru ríkar af efnum eins og steinefnum og vítamínum sem eru mikilvægar húðinni og þannig stuðlar farðinn einnig að betrumbættri húð. Rokgjörnu olíurnar gufa upp þegar þær komast í snertingu við súrefni og eftir situr fullkomin létt áferð af farðanum á húðinni. Í farðanum eru einnig agnir sem leiðrétta litarhaft húðarinnar og ég held að fyrir og eftir myndirnar af húðinni minni hér fyrir ofan sanni það og sýni.

Þetta er einn af þessum förðum lagar húðina smám saman, hann nærir húðina, jafnar áferð og litarhaft þetta er kosturinn við það að nota svona serum farða en venjulega farða – húðin verður fallegri eftir notkun.

nudeair17

Farðinn er borinn á með hjálp dropateljara, það er hægt að bera dropana beint á húðina og vinna hann með höndunum. Ég hins vegar set örfáa dropa í buffing burstann minn og vinn hann yfir húðina með hringlaga hreyfingum. Það þarf bara örfáa dropa til að þekja húðina alveg og farðinn rennur mjög auðveldlega yfir húðina. Ég nota ljósasta litinn af farðanum nr. 010.

nudeair16

Hér skulum við svo aðeins fara yfir hinar vörurnar sem koma í sölu ásamt farðanum. Ég nota allar þessar fjórar vörur til að fullkomna grunninn á húðinni minni á myndunum sem þið sjáið hér fyrir neðan en ég bæti reyndar léttum hyljara við í kringum augun eins og ég er vön að gera.

nudeair15

Diorskin Nude Air Powder er létt púður í föstu formi. Það er rosalega létt og alls ekki eins og mörg önnur sambærileg púður. Púðrið gefur náttúrulega áferð og það fullkomnar áferð farðans og gefur húðinni mjúka og fallega áferð. Púðrið er ríkt af litlausum ögnum sem eru ósýnilegar og gefa þessa áferð sem er fullkomin á litinn og aðlagar sig að litarhafti hverrar konu. Ég er með ljósasta litinn af púðrinu.

Diorskin NudeAir Tan Powder er einnig ríkt af næringarefnum fyrir húðina eins og farðinn. Púðrið gefur húðinni náttúrulega skerpingu og áferð og fullkomnar svo sannarlega mótun andlitsins. Ég nota púðrið eins og önnur skygginarpúður – undir kinnbeinin, meðfram kjálkanum og uppvið hárrótina og mér líkar það virkilega vel þar sem það blandast húðinni fallega og gefur náttúrulega lokaútkomu.

Í myndasafninu hér fyrir neðan sjáið þið betur þessi tvö púður og auk þess það fjórða og síðasta…

Diorskin Nude Air Loose Powder, hér er um að ræða ótrúlega létt og fallegt laust púður sem er fullkomið til að fullkomna áferð húðarinnar. Það mattar húðina og gefur henni heilbrigðan ljóma og eins og fasta púðrið er það líka ríkt af næringarefnum fyrir húðina. Ég er með bleiktóna lit sem gefur húðinni minni heilbrigðan og fallegan ljóma. Mér líkar virkilega vel við litinn sem ég held á kinnunum, ofan á kinnbeinunum og upp með gagnauganu. Liturinn minn er nr. 012 og heitir pink.

Með öllum púðrunum koma flottir púðurburstar sem eru einfaldir í notkun og hannaðir til að nota með púðrunum.

Hér er svo lokaútkoman með farðanum og púðrunum þremur – fallegt ekki satt? :)

nudeair6

Svo til að rifja aðeins upp þá setti ég hér saman að lokum fyrir mynd og svo mynd af lúkkinu þegar það er alveg tilbúið – hér er ég auk þess með hyljara, maskara, litað augabrúnagel og varasalva.

nudeair18

Þessi glæsilegi farði og hinar þrjár vörurnar fá allar fullt hús stiga frá mér. Síðustu daga hef ég verið að prófa endingu varanna og hún er líka til fyrirmyndar. Dior er merki sem ég get með sanni sagt að sé með frábært úrval af grunnförðunarvörum og síðustu tveir farðar sem hafa komið frá merkinu – þessi og Diorskin Star – eru hreint út sagt stórkostlegir farðar sem hafa staðist allar mínar kröfur og ég vel þessa farða fram yfir alla aðra í mínu snyrtisafni sem er gríðarstórt. Þessir tveir henta mér einfaldlega bara best – ég mæli eindregið með þeim og hvet ykkur til að fara og skoða þennan nýja en það hefjast einmitt TAXFREE DAGAR Í HAGKAUP Í DAG – í tilefni útgáfu 4. tölublaðs Reykjavík Makeup Journal ;)

EH

Vörurnar sem ég skrifa um hér fékk ég sendar sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit.

Varalitadagbók #28

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

10 Skilaboð

  1. Elín Guðmundsdóttir

    12. February 2015

    Gætir þú sagt mér hvaða förðunarbursta þú notar fyrir meik, púður og sólarpúður?

    • Reykjavík Fashion Journal

      12. February 2015

      Ég nota vanalega Buffing burstann í appelsínugula RT settninu í farða, í púður og sólarpúður er ég hrifnust af Multi-Task burstanum í Travel Essentials settinu frá RT – þetta eru svona þessir tveir burstar sem ég nota yfirleitt daglega ;)

  2. Amanda

    12. February 2015

    Myndiru halda að diorskin nude air henti betur fyrir þurra húð en diorskin star? :)

    • Reykjavík Fashion Journal

      12. February 2015

      ohh þú spyrð erfiðrar spurningar…! haha ég á stundum svo erfitt með að gera uppá milli vara því mér finnst t.d. þessir farðar gjörólíkir þó ég dýrki þá báða… – þessi er að vísu skincare farði um leið og hann gefur húðinni fallegt og náttúrulegt yfirborð þá leitast hann við að næra og lagfæra húðina. Þessi er ótrúlega léttur og alveg dásamlegur en það sama má segja um Star farðann. Hann finnst mér hins vegar gera húðina alveg lýtalausa ég lýsi honum sem primer og farða í sömu vöru og ég hef aldrei fengið jafn mörg hrós fyrir fallega húð og þegar ég er með hann – svo mitt ráð er að fara og skoða báða og meta hvor hentar þér betur og mögulega fá að prófa að setja á húðina – rölta einn hring um Kringluna eða Smáralind og fara svo aftur og kaupa þann sem þér lýst best á :)

      • Amanda

        13. February 2015

        Takk fyrir svarið, ég skoða þá betur :)

  3. freydís

    12. February 2015

    Sæl,
    fyrst vil ég þakka þér fyrir skemmtilega og góða bloggsíðu.
    Hefurðu gert umfjöllun um snyrtivörur sem eru ekki prufaðar á dýrum? Ég var að að leita og fann ekkert í leitarvélinni. Ef ekki, er það eitthvað sem þú myndir vilja skoða? Ég veit að það er alveg hægt að googla þessu en það væri snilld að sjá umfjöllun frá þér!

    • Reykjavík Fashion Journal

      12. February 2015

      Hæ Freydís! Takk fyrir ábendinguna. Þú ert ekki sú fyrsta sem biður um þetta en ég hef ekki framkvæmt neina sérstaka færslu um svona prófanir vegna þess að mér finnst upplýsingarnar ekki nógu stöðugar og hlutirnir eru svo fljótir að breytast. En ég veit þó að mörg merki hafa dregið mikið og jafnvel alveg úr þessum prófunum – merki sem eru enn á listum yfir merki sem prófa. Einn daginn verður þetta allt staðfest og þegar það gerist þá skal ég vera ein af þeim fyrstu til að fagna því. Dýraprófanir eru auðvitað fastar við vöruframleiðslu í Asíu og oft eru merki ekki með sömu framleiðendur fyrir vörur sem eru þar og þær sem eru seldar hér svo það er eitthvað sem við þurfum líka að taka til greina :)

      Ég skal þó reyna að vera duglegri að ef ég er með staðfestar heimildir fyrir því að merki séu ekki prófuð á dýrum að leyfa því að fylgja með – svona þegar ég man það ;)

      mínar bestu!
      EH

  4. Ragga

    12. February 2015

    Held hreinlega ég verði að eignast þetta! Hvert mælir þú með að fara til að fá að prófa vörurnar ? (uppá að finna rétta litinn)

    • Reykjavík Fashion Journal

      12. February 2015

      Hagkaup því það er Tax Free ;) En það ættu að vera dömur á flestum sölustöðum núna að kynna útaf Tax Free svo endilega nýttu þér það t.d. Kringlan eða Smáralind ;)

  5. Sæunn

    16. February 2015

    First impressions – dásamlegt. Kærastinn minn hafði orð á því að ég liti eins út á miðnætti í gær þegar ég var að fara að þrífa af mér málinguna eins og uppúr hádegi þegar ég málaði mig og hann hefur aldrei haft orð á svona áður. Hlakka til að fá meiri reynslu, undarleg tilfinning að bera á sig farða og líða eins og þetta sé eitthvað silkimjúkt serum.