fbpx

Annað dress: páskadress!

Annað DressFashionLífið MittMeðgangaShopVero Moda

Ég hef alltaf kunnað virkilega vel við páskana… þeir einkennast af slökun og rólegheitum og maður nær einhvern vegin að hlaða batteríin svo vel. Þetta er ekki alveg eins og um jólin þar sem það er alltaf eitthvað smá stress sama hvort maður sé búin að öllu snemma.

Við erum búin að hafa það mjög ljúft um páskana, þeir hafa helst einkennst af mikilli samveru, afslöppun, svefni og glápi á bangsann Paddington sem er í uppáhaldi hjá Tinna Snæ.

Það er smá síðan síðasta dressfærsla birtist en hér sjáið þið Páskadagsdressið sjálft sem var fyrst og fremst sett saman með þægindi í huga og klassískar og tímalausar flíkur úr fataskápnum fengu að njóta sín.

páskadress6

Kúlan fína er nú orðin 21 viku gömul og hún er alveg ótrúlega finnst mér. Hún er aldrei eins, einn daginn er hún pínulítil og þann næsta er eins og ég sé komin á steypin! Hér er hún í svona ágætis meðalstærð og svona frekar stór miðað við síðustu daga. Þessi hefur algjörlega sinn eigin vilja og barnið inní henni virðist hafa hann líka því það er sko alls engin regla á hreyfingunum innanborðs.

Nú fer að styttast í að mamman losni við gifsið – vona ég alla vega. En nú hefur tekið við sérstaklega áköf sjúkraþjálfarameðferð en grindin fór sannarlega ekki vel útúr fallinu á svellinu og ég er helst stressuð yfir því þessa dagana að geta ekki unnið jafn lengi og ég vil helst – sem er svona sirka fram að fæðingardeginum… ;)

En þið fáið góða meðgöngufærslu von bráðar, ég er með eina sérstaka í vinnslu sem er svona smá losun á áhyggjum fyrir mig – snúum okkur nú að dressinu og fleiri bumbumyndum!

Skór: Bianco – áttuð þið von á einhverju öðru;) Vegna grindarinnar einkennist skóbúnaður þessa dagana af góðum flatbotna og gæðamiklum skóm. Þessar gersemar komu með nýjustu sendingunni. Ég var búin að sjá þá í auglýsingum fyrir línuna og vonaðist reyndar eftir því að þeir kæmu í hvítu en svörtu eru að sjálfsögðu mjög klassískir. Ég er hrifin af því hvernig er brotið uppá skónna með gatinu og það er auðvitað sérstaklega skemmtilegt þá að vera sokkalaus í þeim eða jafnvel í sokkum í skemmtilegum lit eða jafnvel glimmersokkum. Skórnir eru festir með frönskum rennilás og þeir eru úr ekta leðri að innan og utan sem gerir þá mjög þægilega til að vera í. Einnig finnst mér botninn í þeim svo mjúkur, þeir eru alls ekki harðir sem myndi gjörsamlega gera útaf við grindina mína eins og staðan er núna. Ég finn fyrir miklum stuðningi og get vel mælt með þeim fyrir konur í sömu sporum og ég er nú!

páskadress4

Jakki: YAS frá Vero Moda, ég sat um búðina í Smáralind þegar það var von á þessum í hús. Hann er úr haustlínu YAS merkisins sem er svona fína merkið okkar inní Vero Moda. Ég hef notað hann nógu mikið til að geta sagt að hann hefur sko borgað sig upp á mjög stuttum tíma. Ég dýrka hann útaf lífinu sérstaklega nú þar sem hann passar yfir gifsið. Flott að eiga einn svona til að henda yfir svartan alklæðnað og poppa aðeins uppá heildarlúkkið.

Kjóll: Nicoline frá Vero Moda, ég geri stundum sérstaklega góð kaup og ég gerði það þegar ég keypti þennan fína kjól. Hann er með 3/4 ermum og er úr tveimur mismunandi efnum en í efninu að framan er falleg satín áferð sem gerir hann fínlegan. Ég er búin að eiga minn síðan fyrir jól en hann var að koma aftur í búðirnar og ég mæli eindregið með honum ér er alla vega búin að nota minn það mikið!

Sokkabuxur: All Colors 50 den frá Oroblu. Þessar eru alltaf klassískt val og ég á þær í fjölmörgum litum og ábyggilega hátt í 10 pör í svörtu. Ég tek alltaf stærri stærðina því þær eru lengri, ná vel yfir kúluna núna en annars þá er liturinn alltaf þéttari ef maður tekur þær stærri. Ég þarf einmitt að fara að skoða nýju sumarlitina sem voru að koma og sjá hvort ég þurfi ekki að bæta einhverjum skemmtilegum litum við safnið fyrir sumarið!

páskadress3

Varalitur: Rouge Coco litur nr. 410 Catherine frá Chanel. Ég er búin að vera að prófa mig áfram með nýja og dásamlega fallega varaliti frá Chanel sem voru að koma í sölu hér á Íslandi. Hér sjáið þið litinn í orange tóninum sem ég fékk sendan. Þið fáið betri færslu um þá í vikunni en ég vona að þið hafið nú tekið eftir auglýsingaherferðinni fyrir varalitina hér á Íslandi – mér fannst svo gaman að sjá auglýsingar frá Chanel á strætóskýlum höfuðborgarsvæðisins!

Hálsmen: Vero Moda, það sést reyndar alls ekki nógu vel en þetta eru svartir kristallar í langri keðju. Hálsmenið keypti ég rétt fyrir páska en það er líka til með glærum/hvítum kristöllum og gylltri keðju. Fullkomin og minimalísk hálsfesti finnst mér og fer einhvern vegin með öllu.

páskadress5

Ég vona að þið hafið átt gleðilega páska með ykkar fólki og hafið náð að hlaða batteríin vel fyrir komandi vinnuviku sem er nú í styttri kantinum sem er alltaf ánægjulegt.

Það er svo margt ótrúlega spennandi framundan hjá mér í vikunni og ég er alveg svakalega spennt en ég ætla að segja ykkur betur frá því þegar nær dregur að þessum tveimur viðburðum sem ég er að taka þátt í. Eins ætla ég að kynna smá nýjung á síðunni en mig langar dáldið að breyta aðeins til svona af og til í sumar og fyrir komu næsta erfingja… Er að klára að útfæra þá hugmynd og deili henni með ykkur við fyrsta tækifæri!

EH

Á óskalistanum: Honka Donka

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Sigga

    7. April 2015

    Þú geislar alveg…glæsileg svona ólétt :)