fbpx

25 ára var snilld!

Lífið Mitt

Á þessum fallega degi, þessum síðasta degi mínum sem 25 ára, er svo sannarlega gaman að hugsa til baka yfir síðasta árið. Síðasta ár er svo sannarlega búið að vera viðburðarríkt í mínu lífi og ég er ótrúlega þakklát fyrir allt það sem það hefur fært mér.

Ég varð tveggja barna móðir, það var sannarlega hápunktur ársins að eignast einn heilbrigðan dreng í viðbót sem færir mér svo óendanlega mikla hamingju. Hann Tumi er dásamleg viðbót við okkur fjölskylduna og ég komst að því að það er mín lukka í lífinu að vera umkringd fallegum herramönnum.

Ég hóf 25 ára með ferð til yndislegu London þar sem ég hitti m.a. tvær af mínum fyrirmyndum. Þær Samantha og Nic Chapman betur þekktar sem skaparar Real Techniques burstanna eru konur sem ég lít svo mikið upp til! Þær eru glæsilegar konur sem virðast hafa það allt, feril, fjölskyldu og svo eru þær bara yndislegar í alla staði. Mikið veittu þær mér mikinn innblástur á þessum stutta tíma sem ég talaði við þær. Stundum þarf maður að fá svona power boost – þegar maður hefur kannski aðeins staðnað í starfi og lífi, ég fékk power boost frá þessum konum þegar ég hitti þær. Í kjölfarið ákvað ég að setja mér háleit markmið sem voru eitt sinn draumar og hafa í kjölfarið ræst, markmið sem tengjast starfi og þessari síðu og ég get mjög stolt sagt að mér hefur tekist að ná mörgum þeirra þó einhver séu eftir. Þær Chapman systur hafa alla vega kennt mér það að draumar eru gerðir til þess að rætast en það er ekki málið að sitja bara á rassinum og bíða eftir að einhver komi og færi manni tækifæri á silfurbakka maður verður að fara út og grípa þau!

Á lífsleiðinni er maður svo heppinn að fá að hitta fólk sem maður lítur á sem fyrirmyndir sínar í lífi eða starfi. Stundum verður maður svo heppinn að kynnast þessu fólki persónulega og fær að kalla þá vini sína. Ég lagði mikla áherslu á að rækta vinskap við fólkið mitt og passa uppá að samböndin okkar myndu dafna og þroskast. Þetta var partur af mikilli sjálfskoðun sem ég tók sjálfa mig í. Ég hef það fyrir reglu að koma vel fram við alla, ég er kurteis og ég tala ekki illa um neinn sama þó mögulega ég hafi heyrt það að einhverjir aðilar tali ekki vel um mig. Ég tel það eitt af mínum stærstu afrekum á síðasta ári að bregðast ekki hart gagnvart neikvæðni í minn garð og reyna að taka öllu með ró og yfirvegun.

Ég hef tekið sjálfa mig í mikla skoðun á síðastliðnu ári. Ég fór svona að pæla í því hvort ég væri ánægð með það hver ég væri sem manneskja og sem fyrirmynd drengjanna minna. Ég ákvað að til að vera góð fyrirmynd yrði ég að taka mig sjálfa á og rækta mig og andlegu hlið mína, ég held að þetta hafi verið einhver sú allra besta ákvörðun sem ég hef nokkru sinni tekið.

25ára

Ég tók það stóra skref að labba inn á stofu hjá geðlækni með von um að uppræta fæðingarþunglyndið sem hrjáði mig eftir að ég átti Tinna Snæ. Það var ákvörðun sem ég tók með börnin mín og mann í huga að mamma þeirra myndi ekki verða eins og síðast – þetta var það versta sem ég hef upplifað með sjálfa mig og ég ætla aldrei á þennan stað aftur. Með hjálp Fyrstu Tengsla get ég nú sagt að mér líður svo miklu betur. Ég var greind með mikinn kvíða og þarf nú að taka kvíðastillandi lyf á hverjum degi til að hjálpa mér að halda góðu andlegu jafnvægi. Ég hvet alla foreldra sem eiga mögulega við smá erfiðleika að stríða, bæði mömmur og pabba, að leita sér upplýsinga um þessa einstöku starfsemi. Það er svo mikilvægt að mömmu og pabba líði vel svo börnunum líði vel.

Það hefur oft litað mitt líf að vera dóttir alkóhólista, mamma mín hefur verið óvirk í fjöldann allan af árum og er sérstaklega dugleg að vinna í sjálfri sér. Okkar samband hefur ekki alltaf verið gott og á köflum hefur það bara verið svakalega slæmt og ég held við báðar værum fyrstar til að viðurkenna það. Það tók mig langan tíma að ákveða að það væri kominn tími til að gera upp erfiðleika og tilfinningar sem sátu í mér í kjölfar þess að hún fór í meðferð. Ég get ekki lýst því hve reið ég varð þegar ég heyrði af því að hún hefði farið í meðferð en mér þótti það léleg afsökun fyrir öllu því sem hafði á undan gengið. Það tók mig ofboðslega langan tíma að skilja þennan sjúkdóm, að skilja mömmu mína og þetta tók mikið á. Ég tók þessu af mikilli reiði og ég ákvað að þessar tilfinningar mínar væru best geymdar einhvers staðar langt undir yfirborðinu því ég var ekki tilbúin til að takast á við þær. Það var ofboðslega vond ákvörðun, en ég þurfti að komast að því sjálf. Ég þurfti sjálf að finna það að það væri kominn tími til að gera upp þessi ár. Með góðri aðstoð bestu vinkonu minnar og yndislegs þerapista hef ég komið þessum tilfinningum öllum uppá yfirborðið. Ég hef náð að skilja betur tilfinningarnar mínar og tilfinningar mömmu minnar. Áður en ég fór í talmeðferð hjá þerapistanum mínum þá stóð í þeim sporum að annað hvort gæti ég bara ekki átt samband við mömmu mína eða ég yrði bara að fara að gera eitthvað í þessu. Sem betur fer ákvað ég að vinna í mínum málum og ég held að þessi ákvörðun hafi gert það að verkum að ég gat tekið sjálfa mig í þessa miklu sjálfsskoðun. Í dag eigum við miklu betra samband en mig hefði nokkru sinni órað fyrir, ég hef lært betur á það hvernig samskipti ég vil hafa og við höfum báðar sett hvor annarri mörk. Eitt það mikilvægast sem ég hef lært á þessu ferli er að setja mig í spor hennar svona af og til. Það var ekki auðvelt en það var nauðsynlegt svo ég áttaði mig á öllum hliðum á þessu sambandi okkar. Ég sá loksins að mamma mín var að reyna sitt allra besta og ég varð að gefa henni svigrúm til að átta sig á því hvernig samband hún vildi eiga við mig og ég varð líka að átta mig á því hvernig samband ég vildi eiga við hana. Mamma mín er eins og ég bara mannleg en ég get svo sannarlega séð það í dag að hún er öll af vilja gerð til að gera sitt besta, ég er líka að gera mitt allra besta. Hún er alveg frábær amma og ein sú allra mikilvægast ákvörðun sem ég hef tekið er að láta okkar samband aldrei hafa áhrif á samböndin sem hún myndar við syni mína. Hún er mikilvægur partur af þeirra lífi og Tinni Snær gjörsamlega dýrkar hana og mér þykir mjög vænt um það. En eins og ég segi þá hefði ég aldrei náð að komast á þann stað sem ég er í dag andlega nema ég hefði byrjað að vinna í þessum málum. Því þó ég hefði ekki viljað tala um þau og ýtt þeim frá mér og hafði ákveðið að þau myndu ekki fá neitt á mig þá voru þessi sár ofboðslega stór og það er vont að lifa með svona mikla reiði útaf óuppgerðum hlutum inní sér. Ég er ekki búin í þessari vinnu og ég ætla að halda henni áfram.

Ég ákvað að losa mig við neikvæðni, ég reyna að sjá jákvæðar hliðar á öllu og hef vanið mér þann sið að brosa bara framan í erfiðleika, drama og vesen og hugsa í lausnum en ekki vandamálum. Dramatík og neiðkvæðni fleytir manni ekkert en jákvæðni það er sko allt annað mál. Svo eru það hrósin ég ákvað að hrósa miklu miklu meira og vitið þið hvað það skiptir ofboðslega miklu máli að hrósa. Hrós færa fólki svo mikla gleði og mér finnst dásamlegt að fá að taka þátt í því að gleðja fólkið í kringum mig. Ef maður brosir framan í heiminn þá brosir heimurinn framan í mann tilbaka – það er mikill sannleikur í þessu ég hvet ykkur til að prófa.

Þó það líti útfyrir kannski fyrir marga að ég sé voða örugg með sjálfa mig og eigi mjög auðvelt með að opna mig þá tók ég tvö ofboðslega stór skref útfyrir þægindarammann á síðastliðnu ári. Ég fór í forsíðuviðtal við Vikuna núna í vor þar sem ég opnaði mig um fæðingarþunglyndi, fósturmissi og kvíða. Ég þurfti svona smá að mana mig upp í það en það sem gaf mér kjarkinn var að mögulega gæti mín reynsla hjálpað öðrum í sömu sporum. Þegar ég fór í gegnum mína erfiðleika upplifði ég mig svo eina það var ekki fyr en ég fór að tala um erfiðleikana sem ég fann fleiri í sömu sporum og ég var. Hitt skrefið var snapcat rásin mín, það eru kannski ekki allir sem sjá það sem eitthvað voðalega stórt skref en það er það. Þar inni gef ég fylgjendum mínum stóran part af mér og gef mikið færi á mér, ég geri mér vel grein fyrir því að ég er auðvelt skotmark þegar kemur að gagnrýni og ég veit það vel að það er fullt af fólki sem hefur ekkert gaman af mér og þykir ég voða yfirborðskennd og skrítin. En inná snappinu fæ ég tækifæri til að sýna hvernig ég er í raun og veru og það er kannski smá erfitt að geta ekki skýlt sér á bakvið orð á tölvuskjá. Ég þurfti alveg að venjast þessu en mér finnst þetta í dag mjög gaman og ómissandi tenging við marga af mínum lesendum.

25 ára var ár sjálfskoðunar, ég kem sterkari frá því en ég var og ég hlakka til að vakna á morgun 26 ára og takast á við ný verkefni sem árið mun færa mér. Ég hef mikla trú á því að 26 ára verði svakalega skemmtilegur aldur og það eru mörg spennandi verkefni framundan!

Takk fyrir mig 25 ára – þetta var snilld***

Ykkar einlæga ávalt,
Erna Hrund

Annað dress: kósý knit

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

18 Skilaboð

  1. Rakel

    26. October 2015

    Góð lesning, þú ert alveg frábær x

  2. Elsa Gunnarsdóttir

    26. October 2015

  3. Bergþóra

    26. October 2015

    Hugrökk og ótrúlega einlæg skrif

  4. Sólveig

    26. October 2015

    Dáist að því hvað þú ert opin. Mamma mín hætti að drekka fyrir 15 árum en ég hef því miður ekki unnið neitt mikið í sjálfri mér eftir það. Þyrfti að taka þig til fyrirmyndar….

  5. Hilma Rós Ómarsdóttir

    26. October 2015

    Takk fyrir þessi innilegu og fallegu skrif. Það þarf sterka manneskju til þess að stíga fram og takast á við tilfinningar sínar og vinna í sjálfri sér. Þú ert sannarlega falleg sál og ef ég á slæman dag fer ég oft inná síðuna þína og les því skrifin þín skína af einlægni og hlýleika.
    Takk fyrir að halda uppi þessari síðu og gefa svona mikið af þér.
    Knús :)

  6. Karen Andrea

    26. October 2015

    Þú ert svo frábær og fabjúlös, yndislegt að lesa bloggið þitt :)

  7. Íris

    27. October 2015

    Takk fyrir að deila þessu með okkur og fyrir að gefa svona mikið af þér inná snappinu, dýrka að fylgjast með þér þar finnst þú svo skemmtileg :) <3

  8. Hildur

    27. October 2015

    Stórglæsileg fyrirmynd og einlægnin skín alltaf í gegn hjá þér!

  9. Kristín Maríella

    27. October 2015

    Þú ert frábær Erna! ***

  10. Inga Rós

    27. October 2015

    Innilega til hamingju með 26 árin þín…. þú ert yndi! <3

  11. Helga

    27. October 2015

    Til hamingju með afmælið Erna Hrund! Mér finnst þú svo dásamleg, það skín í gegn alltaf einlægnin og hlýjan. Þú ert mikil fyrirmynd.

  12. Una

    27. October 2015

    Þú ert svo frábær og manneskjuleg. Takk fyrir að deila þessu með okkur. Þú ert fyrirmynd og átt sko eftir að ná enn lengra. GO 26ÁRA!!! <3

  13. Snædís Ósk

    27. October 2015

    Æj þú ert alltaf svo einlæg og yndisleg! Knús til þín <3

  14. Birgitta Yr Ragnarsd

    27. October 2015

    Til hamingju med 26 àrin ;) Takk fyrir ad Deila thessu med okkur, mjög gód lesning og mèr finnst ædislegt ad fylgjast med thèr à snappinu og læra thar alskonar make up trix :)

  15. Guðrún

    28. October 2015

    Til hamingju með 26 árin hugrakka stelpa! Þú ert frábær, yndisleg og einlæg, og gaman að fylgjast með þér hér og á snappinu.

  16. Anna Lilja Einarsdótir

    29. October 2015

    Dásamlega falleg skrif og mér finnst þú vera algjör hetja. Þú ert svo sannarlega mikil fyrirmynd og eins og einhver sagði hérna fyrir ofan þá skín alltaf einlægnin og hlýjan í gegn hjá þér. Það er mjög gaman að fylgjast með þér hér og á snappinu og þó ég hafi ekkert vit á snyrtivörum þá reyni ég að krækja í einn og einn fróðleiksmola. Strákarnir þínir eru svo mikil krútt og mér finnst Tumi vera voða líkur þér :) Þú hefur svo sannarlega mikið að gefa! Afmæli eru yndisleg og til hamingju með þitt :)

  17. Anna Lilja Einarsdótir

    29. October 2015

    Dásamlega falleg skrif og mér finnst þú vera algjör hetja. Þú ert alveg einstök fyrirmynd og eins og einhver sagði hérna fyrir ofan þá skín alltaf einlægnin hlýjan í gegn hjá þér. Það er mjög gaman að fylgjast með þér hér og á snappinu og þó ég hafi ekkert vit á snyrtivörum þá reyni ég að krækja í einn og einn fróðleiksmola. Strákarnir þínir eru svo mikil ofurkrútt og mér finnst Tumi vera voða líka þér :) Þú hefur ótrúlega mikið að gefa! Afmæli eru yndisleg og til hamingju með þitt :)