Dreymir mig um rúmið mitt. Ég fer að skríða uppí eftir smástund og vonandi mun mig dreyma um þessa yndislegu helgi sem er að baki okkar fjölskyldunnar. Ég nýt þess að vera mamma um helgar, þegar Tumi fæddist ákvað ég að reyna að komast hjá því sem mest að vinna um helgar og meirað segja er ég lítið sem ekkert að stressa mig á því að vera að blogga – vona að þið fyrirgefið ;) Það að fá að njóta mín sem mamma í frítímanum er að gera það að verkum að ég er miklu meira fókuseruð í vinnunni og set mér frekar markmið í hverri viku, þetta ætla ég að gera og klára, og það geri ég. Þá næ ég að slaka meira á og njóta – ég vona einmitt líka að þið munið eftir því núna þegar desember er að koma – NJÓTIÐ!
En eitt af því sem er skilyrði fyrir því að ég nái að nýta vikurnar vel er góður svefn. Ég veit ég er nú með einn lítinn sem vaknar enn á nóttunni til að drekka en á milli þess verð ég að ná að slaka á og vitið þið það gengur stundum ekkert alltof vel. Ég ákvað þó í dag í IKEA ferð dagsins að dekra aðeins við rúmið og gefa því ný sængurver sem eru nú komin á og bíða eftir mér og mínum. Ég held ég þurfi nú aðeins að eyða meiri tíma í að dekra við svefnherbergið mitt og gera það meira að griðarstað en nú inniheldur það bara óheyrilegt magn af snyrtivörum…
Ef ég ætti tíma núna í kvöld, já og orku ef útí það er farið, þá myndi ég vilja umbreyta mínu herbergi í takt við myndirnar hér sem fundust á Pinterest flakki dagsins…
Ég hef komist að því núna að ég er búin að vera að hugsa þetta allt vitlaust! Maður á að eyða peningunum í að gera svefnherbergið, þar endurhlöðum við batteríin og þar á að vera okkar umhverfi til að slaka á. Ég er alla vega búin að gera eitthvað rétt með kaupum á nýjum sængurverum. Nú lítur rúmið sirka svona út…
Fyrir áhugasama heita þessi ombre sængurver Smaldun og fást í þremur litum, mín eru grá og koddaverið er dökkgrátt en ekki hvítt eins og hér.
En það er greinilegt að ég er að breytast í einhvern sængurverasérvitring en á gjafalista fyrir brúðkaupið vorum við t.d. að setja sængurver.
Nú er það bara að skella sér í sturtu, fara tandurhrein að sofa í hreinu rúmi og hvílast vel því það er önnur löng vika framundan ;)
Erna Hrund
Skrifa Innlegg