Þegar ég var að kynna snyrtivörur fyrir jólin í Hagkaup Smáralind fannst mér ótrúlega gaman að heyra aðeins í viðskiptavinum og hlera hvað væri svona á óskalistum kvenna fyrir jólin. Það voru þónokkrar vörur sem voru áberandi vinsælar eins og naglalakka- og maskaraöskjur, Real Techniques burstarnir, One Direction ilmvatnið og svo varasalvar…
Jebb varasalvar af ákveðinni tegund seldust eins og ég veit ekki hvað! Ég hef nú sagt ykkur frá varasalvafíkninni minni svo ég varð nú bara að bæta nokkrum af þessari týpu í safnið – en ekki hvað ;)
Þetta eru að sjálfsögðu EOS varasalvarnir sem eru að fara sigurför meðal ungu kynslóðarinnar á Íslandi – já og mín. En við erum ekki þeir einu sem hafa tekið ástfóstri við þessa varasalva því þegar ég var aðeins að lesa mér til um þá þá birtust fullt af myndum af Hollywood stjörnum með þessa varasalva. Greinilegt að þetta eru varasalvar fræga fólksins. Mig fór eiginlega að gruna þá að ég væri langt á eftir öllum með þessa vöru…
EOS stendur fyrir Evolution of Smooth og það sem er svona sérstakt við þá er auðvitað lögunin sem er mjög sérstök, litrík og áberandi. En það sem er þó best er að þeir eru alveg hreinir, innihalda engin aukaefni svo þetta er auðvitað frábært fyrir ungu skvísurnar sem vilja fara að mála sig en eru kannski ekki komnar með aldur til. Ég veit að þessir hefðu alla vega verið á óskalistanum mínum þegar ég var 13 ára, og núna þegar ég er 25 ára.
Varasalvarnir eru stútfullir af nærandi efnum fyrir varirnar, sem fá einnig mjög fallegan ljóma og létta áferð. Varasalvarnir eru líka hættulega góðir á bragðið sem er ekki sniðugt fyrir fólk eins og mig sem nagar varirnar endalaust. En eftir að ég vandi mig á að vera með varasalva útum allt eru varirnar mínar svo vel nærðar að það er bara erfitt að naga þær :D
Safnið mitt samanstendur af þremur litum, einum af hverri týpu sem er til. Þessi græni heitir Honeysuckle Honeydew og er svona þessi venjulega formúla. Sá appelsínuguli heitir Medicated Tangerine og hann hrindir frá bakteríum sem er fullkomið fyrir þær sem fá gjarnan frunsur. Sá guli heitir Lemon Drop og inniheldur SPF 15, en það er einn annar sem er með SPF annars eru þeir lausir við það. Sá sem ég nota mest núna er þessi appelsínuguli, kannski helst því hann á heima í leðurjakkanum mínum sem er sú yfirhöfn sem ég nota oftast. Ég held þessi guli verði þó fyrir valinu þegar sólin lætur sjá sig.
En nú langar mig bara í alla litina! Svo verð ég að prófa handáburðinn frá merkinu líka held ég. Varasalvarnir fást t.d. í Hagkaup og voru alla vega alltaf staðsettir inní snyrtivörudeildinni þegar ég var að kynna en ég veit ekki með ykkur en ég hef sjaldan rambað á það hvar varasalvar eru staðsettir í Hagkaup án þess að fá hjálp:)
En til að undirstrika það hve náttúruleg formúlan er þá notast EOS við mjög skemmtilegt auglýsingaefni, held þetta séu bara einar af skemmtilegustu snyrtivöruayglýsingum sem ég hef séð og mjög lýsandi fyrir vöruna!
Hrikalega skemmtilegar auglýsingar og nú langar mig í fleiri liti – eigið þið ykkur einhvern uppáhalds?
EH
Skrifa Innlegg