fbpx

Varalitur til að fagna 23. viku!

Ég Mæli MeðLífið MittMACMakeup ArtistNýjungar í SnyrtivöruheiminumNýtt í snyrtibuddunni minniSS15Varir

Mér finnst fullt af ástæðum til að fagna deginum í dag – ég reyni svo sem að hugsa svona á hverjum einasta degi og finna eitthvað til að gleðjast yfir, lífið verður bara svo miklu skemmtilegra og maður nær að njóta hvers dags til fulls:)

Í dag er ég komin 23 vikur með mitt annað barn, í dag er dásamlega fallegt veður úti, í dag vaknaði ég snemma með Tinna Snæ og naut þess að knúsa hann og kúra uppí sófa yfir teiknimyndum. Þetta er alveg dásamlegur dagur og hann verður enn bjartari og skemmtilegri þegar maður setur upp flottan varalit eins og ég kaus að gera í dag. Varaliturinn og augnskugginn sem ég ber í dag eru úr nýrri línu frá MAC sem kom í Debenhams og Kringluna í gær. Línan heitir MAC is Beauty og er stútfull af björtum og dásamlegum vorlitum fullkomnum fyrir daginn í dag!

beautyis

Varaliturinn er með mjög sterkum litapigmentum og hann er alveg mattur. Ég setti bara glæran varablýant undir til að jafna varirnar og svo það yrði þægilegra að bera litinn á. Þessi litur er alveg svona bubblegum bleikur og fullkominn fyrir vorið. Það komu fullt af æðislegum varalitum í línunni og þeir klárast líklega mjög hratt…

beautyis3

Varaliturinn heitir Silly – fullkomið nafn fyrir þennan varalit! Svo fannst mér dáldið gaman að setja svona ljósan pastelgrænan augnskugga á augun, þessi er líka úr línunni en hann heitir Preening. Augnskugginn kom virkilega vel út að mínu mati og mér finnst skemmtilegt hvernig liturinn gefur augunum ljóma og græni liturinn dregur einnig úr roða í kringum augun sem er algjör snilld. Ég held það verði svo mjög gaman að para þennan saman við fallegan brúnan lit í skyggingu til að gefa augunum meiri dýpt. En ég vildi bara halda í birtuna svo ég setti hann í innri augnkrókinn líka.

Með þessum vörum sjáið þið svo einn alveg sjúklega góðan maskara frá MAC og þessi er að fara góða leið með að verða meira uppáhalds en Play Lash maskarinn frá merkinu sem er einn af mínum allra uppáhalds! Þessi heitir In Extreme Dimension og hann gerir augnhárin mín eins og köngulóalappir og hér er ég bara með eina umferð. Ég þarf að sýna ykkur hvað þessi getur gert því það er frekar tryllt. Burstinn er gúmmíbursti en ég er hrifnust af þeim eins og hefur komið fram ótal oft ;)

beautyis2

Í alvöru haldið þið ekki að þessi litur muni gera daginn bara alveg fullkominn. Það er alltaf góð ástæða til að setja upp fallegan varalit. Ég er einmitt í ljósblárri gallaskyrtu í dag og litirnir eru að tóna svo vel saman eins og þið sjáið svona aðeins á þessum myndum.

MAC is Beauty vörurnar koma í takmörkuðu upplagi svo tryggið ykkur fallegar vorvörur úr þessari fallegu vorlínu sem fyrst.

Svo mörgum vonandi til mikillar gleði þá mun ég á morgun birta fyrstu fyrir & eftir myndirnar úr íbúðinni – jeijj! En þið sem fylgist með mér á Instagram @ernahrund fenguð smá teaser í gærkvöldi. Ég vona að ykkur hafa litist vel á en það er reyndar alveg þónokkuð í land ennþá en það er ástæðan fyrir myndaleysi þetta er bara ekki tilbúið.

Eigið yndislegan dag – það ætla ég að gera!

EH

Vörurnar sem ég skrifa um hér fékk ég sendar sem sýnishorn Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit.

Forsíðuförðunin eftir Söru Dögg

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

Skilaboð 1

  1. Inga Rós

    20. April 2015

    Vá hvað hann er fallegur á þér, love love.