Nýjasta æðið hér á heimilinu okkar er að útbúa dásamlegt grænkálssnakk! Þetta er alveg ótrúlega einfalt og ofboðslega gómsætt. Aðalsteinn á heiðurinn af því að útbúa það hér en hann er mjög duglegur í alls kyns tilraunastarfsemi í eldhúsinu. Ég deildi snakkinu inná snapchat rásinni um daginn og fékk í kjölfarið beiðnir um uppskrift svo ég bauð eiginmanninn velkominn sem gestasnappara hjá mér í morgun þar sem hann sýndi listir sínar í grænkálssnakk gerð en mig langar endilega að deila með ykkur líka hér!
Ef ykkur langar að sjá uppskriftina í beinni lýsingu inná snappinu þá addið þið bara —> ernahrundrfj <— og sjáið Aðalstein fara á kostum!
Hér sjáið þið innihaldið og hér á eftir kemur svona smá útskýring á hvernig er farið að.
- Byrjið á því að hreinsa stilkana frá grænkálinu – munið að skola kálið fyrst auðvitað.
- Setjið kálið í skál og hellið ólífuolíu – notið helst venjulega olíu ef þið eigið hana. Þið getið svo notað alls konar olíur bara eftir því hvernig bragð þið viljið.
- Setjið nóg af salti yfir kálið.
- Takið svo slatta af sesamfræjum og setjið yfir líka (ég gleymdi því á myndinni hér fyrir ofan)!
- Myljið niður smá þurrkað chilli og setjið yfir.
- Blandið svo öllu vel saman í skálinni og leggið kálið yfir ofnplötu
Aðalsteinn setti snakkið núna á ofnplötu en venjulega setur hann það í eldfast mót og svo inní ofn. Snakkið fer inní ofn í 10-15 mínútur á 170-180° og með blástri. Svo er það bara að meta hvernig snakkið lítur út hvenær ykkur finnst það tilbúið. Aðalsteinn talar um að það sé svona þegar snakkið er orðið smá brúnt og dökkt án þess að það verði þó brennt.
Þetta er sko alveg vandræðalega gott og er þetta ekki bara nokkuð hollt – alla vega hollara en margt annað! Svo má auðvitað leika sér hvað hvað er sett yfir grænkálið og prófa sig áfram. Persónulega vil ég ekki chilli á mitt mér finnst það aðeins of sterkt fyrir minn smekk… ;)
Njótið,
Erna Hrund (& Aðalsteinn)
Skrifa Innlegg