fbpx

Sumargleði Snúrunnar & Pastelpaper

Ég Mæli MeðFallegtFyrir HeimiliðLífið Mitt

Mig langar að hvetja ykkur sem eruð aðdáendur fallegrar hönnunar og íslenskra teikninga til að kíkja við í Sumargleði Snúrunnar og Pastelpaper sem fer fram á morgun í verslun Snúrunnar í Síðumúla. Þegar ég fékk boð á Facebook um viðburðinn – HÉR – varð ég virkilega spennt því mér finnst Snúran ein af allra fallegustu innanhúsmunaverslunum hér á landi og ekki er eigandinn neitt síðri því hún Rakel er algjör perla og með sérstaklega góðan smekk – ég væri alveg til í að hafa hennar auga fyrir fallegum hlutum.

Tilefni fjörsins er ný lína af teikningum eftir hana Lindu hjá Pastelpaper sem verða til sölu hjá Rakel í Snúrunni. Svo þarna koma tvær sérstaklega smekklegar konur saman – þá getur maður nú bara ekki annað en mætt. Svo er reyndar líka 15% afsláttur af vörum í Snúrunni í tilefni fjörsins og ég hef augastað á yndislega fallegum bakka sem mig langar að bæta við á stofuborðið hjá mér – vasinn frá Finnsdóttir sem er líka á óskalistanum myndi líka sóma sér fullkomlega á bakkanum. Já ég viðurkenni það fúslega að ég hef augastað á allmörgum vörum inní Snúrunni og hlakka til að sjá myndirnar hennar Lindu ég er nú þegar með tvær uppá vegg hér báðar úr Baby North línunni – en ég á engan fugl – og þessi svanur heillar mig!

11709812_1159539177393403_2227822315544597762_n

Í boði fyrir gesti verða léttar veitingar, happdrætti þar sem verðlaun verða t.d. gjafabréf í Snúruna og mynd frá Pastelpaper, sumarútsala og mikil gleði! Snúran er staðsett í Síðumúla 21 sem er þar sem Bang & Olufsen búðin var til forna. Búðin er ofboðslega björt og falleg og þangað er mjög gaman að koma, skoða vörurnar og auðvitað detta í smá spjall sem getur orðið alveg hættulega langt – en það er nú aldrei verra.

11694796_1155402861140368_8966007510435942001_n

Mér þykja myndirnar frá Bob Noon hópnum alveg endalaust fallegar og hér sjáið þið nokkrar þannig uppá vegg. Sjálf hef ég rammað inn póstkort frá listamönnunum sem mér þykja falleg og hengt upp. Svo er þetta yndislega fallega hliðarborð á óskalistanum og ég segi það satt að ég varð smá öfundsjúk þegar ég sá að Linnea okkar lumar á einu slíku heima hjá sér.

11537711_1148851628462158_2764253374706966030_n

Fallegu munirnir frá Finnsdóttir, koparblómapottarnir og svo þessir æðislegu bakkar sem þið sjáið þarna standa upp – það eru þessir sem eru óskalistanum en þeir eru ekki með sömu litum báðum megin svo það er hægt að breyta til eftir skapi eða tilefni.

Nú vona ég bara að ég eigi góðan dag á morgun svo ég geti mætt fersk og nælt mér mögulega í fallega muni og unnið í happdrætti því verðlaunin eru sko ekki af verri endanum. Hvet ykkur líka til að kíkja við – sérstaklega ef þið hafið ekki enn gefið ykkur tíma til að heimsækja Snúruna því á morgun milli 17 og 19 er sannarlega gott tilefni til!

EH

Færslan er ekki skrifuð né birt gegn greiðslu af neinni tegund heldur eingöngu vinaleg ábending til lesenda sem gætu haft gaman af viðburðum sem þessum***

Öfug flétta

Skrifa Innlegg