Í gær var sannarlega góður dagur… ég fékk glænýtt tölublað af Reykjavík Makeup Journal í hendurnar, það verður aldrei neitt minna skemmtilegt. Þó netið sé framtíðin þá er prentið alveg klassískt og ótrúlega gaman að fá að halda svona í verkin sín.
Blaðið getið þið nálgast í næstu snyrtivörudeild Hagkaupa FRÍTT ekki seinna en núna ;)
Það er dáldið skemmtileg saga á bakvið forsíðuna en inní blaðinu eru 10 brúðarfarðanir frá hinum ýmsum merkjum og ég var búin að sjá fyrir mér að ein þeirra yrði á forsíðu blaðisins og sagði þeim sem förðuðu frá því auðvitað. Ég ákvað þó að ég ætlaði ekki að velja forsíðuna sem er kannski dáldið skrítið af ritstjóra að segja en mér fannst það smá óþægilegt að þurfa að gera uppá milli farðana sem vinkonur mínar væru að gera – þekki allar þessar dömur alltof vel nefninlega og margar fyrirsæturnar líka. Svo ég og hún Gunnur mín sem sér um uppsetninguna í blaðinu völdum myndir frá öllum sem kæmu til greina á forsíðu og ákváðum að leyfa þeim sem vinna með henni á skrifstofu Hagkaupa að velja myndina sem færi á forsíðuna. Þau tóku þetta skrefinu lengra og völdu mynd sem hvorug okkar hafði lagt til! En ég er sátt með útkomuna og gaman að heyra líka frá aðilum sem eru kannski ekki beint involveruð í blaðið hvað þeim fannst best – vonandi eruð þið sammála þeirra vali.
Forsíðuna gerði kær vinkona mín hún Kristjana Guðný Rúnarsdóttir með vörum frá Lancome en hún er Global Makeup Artist fyrir merkið og hún er sérstaklega fær þegar kemur að brúðarförðunum eins og þið sjáið vel bæði á forsíðunni og inní blaðinu. En Kristjana gerir ekki bara forsíðuna og brúðarförðunina heldur svarar hún einnig spurningum verðandi brúða sem eru allar inná brúðkaupsgrúppunni á Facebook en ég bað þær um spurningar sem þeim vantaði svör við, valdi svo 10 og þið finnið svörin við þeim í blaðinu. En það er ekki bara Kristjana sem kemur að skrifum fyrir blaðið heldur líka dætur hennar hinar yndislegu Ragnheiður Lilja og Rebekka Rut – mér finnst ég mjög heppin að fá svona flottar mæðgur til að hjálpa mér!
Mig langaði samt aðeins að gefa ykkur tilfinningu fyrir því hvað þið finnið í blaðinu en þemað er sumarið, allt um það sem er ómissandi fyrir sumarið og svo að sjálfsögðu allt fyrir brúðkaupið…
Beisik er best umfjöllunin er dáldið innblásin frá kærri vinkonu henni Elísabetu sem þið þekkið héðan af Trendnet. Þetta eru vörur sem að okkar mati eru algjörlega ómissandi að eiga í snyrtibuddunni og nýtast við öll tækifæri.
Mér finnst sjálfri voða gaman að taka mig í dekur heima fyrir – hér eru því góð ráð og vörur sem gera fæturna tilbúna fyrir sandalana í sumar.
Sagan á bakvið Miss Dior er í blaðinu – þessi er sérstaklega heillandi.
Ég tók viðtal við einn alveg einstakan og yndislegan sjálfbrúnkufræðing hjá St. Tropez. Hann Jules er alveg æðislega skemmtilegur karakter og hann er einn sá fremsti í sjálfbrúnkubransanum í Bretlandi. Hann gefur góð ráð fyrir notkun á sjálfbrúnkuvörum við öll tilefni.
Vissuð þið að Maybelline á 100 ára afmæli í ár – allt um merkið – söguna og vörurnar sem eru vinsælastar hér á Íslandi í blaðinu…
Það er að koma sumar svo þá verðum við aðeins að spjalla um sumarlínur merkjanna sem eru margar hverjar nú þegar fáanlegar nú eða rétt ókomnar :)
Hér sjáið þið þær vinkonur mínar og systurnar Ragnheiði Lilju og Rebekku Rut en þær völdu sér vörur til að gera flottar sumarfarðanir fyrir stelpur á sínum aldri.
Þið finnið 10 brúðarfarðanir í blaðinu allar hver annarri glæsilegri. Hér er það hún Eva Laufey sem situr fyrri sem Sensai brúðurin – svakalega klassísk og elegant förðun. Það er hins vegar smá villa í blaðinu en það er hún Guðný Hrefna Sverrisdóttir sem farðaði Evu, það var smá misskilningur þarna á milli. Yndisleg förðun frá einu vinsælasta snyrtivörumerkinu hér á Íslandi. Auk Sensai eru brúðarfarðanir frá Bobbi Brown, YSL, Lancome, L’Oreal, Guerlain, Dior, Max Factor, Shiseido og Smashbox í blaðinu.
Svo fannst mér dáldið gaman líka að gera bara eitthvað sem tengdist ekki einu sinni snyrtivörum og koma með hugmyndir að skemmtilegum hugmyndum til að skreyta fyrir brúðkaup – mér fannst sjálfri mjög gaman að setja þessar myndir saman.
Svo er ómissandi að segja frá nýjungum! En leiðinlegar fréttir því 5 mín eftir að blaðið var farið í prentun að Sculpting Settið kemur ólíklega til Íslands, það bara seldist upp áður en það náðist að klára pöntunina. En Sculpting burstinn hann kemur og Setting burstinn er nú þegar fáanlegur á Íslandi svo þetta er ekki svo hræðilegt ég lofa! En í staðin kemur Duo Fibre settið til landsins bara núna einu sinni og það eru gleðifréttir :)
Svo plataði ég eina af glæsilegri bloggurum landsins til að svara spurningum um fegurðarheiminn sinn, smá breyting á þessari öftustu síðu en ég fékk hugmyndina útfrá einu af mínum uppáhalds dönsku blöðum og aðlagaði hana smá að stíl blaðsins og ég er alveg svakalega ánægð með útkomuna. Þórunn Ívars er líka svo svakalega klár þegar kemur að því að taka fallegar myndir og myndirnar hennar gera síðuna alveg gullfallega – hún er bara snilli!
Mæli með – óháð tengslum við blaðið þá er þetta sjúklega flott blað og einhver algjör snillingur sem er greinilega þarna að skrifa það… ;)
Það er alltaf mitt markmið að toppa síðasta blað og mér finnst ég hafa gert það með þessu… ég vona að þið séuð sammála.
Munið að næla ykkur í eintak sem fyrst því síðasta blað kláraðist nánast á 10 dögum! Blaðið er FRÍTT og þið getið náð í það í öllum verslunum Hagkaupa sem eru með snyrtivörudeild. Ef þið hafið ekki tök á að ná í blaðið þá getið þið líka lesið það á netinu: REYKJAVÍK MAKEUP JOURNAL.
Njótið lestursins***
EH
Skrifa Innlegg