fbpx

Nótt & Dagur

HúðLífið Mitt

Svona af því ég er alltaf að tauta um húðrútínu og hvað það er mikilvægt að hugsa vel um húðina og hvað það er mikilvægt að gera greina mun á því hvernig hugsað er um húðina kvölds og morgna þá datt mér í hug að setja saman færslu með góðum ráðum um hvernig húðrútínurnar ykkar gætu verið fyrir nótt og dag…

lancomenótt&dagur

Fyrst um sinn langar mig að tala um afhverju það er mikilvægt að gera smá greinamun á því hvernig við hugsum um húðina kvölds og morgna. Húðin okkar starfar allt öðruvísi á þessum tímabilum dagsins. Á nóttunni er húðin okkar móttækilegri fyrir alls kyns næringu þar sem hún er í slökun því hún er ekki í stanslausri vinnu við að verja húðina fyrir utanaðkomandi áreiti sem er það sem hún gerir á daginn til að verja sig fyrir mengun og útfjólubláum geislum sólar t.d.. Þess vegna er tala um dagkrem og næturkrem. Dagkrem inniheldur sólarvörn til að verja húðina sem næturkrem gerir ekki því það er algjör óþarfi og þess í stað er það ríkara af næringarríkum efnum.

Hér fyrir neðan ætla ég að reyna að koma inná næringu, rútínu, þrif og svona aukalegt dekur sem húðinni er svo sannarlega ómissandi!

1. Húðhreinsun

Ég mæli sjálf með tvöfaldri hreinsun kvölds og morgna. Sjálf geri ég mér þó alveg grein fyrir því að það er kannski ekki gerlegt fyrir alla en ég hvet ykkur þó að reyna það og sérstaklega á kvöldin. Sjálf byrja ég á því að nota augnhreinsi, ná öllu af í kringum augun. Svo nota ég olíuhreinsi, olían leysir upp erfið óhreinindi svo sem vatnsheldar förðunarvörur, mengun og SPF varnir. Svo tek ég annað hvort Clarisonic burstann minn eða hreinsimjólk og þríf húðina aftur. Þá næ ég öllum óhreinindunum sem liggja dýpra inní húðinni og síðustu yfirborðsóhreinindunum. Svo tekur húðrútínan við. Á morgnanna ef ég hef ekki tíma fyrir tvöfalda húðhreinsun þá gríp ég í Miceallaire hreinsivatn (til hjá L’Oreal, Garnier, Lancome og Embryolisse hér á Íslandi) og strýk því í bómullarskífu yfir allt andlitið. Micellaire hreinsiagnirnar sjúga upp óhreinindi í húðinni og vatnið frískar uppá húðina um leið sem er tilvalið á morgnanna. Á nóttunni skilar húðin óhreinindi sem liggja djúpt inní húðinni upp á yfirborð hennar svo það þarf að hreinsa þau óhreinindi á morgnanna.

 2. Dagkrem vs næturkrem

Ég fór nú svo sem stuttlega yfir þetta hér að ofan. Næturkrem notum við á nóttunni, þau eru með meira af næringu og/eða virkum efnum en húðin er móttækilegri fyrir meiri næringu á nóttunni. Nætukrem eru með engum SPF vörnum sem er óþarfi á nóttunni. Dagkrem eru flest með SPF vörnum og ekki jafn mikið af virkum efnum eins og næturkremin. Þau eru þar af leiðandi yfirleitt léttari. Ég mæli alla vega með að konur noti sitthvort kremið þó mörg krem kallist 24 stunda krem og má nota bæði sem dag og næturkrem. Á myndinni hér fyrir ofan sjáið þið dag og næturkremin mín en ég bæti svo við serumi, augnkremi og olíum til að næra húðina enn betur.

3. Skiptið um koddaver!

Eins og ég segi hér fyrir ofan þá vinnur húðin okkar að því að skila óhreinindum sem liggja djúpt undir yfirborði hennar upp á yfirborð hennar á nóttunni. Þess vegna þurfum við að hreinsa húðina á morgnanan og þess vegna skiptum við reglulega um koddaver svo við séum ekki alltaf að velta andlitunum okkar uppúr þessum óhreinindum… ojj bara ;)

4. Skrúbba, skrúbba, skrúbba

Andlitsskrúbbar eru tilvaldir til að hjálpa húðinni að endurnýja sig. Með því að nota góða skrúbba örvið þið blóðflæði húðarinnar, þið losið burt dauðar húðfrumur svo húðin nái að halda sér heilbrigðari. Sjálf nota ég skrúbb svona 2 sinnum í viku og þá nota ég hann um leið og ég er búin að hreinsa húðina áður en ég set nokkurn raka á og munið áður en þið setjið andlitsvatn yfir húðina.

5. Andlitsvatn er ómissandi

Andlitsvatn er vara sem mér þykir ekki hafa fengið nægilega mikla athygli og vera nægilega vel útskýrt fyrir konum. En í grunninn þá opnum við húðina, svitaholurnar með hreinsum. Þegar hreinsuninni er svo lokið s.s. allt sem viðkemur hreinsun þar á meðal skrúbbum og hreinsimöskum, þá notum við andlitsvantið til að loka húðinni aftur svo húðin getur farið að starfa eðlilega á ný. Sjálf nota ég alltaf andlitsvatn og fyrir sjálfa mig er það ómissandi.

6. Olíur eru róandi og rakagefandi

Síðustu daga hefur kuldinn úti farið alveg svakalega illa með húðina mína. Hún er að þorna svo svakalega upp og ég er með mikla þurrkubletti hér og þar um andlitið. Mig klæjar og svíður undan þessum þurrk og það eina sem mér finnst svínvirka gegn þessum þurrki eru olíur. Svo á kvöldin svona 3 í viku hef ég verið að nota olíur á húðina mína. Olíuna ber ég á hreina húð eftir að ég hef notað andlitsvatn, mér finnst ég ekkert endilega þurfa að nota serum undir olíuna. Olían hefur róandi áhrif á húðina mína, hún dregur úr þessum tilfinningum með kláða og erting og þegar ég vakna morguninn eftir er húðin mín endurnærð og hún geislar!

7. Hugið vel að augnsvæðinu

Á morgnanna þykir mér ómissandi að nota augnkrem til að vekja húðina á morgnanna. Ég elska persónulega augnkrem sem eru borin á með stálkúlu því þær kæla augnsvæðið og draga þannig úr þrota. Svo á ég líka til að setja bara kremin mín inní ísskáp til að þau hafi kælandi áhrig á húðina. Augnkrem eru ekki bara fyrir eldri konur sem eru farnar að fá línur í kringum augun það geta allir notað augnkrem. Sérstaklega þegar þið eruð farnar að mála ykkur og farnar kannski að erta augnsvæðið sem er það viðkvæmasta á andlitinu. Með að erta þá meina ég að mála þau mikið, nota gerviaugnhár og hreinsa augnsvæðið í takt við það. Augnkrem eru ekkert bara til að draga úr hrukkum þau næra augnsvæðið og styrkja það fyrir áreiti. Á kvöldin bæti ég oft augnserumi við en það geri ég því það er farið að sjást aðeins betur á húðinni minni hvað hún er að verða fyrir miklu áreiti með öllum þessum förðunar tilraunum ;)

8. Dekrið við húðina

Ég er alltaf að tala um húðdekur og þá er ég að tala um maska. Ég elska að nota maska og ég elska að prófa nýja maska. Þegar húðin mín þarf búst, þegar ég horfi á svitaholurnar mínar fyllast af óhreinindum þá gríp ég alltaf í góðan hreinsimaska og ber yfir alla húðina. Svo yfirleitt eftir að ég klára hreinsimaskann þá næri ég húðina með rakamaska. Það geri ég því ég er með þurra húð og þannig næ ég að halda húðinni minni í góðu jafnvægi. Þegar við dekrum við húðina okkar þá erum við að gera henni svo gott, við erum að róa hana og næra og við erum að gera undirstöðuna fallegri. Andlitið okkar sem við sýnum öllum þarf stundum á dekri að halda og þetta er dekur sem ætti ekki að sleppa.

9. Hjálpið húðinni að slaka á á nóttunni

Stress er mikill áhrifavaldur þegar kemur að öldrun húðarinnar. Álag og stress sést mjög vel á húðinni og flýtir öldrun húðarinnar. Það er því okkar sem vinnum í miklu álagsumhverfi að huga vel að húðinni. Það sést alltaf vel á mér þegar það er mikið að gera hjá mér, hvort sem það er í einkalífinu eða í vinnunni. Þreyta, þroti, ljómamissir, rakatap og grár húðlitur er það sem gerist hjá mér og fleirum. Þess vegna er mikilvægt að undirbúa húðina vel fyrir kvöldin og fyrir nóttina til þess að hún nái að slaka á og nærast vel á nærignarefnunum sem við berum á hana.

10. Verjið húðina 

Mér þykir ómissandi að vera alltaf með eitthvað á húðinni á daginn þó ég sé ekkert máluð. Ég nota alltaf krem með sólarvörn í og svo nota ég litað dagkrem, stafrófskrem eða farða það er þá bara þegar ég mála mig. Með þessu fæ ég góða vörn gegn útfjólubláum geislum sólar (þó við sjáum þá ekki með berum augum þýðir það ekki að þeir séu ekki þarna) og með grunnförðunarvöru næ ég að verja húðina fyrir óhreinindum úr umhverfinu. Þetta er eitthvað sem ég hef alltaf ráðlagt og þá sérstaklega konum sem vinna í óhreinu umhverfi eins og t.d. í álverum og bara utandyra.

Ég gerði svo heiðarlega tilraun til að kortleggja húðrútínuna mína til að geta sýnt myndrænt hvernig ég hugsa um húðina á kvöldin. Mér datt svona kannski í hug að það væri auðveldara að skilja allt sem ég er að skrifa hérna um ef þið sjáið það svona svart á hvítu – eða svart á bleiku í þessu tilfelli.húðrútínanmín

Ég vona innilega að þessi færsla geti nýst ykkur og eins og alltaf tek ég fagnandi á móti spurningum hvort sem það er hér í athugasemdum, inná Facebook, í tölvupósti eða inná Snapchat.

Undirstaða fallegrar förðunar er heilbrigð húð í góðu jafnvægi – munið það!

Erna Hrund

Ný síða til að fylgjast með - Mamie.is

Skrifa Innlegg

4 Skilaboð

  1. Elín

    23. November 2015

    Hæhæ

    Nú langar mig að spurja þig hvaða krem og oliur þú mælir með fyrir þurra og viðkvæma húð en ég virðist vera með svipaða húð og þú samkvæmt lýsingu. Ekki verra ef þau eru í ódýrari kantinum fyrir fátækan námsmann en það er samt ekkert must :)

    • Reykjavík Fashion Journal

      24. November 2015

      Ég er sjálf mest að nota Nutri Gold olíuna frá L’Oreal og olíuna frá Skyn Iceland sem fæst inná nola.is þær eru báðar æðislegar í þessum mikla kulda, drjúgar og næra mjög vel. Með krem þá er ofboðslega mikið í boði eins og þú veist kannski sjálf en ég nota mikið vörurnar frá L’Oreal og Skyn Iceland svo eru eins mjög góðar olíu vörur inní The Body Shop líka krem með olíu í sem er mjög róandi og nærandi fyrir húðina í kuldanum :)

  2. Arndís

    24. November 2015

    Takk kærlega! Þetta er færsla sem ég min 100% nýta mér. Góð áminning fyrir okkur :)
    Hef verið að hugsa um 12 ara stelpuna mina. Hun er byrjuð að fa sma fílapensla og bólur. Hvaða vörur myndir þú ráðleggja fyrir svona ungar stelpur.

    • Reykjavík Fashion Journal

      24. November 2015

      Takk kærlega fyrir falleg orð! En fyrir þennan aldur mæli ég hiklaust með Neutrogena Visibly Clear vörunum. Flottar fyrir svona unga húð sem er farin að finna fyrir óheindum. Gott fyrir hana að eiga hreinsi, mögulega léttan skrúbb til að nota 2 í viku og gott rakakrem :)