fbpx

Nýr bolli í safnið

FallegtFyrir HeimiliðLífið MittNetverslanirShopSS14

Mér finnst ótrúlega gaman að skrifa um ást mína á múmín álfunum og söfnunaráráttuna sem ég er með sem tengist þeim. Ég vona að það sé í lagi að ég skelli í eitt í viðbót sem tengist að sjálfsögðu því að ég var að eignast sumarbollann í ár sem er fáanlegur HÉR.

db57630eaf114467d64b89f54f2521a9

Þennan keypti ég í dag mér til mikillar ánægju en á meðan ég skrifa þessa færslu sit ég á kaffihúsi og stari útum gluggann á fallega sumarveðrið. Fyrir neðan gluggann sefur sonurinn vært og í smástund líður mér eins og ég sé komin aftur í fæðingarolof – kallinn í vinnunni og við mæðginin að njóta. Blessunarlega er ég ekki enn í fæðingarorlofi en ég er þeirrar skoðunar að stjórn landsins fyrr og síðar megi skammast sín fyrir að vera ekki enn búin að bæta réttindi fólks í fæðingarorlofi – en um það gæti ég skrifað langan pistil og hver veit nema ég geri það á næstunni.

En þetta var útúrsnúningur sem ég var samt einhvern vegin að skrifa… ;) En að múmínfegurðinni, ég fékk sum sé samþykki frá sambýlismanni mínum til að kaupa enn einn múmínbollann í gærkvöldi – honum finnst við eiga of marga. Því er ég ekki sammála. Ég veit ekki hvenær nóg er komið af þessum fallegu bollum og hér eru nokkrar myndir því til sönnunar…

Smellið á Like takkann ef þið eruð mér sammála… ;)

Ég veit ekki hvort sumarbollinn sé kominn í sölu í einhverjum verslunum á Íslandi en ef þið vitið af því endilega deilið því með mér og öðrum lesendum í athugasemdum. Ef þið viljið starta múmínbollasafni þá mæli ég með versluninni Artform á Skólavörðustígnum. Þar kýs ég að versla bollana en þar er besta verðið og frábær og persónuleg þjónusta. Hjónin sem eiga verslunina hafa nokkrum sinnum boðist til að panta sérstaklega inn fyrir mig bolla og hafa sent fyrir mig fyrirspurnir varðandi bolla sem mig vantar í safnið – algjörar perlur!

EH

Y.A.S. & Selected W2014 Showroom

Skrifa Innlegg

7 Skilaboð

  1. Viktoría

    4. May 2014

    Besta verðið í Þorsteini Bergmann í Hraunbæ :)

  2. Kristín

    5. May 2014

    Alveg sammála, maður getur aldrei átt nóg af Múmínbollunum enda yndislega fallegir og praktískir :D

  3. ein ósammála

    5. May 2014

    Bara ef ég má spyrja hvernig ætti að bæta réttindi fólks í fæðingarorlofi?
    Ég myndi segja að fæðingaorlof á íslandi væri í heimsklassa, fólk er með mikinn rétt, skiptist jafnt á mæður sem og feður, hinsvegar ætti ríkið sjá fyrir leikskólum þegar fæðingaorlofið væri búið við 9 mánaða aldur barna og leggja niður þetta dagmömmu fíaskó sen er heftandi fyrir mannauðinn á vinnumarkaðnum.
    Að hafa fæðingarorlif lengur en 9 mánuðu myndi aldrei ganga á jafn litlu landi og Íslandi þar sem mjög
    lítil prósenta fólks borgar skatta og er að halda velferðarkerfinu uppi og ef að vinnufært fólk vill vera af vinnumarkaðnum svona lengi þá ætti það sjálft að bera ábyrgð á því…
    Hinsvegar ættu við foreldrar í dag að setja sterka pressu á yfirvöld varðandi úrræði í leikskólamálum, þannig að endilega skrifaðu pistil um þetta og þrýstu á stjórnvöld…

    • Ég var meira að meina að almennt eru réttindi ekki góð fyrir fólk í fæðingarorlofi samanborið við nágrannalönd okkar. Mér finnst ekkert að því að bera okkur saman við þau í þessum málum þar sem við gerum það í öllum öðrum málum. Fyrst og fremst finnst mér réttindi námsmanna í fæðingarorlofi léleg og ég skil ekki afhverju í mörgum tilfellum komi illa út fyrir námsmenn að eignast börn í námi – fæðingarstyrkurinn sem sumir eiga bara rétt á er skammarlega lár. Ég er á þeirri skoðun líka að fæðingarorlof ætti ekki að skiptast á mæður eða feður heldur á barnið rétt á því – þ.e. að tíminn sé foreldra að deila. Kemur betur út fyrir t.d. einstæðar mæður sem standa t.d. í því að vera með barnsfeður sem ekki sinna barninu. Þær hafa ekki rétt á því að fá þessa 3 mánuði sem faðirinn á nema fara í gegnum eh ferli. Margar fjölskyldur sem hafa t.d. ekki efni á því að báðir foreldrar fari í frí ættu einnig að eiga kost á því að ráða hvernig þessum 9 mánuðum er skipt. Fyrir mitt leiti þá þegar ég eignast næsta barn kæmi betur út fyrir mig að fara ekki í fæðingarorlof heldur manninn minn. Ég sé ekki fyrir að hafa efni á því að fara í fæðingarorlof þegar ég eignast næsta barn þar sem ég fæ svo miklu lægri laun – það er ókosturinn við að vera líka sjálfstætt starfandi og vera ekki með jafnar tekjur. Það þarf því einnig að bæta úrræði fyrir þá starfsstétt.

      Það er tiltölulega nýleg breyting að konur sem fara í tæknifrjóvgun fá 9 mánaða orlof en þær konur fyrir ekki meira en 1-2 tveimur árum áttu bara rétt á 6 mánuðum. Það er ekki sanngjarnt, fæðingarorlof er tími sem hvert barn á rétt á í upphafi lífs síns með sínum foreldrum. Ég tel að með því að auka smám saman orlofið á nokkurra ára tímabili og hækka það jafnt og þétt, byrja á að bæta það gagnvart námsmönnum og þeim sem eru í dag að koma verst útúr þessu. Það á að vera hagur okkar allra að bæta réttindi foreldra í fæðingarorlofi – ungt fólk sækist enn meira erlendis í betri aðstæður þar. Við eigum að geta verið samkeppnishæf þrátt fyrir smæð okkar. Ég vil sjá plan frá stjórnvöldum fyrir svona aðgerðum.

      Dagmömmur finnst mér frábært kerfi en það skortir hins vegar eftirlit. Bættara eftirlit og betri þjónusta gagnvart dagmömmum myndi skila sér í aukinni aðsókn í það starf en einnig er ég sammála að leikskólakerfið þarf að laga. Ég stend í miklu veseni þar þó ég sé reyndar heppin þar sem barnið mitt er fætt það seint á árinu að hann fær pláss í haust. Hins vegar hefur mætt mér mikil mótstaða við að koma barninu mínu inná þann leikskóla sem ég vil. Ég lenti í því að leikskólinn sem honum var úthlutað hafnaði nánast syni mínum. En leikskólastjórinn leitaðist við að fá mig til að hafna plássinu ítrekað þar sem henni fannst ekki við hæfi að hann færi ekki í leikskóla sem væri tengdur grunnskólanum sem barnið myndi fara í ef við myndum búa á sama stað eftir 4 ár. Seinna komst ég að því að það var bara verið að reyna að koma öðru barni inn í staðin fyrir hann. Ef þetta virkar svona þá vil ég frekar hafa mitt barn hjá dagmömmu. En börn sem fæðast fyr á árinu – minn er í des – eru að komast inn á sama tíma og minn. Það finnst mér ekki sanngjarnt. Ég hef frábæra reynslu af dagmömmum, mínar eru einstakar og ég finn að barnið mitt er mjög hamingjusamt. Mér fyndist samt að sveitarfélög ættu að leitast við að hækka niðurgreiðslu til þeirra og endilega hækka hana eftir aðstæðum sem fólk er í – mögulega launatengja hana. Það er einnig eitthvað sem sveitarfélögin ættu að koma sér saman um en mér finnst rosalega sérstakt hvað þetta er misjafnt eftir sveitarfélögum…

      Það er mér ómögulegt að skilja hvernig kerfið sem á að þjónusta okkur á fyrstu árum barnanna okkar er svona gallað og ekki leitast við að bæta það frekar – þá tala ég um fæðingarorlof, dagmömmur og leikskóla. Við erum gjörsamlega stopp í þessum málaflokki og mér finnst það skammarlegt. Auðvitað væri draumur að koma barni beint inná leikskóla eftir fæðingarorlof en á meðan engin tekur að sér að sinna því þurfum við að hlúa að dagmömmum landsins.

      • ein ósammála samt ekki alveg

        5. May 2014

        ég er alveg 100% sammála því að fólk eigi að fá að skipta þessum 9 mánuðum einsog það vill, ríkið á ekki að segja okkur hvernig við eigum að skipta því á milli okkar og fólk á að geta tekið ákvörðun um það út frá eigin hagsmunum og að einstæðar mæður eigi að geta fengið þessa 3 mánuði sem feðurinir ættu að fá ef þeir kjósa að taka þá ekki með barni sínu.

        Hinsvegar get ég ekki verið sammála því að námsmenn hafi það slæmt í fæðingarorlofi, styrkurinn er sá sami og ef fólk væri á námslánum, það fær barnabætur 90 þúsund kr 5 hvern mánuð, það fær niðurgreiðslu hjá dagmæðrum og leikskólum, forgangur inná stúdentagarða, hærri namslán og ég vil taka það fram að ég var einstæð móðir í námi.

        Og það að dagmæður séu gott kerfi hljómar einsog afþví að það sé að virka vel fyrir þig og þú ert heppin með dagmömmu, en það er rándýrt, þar er biðraðakerfi eftir hentugleika, mikil óvissa, heftandi fyrir fólk sem vill vinna en fær ekki dagmömmu, lítið eftirlit og svo mikill skortur og eftirspurn að hver sem er getur fendið réttindi í dag og ef þú vilt bera okkur saman við hin norðurlöndin, þá þekkist þetta dagmömmukerfið ekki þar, þar eru leikskólakerfi fyrir börn eftir fæðingarorlof, þess vegna er fólk að sækjast þangað, þar eru úrræði.

        Niðurgreiðsla til dagmæðra fer aftir aðstæðum, hvort þú sért í námi eða einstæður, að fara að gera það eftir launum myndi flækja og gera kerfið ennþá dýrara en það er. Þannig að ég myndi segja að meðan að við erum að “sinna” dagmæðrum svona vel þá myndast ekki þrýstingur á stjórnvöld að gera eitthvað raunverulegt í málunum. Þú talar um að hafa niðurgreiðslur launatengdar, í raun eru þær það t.d. með barnabótum þær eru launtatengdar.

        Það að segja að fæðingarorlof á Íslandi sé slæmt finnst mér ansi þungt í árina tekið, réttur mæðra og feðra í DK er t.d. ekki nærri því jafn, sem stúdent á móðirin t.d. rétt á 12 mánuðum en faðirnn 6 mánuðum sýnist mér þegar ég skoða reglurnar hjá þeim. Í Svíþjóð er fæðingarstyrkur fyrir námsmenn um 115 þúsund kr á mánuði en á Íslandi er hann 135 þúsund kr á mánuði.

        Það sem er raunverulega er ábótavant og ef við ætlum að bera okkur saman við Norðurlöndin þarf að koma á kerfi sem lætur ekki foreldra hanga í lausu lofti í 9 mánuði og jafnvel lengur þar til að barnið þeirra fær leikskóla pláss.

        Svo er það á okkar ábyrgð að ef upp kemst um það á leikskólum að stjórnendur þar séu að reyna að hagræða eftir sínum hentugleika að tilkynna það til yfirvalda og standa á okkar.
        Einnig finnst mér alveg vanta í umræðuna ábyrgar barneignir, að fólk hafi efni á því að eignast börn, að þau safni pening til að eignast börn, að þau taki ábyrð á fjármálum sínum samhliða barneingum sínum, auðvitað eru börnin alltaf velkomin og óvæntar óléttur, skilnaðir og allskonar aðstæður til í dæmunum, en óábyrgar barneignir bitna alltaf á börnunum….og mér finnst líka tilhneiging hjá fólki að setja abyrgðina fyrir fjárhagslegri framfærslu sinni og barnsins síns yfir á ríkið.

        Mér finnst þetta alveg ótrúlga þörf og mikilvæg umræða og mér þætti frábært ef þú myndir skrifa pistil um þetta og þrýsta á stjórnvöld til úrræða….

        • Já hver veit nema ég geri það á endanum:) En ég er sammála þér að þetta er þörf umræða og eitthvað sem hefur mætt afgangi alltof lengi. Ég varð mjög bjartsýn á að þessi málaflokkur myndi vera í sviðsljósinu í komandi sveitastjórnakosningum en það entist ekki lengi.. – nú snýst allt enn einu sinni um flugvöllinn sem er skrítið þar sem ég hélt að það væri einmitt búið að semja um það að hann ætti ekki að flytja fyr en eftir þónokkur ár og þá bara ef álitlegt svæði fyndist…:/

          En það er rétt hjá þér ég litast klárlega af því að hafa frábæra reynslu af dagmæðra kerfinu. En ég held að ef það ætti að laga það kerfi þá er fyrsta úrræðið að bæta eftirlitið – leyfin eru veitt alltof frjálslega í mörgum tilfellum. En inná milli eru yndislegar konur sem maður er svo ánægður með að taki þátt í uppeldi barnanna sinna og mér finnst svo leiðinlegt þeirra vegna þegar umræðan um dagmæðrakerfið verður neikvæð.

          En takk fyrir líflegar umræður og hvatningu;)

          • ein ósammála samt ekki

            6. May 2014

            Takk sömuleiðis!
            Umræðan er þar sem peningurinn er því miður,
            og maður gleymir svo fljótt að þegar maður er kominn úr þessum
            aðstæðum að þrýsta samt áfram á breytingar…ég gerði það allavegana…