Eitt það erfiðasta sem ég hef gert um ævina var að fara frá litla yndislega stráknum mínum í heila 6 daga. Söknuðurinn var á tímabili svo sársaukafullur og ég hélt að það myndi bara aldrei koma að heimför. Auðvitað var þetta ótrúlega skemmtileg ferð og frábært að fá svona skemmtilegt tækifæri til að fylgjast með því sem fram fer á alvöru tískuviku.
Ég man að þegar ég eignaðist Tinna þá upplifði ég ótrúlega kraftmiklar tilfinningar sem ég hafði aldrei fundið áður. Fyrst og fremst þá uppgötvaði ég að ég væri ekki ódauðleg og nú væri lítil manneskja sem treysti því að ég passaði uppá hann. Um leið þá uppgötvaði ég allar hætturnar sem eru í þessum heimi og það má segja að ég hafi mögulega gengið nokkrum skrefum of langt í þessum áhyggjum.
Eftir að ég kom heim af fæðingardeildinni þá svaf ég ekki í margar vikur. Ekki af því Tinni var svo óvær og alltaf að vakna heldur af því ég gat ekki sofið af áhyggjum. Ég var farin að ímynda mér að það myndi einhver brjótast inn til okkar og stela barninu. Ég upplifði það að ég væri í stanslausri hættu og ég lét Aðalstein margtékka á því hvort allt væri ekki lokað og læst áður en við fórum uppí rúm. Ég lét hann líka alltaf ganga úr skugga um það að allir hnífar og allt beitt væri lokað ofaní skúffu því ég var svo hrædd um að ég myndi verða vitlaus af öllum þessum áhyggjum og gera sjálfri mér eitthvað.
Þetta er ein af ástæðum þess að ég var síðan greind með fæðingarþunglyndi. Áhyggjurnar voru alveg að fara með mig en sem betur fer var ég með yndislega ljósmóður sem var með mig í mæðravernd og er með okkur í ungbarnaeftirliti sem sá um leið hvað var að gerast og hjálpaði mér að ná mér úr þessu. Hún kenndi mér frábærar aðferðir til að vinna gegn þessum hugsunum með góðri rökhugsun og sagði mér nákvæmlega hvert ég ætti að fara og við hvern ég ætti að tala ef mér fyndist það ekki vera að virka.
Með tímanum hætti þetta þó og ég róaðist en þó ekki fyr en nokkrum vikum seinna. Ástæða þess að mig langaði að skrifa um þetta ástand hjá mér er sú að ég féll aftur í þetta far bara núna í nótt. Ég kom heim frá Kaupmannahöfn seint í gærkvöldi og ég gat ekki hugað mér að sleppa syninum þegar ég var loksins búin að fá hann í fangið. Söknuðurinn var gríðarlegur frá fyrstu mínútum en þegar ég beið í röðinni í check in í Keflavík byrjuðu tárin að streyma. Það gerðist á hverjum degi, sérstaklega eftir að ég var búin að spjalla við þá feðga á skype. Að sjálfsögðu hjálpaði líka að sjá hann á skype en það var ótrúlega erfitt þegar hann rétti út hendurnar og vildi koma í fangið á mömmu sinni og skildi ekki afhverju hún vildi ekki taka hann í fangið. Ég átti ófáar grátstundir í Kaupmannahöfn sérstaklega þegar komið var aftur uppá hótel eftir langan og erfiðan dag þar sem ég óskaði þess heitast að það yrði bankað á hurðina og fyrir aftan hana stæðu feðgarnir mínir tveir. Þann draum gaf ég þó upp þegar ég áttaði mig á því að sonurinn á að sjálfsögðu ekkert vegabréf og komst því ekki úr landi.
Þegar ég átti þessar erfiðu stundir þá var ég ekki lengi að rölta útí næstu H&M verslun og kaupa eitthvað fínt fyrir soninn. Einn stór bangsi fékk líka að fara með mér heim úr Disney búðinni og ég var komin inní bangsaverksmiðjuna hjá Tivolíinu þegar ég labbaði aftur út þar sem ég vissi ekki hvernig ég gæti komið bangsanum heim. Samtals var ég með 7 kg í yfirvigt sem söknuðurinn útskýrir að mestu leyti.
Ég naut þess að faðma son minn þegar ég loksins fékk hann í fangið. Gleðitár streymdu niður vangana og ég hélt ég gæti alls ekki sleppt honum – ekki einu sinni til að spenna hann í stólinn á leiðinni heim frá flugvellinum. Nóttin var samt svo erfið, aftur ekki vegna Tinna heldur vegna haussins míns. Aftur rifjuðust upp fyrir mér þessar erfiðu óttafullu tilfinningar þar sem ég óttaðist að það myndi eitthvað koma fyrir soninn. Ég svaf með hann í fanginu því ég var svo hrædd um hann. Ég var svo hrædd um framtíðina og þann ótta að ég gæti ekki alltaf verið með honum til að passa uppá að ekkert kæmi fyrir hann. Ég finn að ég á svo ótrúlega erfitt með það að geta ekki stjórnað aðstæðunum sjálf hvort sem það eru mínar eigin eða þær í kringum Tinna. Ég á svo erfitt með að sleppa tökum og njóta, ég veit ekkert um það hvort ég sé ein í heiminum sem líður svona.
Þegar ég var lítil gat ég ekki sofið á nóttunni á ákveðnum árum af því ég var svo viss um að heimurinn myndi farast. Stærð alheimsins gerði mig hrædda og ég óttaðist að á meðan ég svæfi myndi svarthol gleypa jörðina og allt væri búið. Ég held á ákveðin hátt þá sé þetta hræðslan við að ég missi af einhverju það er svo mikið sem mig langar að gera og upplifa og það sama á við um Tinna Snæ. Ég vil að hann eigi bestu ævi sem nokkur gæti óskað sér og mig langar að vera til staðar og fá að upplifa það með honum og fylgjast með honum vaxa og dafna – ég óttast það meira en allt annað í heiminum að missa af því.
Ég þarf að læra að sleppa tökunum – það mun koma einn daginn ég er alveg viss um það. Það mun þó taka sinn tíma en þangað til verð ég að reyna að beita rökhugsun og gera mitt til að koma í veg fyrir að ég skapi hættulegar aðstæður með óttanum mínum.
Sá sem sagði að það væri hollt að sakna átti greinilega ekki börn…
EH
Skrifa Innlegg