Vörurnar sem ég skrifa um hér fékk ég sendar sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit. Lancome á Íslandi gefur palletturnar í gjafaleiknum.
Í þó nokkur ár hefur planið alltaf verið að fá önnur andlit en mitt til að sýna fallegar farðanir. Núna fyrir stuttu plataði ég svo móður mína til mín í kaffibolla undir því yfirskyni að fá að farða hana.
Mamma mín er glæsileg kona með mjög fallega húð, hún hugsar mjög vel um húðina sína svo ég á stundum bágt með því að trúa því að hún sé orðin 49 ára en það er víst sannleikurinn. Svo hér langar mig að sýna ykkur förðun sem hentar sérstaklega vel konum á aldri við mömmu mína, gefa ykkur nokkur góð tips fyrir konur á hennar aldri þegar kemur að förðunum og um leið gefa tveimur dömum tækifæri til að eignast pallettuna sem ég nota í þessa hátíðarförðun.
Fyrst, áður en við förum í það að greina förðunina í þaular langar mig að koma með nokkur tips fyrir konur með húð sem er farin að eldast. Húðin okkar missir þyngdarafl sitt og hún þynnist smám saman. Það er vegna þess að hún missir dáldið fyllingu sína að innan vegna rakataps og það þarf því að vanda til verks þegar húðin er förðuð. Húðin á augnsvæðinu er sú sem er viðkvæmust því hún er þynnst svo þegar hún þynnist enn meir á hún til að færast til þegar við förðum hana. Ég mæli því alltaf með að nota grunn, augnskuggagrunn og farðagrunn, til að það sé enn auðveldara að farða húðina.
Það þarf að fara varlega og passiði augun setjið ekki of mikið af augnskugga á augnlokin því það er aðeins erfiðara að vinna skuggana til. Notið bursta með þéttum hárum sem eru stutt til að bera litinn á augnlokið og svo blöndunarbursta til að dreifa úr litnum. Passið að dusta vel úr burstanum með því að slá skaftinu á handabakið þá fer allt umfram pigmentið úr burstanum. Byggið svo bara litinn upp með fleiri umferðum þar til þið fáið þekjuna sem þið viljið.
Með eyeliner þá getur stundum verið vandasamt að ná línunni alveg heilli því stundum dreifist liturinn út í línurnar. Passið því að reyna að ná að hafa aungnlokin eins slétt og þið getið. Hafið línuna eins þunna og þið getið og byggið hana smám saman upp. Leyfið línunni svo að þorna alveg áður en þið opnið augun alveg svo liturinn smitist ekki.
Þegar kemur að húðinni er ekki sniðugt að setja of mikið á hana því það þyngir ásýnd húðarinnar. Hér nota ég fljótandi farða og hyljara og sleppi öllu púðri nema ég nota bara sólarpúður til að móta andlitið lítillega. Við mæðgurnar eigum það sameiginlegt að vera með ansi skarpa andlitsmótun og ég get alveg þakkað mömmu fyrir þessi kinnbein mín eins og þið sjáið alveg á þessum myndum.
Ég vona svo að móðir mín reiðist mér ekki fyrir það sem ég ætla að skrifa næst… En hárin í augabrúnunum hennar eru farin að grána smá og frábært ráð til að lita þau án þess að lita augabrúnirnar er að nota litað augabrúnagel. Gelin eru bara eins og maskari sem þekja öll hárin þannig þau fá yfir sig fallegan lit. Eins þegar við eldumst hægist á vexti hárnna í augabrúnum svo stundum virðast þær vera að þynnast. Mamma þú ert með mjög góðan hárvöxt enn svo það sé á hreinu! En fyrir þær sem þurfa þá mæli ég með að þær noti augabrúnablýanta með vaxkenndri formúlu. Með þeim er nefninlega svo þægilegt að teikna hár inní augabrúnirnar til að þétta ásýnd þeirra.
Svo eru það varirnar. Notið hyljara til að grunna varirnar og notið svo góðan blýant til að móta þær, varablýantur kemur í veg fyrir að varaliturinn renni til og fari í fínu línurnar sem koma í kringum varirnar. Hér nota ég meirað segja eyeliner sem varablýant og aðeins ljósari varalit yfir til að gefa vörunum aðeins þrýstnari áferð. Því það sem gerist líka þegar húðin eldist er að varirnar þynnast því þær missa líka rakann í vörunum og náttúrulegu fyllinguna sína. Svo með því að setja ljósari lit í miðju varanna virðast þær þrýstnari.
Hér sjáið þið pallettuna sem er í stjörnuhlutverki í förðuninni. Pallettan hetir Auda(city) in Paris og er frá Lancome. Pallettuna hannaði Lisa Eldridge en litirnir sem einkenna hana eru innblásnir af þessari dásamlega fallegu hátísku borg. Pallettan inniheldur 16 mismunandi augnskugga sem eru með ólíkum áferðum. Sumir eru mattir, sanseraðir, með glimmeri, með kremkenndri áferð. Svo það er ýmislegt sem er hægt að gera. Ég nota matta brúna litinn sem þið sjáið næst innst í pallettunni en hann er frábær blöndunarlitur og hann er í aðalhlutverki í förðuninni sem skyggingarliturinn líka. Svo nota ég sanseraða liti og bleiktóna liti til að birta aðeins yfir förðuninni og gefa henni meiri lit.
Brúnir tónar fara öllum konum vel, brúnir litir aðlagast litarhaftinu okkar svo vel. Þess vegna má líka segja að konur með brún augu geta notað alla liti! En þegar kemur að konum með græn augu mæli ég eindregið með fjólubláum tónum, fyrir konur með blá augu eru orange og kopar tónar og jafnvel bleikir líka æðislegir það sama má segja um konur sem eru með svona grátóna augu, þessir litir draga fram bláa litinn í augunum.
Förðunina hennar mömmu byggði ég upp þannig að ég byrjaði yst á augnlokunum og færði mig innar. Ég nota jafnt sanseraða og matta liti. Það er einhver alveg svakalega undarleg regla sem fjallar um það að konur megi ekki nota sanseraða augnskugga þegar þær eru komnar með línur í kringum augun – þvílík endemis vitleysa, ég segi og hef alltaf sagt að konur eigi að mála sig eins og þeim sjálfum finnst fallegt. Við ættum að mála okkur fyrir okkur sjálfar en engann annan!
Ég ýki meirað segja sanseringuna hennar mömmu með því að bleyta uppí ljósum sanseruðum lit sem er nr. 4 í pallettunni í efri röðinni til að fá ennþá ýktari lit og mér finnst það persónulega koma alveg svakalega vel út.
Aðrar vörur sem ég bætti við til að fullkomna lúkkið hennar mömmu eru…
Teint Visionnaire Foundation, Long Lasting Softening Concealer, Sourcils Définis augabrúnablýantur, Belle de Teint sólarpúður, Le Crayon Khol í lit nr. 11 Café Serré, Le Crayon Khol í lit nr. 12 Chocolate Chaud (eyeliner sem ég notaði sem varablýant) og Shine Lover varalitur í litnum 316 – allt vörur frá Lancome.
Aukalega bætti ég svo við augnskuggagrunni frá MAC, Super Liner Superstar eyeliner frá L’Oreal og Million Lashes So Couture maskara frá L’Oreal.
Mamma skvísa!
Fullkomin hátíðarförðun fyrir allar konur, loksins gaf ég mér svo tíma til að gera það sem ég hef alltaf ætlað að gera á blogginu og það er að fá konur á öllum aldri til að sitja fyrir og sýna fallegar hátíðarfarðanir. Ég vona svo sannarlega að ég hafi kannski náð að gefa góð tips fyrir konur á aldri við mömmu þegar kemur að hátíðarförðuninni í ár en það má svo sannarlega hunsa allar reglur og gera það sem manni finnst fallegt sjálfum.
En mig og dömurnar hjá Lancome langar að gleðja tvo heppna lesendur með þessari fallegu pallettu. Svo ef þig langar í þessa Auda(City) in Paris augnskuggapallettu endilega taktu þátt því það er svo sannarlega til mikils að vinna því eins og þið sjáið á pallettunni bíður hún uppá svakalega mikla möguleika.
Til að eiga kost á pallettu…
1. Smelltu á Like á þessari færslu og deildu henni á Facebook.
2. Farðu inná Facebook síðu Lancome og smelltu á Like – FACEBOOK SÍÐA LANCOME Á ÍSLANDI
3. Skrifaðu athugasemd við þessa færslu með fullu nafni svo ég geti haft uppá þér og láttu fylgja nafnið á þinni uppáhalds vöru frá Lancome.
Erna Hrund
Skrifa Innlegg