Nú er ég aðeins búin að vera að fjalla um mikilvægi þess að hreinsa húðina vel – því hrein og vel nærð húð er undirstaða fallegrar förðunar. Svo er húðin okkar auðvitað stærsta líffæri líkamans og því ber okkur skylda til að hugsa vel um hana. Það er nauðsynlegt að þrífa hana og fjarlægja þannig dauðar húðfrumur því húðin okkar endurnýjar sig reglulega og við þurfum stundum að hjálpa henni aðeins með það.
Ég hef verið að prófa núna hreinsivörur frá Clinique – ég kann vel að meta það þegar ég get keypt svona hreinsisett eins og ég skrifaði áður um HÉR þá var ég að nota svoleiðis sett frá Shiseido. Þriggja þrepa húðumhirðukrefið frá Clinique er fáanlegt fyrir fjórar mismunandi húðtýpur – 1 er fyrir þurra húð, 2 er fyrir normal húð, 3 er fyrir normal/blandaða húð og 4 er fyrir feita húð. Ég er að nota nr 1 – í því setti t.d. er sápan extra mild því við sem erum með þurra húð getum stundum fundið fyrir ertingi þegar sápan er of sterk. Þessi 3 skref eru svo einföld – þið byrjið á því að hreinsa húðina með andlitshreinsinum svo strjúkið þið yfir húðina með rakavatninu og berið loks Dramatically Different Rakakreminu yfir húðina. Ég hvet ykkur til að les færsluna sem ég vísa í hér fyrir ofan því þar fer ég yfir það afhverju þessi skref eru svona mikilvæg og hver tilgangur varanna er. Það eru tvær vikur síðan ég byrjaði að nota þessar vörur og húðin mín lítur ótrúlega vel út og ég mér líður svo vel í henni. Hún er svo vel nærð að ég sver að ég þarf ekki að nota jafn mikið af farða eða BB kremi á hana og ég gerði áður!
Það kemur oft fyrir að ég fái inn tölvupósta þar sem ég er spurð hvað ég sé að nota til að fá svona fallega húð og svarið er alltaf það sama góðar og nærandi hreinsivörur og BB krem!
En núna þegar árstíðaskiptin eru að standa yfir gengur húðin mín alltaf í gegnum mjög erfitt tímabil. Þá er bara eins og hún fái alls ekki nóg af raka og litlir þurrkublettir birtast hér og þar í húðinni og sérstaklega mikið í kringum augun. Á þessum tíma nota ég því alltaf extra feit krem og ber t.d. góð augnkrem í kringum augun. Nú hef ég samt bætt nýrri vöru inní rútínuna mína en það er nýr rakamaski frá Clinique – og ég finn mikinn mun. Ég set maskann á mig eftir að ég er búin að þrífa húðina með þriggja þrepa hreinsilínunni og er með hann á mér yfir nóttina. Þegar ég vakna er húðin mín svo fersk og ljómandi og mér líður bara svo vel í framan. Þetta geri ég 1x – 2x í viku. Rakinn frá maskanum fer djúpt inní húðina – dýpra en venjuleg rakakrem og stuðlar þannig að heilbrigðari húð og meiri ljóma. Maskinn er olíulaus.
Þegar ég var að afla mér upplýsinga um Clinique vörurnar rakst ég á þá staðreynd að allar vörur sem koma frá merkinu eru ofnæmisprófaðar 7200 sinnum! En hver vörutegund er prófuð 12 sinnum á 600 manns og komi ofnæmisviðbrögð ekki nema í eitt skipti af þessum 7200 þá er efnasamsetningu vörunnar breytt – ekki amalegt! Vörurnar eru einnig allar ilmefnalausar svo þær ættu að henta þeim sem eru með viðkvæma húð sérstaklega vel. HÉR finnið þið líka umfjöllun um nýjasta farðann frá merkinu. Þetta er klárlega merki sem ég ætla að fylgjast vel með í framtíðinni.
Ef þið hafið ekki verið nógu duglegar að þrífa húðina ykkar undanfarið þá er um að gera að draga upp ermarnar og gera eitthvað í því. Heimur hreinsivara og maska er ekki síður spennandi og skemmtilegur heldur en förðunarvaranna. Þá er um að gera að setja saman bjútíklúbb vinkonurnar og hittast reglulega og spjalla um skemmtilega hluti og setja á sig hreinsimaska og loks rakamaska. Ég er einmitt að plana það að halda minn fyrsta bjútíklúbbshitting ég þarf bara að ákveða hverjum ég ætla að bjóða í hann ;)
EH
Skrifa Innlegg