fbpx

Förðunarmeistarar að störfum

MACmakeupMakeup ArtistRFF

Það var ótrúlega gaman að fá að eyða deginum með tveimur af flottustu makeup artistunum okkar – Fríðu Maríu og Guðbjörgu Huldísi. Ég hef einu sinni fengið að vinna með Guðbjörgu það var fyrir tískusýningu Ellu og Oroblu núna í haust og fyrir mörgum árum farðaði Fríða María mig fyrir N1 auglýsingu þar sem ég var eitt af landvættum Íslands sem stóð vörð um N1 merkið en ekki íslenska fánann…. En það var gaman að fá að eyða góðum tíma í að fylgjast með þeim og stúdera svolítið vinnubrögð þeirra beggja. Það fyrsta sem maður tók eftir var hversu rólegar og yfirvegaðar þær voru. Það var alveg greinilegt að það var allt vel skipulagt fyrir daginn. Tvö förðunarteymi voru starfandi á RFF – annað var undir stjórn Fríðu Maríu sem sá um förðun hjá Andersen & Lauth, Farmers Market og JÖR og Guðbjörg Hulda stjórnaði hinu teyminu sem sá um förðun fyrir REY, Huginn Muninn og Ellu.

Guðbjörg sýnir teyminu sínu förðunina fyrir Huginn Muninn sýninguna.
Huginn Muninn sýnikennslan séð frá öðru sjónarhorni.
Fríða María sýnir teyminu sínu förðunina fyrir Farmers Market sýninguna.

Seinna um daginn kom svo Steinunn Þórðardóttir sem sá um förðunina hjá Munda og 66°N en hún farðaði líka fyrir tökur á stuttmyndinni hans svo það átti vel við að hún kláraði málið. Steinunn var ein af þeim sem kenndi mér þegar ég var að læra og ég hef unnið með henni nokkuð oft. Hún var meðal annarra tilnefnd til Eddunnar, tilnefninguna fékk hún fyrir förðun sína í myndinni Svartur á Leik.

Steinunn farðar leikarann Tómas le Marquis fyrir sýninguna hans Munda.

Eins og hefur komið fram á nokkrum stöðum þá voru það vörur frá MAC sem voru notaðar á sýningunum og það voru þónokkrar vörur sem ég girnist eftir daginn. Ég tók eftir því að Face & Body farðinn og vörur úr Prep og Prime línunni frá merkinu voru mikið notaðar en ég ætla að fara yfir það allt betur í vikunni ásamt smá auka upplýsingum um lúkkin frá Fríðu Maríu og Guðbjörgu.

Guðbjörg leiðbeinir makeup artista úr teyminu sínu með förðun á fyrirsætu úr sýningu REY.
Fríða María fylgist með Hörpu Káradóttur verslunarstjóra MAC í Kringlunni farða fyrirsætu fyrir sýningu Andersen & Lauth.

Að fá að fylgjast með svona flottum konum að störfum er draumur fyrir makeup fíkla eins og mig og ég þakka þeim fyrir að hafa leyft mér að fylgjast með.

EH

Baksviðs hjá JÖR

Skrifa Innlegg