fbpx

Ég ætla að verða besta útgáfan af sjálfri mér!

Lífið Mitt

Nú er nýt ár gengið í garð og því ekki úr vegi að setja sér nokkur góð markmið svona í upphafi árs. Ég hef það ekki fyrir venju að strengja nein áramótaheit en mér finnst nýtt ár alltaf bera með sér ný tækifæri og þá meðal annars tækifæri til að gera betur og verða betri. Árið 2015 var erfitt ár fyrir mig andlega, meðgangan tók mikið á og það var þá helst spítala innlögnin sem ég átti bágt með, fæðingar og meðgönguþunglyndi var gert upp og mikill kvíði kom í ljós. Markmið ársins 2015 var að rækta sjálfa mig og láta mér líða vel, setja sjálfa mig stundum í fyrsta sæti og byrja að læra að segja nei – það er eiginleiki sem ég haf aldrei búið yfir en einhvern vegin eftir að Tumi kom í heiminn sá ég að þessi forgangsröðun mín væri ekki alveg að ganga upp ég þurfti að gera betur. Þegar ég hugsa til baka finnst mér að mér hafi tekist mjög vel upp og ég fer sátt og sæl frá árinu 2015 og tek fagnandi á móti því nýja.

Mér datt í hug að setja markmið ársins hér inní eina færslu og deila með ykkur. Ég held það muni líka hjálpa sjálfri mér við að passa uppá þau og vinna markvisst að þeim jafnt og þétt yfir árið. Ég set mér markmið sem snúa að öllum hliðum lífs míns en ég tel það jafn mikilvægt að rækta sjálfa mig sem einstakling, sem mömmu, sem bloggara, sem samstarfsmann, sem vinkonu og nú að sjálfsögðu sem eiginkonu!

10348519_10203655898272290_3225423820474151043_n

Ljósmynd, Baldur Kristjáns

Að gefa mér enn meiri tíma með sonum mínum. Ef það er eitthvað sem ég hef upplifað mjög sterkt á þessu ári er hve tíminn er ótrúlega fljótur að líða. Tinni Snær stækkaði svo mikið þegar bróðir hans kom í heiminn ég átti bara bágt með að trúa því. Á nýju ári ætla ég að nýta allan þann tíma sem ég hef í syni mína. Ég ætla að taka mér frí þegar ég þarf á því að halda og gera eitthvað sem ég hef aldrei gert en það er að fara í sumarfrí. Mig langar svo heitt að skapa góðar minningar með þessum yndislegu drengjum, minningar sem verða mér og vonandi þeim ómetanlegar um ókominn tíma.

Að rækta hjónabandið. Við Aðalsteinn giftum okkur þann 2. janúar og ég upplifði það mjög sterkt að ég varð ástfangin af honum alveg uppá nýtt, ég varð ástfangin af eiginmanni mínum. Á nýju ári ætla ég að eyða meiri tíma með honum, þessi yndislegi maður minn hefur verið eins og kletturinn minn á erfiðu ári og alltaf sett mig og strákana í fyrsta sæti – nú er komið að honum að fá að njóta sín og vonandi náum við líka að fara í brúðkaupsferð, þessa stundina er draumurinn Ítalía.

Að laga forgangsröðunina. Ég viðurkenni það fúlega að forgangsröðunin mín er stundum algjörlega brengluð, bloggið og snappið eru miðlar sem hafa í alvörunni verið bara alltof ofarlega á lista hjá mér en nú hægist smá á. Ég ætla að vanda mig meira, velja meira hvað mig langar heitast að skrifa um, eins og staðan er nú er það mömmulífið og því mun það verða meira áberandi hér og ég vona að ykkur lítist á það. Fegurðarheimurinn verður þó ekki langt undan en ég mun á nýju ári vanda enn betur til verks, skrifa meira almennt, gefa góð ráð og kenna – ég elska að kenna og fræða. Ég mun velja enn betur út hvaða vörur ég mun skrifa um hér og læra að forgangsraða – ég þarf ekki að skrifa um allt það er komið nóg af nýjum og ungum og ótrúlega hæfileikaríkum dömum sem geta gert það með mér!***

Að rækta vináttuna. Stundum týni ég mér, ég sekk mér í mikla vinnu og tek alltof mikið á mig í einu, þetta er allt partur af forgangsröðuninni. Á nýju ári ætla ég að hlúa að vinkonum mínum sem fá stundum alltof lítinn tíma með mér. Ég veit þó að ég á nokkrar ómetanlegar þannig sem eru alltaf til staðar þegar ég þarf á þeim að halda en ég ætla að passa enn betur að vera líka til staðar þegar þær þurfa á mér að halda.

Að hrósa ennþá meira. Eitt af markmiðum ársins 2015 var að hrósa, vera jákvæð og bera virðingu fyrir þeim sem í kringum mig eru. Það er svo mikið af neikvæðni í þessum heimi, ég finn mjög sterkt fyrir því – gerandi það sem ég geri sem er að gefa ansi gott færi á sjálfa mig. Ég hef smám saman lært að einblína ekki á neikvæðni sem beinist að mér persónulega og taka við öllu af skilning og hlýju. Ég hef líka lært að það að taka á móti neikvæðri orku með jákvæðni það í alvörunni eyðir bara neikvæðninni. Svo eru það hrósin, ég elska að hrósa fólki í kringum mig það færir mér svo mikla gleði því það færir fólkinu í kringum mig svo mikla gleði. Dreifum jákvæðni útí heiminn og brosum meira á nýju ári – lífið verður bara svo miklu skemmtilegra!

Að blómstra í starfi. Með komu nýs árs mæta fullt af nýjum tækifærum í starfi. Það færir mér mikla gleði að standa mig vel í vinnunni, ég er líka mjög heppin að fá að vinna við það sem mér finnst skemmtilegast að gera og þess vegna held ég að það sé mikilvægt fyrir mig að leyfa mér að grípa tækifæri í vinnu sem 2016 mun vonandi færa mér því þau færa mér gleði og gleðin mín mun að sjálfsögðu smita útfrá sér til fólksins í kringum mig.

Að verða besta útgáfan af sjáfri mér. Ég tel að með þessum markmiðum og áframhaldandi talmeðferðum hjá mínu trúnaðarfólki muni verða til þess að á árinu 2016 verði ég besta úgáfan af sjálfri mér og ég ætla að taka árinu og öllu því sem því fylgir með opnum örmum og njóta þess að lifa lífinu og lifa í núinu.

Að lokum langar mig að senda ykkur öllum innilegar þakkarkveðjur fyrir hamingjuóskirnar sem hafa streymt til okkar hjóna síðustu daga. Brúðkaupsdagurinn var sá allra skemmtilegasti sem við höfum á ævi okkar upplifað og ég finn fyrir svo miklu þakklæti til allra sem komu saman með það að markmiði að gera daginn okkar svona æðislegan. Það er svo dýrmætt að eiga góða að það er bara ómetanlegt***

Ég mun að sjálfsögðu deila með ykkur myndum og sögum frá deginum en ef þið eruð forvitin þá eru komnar myndir inná Instagram hjá mér @ernahrund og svo var taggið okkar #greaselingar.

Ykkar einlæg,
Erna Hrund

Áramótahár?

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

8 Skilaboð

  1. Þórlaug

    4. January 2016

    Til hamingju með þessi góðu og göfugu markmið – ég tengi vel og mikið við þau öll held ég bara :)
    Mér finnst sérlega gaman að fylgjast með þér í ferðalaginu þínu lífinu og er spennt fyrir að fylgjast áfram með þér á komandi ári.
    Síðast en ekki síst – til hamingju með stóra daginn ykkar 2. jan <3

    • Reykjavík Fashion Journal

      4. January 2016

      Takk kærlega fyrir fallega kveðju elsku Þórlaug og takk fyrir að leyfa link á þína eigin síðu að fylgja með, virkilega falleg síða og skemmtileg skrif! Gleðilegt ár og takk takk takk fyrir lesturinn***

      EH

  2. Dúdda

    4. January 2016

    Ég var einmitt að setja inn pælingar um markmið á mína síðu. Gaman að koma svo og lesa þínar pælingar. Dáist að þér fyrir að setja markmiðin öll svona fyrir alla að sjá. Dásamlegt alveg. Og til hamingju með daginn ykkar frú Erna :-)Af myndum að dæma hefur þetta verið ynislegur dagur <3

  3. Dúdda

    4. January 2016

    Ég var einmitt að setja inn pælingar um markmið á mína síðu. Gaman að koma svo hér við og sjá þínar pælingar. Ég dáist að þér fyrir að setja öll markmiðin hér fram og leyfa öllum að sjá. Dásamlegt alveg. Og til hamingju með giftinguna frú Erna. Dagurinn hefur verið dásamlegur af myndunum að dæma <3

    • Reykjavík Fashion Journal

      5. January 2016

      Takk yndisleg! Dagurinn var frábært í alla staði*** Til lukku með þín markmið og gangi þér sem allra best <3

  4. Erla

    5. January 2016

    Innilega til hamingju með stóra daginn ykkar, þú varst gordjöss á brúðkaupsdaginn.

  5. Karen Andrea

    6. January 2016

    Falleg og heilsteypt markmið, þú ert svo yndisleg og natural :)

  6. Birgitta

    6. January 2016

    Flott markmið sem ég ætla sjálf að reyna að fylgja :) Hlakka til að sjá fleiri mömmublogg!